Vefblaðamennska

Nýmiðlun
Vefblaðamennska

Sjá nánar: James C. Foust: Online Journalism, 2005

Vefurinn er mesta uppfinningin í samskiptum frá prentvélinni. Aðspurðir telja vefmiðlun eins mikilvæga og dagblöð sem upplýsingamiðill og mikilvægari en sjónvarp, útvarp og tímarit. Hefðbundnir fjölmiðlar eru líka fyrirferðarmiklir í vefmiðlun.

Kostir vefmiðlunar:
Valfrelsi notenda er meira.
Ekki endilega línulaga efni.
Mikið geymslumagn, auðfundið.
Óendanlegt rými. Fullur texti.
Stundvísi. Skilafrestur er núna.
Margmiðlun. Alls konar innihald.
Gagnvirkni. Þáttaka notenda.

Flestir blaðamennskuvefir og þeir mest notuðu tengjast fjölmiðlum. Fáir eru bara á vefnum (salon.com, slate.com). Mikið af efninu er skófluvara. Viðbótaratriði eru kölluð Web extras. Ör útskipti á heimasíðu eru brýn. Dagblöð eru sterkust á vefnum, útvarp veikt.

Samþættir vefir eru samstarf ýmissa tegunda fjölmiðla. Þar er beðið um súperblaðamenn, sem safna fréttum og ganga frá efni fyrir ýmsar tegundir fjölmiðla. Vefur, dagblöð, sjónvarp, útvarp, tímarit, farsímar, allt eru þetta mismunandi tegundir fjölmiðla.

Ungt fólk notar vef, ekki prent. Fólk, sem er flutt að heiman, fylgist með heimaslóðum á vefnum. Eftirsóttir eru útskrifaðir nemendur í blaðamennsku, sem kunna tækni vefsins og að setja þar innihald.

Vinnuferli eru ekki orðin eins þroskuð á vefnum og í öðrum fjölmiðlum. Siglingareglur hafa þó mótast. Enginn veit, hvernig blaðamennska verður á vefnum. Vefurinn býður margs konar fjölmiðlun, t.d. samþættingu miðla, fréttamiðlun og blogg.

Skófluvara: Innihaldi annarra miðla er skóflað á vefinn.
Margmiðlun, krækjum og web extras (t.d. myndskeiði) er bætt við. Tímaskipting lagar efnið að tímum dagsins. Vefurinn er notaður misjafnt á morgnana, fyrir hádegi og fyrir lokun.

Samþætting er tískuorð vefsins. Þá er fléttað saman fjölmiðlum og/eða tegundum fjölmiðlunar. Samþætting myndskeiða, mynda, hljóðs og texta er samþætting. Til langs tíma má búast við færri blaðamönnum og minni tíma í mikilvægar og erfiðar fréttir.

Þegar menn skoða vef, þurfa þeir að meta:
Hver framleiðir vefinn.
Hvert er innihaldið.
Hvort það er rétt, satt.
Hversu oft það er endurnýjað.
Hvernig lítur það út.

Kannanir sýna, að orð eru mikilvægari en mynd og hljóð á vefnum. Orðin eru hjarta blaðamennsku á vefnum. Þau binda efnið saman. Dagblöð eru ekki dauð og bækur eru ekki hættar að skipta máli. En menn lesa ekki orð á vefnum, heldur skanna þau.

Megintextinn tengir saman efnið á vefnum, segir, hvað sé í mynd og hljóði. Hann getur staðið einn eða haft annað efni kringum sig.
Það er 25% seinlegra að lesa á skjá en af blaði. Enn grófari er sjónvarpsskjár. Á botninum eru farsímar, erfiðir í lestri.

Málsgreinar þurfa að vera einkar stuttar á vefnum: Frumlag + sögn + andlag. Millifyrirsagnir hjálpa, verða að vera upplýsandi, ekki sætar eða flottar. Feitt letur er oft notað fyrir tengingar, krækjur og á því alls ekki að nota í öðru skyni.

Öfugi píramídinn er í fullu gildi á vefnum. Tímaröð er líka góð. “Narrative” er stundum notað með lifandi lýsingu fremst, sviðsetningu. “Thematic”, fer í einstaka þætti sögu í efnisröð.
Byssukúlur (bullets) eru góðar, betri en tölustafir.

Við vitum ekki, hver verður framtíðarstíllinn á vefnum. Á meðan er stuðst við prentstíl, að viðbættum aukahlutum, “web extras”. Það geta til dæmis verið tengingar, ráðleggingar, myndir, hljóðskeið eða myndskeið.

Lagskipting getur verið eftir smáatriðum eða eftir málefnum.
Smáatriði: Eitt skref stigið í einu og notanda falið að velja, hvort hann vill fara lengra. Til dæmis: Fyrirsögn > inngangur > meginsaga > seinni tíma viðbætur.

Notaðu ekki sniðuga fyrirsögn eða inngang, heldur málefnalega, efnislega. Endurtaktu fyrirsögn í inngangi, annars heldur notandinn sig hafa villst. Neðst er “fréttin í heild”. Notandinn smellir þar, ef hann kærir sig um.

Málefnaskipting þarf að enda hvern kafla á sölu hinna kaflanna. Þeir þurfa að vera þannig skrifaðir, að notandinn geti lesið kaflana í hvaða röð sem er (mósaík).
Þegar frétt gerist á löngum tíma, þarf að vefa nýjar upplýsingar á rétta staði inn í fyrri texta.

Blaðamaðurinn þarf að bera skynbragð á umhverfi laga og siða. Hann má t.d. ekki stela frétt og hann má ekki hafa fjárhagsleg tengsl við frétt. Lög og reglur og siðir um hefðbundna fjölmiðla hafa verið yfirfærð á vefinn.

Meiðyrði: Efni á vefnum er talið vera útgefið. Þar sem vefur er ekki staðbundinn, eru menn farnir að velja sér dómstól, sem þeir telja hagstæðan sér. Eða hagstætt land. Samanber Jón Ólafsson, sem kærði Hannes Hólmstein Gissurarson í London.

Vefhýsar, sem ritskoða efni, eiga frekar á hættu að fá á sig dóma heldur en þeir, sem láta allt fljóta. Þriðji kosturinn er að hafa ekki vefsvæði fyrir almenning. Vefurinn er alþjóðlegur og menn geta lent í óhagstæðum málaferlum í Zimbabwe, t.d. Guardian.

Reglur um dónaskap og klám eru svipaðar og á prenti, strangari en í ljósvakanum.
Höfundaréttur gildir langan tíma.
“Fair use” nær til rýni, skoðana, kennslu og stuttra kafla úr efni.
Erfitt er að verja höfundarétt efnis á vefnum. Athuga þó fall Napster.

Gerðu fyrirfram ráð fyrir, að höfundarréttur sé á öllu efni, sem þú finnur á vefnum. Segðu, hver sé heimildin og tengdu þangað til staðfestingar. Associated Press og Reuters efni er með höfundarétti.

Sum vefsvæði eru með þrengjandi ákvæði í smáa letrinu, eins og seljendur hugbúnaðar. Erfitt er að meta réttarstöðuna vegna skorts á málaferlum. Þetta er kallað “shrink wrap” aðferðin, þú veist ekki um þrengingu fyrr en þú ert búinn að rjúfa pakkann.

Sum vefsvæði, t.d. fjölmiðlar, gera tvennt í senn, neita allri ábyrgð á innsendu efni og krefjast samt eignarhalds á þessu sama innsenda efni. Þessi tvöfeldni er vafasöm, en á hana hefur ekki reynt í dómsmáli.

Tengingar, krækjur: Lítið er um dóma. Deilt hefur verið um krækjur framhjá heimasíðu (deep linking), sem fela eiganda heimasíðunnar. Eigendur vefsvæða geta þó beitt tækni til að hindra djúpkrækjur.

“Inline linking” setur efnið í ramma inn á eigin síðu og sleppir meðfylgjandi auglýsingum.
Sumir taka “thumbnail” myndir af ljósmyndum eða síðum og birta sem “inline” grafík hjá sér.
“Framing” er svipaðs eðlis. Þá lítur það út eins og það sé frá þér.

Tengingar og krækjur geta líka leitt til spurninga, hvort nálægð sé viðeigandi, til dæmis milli kirkjuvefs og klámvefs.
Menn geta skapað sér ábyrgð með tengingu í svæði, þar sem er stolið eða vafasamt efni.

Það getur verið siðferðilega vafasamt, ef þú tengir við vafasamar síður eða við auglýsingasíður. Á prenti er skilið milli auglýsinga og efnis, á vefnum fljóta mörkin og gráa svæðið er víðáttumikið.
Sumir miðlar banna blogg blaðamanna, aðrir hvetja til þess.

Ógerlegt er að sjá fyrir framtíð vefmiðlunar. En sú staðreynd, að þú vinnur væntanlega við hana, gefur þér forgang að hæfni til að ráða við þau tækifæri, sem upp koma. Þú flýtur með straumnum og lagar þig að breyttum aðstæðum, stundum ófyrirséðum.

Ekkert viðskiptamódel hefur enn fundist fyrir vefmiðla. Þetta er enn á tilraunastigi. Sum svæði eru farin að skila hagnaði, Tribune og Knight Ridder. Dagblöðum hefur vegnað betur, ljósvakanum verr. Mestur er árangur í smáauglýsingum á vefnum.

Til greina kemur að:
Selja auglýsingar á vefinn.
Innheimta áskriftargjöld.
Bjóða aukna þjónustu (value-added services).
Auglýsingagildi er oft erfitt að mæla. Lítil hrifning á áskriftargjöldum. Gamalt efni selst illa.

Hlutverk blaðamennsku á vefnum:
Vefurinn er fyrir marga orðinn frumuppspretta upplýsinga.
Gegnsæi hefur aukist á vefnum.
WiFi, þráðlaust samband, gerir fólki kleift að vera sífellt í sambandi á ferðum sínum.
Fólk notar vefinn eins og síma.

Veffréttir hafa yfirburði, þegar eitthvað gerist.
Vandamál er hins vegar, að fréttamat víkur fyrir tæknimati.
Margir leita að gömlum fréttum.
Fá vefsvæði nýta sér alla möguleika vefsins, þau nota fyrst og fremst skófluvöru.

Sýndarveruleiki er nánst ekkert notaður á fréttasvæðum.
Er fjárhagslega hagkvæmast að nota bara skófluvöru?
Viðskiptaslóðir, t.d. Amazon, eru lengra komnar en fréttaslóðir í að meðhöndla möguleika vefsins.

Fjölgað hefur nýjum tækjum, svo sem farsímum og lófatölvum. SMS er mjög vinsælt. Flúðatækni (CSS) gerir kleift að laga efni eftir getu vafrans. Í auknum mæli eru til frísvæði (hot spots), t.d. á kaffihúsum, þar sem fólk getur tengt tölvur sínar þráðlaust.

RSS (rich site summary) gerir þér kleift að fylgjast með ákveðnum síðum og draga þaðan inn fyrirsagnir og texta í lófatölvu þína. Þú getur sett upp skrár með slíkum krækjum. Og fengið á skömmum tíma yfirlit yfir vildarsíður þínar.

Samþætting: Blaðamenn vinna efni fyrir ýmsar tegundir fjölmiðla í senn. Það veitir tækifæri og ögrar um leið. Blaðamaðurinn þarf að hugsa út fyrir boxið. Meira samstarf og samband. Færri blaðamenn, en öflugri, eru úti á vettvangi.

Erfiðara en áður verður að fjalla um flókin atriði eða atriði, sem haldið er leyndum. Dagblöð með stórum ritstjórnum höfðu meira efni á því en fámennar vefritstjórnir. Þar er mikill þrýstingur á torfengna arðsemi, sem kemur niður á gæðum í ritstjórnarvinnu.

Sjá nánar: James C. Foust: Online Journalism, 2005

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé