0507 iMovie

0507

Miðlunartækni
iMovie

Í margmiðlun skiptir miklu, að forrit tali saman á einfaldan hátt. Tveir aðilar smíðuðu pakka, sem auðveldar samkeyrslu forrita. Hjá Apple lætur iLife fyrir amatöra fylgja nýjum tölvum. Adobe býður fagmönnum CS6 Creative Suite/Cloud fyrir lágt verð.

iLife og iWork virka eins og mismunandi innsýn í sömu gögnin. Í hverju forriti er hnappur, Media Browser, sem notaður er til að draga inn gögn úr öðru forriti. Þannig eru myndir og myndskeið, tal og tónar, línurit og gröf dregin lli forrita.

Í iLife eru forritin iMovie fyrir myndskeið, iPhoto fyrir ljósmyndir og GarageBand fyrir tóna. Í iWork eru Keynote fyrir skyggnur, Pages fyrir ritvinnslu og umbrot og Numbers fyrir útreikninga og gröf. Milli allra þeirra er greiður samgangur.

Forritin hafa líka samgang milli hefðbundinna Mac tölva og hinna nýju iPhone og iPad, svo og við geymslurýmið iCloud. Þeir margmiðlunarmenn, sem starfa í þessu umhverfi hafa því við lítið af hefðbundnum samgönguerfiðleikum að stríða.

Þegar átta megapixla iPhone 5 er bætt við þessa súpu af forritum, er kominn búnaður, sem gerir kleift að framleiða heilar kvikmyndir án þess að fara út úr þessu umhverfi. Stýritækin eru að vísu fremur frumstæð í samanburði við hefðbundinn búnað.

Hafðu í huga, að öll þessi forrit eru fremur miðuð við amatöra en fagfólk, sem hallar sér frekar að Adobe pakkanum. En samt gefa forritin færi á margvíslegri tækni, sem fyrir nokkrum árum var bara á færi kvikmyndavera og sjónvarpsstöðva.

Öll þessi forrit fylgja ókeypis nýjum Mac tölvum, svo og iPhone og iPad. Pakkarnir eru ekki seldir sérstakir, en hægt að fá einstök forrit á lágu verði, en ekki er víst, að þau virki á gömlum tölvum. Bezt er að keyra þau á nýrri iMac margmiðlunartölvu.

iMovie er miðlægt í þessum pakka frá Apple. Þegar þetta er ritað, er útgáfan iMovie 11, sem er róttæk breyting og endurbót frá fyrri útgáfum. Þetta er mjög vinsælt forrit með stjórnborði til framleiðslu á flóknum myndskeiðum með fjölbreyttu efni.

Auðvelt er að læra og nota iMovie. Þú hleður myndskeiði í Events. Þar seturðu inn ýmsar meginstillingar. Síðan stofnarðu Project, dregur þangað búta úr Events, svo og efni úr öðrum forritum. Þar snyrtirðu efnið og vistar í QuickTime, .mov.

Hráefnið í Events birtist efst til vinstri á skjánum. Vinnslusvæði í Projects birtist neðst á skjánum. Þar til hægri birtist Media Browser, þar sem þú finnur ljósmyndir, texta og gröf. Efst til hægri er mynd af þeim ramma, sem valinn er hverju sinni.

Hægt er að víxla svæði Events og Projects eftir því í hvoru er verið að vinna. Bezt er að hafa vinnslusvæðið á neðri hluta skjásins. Milli neðri og efri hluta er valblaðarönd með ýmsum stjórntækjum til viðbótar þeim, sem eru röndinni efst á skjánum.

Þú getur filtrað hljóð í rödd, liti í mynd, sett inn ljósmyndir og gröf. Þetta gerir þú á tímalínunni og í sérstökum inspector fyrir hljóð og mynd. Myndskeið, hljóð og innsetningar fara inn á tímalínuna, þar sem myndrásin og hljóðrásin eru fyrir.

Ég notaði iMovie til að setja saman fyrirlestra þessa námskeiðs. Skyggnur úr Keynote flutti ég yfir í iPhoto, þaðan sem iMovie dró þær til að setja inn í kvikmynd af fyrirlestrinum. 1,3 megapixla iSight myndavélin í MacBook Pro, tók myndskeiðið.

í Events var hristingur myndavélar leiðréttur, í Inspector var rödd mín gerð þokukenndari (muffled), litir leiðréttir sjálfvirkt og litadýpt milduð í 81%, hljóðstyrkur jafnaður sjálfvirkt og bakgrunnshljóð dempuð 25%. Altt mjög einfalt og auðvelt í notkun.

Í upphafi rakst ég á ýmsan vanda, sem stafaði af lélegu tölvulæsi mínu. Gúglaði spurningar á borð við þær, sem fylgja hér á eftir. Fann í öllum tilvikum greinar eða umræðu, þar sem einmitt var fjallað um, hvernig átti að leysa verk, sem ég hafði hökt á.

“create video lectures on macbook pro”, “use imovie to record lect–ures with slides”, “create iphoto cutaways in imovie”, “create iphoto picture-in-picture in imovie”, “photos directly from iphoto events to imovie project”, “imovie audio of playback direct”.

“imovie turn off ken burns effect (not cutting off edges)”, “export movie to quick time movie”, “imovie export internet stream–ing”, “save imovie project back–up”, “imovie to quicktime com–pression”, “ecommerce wordpress plugin”, “imovie sound out of sync

Þessi tækni takmarkast af lágri tölu megapixla í myndavél tölvunnar. Hefði ég tekið myndskeiðin á iPhone 5 eða iPad 3, hefði ég náð átta megapixla gæðum í stað eins. En þetta dugði, því að myndskeið af fyrirlestri og skyggnum gerir varla meiri kröfur.

Lokið er ruglingstímabili í ævi iMovie, þegar fleiri en ein útgáfa var í gangi, sumar með tölustöfum aftan við nafnið og sumar með HD aftan við það. Með tilkomu iMovie 11 var þessum ruglingi rutt úr vegi. Snertu ekki eldri útgáfum og forðastu kennslu í þeim.


http://www.youtube.com/watch?v=fFuLi8D-qGk http://multimedia.journalism .berkeley.edu/tutorials/imovie/
http://www.lynda.com/iMovie-training-tutorials/229-0.html

Á Amazon fást stafrænar kennslubækur, m.a.:
iMovie ’11 & iDVD: The Missing Manual $18 flókin.
iLife ’11 For Dummies $23 talar of mikið um fortíðina.
Make Your First Video with iMovie 11: Learn by Video $27.

Rétt er að skoða stjörnugjöf og lesa umsagnir lesenda bóka á Amazon til að sjá misjöfn gæði bóka. Ennfremur er gott að lesa athugasemdir þeirra, sem skoða myndskeið á YouTube. Þar sérðu, hvernig fólki líkar og hvort fjallað er um gamlar útgáfur forrita.

Fagmenn hneigjast að vanmati á iMovie. Þeir vilja yfirleitt nota Apple FinalCut Pro 7, sem er ekki lengur í framleiðslu, eða þá Adobe Premiere, sem tekur við sem helzti valkostur atvinnumanna og er þægilega ódýr. Avid Media Composer er arfur liðinna tíma.

Ég ætlaði að segja hér líka frá hinum forritunum í iLife, það er iPhoto og GarageBand, en verð að láta þau bíða næsta fyrirlestrar. Þar á eftir kemur svo fyrirlestur um forritin í iWork, áður en kemur að galdratækjum í forritunum í Adobe Creative Suite/Cloud.