Watergate III

Rannsóknir
Watergate III

Aðalritstjóri Washington Post var Ben Bradlee, sem hafði verið ráðinn með það verkefni að gera Washington Post að jafningja New York Times. Bradlee hafði mikinn og vaxandi áhuga á Watergate og þrýsti málinu fram af metnaði.

Bernstein og Woodward skildu ekki, hvers vegna peningarnir í Watergate fóru um banka í Mexikó. Bernstein fór um miðjan ágúst að hringja í alla starfsmenn Texasdeildar CRP og fékk að vita, að gjaldkerinn hefði verið yfirheyrður af FBI.

Emmett Moore gjaldkeri sagðist hafa verið spurður um Mexikómálið. Hann sagðist ekki vita neitt um málið og vísaði á Robert H. Allen, forseta CRP í Texas. Allen svaraði engum tilraunum blaðamannanna til að ná sambandi við hann.

Einu sinni náði Bernstein þó sambandi við Allen í heimasíma hans klukkan fimm að morgni. Allen svaraði engum spurningum og vísaði á væntanlegan dómsúrskurð. Bernstein hringdi líka í bankastjóra, ættingja, lögmenn, lögreglu í Texas.

Spurning 10. Er líklegt, að blaðamenn á Íslandi geti hringt í heimildamenn klukkan fimm að morgni?
Ólaf Ragnar í gamla daga. Hann gat alltaf svarað öllu eins og hann væri undirbúinn.

Sums staðar erlendis hafa fjölmiðlar samkomulag við stjórnmálamenn og fjölmiðlafulltrúa um að fá að hringja á afbrigðilegum tímum. Fréttir eru núna sagðar 24 tíma á dag í 7 daga viku og menn hljóta að vera orðnir vanir slíku og sætta sig við það.

Loksins komst hreyfing á Mexikómálið, þegar Bernstein hringdi enn einu sinni í Dardis á skrifstofu saksóknara í Miami. Dardis hafði í millitíðinni hringt í Bernstein til að vita, hvort hann gæti sagt sér eitthvað um Neal Sonnett.

Þegar Bernstein kom til Miami, kom í ljós, að Sonnett var keppinautur Dardis um embætti aðstoðarmanns saksóknara í Dadesýslu. Dardis sagði Bernstein, að ferð peninganna til Mexikó væri hefðbundinn peningaþvottur til að fela slóðina.

Dardis hafði þetta eftir Richard Haynes, lögmanni, sem var fulltrúi Allen. Bernstein náði sambandi við Haynes, sem staðfesti frásögn Dardis af því, hvernig slóð peninganna hafði verið falin. 750 þúsund dollarar hefðu farið um Mexikó.

27. ágúst birti Washington Post fréttir af niðurstöðu ríkisendurskoðanda og peningaþvottinum. Forsetinn svaraði fréttunum og sagði, að Hunt, Liddy, Stans, Sloan og Mitchell væru ekki lengur í vinnu hjá forsetaembættinu.

Bernstein náði í vinnuveitanda Barker innbrotsmanns, sem hafði eftir Barker, að “þeir” mundu borga vörn hans, en vildi ekki svara því, hverjir “þeir” væru. Þetta atriði var innifalið í fréttum Washington Post þennan daginn.

Bernstein og Woodward skrifuðu upp það, sem stóð í anddyri skrifstofu CRP, þar sem starfsmönnum var raðað eftir hæðum. Þar stóð líka, hverjir voru ritarar. Síðan spáðu þeir í, hver væri ritari hvers og hver hefði hvaða innanhússnúmer.

Það var leyndarmál, hverjir voru 100 starfsmenn CRP. En með því að spá í spilin komust blaðamennirnir að því, hverjir höfðu hvaða innanhússíma. Þar sem enginn vildi tala, fóru þeir að sækja starfsmennina heim til þeirra á kvöldin.

Hinn fyrsti, sem Bernstein náði í, titraði og skalf og sagði Bernstein að fara, “áður en ég sé þig.” Einn fór að gráta. Þessar heimsóknir voru til að fiska. Upp úr því kom í ljós, að gífurleg eyðing á gögnum hefði verið í kjölfar Watergate.

Spurning 11. Er líklegt, að íslenskir blaðamenn hefðu farið heim til óbreytts starfsfólks, til dæmis olíufélaganna, til að reyna að hafa eitthvað óljóst upp úr því?

Hefðu íslenskir blaðamenn farið heim til óbreytts starfsfólks olíufélaganna til að fá það til að leka upplýsingum um, hvernig samráðin fóru fram og hverjir voru flæktir í það. Líklega mundi slíkt teljast vera óviðurkvæmileg hnýsni af hálfu blaðamanna.

Eftir heimsóknirnar voru Bernstein og Woodward sannfærðir um, að eitthvað meira væri í gangi en innbrotið í Watergate. Skelfing starfsfólksins var svo mikil, að eitthvað óupplýst hlaut að vera á seyði.

Þeir kynntu sig og starf sitt heima hjá fólkinu, sögðust hafa frétt af því, að viðkomandi væri ekki sáttur við stöðu og gang mála hjá CRP og kynni að vilja tala, þar sem viðkomandi væri strangheiðarlegur og hefði sannleikann að leiðarljósi.

Stundum virkaði þetta, oftast ekki. Margir vildu vita, af hverju hefði verið bent á sig. Þá gátu blaðamennirnir útskýrt, hvernig nafnleynd heimildamanna væri háttað, svo að fólk áttaði sig á, að það þyrfti ekki sjálft að koma fram.

Spurning 12. Hvernig yrði litið á Íslandi á þau vinnubrögð að ganga milli venjulegra starfsmanna og reyna að fiska upp úr þeim ávirðingarefni yfirmanna þeirra með því að benda þeim á, að trúnaður yrði um heimildina?

Bandarískir blaðamenn eru að bakka út úr svona vinnubrögðum núna, en þau þóttu góð og gild vara á Washington Post á þessum tíma. Hætt er við, að íslenskir fjölmiðlar mundu glata einhverju af trausti sínu með aðgangshörku af þessu tagi.

“Talaði FBI við þig?” leiddi til: “Þeir spurðu ekki um það.” “Hefur ástandið batnað síðan Mitchell hætti?” leiddi til: “Hann er hættur, en ekki farinn.” Og “Hringdu aldrei í mig, sérstaklega ekki í vinnuna. Þar er allt í hers höndum.”

Ein féllst á að hitta Bernstein á kaffihúsi. Hún sagði: Það er fylgst með mér. Fólk talar ekki í símann. Þeir vita, að þið eruð að tala við starfsfólk á kvöldin. Við erum spurð að því, hvort við könnumst við Bernstein og Woodward.

Þegar svona var komið, hringdi Clark MacGregor í Ben Bradlee aðalritstjóra og kvartaði yfir kvöldheimsóknunum. Bradlee sagði blaðamönnunum frá því löngu síðar. MacGregor bað um viðtal við Katharine Graham útgefanda.

Bradlee hafði eftir MacGregor: “Þeir börðu á dyr íbúða og hringdu neðan úr anddyri”. Og ég sagði: “Þetta er það fallegasta, sem ég hef heyrt um þá Bernstein og Woodward.”

Spurning 13. Mundi ritstjóri á Íslandi svara á þennan hátt aðfinnslum málsaðila út af aðgangshörku blaðamanna?
Líklega mundi hann ekki verja starfsmenn sína eins hart og Bradlee gerði.

Dæmi um bókhaldara hjá CRP: “Guð minn góður, ertu frá Washington Post, þú verður að fara”. Bernstein sníkti sígarettu og komst þrjá metra inn í húsið, reyndi að sefa ótta hennar. Hann bað um að fá að setjast og klára að reykja.

Smám saman vatt samtalið upp á sig. Systir konunnar bauð Bernstein kaffi, sem hann þáði. Bókhaldarinn sagði frá viðbrögðum nafngreindra aðila í yfirheyrslum hjá saksóknara og Bernstein lagði þau á minnið. Hún virtist stundum vilja tala.

“Sally laug fyrir rétti.” “Sloan var gerður að blóraböggli.” “Baldwin var ekki einu sinni á launaskrá” “Það eru sex eða sjö flæktir í málið.” “Liddy og Sally Harmony vissu um öll svör. Hún veit meira en ég. Ég sagði henni að koma í ljós.”

Bernstein var dálítið hippalegur og átti gott með að tala við almenning. Woodward var dálítið yfirstéttarlegur og átti gott með að tala við eigendur þjóðfélagsins.
Þannig var samstarf þeirra, annar gat náð sumu og hinn gat náð öðru.

Þegar bókhaldarinn vildi ekki nefna nöfn, reyndi Bernstein að láta upphafsstafi koma í stað nafna. Hún sagði: “Það voru L og M og P.” Svo vildi hún ekki lengur nefna upphafsstafi.

16. september birti Washington Post fréttina af dóminum yfir CRPmönnunum og sagði í leiðinni frá því, að hann snerti ekki miðlægar spurningar um markmið njósna á vegum CRP. Kattarþvottur, sögðu ritstjórar og blaðamenn Washington Post.

Bernstein hringdi í starfsmann dómsmálaráðuneytisins og spurði, hvort kerfið vissi ekki um staðreyndir, sem komið höfðu fram í máli bókhaldarans. Sá játaði óbeint, að allt lægi það fyrir í málsskjölunum en væri ekki talið skipta máli.

Woodward hafði frá gömlum tíma þekkt háttsettan embættismann, sem vissi mikið um CRP og Hvíta húsið og féllst á að tjá sig um upplýsingar frá öðrum. Þetta var sá, sem síðan gekk undir dulnefninu: “Deep Throat”.

Verkefni: Blaðamaður WP fékk að vita á lögreglustöðinni, að innbrotsmenn voru allir með hundrað dollara seðla á sér, alla í númeraröð. Hann er með skrá yfir innbrotstólin. Hefði hann fengið að vita um þessi hliðaratriði á íslenskri lögreglustöð?

Áfram: Hefðu íslenskir blaðamenn hringt í alla skráða síma í Watergate og í blokk McCord? Hefðu þeir leitað í símaskránni að Westall og fundið Westrell? Hefðu þeir farið heim til starfsfólks, til dæmis olíufélaga, til að forvitnast um samráð þeirra?

Svarið þessum atriðum, 290-300 orð. Skilið við lok þessa tíma.

Verkefni:
Blaðamaður WP fékk að vita á lögreglustöðinni, að innbrotsmenn voru allir með hundrað dollara seðla á sér, alla í númeraröð. Hann er með skrá yfir innbrotstólin. Hefði hann fengið að vita um þessi hliðaratriði á íslenskri lögreglustöð?
Hefðu íslenskir blaðamenn hringt í alla skráða síma í Watergate og í blokk McCord?
Hefðu þeir leitað í símaskránni að Westall og fundið Westrell?
Hefðu þeir farið heim til starfsfólks, til dæmis olíufélaga, til að forvitnast um samráð þeirra? 300 orð, 45 mín.

Sjá nánar:
Carl Bernstein & Bob Woodward
All the President’s Men, 1974

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé