Viðtöl II

Fréttir
Viðtöl II

Ef þú ert of frjálslega klæddur, segir það viðmælandanum, að þér sé sama, þú takir hann ekki alvarlega. Hár og klæðnaður, rödd, fas, limaburður og grettur senda skilaboð til viðmælandans. Blaðamaðurinn má ekki koma úr öðrum heimi.

Blaðamaðurinn verður að haga sér í samræmi við aðstæður og viðmælanda. Reyndir viðmælendur búast við blátt áfram framkomu blaðamannsins. Þeir, sem eru óvanir, vilja helst sjá blaðamann, sem líkist fyrirmyndum úr bíómyndum.

Besta hlutverk blaðamannsins er að vera ekki persónulegur, ekki tilfinningalegur, ekki of flæktur í málið. Stundum þarf þó að flækja sér í málið til að mýkja fólk: “Ég veit hvernig þú hugsar. Ég lenti líka í svona aðstæðum í skólanum.”

Þegar viðmælandi gefur í skyn, að hann vilji aðeins taka þátt í viðtalinu, ef það sýni hann í hagstæðu ljósi, þarf blaðamaðurinn að róa viðmælandann og segja honum, að sagan verði sanngjörn og í jafnvægi, slík saga verði alltaf hagstæð.

Ef valdamaður situr á upplýsingum, sem varða almenning, getur verið nauðsynlegt fyrir blaðamanninn að skipta milli hlutverka vinar og bullu til að fá hann til að tjá sig.

Terry Gross: “Viðtal er oft leiðin, sem þú ferð mitt á milli þess, sem þú vissir fyrir viðtalið og þess, sem þú lærir í viðtalinu.”

Ef viðmælandi hugsar óeðlilega lengi um svar sitt, má gera ráð fyrir, að hann sé að reyna að fela eitthvað eða ljúga. Einnig verður augnablikið því lengra sem líklegra er, að viðmælandinn sé að skálda upp sögu.

Haya El Nasser hjá USA Today tók viðtöl við ættingja fólks, sem fórst 11. sept. Margir vildu ekki tala. Ein sagði að banna ætti slík viðtöl. En reyndust samt vilja tala. Hvernig fór hún að:

“Ég byrjaði öll samtöl svona: Ég vil ekki vera frek eða ósvífin, en við erum að safna frásögum um fórnarlömbin. Og ef þú vildir svara nokkrum spurningum, mundum við vera mjög fegin. Ef ekki, þá getum við alveg skilið það.”

Blaðamenn í rannsóknablaðamennsku tala oft eins og þeir viti meira og nota þá rödd við hæfi. Þetta kallar Bruce Selcraig “meintursannleikiíspurningu:

“Þú kemst ekkert áfram, ef þú spyrð: “Getur þú staðfest, að …”. Í staðinn skaltu reyna þetta: “Hvert er hlutur FBI í þessu máli? Hvaða fulltrúi mun sjá um rannsóknina á háskólanum?” Þú gerir ráð fyrir, að rannsókn verði.

Áfram Selcraig: “Taktu eftir merkjum um streitu. Krosslegur hann fæturnar oft sitt á hvað, fitlar hann stöðugt við bréfklemmur á skrifborðinu, þreifar hann á fötunum, svitnar hann eða stamar?

Hann er um það bil að byrja að ljúga. Á þessu stigi segir ertu kominn nálægt sannleikanum. Reyndu núna að spyrja: Hef ég gert þig óstyrkan? eða Þú virðist hafa áhyggjur af einhverju í dag.”

Bob Greene hjá Newsday býr til hringi. Hann talar við mann, sem vill lítið tjá sig. Hann talar við aðra og lætur það fréttast til viðmælandans. Hann talar aftur við viðmælandann, aftur við aðra, þrengir hringinn uns viðmælandinn “springur”.

Margir blaðamenn eru of uppteknir af orðum viðmælandans. Þeir gefa sér ekki tóm til að kanna aðstæður á staðnum. Þeir leyfa viðtalinu ekki að skeiða inn á hliðargötur, sem varða áhugamál eða önnur einkenni viðmælandans.

Smáatriðin skipta máli. Blaðamaður kom inn með sögu af morði og fréttastjórinn spurði hann: “Í hvorri hendinni var byssan.” Þetta er hefðbundin spurning á ritstjórnarskrifstofum, þar sem blaðamenn ná ekki sannfærandi smáatriðum.

Þeir, sem ekki skrifa niður viðtöl, gleyma sumu mikilvægu í viðtalinu. Þeir, sem skrifa of mikið, pirra stundum viðmælendur sína eða hafa áhrif á það, sem þeir segja, fá þá til að segja það sem þeir halda þig vilja heyra.

Jan Wong nýtir segulbandstækið: “Ef spennan verður of mikil, loka ég nótubókinni, en læt bandið ganga. Það gerðist með leikarann John Hurt. .. Hann varð svo æstur, að hann fór að titra. Ég þorði ekki að skrifa meira niður. En bandið gekk.”

Þegar Wong fer í viðtöl, spyr hún einskis, setur bara segulbandið af stað og horfir á viðmælandann. Um segulbandstæki eru annars deildar meiningar, sumir nota það alltaf og aðrir nota það aldrei.

Lillian Ross segir: “Notaðu ekki segulbandstæki. Merkilegt nokk þá skekkir það sannleikann. Tækið er hröð og einföld og löt aðferð við að ná niður miklu tali. En mikið tal er ekki sama og viðtal. Blaðamaðurinn verður að nota eigin eyru.”

Allt í einu áttar viðmælandinn sig á, að hann hefur sagt eitthvað, sem hann vill ekki láta hafa eftir sér. Hann segir: Ekki nota þetta, það er offtherecord. Blaðamenn eru vanir að svara því, að ekki sé hægt að gera slíkt afturvirkt.

Almennt á offtherecord ekki að virka aftur á bak og það á ekki að vera hægt að fara til skiptis milli on og off í viðtali. Ef hins vegar málið er ekki mikilvægt í heildarmynd viðtalsins, freistast blaðamenn oft til að samþykkja.

Margir blaðamenn laga frásögn viðmælandans, þegar þeir ganga frá því, leiðrétta málvillur og sleppa fáránlegum fullyrðingum, sem ekki varða söguna beint. Þeir klippa líka málsgreinar út, ef það breytir ekki merkingu þess, sem birt er.

Ef hins vegar málvillur og aðrar villur eru hluti af persónulýsingunni, mega þær halda sér. Raunar má líta svo á, að það sé frekja að ætlast til, að allir tali skólabókaríslensku, þegar þeir vilja ekki gera það.

Lögfræðileg atriði:
1) Ef þú notar segulbandstæki, láttu það sannreyna tilvitnanir.
2) Leyfilegt er að leiðrétta málfræði, setningafræði, stam í tilvitnunum og setja inn orð til skýringar.
3) Leyfilegt er að strika út óviðkomandi atriði og hliðarspor.
4) Leyfilegt er að skipta út orðum án þess að breyta merkingu.
5) Athugaðu heildarmyndina, ef þú breytir einhverju. Hefur það skekkt raunveruleikann.

Arnold Gingrich sagði: “Það grimmasta, sem hægt er að gera nokkrum manni, er að vitna rétt í hann.” Richard Daley borgarstjóri sagði: “Þeir úthúðuð mér, þeir krossfestu mig, já og þeir meira að segja gagnrýndu mig.”

New York Times reglur: “Tilvitnanir eru heilagar. Ef menn freistast til að breyta þeim, tekurðu gæsalappirnar burt og notar óbeina ræðu.” Washington Post: “Tilvitnanir eiga að vera nákvæmar. Ekki má breyta orðaröð til að ná betri texta.”

Anthony Kennedy hæstaréttardómari: “Blaðamenn verða að breyta því, sem fólk segir, að minnsta kosti til að laga málfræði og setningarfræði. Að álíta slíkt vera fölsun eða illvilja er ekki í samræmi við dómvenju og stjórnarskrána.”

Tilvitnanir í Bush: “Þeir vanundirmátu mig.” “Þeir vilja, að ríkið stýri tryggingakerfinu eins og það sé opinber þjónusta.” “Fjölskyldan er þar, sem þjóðin fær von, þar sem vængir fá drauma.” “Forsendur okkar er trúin.”

Sýnishorn af skoðunum með og móti viðtölum á internetinu.
Já: Það er þægilegt og fljótlegt. Öfugt við símann er viðtalið til í prentuðu formi, sem skiptir máli við að ná nákvæmlega tungutaki viðmælandans. Svörin eru betur hugsuð.

Nei: Það er ekki viðtal, það er bréfasamband. Þú getur ekki sagt: “Hann sagði”. Er það hann, sem skrifar, eða ritarinn. Það er ekki lifandi viðtal. Það er ekki auðvelt að skjóta inn spurningum. Það er engin tjáning líkamans. Hræðilegt.

“Mér fannst tölvuviðtöl í fyrstu vera þægileg, en síðan fannst mér þau búa til of mikil vandamál. Auk þess hafði ég gott af að fara út og hitta viðmælandann.”

Heimildir vilja ekki alltaf koma fram, af ýmsum ástæðum. Það getur verið skrifstofumaður undir járnhæl yfirmanns. Það getur verið starfsmaður, sem kemur upp um ólöglegt eða ósiðlegt athæfi yfirmanns.

David Shribman hjá Boston Globe: “Nafngreining heimildar er núna upphafsatriði samninga um samtal við blaðamann. Það fyrsta, sem menn segja, er hvernig þeir vilja að sér sé lýst (t.d. embættismaður). Það er orðin samningsstaða.”

Nafnlaus heimild er ekki ábyrg fyrir upplýsingunum. Þess vegna getur hún farið með rangt mál, mistúlkað eða logið. Frægasta dæmið um nafnlausa heimild er “Deep Throat”, sem hjálpaði Woodward hjá Washington Post í Watergatemálinu.

Harry M. Rosenfeld hjá TimesUnion segir: “Ekkert blað, sem máli skiptir, getur verið án nafnlausra heimilda. Án slíkra heimilda mundi vanta það besta í blaðamennskuna.”

Carl Bernstein hjá Washington Post segir. “Við nafngreindum aldrei neinn heimildamann. Við hefðum aldrei getað fylgt sögunni eftir án nafnlausra heimildamanna.”

Joel Kramer hjá Star Tribune segir: “Nafnlausar heimildir eru eins og flugeldar. Rétt notaðar geta þær framkallað mikla skrautsýningu. En þær geta líka sprungið í vasanum.”
USA Today notar ekki nafnlausar heimildir. Það stendur í stefnuskrá blaðsins.

Michael Gartner hjá Ames Daily Tribune segir: “Nafnlausar heimildir eru að ná tökum á blaðamennskunni. Það er vond þróun, sem rýrir traust dagblaða og magnar ábyrgðarleysi dagblaða.”

Leiðbeiningar:
1) Forðastu nafnlausar heimildir, ef hægt er.
2) Skýrðu rækilega fyrir viðmælanda, hverjir kostirnir eru.
3) Nafnlausar heimildir mega ekki fá að gagnrýna persónu eða heilindi nafngreinds aðila.
4) Skýrðu viðmælandanum frá því, að þó að hann verði nafnlaus, muni ritstjórinn fá að vita nafn hans.

Þægileg framkoma, hlutlaus fyrsta spurning, vilji til að hlusta; þetta róar viðmælandann. Jules Loh hjá AP segir: “Ég spyr: Hvenær ertu fæddur. Hann svarar: 1945. Ég spyr: Hvaða dag. Hann svarar: 1. október. Ég tek upp minnisbókina.”

Eftir nokkrar slíkar spurningar er viðmælandinn orðinn rólegur. Honum finnst, að þú hafir áhuga á að fara rétt með staðreyndir. “Ég heyri of oft talað um, að blaðamenn fari ekki rétt með það, sem fólk segir.”

Dan Wakefield segir: “Ef fólk segir eitthvað vandræðalegt, reyni ég að skrifa ekki niður, af því að ég vil ekki, að þá sjái, að ég sé að skrifa. Ég bíð eftir, að það segi eitthvað meinlaust, og þá skrifa ég niður það vandræðalega.”

Studs Terkel segir: Ég róa fólk niður með því að segja: “Já einmitt, það kom fyrir mig líka.” Ef ég kem slíku að, finnst fólki ég ekki vera eins fjarlægur.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé