Viðskipti

Fréttir
Viðskipti

Viðskipti, efnahagur, verðlag, gæði, heimili, bílar.
1) Heimafyrirtæki. Opnanir og lokanir, breytt mannahald, byggingar, andrúmsloft, ársskýrslur, ágreiningur.
2) Greinar. Nýjar vörur, mannlýsingar, neyslumynstur.
3) Skýringar. Áhrif efnahagsvísa lands og heims, áhrif forstjóra, reglugerðir.

Fréttir af viðskiptum og efnahag eru almenningseign. Fólk vill vita um verðlag og lífskjör, þróun starfsmöguleika, þróun vaxta, horfur á uppsögnum og um verðgildi hlutabréfa og hlutabréfasjóða.

Fréttir af viðskiptum eru eins gamlar og fréttir yfirleitt. Fréttablöð byrjuðu á 17. öld í Evrópu til að segja frá skipakomum, vörupartíum og öðru öðru gagnlegu fyrir kaupsýslumenn þess tíma. Neytendabyltingin upp úr 1970 hafði mikil áhrif.

Nú fá blaðamenn námskeið í hagfræði, viðskiptafræði, markaðsfræði og taka jafnvel slíkar greinar sem aðalgreinar. Þeir þurfa að lesa tímarit á þessum sviðum, svo og dagblöð, sem leggja áherslu á þau. Sjaldan eru þó uppslættir enn.

Kaupsýslufréttir eru orðnar að forsíðufréttum, að því að til sögunnar hafa komið umdeild atriði, sem hafa hápólitíska þýðingu um stöðu viðskipta í samfélaginu. Árið 1968 hafði Times 8 blaðamenn á viðskiptaritstjórn, nú eru þeir orðnir 80.

Viðskiptafréttir þurfa ekki að vera leiðinlegar. Wall Street Journal skrifaði: “Eftir hálft annað ár í festum hljóp Mikki mús frá Svínku við altarið.” Blaðið var að segja frá tilraunum Walt Disney til yfirtöku á Muppetþáttunum.

Þar sem viðskiptafréttir eru oft flóknar, setja blaðamenn mannlega þætti í textann. Vivian Marino hjá AP segir: “Ég reyni að hafa sögurnar eins áhugaverðar og minnisstæðar og hægt er með því að segja örsögur, sem fólk skilur.”

Persónufjármál eru vinsælasta efni viðskiptasíðna. Lesendur og áheyrendur leita að upplýsingum um, hvernig þeir geti leyst skuldamál sín, tekið ákvarðanir um fjárfestingar og fundið út, hvort þeir eigi að kaupa eða taka á leigu.

Atlanta JournalConstitution er með vikulega síðu, þar sem nafngreint fólk leggur peningaspil sín á borðið, opnar viðskiptareikninga sína og krítarkortayfirlit fyrir almenningi. Blaðið er líka með “Money Makeover” um lífið eftir gjaldþrot.

Sviðið spannar margt: Smásala og neysluvara, fjárfestingar og fjármálamarkaður, flugfélög og bílasalar, stjórnun og rekstur, bankar og fjármálastofnanir, miðlar og skemmtibransinn, auglýsingar og markaðsmál, atvinna og atvinnuleysi.

Fyrir utan dagbundnar fréttir, skrifa blaðamenn greinar um þróun mála til lengri tíma. Viðskiptablaðamaður þekkir mun á ýmsum hagtölum og getur skýrt hann fyrir almenningi. Hann notar ekki orðið Edbta í texta sínum um afkomu fyrirtækja.

Herbert Schmertz segir, að blaðamenn þurfi að þekkja mun á “earnings” og “revenue”, “profits” og “profitability”, “eignarhaldi” og “stjórnun”. Falli þeir á því prófi, þurfi þeir að sækja námskeið í hagfræði eða hætta í þessum bransa.

Viðskiptablaðamaður kann á tölur og er ekki hræddur við langar skýrslur, sem fela í sér prósentur, vísitölur og klisjur kaupsýslunnar. Hann efast og getur spurt höfðingja áleitinna spurninga og séð, hvenær svörin eru marklaus.

Leyndarhyggja er hluti af lífsstíl fyrirtækja. Valdshyggja er þar mikil og starfsfólki er bannað að tala. Lýðræði er af skornum skammti. Blaðamaður stendur andspænis því, sem lítur út fyrir að vera óvinnandi virki.

Heimildir í viðskiptablaðamennsku:
1) Bankastarfsmenn, gjaldkerar.
2) Starfsmenn sparisjóða.
3) Starfsmenn verslunarráða.
4) Forustumenn launþegasamtaka.
5) Verðbréfavíxlarar.
6) Greiningardeildir.
7) Fasteignasalar.
8) Starfsmenn viðskiptasamtaka.
9) Kennarar í viðskipta og hagfræði.
10) Yfirmenn flutningafyrirtækja.
11) Eftirlit hins opinbera.
12) Starfsmenn og fyrrum starfsmenn.

James L. Rowe hjá Washington Post segir: “Oft er erfitt að vinna traust heimildar. Hafi menn unnið heimavinnuna, skilja hvað rekur fyrirtæki áfram, séu óhræddir við að spyrja áleitinna spurninga, munu ýmsir heimildamenn opna sig.”

Chris Ullman segir: “Þeim blaðamönnum hefur fjölgað, sem vænta þess að vera mataðir með skeið á flóknum atriðum án þess að hafa unnið heimavinnuna sína. Við verðum að ná sátt um, að báðir aðilar hafi skilning á grundvallaratriðum.”

Geanne Rosenberg: “Lestu um fyrirtækið, flettu upp fréttum af því, líttu á vefsíðu þess og renndu yfir síðustu fréttatilkynningar. Reyndu að skilja helstu þætti þess, starfsmannafjölda, staðsetningu deilda, skipulag, starfsaldur.

Lestu um keppninauta fyrirtækisins, hvernig það er hluti af stærri heild, hvort það er í forustu í sínum geira eða eftirbátur annarra, hvort geirinn í heild er að þenjast út eða stendur andspænis vandamálum.”

Blaðamaður þarf að átta sig á heimildum sínum. Háskólaprófessor kann að vera í stjórn fyrirtækis. Samkeppnisaðili kann að hafa horn í síðu fyrirtækis. Gamall starfsmaður vill hefna sín fyrir brottrekstur. Hann þarf óháða heimildamenn.

Chris Welles segir: “Flestir eru þannig gerðir, að þeir hafa ekki á móti því að veita blaðamanni aðstoð, ef hann er lipur og virkar ekki ógnandi. Heimildamenn eiga erfitt með að enda samtöl, þar sem hinn aðilinn gleypir í sig hvert orð.”

Michael Hiltzik segir: “Mín almenna reynsla er sú, að við skoðun á talnarunum sé best að leita að undantekningum, óvenjulegum tölum. Fáir blaðamenn eru þjálfaðir endurskoðendur og kunna ekki að finna slíkar tölur. Galdurinn er að finna þær.”

Ráðleggingar frá Henry Dubroff:
1) Gleyptu fjármálafréttir, fylgstu með öllum fréttum, líka utan þíns sviðs.
2) Finndu sérkennilega hluti í skýrslum, lestu niðurlagið fyrst.
3) Notaðu heimildamenn til að fá innsæi, ekki endilega tilvitnanir.
4) Lærðu að umgangast grundvallarhugtök í fjármálum.
5) Vertu ekki hræddur við að hafa oft samband til að ná allri sögunni.
6) Bestu sögurnar eru þær sem koma upp rétt fyrir lokun.
7) Lærðu af Wall Street Journal, Forbes og Barron’s og skildu textann.
8) Legðu frá þér símann og farðu á vettvang til að sjá, hvernig fyrirtækið er.

Wall Street Journal fjallar um viðskipti og fjármál á máli almennings. Munu líka eftir Fortune, Business Week og Economist. Flest þessara blaða og tímarita eru málsvarar geirans. Þau finna skemmd epli, en fordæma ekki geirann í heild.

Ráðleggingar Don Moffit hjá Wall Street Journal:
1) “Ef fólk ræður ekki við afborganir af íbúð, sýndu þá hvernig og hvers vegna, hvað þeim finnst um þetta og hvað þau eru að gera í málinu.”
2) “Hverjir þéna á skuldabréfum sveitarfélaga. Hverjir tapa, ef sveitarfélag dregur saman seglin. Hvernig tapa þeir.”
3) “Kafaðu alltaf dýpra en fréttatilkynningin.”

Steve Lipson segir: “Ég hef augun opin, ég les auglýsingar, ég tek eftir breytingum þar sem ég er að versla, ég tel bílana á plani bílasalans og ég horfi á fötin á fólki og sé hvað það étur og drekkur. Ég leita að einstæðum sögum.”

Bernard Nossiter segir: “Viðskiptasíður einkennast af trúgirni. Tilkynningar eru meðhöndlaðar eins og heilög ritning. Menn bera virðingu fyrir forstjórum alla leið til ákæru. Það stafar af því, að blaðamenn eru læsir, en ekki töluglöggir.”

Eftir hrun Enron og WorldCom eru viðskiptablaðamenn varfærnari. Þeir hafa minni trú á tilkynningum og bjartsýnum fullyrðingum forstjóra. Þeir viðurkenna, að þeir hafi ekki sannreynt fullyrðingar nógu vel áður fyrr og leyft forstjórum að ljúga.

Fréttatilkynningar, sem fjalla um váleg tíðindi, eru að mestu leyti bjartsýnt slúður, þangað til kemur að endanum. Lestu hann fyrst, þar eru vondu fréttirnar, sem reynt var að fela með froðunni fyrir framan.

Paul Hemp hjá Boston Globe mælir með þessu:
1) Forðastu klisjur hagfræðinnar.
2) Skilgreindu efnahagsleg hugtök.
3) Notaðu tölfræði sparlega.
4) Náðu í mannlegar hliðar málsins.
5) Farðu út fyrir fréttatilkynninguna.
6) Fáðu báðar hliðar málsins.
7) Sýndu mikilvægi í tölfræðinni.

Margt af því, sem við vitum um umheim okkar, kemur frá tölum af alls konar tagi. Sá, sem vill starfa í viðskiptablaðamennsku verður að kunna á tölur. Hann les tölur um efnahag í Pakistan og kemst að raun um, að ríkið er fjárhagsleg rúst.

Pauline Tai segir: “Viðskiptablaðamenn verða að kunna að rannsaka tölur. Þú mátt ekki samþykkja fullyrðingar forstjórans. Þú verður að vita, hvernig hann fékk þessa niðurstöðu og hvað það þýðir. Þú samþykkir ekki yfirborð hlutanna.”

Rannsókn sýnir, að þriðjungur yfirmanna fyrirtækja lýgur að blaðamönnum með reglubundnum hætti. Blaðamenn þurfa að geta túlkað tölurnar og fundið út, hvernig þær geta komið við almenning. Viðskiptafréttir fjalla um mannleg áhugamál.

Spurningar um vald fyrirtækja. Hvað hafa fasteignasalar og verktakar mikið að segja um lóðaúthlutun? Hvernig greiða fyrirtæki til stjórnmálaflokka og manna? Þurfa opinberir aðilar að draga að fyrirtæki með fríðindum og skattaafslætti?

Er skattakerfið réttlátt eða fellur það af þunga á almenning? Njóta vissar greinar forgangs fram yfir aðrar, til dæmis stóriðja fram yfir hugbúnaðargerð? Þetta eru dæmi um spurningar, sem viðskiptablaðamaður þarf að svara.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé