0511 Illustrator & InDesign

0511

Miðlunartækni
Illustrator, InDesign, Acrobat

Illustrator er teikniforrit, sem hugsar ekki örsmáum punktum eins og í ljósmynd, heldur í vektorum. Notar flatarmálshugtök á borð við staði, línur, kúrfur, horn og fleti, sem byggjast á stærðfræði flatarmáls. Forritið er að grunni orðið aldarfjórðungs gamalt.

Illustrator er orðinn 64 bita, sem þýðir aukinn hraða. Til sögunnar eru komin nú hugtök á borð við Gradient Strokes, Pattern Creation og Image Trace, sem færa forritið inn í nýjar víddir, sem geta verið notendum sífellt verkefni að feta ótroðnar slóðir.

Eins og Photoshop er Illustrator hafsjór af tækjum og áhöldum til að búa til myndir. Mörgum finnst erfitt að koma sér almennilega inn í afkima Illustrator eins og raunar er einnig um ýmsa afkima Photoshop. Mikið er um stöðugar færslur viðmóts milli tóla.

Eins og Photoshop hefur Illustrator algera yfirburði yfir önnur forrit á sama sviði, í vektora-teikningu. Þessi tvö gömlu forrit eru lifandi þáttur í því safni forrita, sem sameiginlega mynda verkstæði margmiðlunar og nýmiðlunar, öflugri en áður.

Fallegu gröfin með línuritum og teikningum og textaboxum, sem þú sérð í vönduðum tímaritum og dagblöðum, eru yfirleitt unnin í Illustrator. Beztu gröfin segja oft betri sögu en hægt er að segja í hefðbundnum texta með myndum.

Á Google má finna ýmsa kennslu:
http://www.pcmag.com/article2/0,2817,2403395,00.asp
http://www.youtube.com/watch?v=GynCjesZ4Gg

InDesign er vinnutæki til umbrots og framleiðslu bóka, dagblaða, tímarita, bæklinga og póstera. Það er höfuðtæki grafískra hönnuða og hefur sem slíkt tekið við af Quark Xpress, er áður réð ríkjum. Framleiðendur þess sváfu á verðinum og hleyptu InDesign framúr.

Quark Xpress var nánast iðnaðarstaðall, en samskipti fyrirtækisins við kúnnana voru stundum stirð. Einnig er meðferð forritsins fremur flókin í samanburði við InDesign. Meira máli skipti þó, að InDesign nýtur stuðnings af veldi Adobe og annarra forrita þess.

Einkum er það samspil InDesign við Photoshop og Illustrator, sem gerði forritinu kleift að ráðast gegn Quark Xpress og velta því úr stalli sem vinsælasta umbrotsforriti heimsins. InDesign er núna óumdeilt það forrit, sem almennt er notað við umbrot.

Síðustu árin hafa endurbætur forritsins mest falist í hönnun fyrir vefmiðlun, einkum í að færa innihald úr einum miðli í annan. Til dæmis að færa bækur yfir í breytilegar blaðsíðustærðir, færa innihald af pappír yfir í innihald á tölvu, lestölvu eða snjallsíma.

Meðal þess, sem forritið reynir að gera, er að yfirfæra sjálfvirkt breytingar og leiðréttingar á frumgerðinni (eða foreldrinu eins og það heitir í forritinu) yfir í hinar spegluðu útgáfur (eða börnin) í öðrum miðlum, þannig að efnislega séu þær allar eins.

InDesign gætir þess líka, að umbrot gildi jafnt fyrir iPad, sem haldið er láréttum eða lóðréttum. Til sögunnar hefur komið svokallað Liquid Layout, sem tryggir staðsetningu mikilvægra atriða umbrots á sambærilegum stöðum í mismunandi miðlum.

Með sprengingunni í notkun lestölva á borð við iPad, Kindle og Nook kemur InDesign færandi hendi með meira eða minna sjálfvirkt umbrot, sem hentar skjástærð, skjálögun og leturstærð hvers tilviks fyrir sig. Enn þurfa útgefendur að tékka, hvernig tókst.

Ný útgáfa InDesign eykur PDF (portable document format) stuðning forritsins. Þar á meðal eru hnappar, valbox (checkbox) og fellilistar (popup menus). Ýmsar takmarkanir valda því þó, að áfram þarf að nota Adobe Acrobat til að forskoða niðurstöður.

Nú er staðallinn ePub 3 í augsýn. InDesign er farið að gera þér kleift að setja myndskeið og hljóðskeið og JavaScript fyrir myndskeið eða felliglugga. Miklu máli skiptir, að Adobe reyni ekki að búa til sérútgáfu fyrir ePub 3 eins og það reyndi með Flash í stað HTML5.

Mikilvægt er, að opnir staðlar gildi á internetinu. Samtökin W3C standa að HTML stöðlunum og eru að setja HTML5 á flot. Apple studdi til skamms tíma Adobe Flash fyrir iPhone og iPad, en hefur nú ákveðið að styðja opna staðalinn HTML5.

HTML er alþjóðlegt og opið ívafsmál fyrir vefsíður og ePub er alþjóðlegt samkomulag um alþjóðlegar og opnar reglur í umbroti vefbóka og annarra vefskjala til að tryggja að allar lestölvur geti lesið útgáfur allra aðila, allt frá Kindle til iPad.

http://www.pcmag.com/article2/0,2817,2403552,00.asp


Acrobat er forrit, sem býr til skjöl, breytir þeim, prentar þau og hefur umsjón með þeim í PDF formati (portable document format). Acrobat er til í útgáfu fyrir Mac tölvur og flestar útgáfur Windows, en þó ekki Windows Vista, svo og ekki fyrir Linux.

Acrobat er notað við að setja fram upplýsingar í föstu umbroti, svipað og í pappírsútgáfum skjala. Minni útgáfa forritsins, Adobe Reader, skoðar skjölin og prentar þau, en breytir þeim ekki eða býr þau til. Önnur minni útgáfa, Standard, er aðeins fyrir Windows.

Acrobat felur í sér getu til að búa til stafræn skjöl, sem hægt er að undirrita, þótt þau séu ekki til á pappír. Það er gert með EchoSign. Þá er skjalið fyrst búið til, síðan sent til EchoSign til undirritunar og þú færð það til baka með leiðbeiningum um frágang þess.

Enn er þetta fremur flókið ferli og á nokkuð í land með að ná stöðu pappírslausra viðskipta. Eigi að síður hlýtur fyrr eða síðar að koma fram þægileg aðferð við að eiga pappírslaus og samt undirritið og staðfest viðskipti á stafrænan hátt eingöngu.
Í næsta fyrirlestri ætla ég að ljúka umfjöllun um þennan volduga pakka margmiðlunarforrita frá Adobe. Leggja aðaláherzluna á Premiere Pro, sem er forrit fyrir vinnslu myndskeiða í kvikmyndum og sjónvarpi, keppinautur hins vinsæla Apple Final Cut Pro 7.