Útlit ljósmynda

Blaðamennska
Útlit ljósmynda

Þrjú öfl ráða útliti ljósmynda þinna:
1) Teikning.
2) Stíll.
3) Skurður.

Teikning: Hún er safn eininga í ljósmyndinni og barátta þessara eininga um athygli lesandans. Þegar augu hans skanna myndirnar á síðunni eða opnunni, fær teikningin hann til að fletta áfram eða stansa og virða fyrir sér myndina.

Stíll : Ef teikningin er í samræmi, verður úr því stíll, sem segir, að þetta sé þín mynd.
Skurður: Hann innifelur eða útilokar atriði við töku myndarinnar eða á skjánum í ljósmyndadeild.

Meðvitund fólks um myndgæði hefur aukist. Bob Lynn: “Unga fólkið er alið upp á alls konar myndrænu efni frá því í vöggu. Ég hef meiri trú á myndskilningi fólks en margir frétta og ritstjórar hafa.”

Ljósmyndablaðamennska er ekki list fyrir listina. Menn geta verið ljósmyndarar án þess að vera blaðamenn. Ef mynd flytur engin skilaboð, getur hún verið fín uppi á vegg, en hún þarf að segja sögu til að vera blaðamennska.

Of margir ljósmyndarar reyna að vera “artí”. Þeir eru venjulega að reyna að vekja athygli annarra ljósmyndara, en eru ekki að hugsa um lesendur, eru ekki að vinna vinnuna sína. Cliff Schiappa: “Við verðum fyrst og fremst að ná sambandi.”

Margar gamlar reglur þarf að brjóta og hafa verið brotnar. Eugene Richards tók upp á, að halla myndavélinni, svo að sjóndeildarhringurinn varð ekki láréttur. Þar með náðist ný vídd í ljósmyndir, myndir, sem sögðu meira en eina sögu.

Menn mega ekki verða þrælar eigin stíls. Menn mega ekki frjósa inni í stíl, sem náði árangri í einni ljósmynd. Stíll má ekki verða að venju, heldur verða menn stöðugt að leita nýrra aðferða við að tala við lesendur.

Því miður hafa ljósmyndarar tilhneigingu til að apa hver eftir öðrum. Á sviðinu er of mikið um hetjudýrkun. Stíll ljósmyndara á að koma upp úr eigin reynslu hans, en ekki stæla það, sem þótti sniðugast í síðustu ljósmyndasamkeppni.

Stíll getur gengið of langt í ljósmyndablaðamennsku. Stíll snýst oft um ljósmyndarann sjálfan, ekki um blaðamennsku og ekki um viðfangsefnið. Ljósmyndablaðamennska er ekki list, hún er blaðamennska, hvorki minni né meiri en list.

Ljósmyndalistamaðurinn hefur skoðun eða á að hafa skoðun. Ljósmyndablaðamaðurinn er fréttamaður og segir frá því, sem gerðist. List þarf ekki að lýsa neinum sannleika, en blaðamennska þarf að þjóna honum.

Ljósmyndablaðamaðurinn klippir ekki af limi af því að það sé í tísku í listinni. Hann setur ekki hlut úr fókus fremst í myndina, af því að það sé í tísku. Það getur verið fínt umræðuefni ljósmyndara, en höfðar ekki til lesenda.

Listrænn ljósmyndari leyfir sér hluti, sem ljósmyndablaðamaðurinn getur ekki. Sá síðarnefndi getur ekki fiktað við myndina. Hann getur afmarkað myndflötinn, mest þegar myndin er tekin, en minna, þegar gengið er frá myndinni til birtingar.

Myndritstjórinn þarf að hafa þetta í huga, þegar hann breytir mynd ljósmyndara. Best er, að myndskurður á ritstjórn sé samráðavinna ljósmyndara og yfirmanns hans. Þeir tali út um málið, en yfirmaðurinn segi ekki bara: Ég vil “3 og 17”.

Stefna Associated Press: “AP breytir ekki ljósmyndum. Okkar myndir verða alltaf að segja satt.” “Innihaldi ljósmyndar er ALDREI breytt eða það skekkt á nokkurn hátt.” Þetta er mikilvæg regla á tíma stafrænnar ljósmyndunar og Photoshop.

Þoka hefur verið í tísku í ljósmyndun og haft áhrif á myndir í tímaritum. Ýmsir ljósmyndarar telja, að lesandanum sé sama, en það er ekki rétt. Ef hann hættir að treysta því, að ljósmynd segi satt, missir hann traust á fjölmiðlinum.

Almennt halda dagblöð uppi vörnum gegn fikti við ljósmyndir í Photoshop, en varnir hafa bilað á tímaritum. Nánast allar forsíður Time eru tilbúnar og National Geographic færir píramídana hvern nær öðrum til að fá betri forsíðu.

Kenny Irby: “Ég hef mestar áhyggjur af þeirri skoðun, að áhorfendur ljósmynda hafi farið að samþykkja fölsun ljósmynda sem staðreynd og trúi ekki lengur neinu, sem þeir sjá.” Falsaðir myndir í tímaritum minnka líka traust á dagblöðum.

Afturförin í þessu efni er ekki keyrð fram af ljósmyndurum eða blaðamönnum, heldur af hönnuðum, sem mega ekki komast í Photoshop. Þeir hafa enga þjálfun sem blaðamenn og skilja ekki reglur blaðamennsku, hafa engan skilning á henni.

Í stað þess að lifa við sannleikann eins og hann birtist á ljósmynd, freistast þeir til að bæta sannleikann, taka út ljósastaur, sem er fyrir. Þetta er hugarfar frá Madison Avenue, óháð heilindum og nákvæmni, sem einkenna blaðamennsku.

Harold G. Buell: “Það eru mikil mistök, ef dagblöð halda, að það sé nóg að setja á sex punkta letri, að myndin sé “hönnuð” og þar með séu þau laus allra mála. Þetta er klassískur flótti blaðamennskunnar. Enginn les þessa sex punkta línu.”

Í raun hefur bilun orðið á innsíðum blaða, þótt hún hafi ekki enn orðið á fréttasíðunum. Baráttan milli gervimennsku og sannleika er því komin inn á vinnustöðvar dagblaða. Samþykkja lesendur þetta og hver er afleiðingin?

Tilgangur ljósmyndablaðamannsins er að segja sanna sögu eins og hún er, en ekki eins og hann vill láta hana vera. Ef sannleikurinn er látinn víkja fyrir stíl í fjölmiðli, eru menn þar ekki á réttri hillu.

Ljósmynd á að vera einföld. Hún á ekki að vera með of mörgum laust tengdum einingum. Baumann: “Ef eitthvað þarf ekki að vera á ljósmynd, á það ekki að vera þar.”

Hugmyndir á borð við þriðjungaregluna, línulaga sjóndeildarhring, römmun, úrslitastund, valinn fókus og skipulag á dýpt og vídd. Allt eru þetta hluti af grundvallarreglum ljósmyndarans. Sjá annars tékklistann hér að neðan.

Larry Nighswander hefur búið til tékklista fyrir ljósmyndara:

Er ljósmyndin tæknilega góð?
1) Skarpur fókus.
2) Góð andstæða.
3) Rétt jafnvægi lita.

Er ljósmyndin með skapandi teikningu?
1) Forgrunnur yfirgnæfir, bakgrunnur segir viðbót.
2) Sýnir óreiðu í reiðunni.
3) Sýnir lit í einlita aðstæðum.
4) Virðir þriðjungareglu teikningar.
5) Rammi, frame.
6) Val á fókus.
7) Endurkast, reflection.
8) Skimun, panning.
9) Hliðstæða, juxtaposition.
10) Úrslitastund.
11) Línulaga sjóndeildarhringur.
12) Skuggi.

Hefur ljósmyndin blaðamennskugildi?
1) Er myndin virk eða óvirk?
2) Er hún af einhverju, sem enginn hefur séð áður eða er hún áhugaverð mynd af einhverju, sem allir hafa séð áður?
3) Er samræmi í stíl ljósmyndar og texta?
4) Talar myndin hraðar, sterkar, betur eða glæsilegar en málsgrein mundi gera?
5) Hefur hún sjónrænt gildi eða lyftir hún bara sögunni?
6) Fer ljósmyndin upp fyrir það hversdagslega og augljósa?
7) Hefur hún nauðsynlegar upplýsingar til að lesandinn skilji tetann?
8) Er hún nógu áhrifamikil til að hreyfa við lesandanum?
9) Er myndin nógu hrein, áhugaverð og vel teiknuð til að standa ein og sér?
10) Svarar myndatextinn spurningum: Hver, hvað, hvenær, hvar, hvernig, hvers vegna, hvað svo?
11) Er myndin marklaus skráning?
12) Eru mynd og myndatexti hlutlæg og nákvæm lýsing þess, sem gerðist?
13) Talar hún á virkan hátt? Ljósmynd á að hreyfa við, örva, skemmta, upplýsa eða hjálpa lesanda við að skilja sögu.

Mikilvægt er, að ljósmyndarinn fái að vita og átti sig á, hvað á að gera við myndina. Er þetta hugsanleg forsíða, er þetta í innblað? Hann verður að hafa hugmynd um markhópinn. Er búist við, að þetta verði lítil mynd eða stór mynd?

Jerome Delay notar fastar linsur: “Ég vil ekki súmm, af því að þær gera fólk latt. Þú hreyfir þig ekki og allar myndirnar verða eins.” “Ef myndin passar ekki í 24, þá fer ég aftur á bak.”

Harry Cabluck: “Ég reyni frekar að skjóta lóðrétt en lárétt og nota myndavél, sem auðvelt er að meðhöndla lóðrétt. Síður dagblaða eru lóðréttar og oft er auðveldara að brjóta þau um með lóðréttum ljósmyndum.”

Ljósmyndarinn þarf að hugsa eins og kvikmyndastjórinn, taka nærmyndir, millimyndir og víðmyndir. Fjölbreytileikinn skapar valmöguleika og segir sjónrænt betri sögu.

Ljósmyndarinn þarf að hafa í huga, að í tölvunni er hægt að þrengja myndina, en það er ekki hægt að víkka hana. Þess vegna hefur hann myndflötinn heldur stærri en hann þarf að vera. Of mikill skurður í tölvu getur eyðilgt myndina.

Sjá nánar:
Brian Horton, AP Guide to Photojournalism, 2. útgáfa 2001

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé