0510 CreativeCloud & Photoshop

0510

Miðlunartækni
Adobe CS6 Creative Suite/Cloud

Photoshop

Adobe CS6 Creative Suite er ekki einn forritapakki, heldur fjórir svipaðir pakkar. Elzta og frægasta forritið er Photoshop, sem gaf heiminum sagnorðið að fótósjoppa. Einn pakkinn er fyrir prent, annar fyrir vef og sá þriðji fyrir kvikmyndir og sjónvarp.

Pakkarnir eru misdýrir, frá 1300 dollurum fyrir prentpakkann upp í 2600 dollara fyrir pakka, sem er með öllu inniföldu. Þar eru menn komnir með vopnabúr, sem er engu líkt og nýtist samanlagt á öllum sviðum fjölmiðlunar, þar á meðal í margmiðlun.

Merkasta nýjungin í pakkanum eru forrit fyrir vinnslu myndskeiða, einkum Premiere Pro og After Effects. Margir telja, að Premiere Pro muni taka við markaði Final Cut Pro 7, sem er ekki lengur í framleiðslu, hugsanlega vill Apple einbeita sér að amatörum.


http://www.pcmag.com/article2/0,2817,2404078,00.asp
http://designmodo.com/adobe-creative-suite-6/
http://www.youtube.com/watch?v=5KUCzTVoBr8

Adobe CS6 Creative Cloud er alger bylting. Þar býður Adobe fólki aðgang að stóra $2600 pakkanum í CS6 Creative Suite fyrir leigugjald í heils árs áskrift $50 á mánuði eða $30 fyrir námsfólk. Stakir mánuðir kosta $75 fyrir þá, sem vilja fara varlega.

Þarna eru Acrobat, After Effects, Audition, Dreamweaver, Edge, Encore, Fireworks, Flash Pro, Illustrator, InDesign, Muse, Photoshop, Prelude, Premiere og Speed Grade og mismunandi útfærslur sumra forritanna, t.d. Photoshop Extended & Lightroom.

Creative Cloud veitir ekki aðeins aðgang að fjölda forrita, heldur einnig að öllum uppfærslum, sem verða á leigutímanum. Adobe er þarna að fara nýja leið í dreifing hugbúnaðar, sem fyrirtækið telur að varði veginn til framtíðarinnar.

Í flestum tilvikum eru þetta mest notuðu forritin á sínu sviði. Final Cut Pro 7 frá Apple er að vísu vinsælla en Premiere Pro, en er ekki lengur í framleiðslu og sölu. Flash Pro hefur lent í hremmingum, einkum vegna samkeppni við almenna staðalinn HTML5.

Fólk getur lært á ævintýraheim allra þessara flóknu forrita, án þess að þurfa að greiða stórfé. Mér sýnist, að það geti verið margra mánaða vinna að læra sæmilega á öll þessi forrit, sem spanna prentmiðlun, kvikmyndun, vefmiðlun og margt fleira.

Sá, sem fer gegnum allt það ævintýri á vafalaust greiðan aðgang að störfum á mörgum sviðum margmiðlunar og nýmiðlunar. Þarna er myndvinnsla og vinnsla myndskeiða, teiknivinna, umbrot prentgripa og vefgripa, vefhönnun og ýmis tengiforrit.

Í samvinnu við Apple er Adobe að vinna að útgáfum forritanna fyrir iPad og iPhone og annan búnað, sem notar stýrikerfið iOS, sem er ekki það sama og Mac OS X. Búast má við, að slíkar útgáfur komi líka á hliðstæð tól með Android stýrikerfi.
Photoshop er myndvinnsla, upphaflega fyrir prentgripi, en núna einnig fyrir vefgripi, sjónvarp og kvikmyndir. Í Extended útgáfuna er komin vinnsla þrívíddar og myndskeiða. Aðrar útgáfur eru Elements og Lightroom, sem allar heita Photoshop.

Photoshop er bæði fáanlegt á Windows og Macintosh tölvur, en ekki á Linux tölvur. Skráanöfn enda á viðhengjunum .psb eða .psd. Vegna vinsælda Photoshop eru þessi formöt einnig studd af forritum frá samkeppnisaðilum í myndvinnslu.

Photoshop er fyrst og fremst pixla-forrit, öfugt við Illustrator, sem er einkum vektora-forrit. Í Photoshop er myndin byggð upp af agnarsmáum punktum, en í Illustrator er hún byggð upp af stærðfræði, flatarmálsformúlum. Samt notar Photoshop vektora.

Letur í Photoshop lýtur lögmálum vektora, svo og ýmis tól þar á borð við Paths, Pen, Shape og Smart Objects. Ef menn eru einkum að fást við myndir, sem lúta lögmálum vektora, er þó þægilegra að nota Illustrator en Photoshop, sem að grunni er ljósmyndaforrit.

Virkni Photoshop hefur verið efld með því að gefa færi á viðbótum, svonefndum plug-ins, sem eru smíðaðar af þriðju aðilum í hugbúnaðargerð í samræmi við forskriftir frá Adobe. Forrit, sem hafa slíka möguleika, verða yfirleitt vinsælli en önnur.

Vinsælustu plug-ins í Photshop eru filtrar, svonefndar 8bf viðbætur, sem annað hvort breyta myndinni eða gefa henni nýtt svipmót, til dæmis skugga eða þrívídd. Einnig er til viðbótin Camera Raw, sem tekur myndskeið, flytur í vinnsluhæft form í Photoshop.

Á allra síðustu árum hafa framfarir í Photoshop einkum verið á sviði þrívíddar og myndskeiða, sem hentar á mörgum sviðum margmiðlunar og annarrar nýmiðlunar. Öll gömlu tólin fyrir prentvinnu eru enn þarna, en hafsjór nýrra verkfæra bættist við.

Með einföldum hætti er hægt að vefja ljósmynd eða myndskeiði utan um þrívíðan hlut. Eða setja þrívídd í texta. Einnig að breyta staðsetningu birtu með því að færa hana og ýta við skugga hennar. Möguleikarnir eru nánast óendanlega fjölbreyttir.

Myndskeið er auðvelt að snyrta og klippa, setja inn millifærslur, texta og teikningar og búa til sérstaka áferð. Einnig er auðvelt að bæta við hljóði og stýra því. Eða setja kyrrar myndir á hreyfingu, færa atriði frá einum stað í myndinni til annars staðar.
Einkenni Photoshop eru hinir endalausu möguleikar í vinnslunni. Þú getur meira að segja notað forritið til fullvinnslu myndskeiða og þrívíddar, sem annars gerist í sértækum forritum. Það er eins og þetta gamla forrit hafi yngzt með hverju ári.

Photoshop hefur gert ljósmyndir ómarktækar sem sönnunargögn. Notkun forritsins keyrir víða um þverbak. Á virðulegum fréttamiðlum er bannað að fótósjoppa ljósmyndir, svo að notendur fái ekki falsaða mynd af veruleikanum. Photoshop er ekki veruleiki.

Í næsta fyrirlestri ætla ég að halda áfram að tala um forritin í Adobe CS6 Creative Suite/Cloud. Áður en ég fer yfir í myndskeiðavinnslu Premiere ætla ég að fara nokkrum orðum um gamalkunn hjálpartæki, teikniforritið Illustrator og umbrotsforritið InDesign.