Tilkynningar-Gröftur I

Fréttir
Tilkynningar
Gröftur

Fréttatilkynningar

Blaðamenn mega nota almannatengla, en mega ekki láta almannatengla nota sig. Mikið af almannatenglum koma úr blaðamennsku og þekkja þau vinnubrögð. Í almannatengslum eru félagsvísindi notuð í bland við samskiptatækni.

Fjöldi fyrirtækja, samtaka og stofnana hafa almannatengla á sínum snærum. Ein af sérgreinum almannatengla eru ræðuskriftir fyrir stjórnmálamenn og önnur aðstoðarmennska við pólitíska aðila, til dæmis svonefndar spunakerlingar.

Mikið af sögum blaðamanna eru byggðar á fréttatilkynningum. Þær eru notaðar, ef þær eru fréttnæmar, hafa athyglisverðan inngang, eru nákvæmar, áhugaverðar og eru heimildir fyrir fréttir, sem koma á eftir.

Michael Levine sagði: Almannatengsl snúast um að borga ekki fyrir auglýsingu. Harold Burson sagði: “Okkur er borgað fyrir að segja hlið skjólstæðings okkar á málinu. Starf okkar felst í að breyta viðhorfum og móta þau.”

Public Relations Society of America gefur út siðareglur. Þar segir m.a. “Vertu heiðarlegur og nákvæmur í allri miðlun. Vertu fljótur að leiðrétta rangar upplýsingar, sem eru á þína ábyrgð.

Molly Wright segir: “Mikilvægast við fréttatilkynningu er, að hún verður að fela í sér frétt.” Þú verður að hugsa eins og blaðamaður: “Ef þú trúir, að efnið sé hrífandi og áhugavert, er líklegt að svo sé líka um blaðamanninn.”

Venja er, að aftast í fréttatilkynningunni séu upplýsingar um útgefandann. Oft fela tilkynningar aðeins í sér örstuttan texta um aðstæður eða væntanlegan atburð, rétt eins og frétt fyrir sjónvarp.

Þú verður að hafa fókus á markmiði almannatengsla. Af hverju er þessi tilkynning gefin út? Hvaða árangri ertu að reyna að ná? Er hún fræðandi? Er hún sjálfshrós? Er hún innlegg í umræðu? Hverjum er hún ætluð og hverjir flytja hana þangað?

Þegar þú hefur ákveðið, hvað tilkynningin á að segja, þarftu að afla nægra upplýsinga: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo.

Judyth Berthiaume sagði: Ekki grafa innganginn, blaðamenn hafa ekki tíma til að leita að honum. Hafðu efnið stutt og einfalt. Forðastu klisjur faghópa, sem enginn skilur. Hafðu upplýsingarnar réttar.

4) Hef ég góða tilvitnun í áreiðanlega heimild, skemmtilega örsögu, heilræði fyrir lesandann?
5) Er formið rétt, hamarshögg í fyrirsögn, heimildir skráðar og sagt, hvernig á að ná í þær?

Spurðu sjálfan þig að þessu:
1) Er skipulag og tilgangur með textanum?
2) Er sjónarhóllinn skýr?
3) Eru skilaboðin skýr og snúast um kjarna málsins?
4) Er samræmi í stemmningunni og í tóninum?
5) Er samræmi í tíðum sagnorða?
6) Rennur textinn áreynslulaust frá einum kafla til annars?

Á fjölmiðlinum eru hliðverðir, sem gera eitt af þessu:
1) Fleygja í ruslakörfuna.
2) Nota tilkynninguna beint.
3) Skrifa upp úr henni.
4) Nota hana sem grunn að sögu, sem blaðamaður skrifar.

Algengt er, að lítil dagblöð og litlar stöðvar noti fréttatilkynningar hráar. Það gerir höfund tilkynningarinnar hamingjusaman, en veldur miðlinum og höfundinum vandræðum, ef gallar reynast vera á tilkynningunni, sem er þá ófullnægjandi.

Munur er á þeim, sem býr til fréttatilkynningu, og á hinum, sem notar hana í miðil. Sá fyrri þjónar skjólstæðingi sínum, en sá síðari þjónar almenningi.

Tékklisti forms:
1) Nafn aðilans, sími, fax og netfang.
2) Nafn mannsins, sem er með málið, sími hans, fax og netfang.
3) Hvenær birta má.
4) Fyrirsögn, ekki í hástöfum.
5) Breiðar spássíur.
6) Ein eða tvær síður.
7) Nöfn og heimilisföng fólks, sem taka má viðtöl við.

Tékklisti innihalds:
1) Beint fréttaform, öfugur píramídi.
2) Mannleg áhugamál.
3) Tilvitnanir.
4) Skrifað fyrir sértækan hóp eða almenning.
5) Sent ákveðnum persónum á miðlunum.
6) Í samræmi við stílbók Associated Press.
7) Hlutlæg, felur ekki í sér skoðanir eða dóma höfundar, forðast ýkjur.
8) Sannreynd stafsetning nafna, nákvæmni tímasetninga, heimilisfanga, símanúmera.
9) Fréttnæm.

Lestu yfir tilkynninguna og lagaðu hana:
1) Er þemað mitt í innganginum?
2) Hef ég siglt með þemað strax eða flotið að öðru þema?
3) Eru allar lykilupplýsingarnar inni?

Fréttagröftur

Hlutverk blaðamannsins er að safna upplýsingum, sem hjálpa fólki að skilja atburði, sem hafa áhrif á það. Fréttaöflun er í þremur lögum:
1) Yfirborðsfréttir: Frá heimild, svo sem tilkynningar, handát, ræður.
2) Frumkvæðisfréttir: Sannreynsla, rannsóknablaðamennska, atburði lýst, bakgrunnur.
3) Túlkun og skýring: Mikilvægi, orsakir, afleiðingar.

Blaðamaðurinn er eins og gullleitarmaðurinn. Hann sættir sig ekki við það, sem finnst á yfirborðinu. Hann þarf að grafa eftir fréttum. Hann þarf að átta sig á landslaginu. Það er kallað í blaðamennsku að hafa fréttanef.

Blaðamennska felst í að safna upplýsingum, sem máli skipta, eftir ýmsum leiðum, svo sem skoðun og viðtölum, skoða skýrslur og skjöl, nota gagnabanka og netið, og láta efnið fara um síu sannreyndar og úttektar.

Stundum eru öll lög fréttaöflunar notuð. Grunnur fréttarinnar er tilkynning, en blaðamaðurinn hefur grafið dýpra og að lokum hefur hann útskýrt fréttina og bent á afleiðingar hennar.

Ekki ber að líta niður á yfirborðsfréttir. Þær segja fólki, hvað sé að gerast í umhverfinu. Mikið af slíkum fréttum, sem sumar eiga uppruna sinn í tilkynningum frá almannatenglum, fylla síður dagblaða og mínútur fréttaþátta.

Í yfirborðsfréttum tekur blaðamaðurinn að sér að raða upp á nýtt staðreyndum í tilkynningu að utan, sannreyna heimilisföng og tímasetningar og staðfesta rithátt nafna. Tilkynningin kemur þá lítið breytt, oft nokkuð stytt í miðlinum.

Þegar Sovétríkin hrundu skyndilega inn í sig, kom það lesendum og áhorfendum á óvart. Fólk hafði ekki skilið rústir hagkerfisins og hatur fólks á kerfinu. Blaðamönnum hafði ekki tekist að upplýsa. Almannatenglar kerfisins höfðu stýrt fréttum.

Eftir komu sjónvarps reyna heimildir að framleiða veruleika með því að nota sér þörf sjónvarps fyrir myndefni. Atburðir eru framleiddir og látnir líta út eins og þeir hafi sprottið af sjálfum sér. Daniel J. Boorstin kallar það “gerviatburði”.

Vinur: “Mikið er þetta fallegt barn.” Móðir: Þú ættir að sjá myndina af því.” Gerviatburður er atburður, sem er framleiddur, honum er plantað niður eða æst er til hans. Ólæti á útifundi eru gott dæmi um gerviatburð fyrir sjónvarpsfréttir.

Gerviatburðir eru framleiddir til að koma þeim í sjónvarp. Oft eru stjórnvöld og stjórnmálaöfl að verki. Stjórnmálamenn þurfa athygli og viðurkenningu og nota sér þörf sjónvarps fyrir myndefni til að framleiða gerviatburði sér til framdráttar.

Stuart Ewen segir: “Við lifum í heimi, þar sem menn berjast um almannavild og samþykki almennings. Ég held, að fólk telji, að ekki sé til neinn sannleikur, heldur bara spuni. Sumpart af því að svo margir hafa atvinnu af spuna.”

Þegar George C. Wallace ríkisstjóri neitaði að fara úr anddyri skóla í Alabama, var það ekki atburður, heldur leikin aðgerð í samráði við John F. Kennedy forseta. Hún hafði það að markmiði, að báðir aðilar kæmu vel út úr málinu.

Wallace var að afla sér fylgis svertingjahatara í Suðurríkjunum og Kennedy var að láta sig líta út sem þann, sem vildi flýta fyrir kynþáttablöndun í menntakerfi Bandaríkjanna. Þeir léku lítinn bardaga, hvor fyrir sitt lið.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé