Útreikningar

Rannsóknir
Útreikningar

Tölvuvinnsla er óaðskiljanlegur hluti frétta, ekki sérhæfð vinna, heldur hluti af meginstarfinu.
Hafa ber nokkur atriði í huga:

1) Eru gagnabankar viðeigandi, mundu þeir hjálpa fréttinni, samhengi hennar eða hugmyndum? Hafa slíkir bankar verið notaðir við hliðstæð tækifæri?
2) Eru viðeigandi gagnabankar til á netinu? Er hægt að hlaða þeim niður í nothæfu formi, ekki í .pdf?

3) Hvaða hugbúnaður hentar gagnabankanum, töflureiknir eða gagnagrunnur? Er bankinn of stór fyrir töflureikni? Eru fleiri en ein tafla í gagnabankanum?
4) Hvernig væri hægt að nota gagnabankann á grafískan hátt?

5) Ef gagnabankinn er ekki nærtækur á netinu, hver er þá með hann? Hefur hann áður veitt aðgang? Hvaða reglur gilda?
6) Hvert er fólkið, sem ég vil fá mannlýsingu af og taka viðtöl við, svo að sagan verði ekki of þurr?

7) Hvernig get ég tryggt, að sagan verði sanngjörn og mistúlki ekki tölur og reikninga, sem ég nota?
8) Hver eru þau mál, sem fréttinni er ætlað að fást við, og munu gögnin hjálpa til við lausnina?

Kannaðu sögur, sem hafa verið skrifaðar hjá öðrum fjölmiðlum og finndu, hvort þú getur nýtt aðferðafræðina og útvegað hliðstæða gagnabanka til að varpa ljósi á mál á þínu svæði. Þúsundir slíkra mála eru á skrá: www.ire.org/resourcecenter.

Jarðaskrána má nota til að finna jarðir, sem hafa mest flatarmál. Úr því úrtaki skrárinnar má kanna, hvernig óbyggðanefnd hefur tekið á eignarhaldi slíkra jarða, t.d. Reykjahlíðar og hvort nefndin hafi breytt eitthvað forsendum helstu stórjarða.

Dæmi um byrjendur:
1) Jason Callicoat hjá South Bend Tribune sló saman veðurlýsingum og stöðumælasektum til að finna út, að ekki var sektað í vondu veðri og að herinn skuldaði þúsund dollara í sektir.

2) Edward L. Carter hjá Deseret News skrifaði sögu um fæð kvenna við stjórnun helstu bæja á svæðinu, um laun þeirra og aðrar aðstæður.

3) Mark Houser hjá Tribune Review í Pittsburgh skrifaði um sölu lottómiða og vandamál tengd þeim hjá fátæklingum.
4) Mark Greenblatt notaði vegagerðarbanka til að skrifa um ástand brúa á svæðinu.

Reynsla margra blaðamanna er, að margar áhrifamestu fréttir þeirra hafa verið reistar á grunni mjög lítilla gagnabanka. Með því að nota í fyrstu litla banka eru meiri líkur á, að þú ráðir við verkið. Þú getur tékkað bankana handvirkt.

Þegar er búið að klippa marga gagnabanka niður í smærri einingar. Til dæmis eru mannfjöldaskýrslur notaðar í bútum til að aðstoða við gerð frétta um húsnæði, tekjur, flutninga og fjölþjóðasamfélag í borgum. Margir slíkir hér á landi.

Eigin bankar eru líka góðir við að læra:
1) Þú þekkir efnið, tölurnar og skipulagið.
2) Þar sem innskrift er leiðinleg, er líklegt að þú byrjir á bönkum, sem hafa takmarkað umfang.

3) Úr því að þú varðst að gera það sjálfur, er líklegt, að enginn hafi gert það sama. Þú ert þá með einstæðan banka. Tveir bestu bankarnir mínir voru hvor um sig með innan við 150 skráningar.

Best er að byrja á að byggja gagnabanka um eitthvað, sem þú þekkir vel. Ef þú finnur galla, getur þú metið, hversu langan tíma taki að laga þá og hvort það sé þess virði. Suma gagnabanka er alls ekki hægt að nota án hreinsunar.

Til að byrja með skaltu ekki sækjast eftir gagnabanka fyrr en þú ert klár á, hvert er lágmarksinnihald sögunnar. Það verður kannski ekki endanlega sagan, en það er lágmark þess, sem þú telur vera verjanlegt til að byrja vinnsluna.

Oft velta blaðamenn fyrir sér, hvort sagan hafi verið skrifuð áður. Satt að segja hafa flestar sögur verið skrifaðar áður. Það skiptir ekki máli. Hins vegar skiptir máli, að sagan sé góð, gagnabankinn sé góður og þú notir hann vel.

Fylgstu með því, sem aðrir blaðamenn gera. Þú getur sent þeim tölvupóst og beðið um ábendingar í umgengni við ákveðna gagnabanka. NICAR hefur listserv: nicarl, heimaslóð og tímaritið Uplink, sem hjálpa til við reikningsblaðamennsku.

Þú getur smám saman náð tökum á þessu vinnulagi, byrjað á að bæta sögurnar með leit á netinu, litlum útreikningum í töflureikni og summum úr gagnagrunni. Þú eflir tækni þína á þennan hátt, án þess að magna væntingar til þín úr hófi.

Gerðu félag við annan um þetta og lærðu með honum. Lestu tímarit um vélbúnað og hugbúnað. Hafðu fókusinn þröngan, þegar þú skrifar svona sögur, en vertu samt opinn fyrir því að lesa nýjar hugmyndir úr gagnabönkum, sem þú skoðar.

Ekki reyna að skrifa alla minnisbókina þína. Þegar þú vinnur svona, eru svo margar upplýsingar á borðinu, tölur og tölfræði, að þér finnst þú hafa verið kaffærður. Þú þarft að hafa stöðugar gætur á aðalatriðum hvers máls.

Spurðu sjálfan sig: Hver er mikilvægasta talan í sögunni? Er það einföld tala eða hlutfall eða vísitala eða prósenta? Gott er að megintalan sé eina talan í fyrstu tíu málsgreinum sögunnar. Komdu öðrum tölum fyrir í grafi eða korti.

Sumir blaðamenn nota “nördabox”, eindálk við söguna, þar sem sagt er frá aðferðafræðinni og staðreyndunum, sem eru að sögubaki. Þú þarft líka að fara á vettvang og sjá fólkið, sem kemur við sögu. Góðar sögur eru um fólk og fyrir fólk.

Nákvæmnin og sanngirnin skipta máli. Nóg er af stjórnmálamönnum og fræðimönnum, sem vilja finna tölur, sem henta fullyrðingum þeirra. Þitt hlutverk er hvort tveggja, að koma upp um þá og að lenda ekki sjálfur í sömu gryfju.

Ferill reikningsfréttar:
1) Byrjaðu með tilgátu eða spurningu.
a) Þú færð ábendingu frá persónu.
b) Flokkun og röðun gagna sýnir hugsanleg ferli, mynstur, sjaldgæfni.

2) Semdu lista yfir fólk sem þarf að tala við, staði sem þarf að heimsækja og gagnagrunna sem þarf að skoða.
a) Meðal fólks eru sérfræðingar, embættismenn, almenningur.
b) Meðal staða eru stofnanir, hverfi og aðrir staðir, sem gögnin vísa til.
c) Gagnagrunnar aðfengnir eða heimasmíðaðir. Þú þarft að meta, hvaða hugbúnað þú þarft að nota.

3) Forgangsraðaðu listanum og búðu til tímaáætlun.
a) Biðja þarf strax um gagnabanka og aðrar upplýsingar.
b) Gerðu ráð fyrir að þurfa tvö viðtöl við suma, í upphafi rannsóknar og við lok hennar.
c) Reiknaðu gögnin. Gættu þín á göllum í gögnum og aðferðum.
d) Gerðu ráð fyrir að þurfa tvær heimsóknir á suma staði, í upphafi rannsóknar og við lok hennar.
e) Hafðu í huga að verkefnalistinn getur lengst og að tímaáætlun verði að breytast.

4) Skrifaðu söguna.
a) Skrifaðu yfirlit og finndu, hverjar eru lykiltölur og hvað hentar í gröf og nördabox.
b) Gerðu yfirlit um viðtöl og vettvangslýsingar og finndu, hvaða persónur og hvaða upplýsingar eru mikilvægastar.
c) Berðu niðurstöður þínar saman við niðurstöður annarra og berðu þær undir sérfræðinga og fólk, sem þekkir til málanna.
d) Gerðu yfirlit um söguna og finndu rétta tóninn í henni.
e) Gerðu ráð fyrir að þurfa nýtt viðtal við sumt fólk og endurskoðun útreikninga sem lið í sannreynslu fréttarinnar.
f) Skrifaðu söguna.
g) Farðu yfir söguna lið fyrir lið.
h) Vertu undir það búinn að verja aðferðafræðina.
i) Undirbúðu framhaldið áður en sagan birtist eða fer í loftið.

Tékklisti:
1) Byrjaðu með litla gagnagrunna.
2) Byggðu eigin gagnagrunna.
3) Fáðu gagnabanka á sviðum, sem þú þekkir til.
4) Skoðaðu, hvernig aðrir hafa unnið slík mál.
5) Gerðu reikningsblaðamennsku að þætti í starfi þínu.
6) Komdu þér upp kunningja á sviðinu.
7) Notaðu gagnabanka sem hugmyndabanka.

Hér er skrá um fjölda nemenda í átta bekkjum árin 2005 og 2006.
Setjið þessa töflu í Excel
Reiknið fjölgun nemenda í prósentum í hverjum bekk.
Raðið (sort) töflunni, þannig að efst komi lægstu prósentur, neðst þær hæstu.

Sendið mér texta um, hvaða tveir bekkir hafa mesta aukningu í prósentum milli ára og hvaða tveir bekkir hafa minnsta aukningu.

Ár 2005 2006
a 45 52
b 25 30
c 14 19
d 30 39
e 50 58
f 15 21
g 22 29
h 40 47

Sjá nánar:
Brant Houston
ComputerAssisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition 2004

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé