Smekkvísi

Fréttir
Smekkvísi

Fréttamenn sjónvarps elta uppi fólk, sem ekki næst í vinnunni. Þeir bíða stundum og dögum saman við útidyr þeirra. Þetta var mikið notað í Watergatemálinu og komst í tísku eftir það. “Stakeout” er þetta kallað.

Ekki má láta opnberar persónur komast upp með að koma sér undan því að svara spurningum fjölmiðla. En framkvæmd málsins er komin út í öfgar hjá sjónvarpsstöðvum og hefur skaðað ímynd þeirra hjá almenningi.

Nú er almennt talið, að stjórnvöld ljúgi, ef þau mögulega geta. Umgengni fjölmiðla við valdamenn er því orðin harðskeytt. Svo er komið, að forsetar landsins líta á fréttamenn sem höfuðandstæðinga sína, sífellt með hnífa á lofti.

Leiknir atburðir eru stundum notaðir í sjónvarpi. Sumir yfirmenn hafna þeim alveg, en aðrir eru sáttir við þá, ef skýrt komi fram í mynd: “Þetta er leikið atriði.” Aðalatriðið er, að þetta valdi ekki ruglingi áhorfenda.

Tilbúnar uppákomur hafa verið notaðar í sjónvarpi. Mótmælendur eru dregnir úr kaffipássu og fengnir til að mótmæla fyrir framan myndavélarnar, áður en þeir fara aftur í kaffi. Allar tilbúnar uppákomur eru ósiðlegar. Dæmi:

1) Fréttamaður missir af fréttafundi og biður fundarboðanda að endurtaka helstu hljóðbitana í myndavél. Myndin er birt eins og hún væri frá fundinum.
2) Fréttamaður finnur ekki börn á leikvelli, fer og finnur börn til að leika þar.
3) Fréttamann vantar mynd af fíkniefnaneyslu í heimavist og lætur nemendur leika hana.
4) Fréttamaður fær lögreglu á bíl til að aka fram og aftur fyrir framan myndavélarnar með sírenur á fullu.

Dateline vildi sýna fram á, að pallbíll frá General Motors væri hættulegur og sýndi það með myndefni, þar sem sjónvarpsstöðin hafði komið fyrir eldflaugum til að kveikja í bílnum. Þetta varð til þess, að fjöldi manns varð að hætta.

Hins vegar er saklaust að biðja starfsmann á skrifstofu að standa fyrir framan skjalaskápa, meðan mynd sé tekin af honum. Vissar tegundir af tilbúnum uppákomum eru leyfilegar, ef þær eru meinlausar með öllu.

Til eru söfn af hljóðum. Á fréttamaður að nota slíkt safn til að gefa fréttum sínum meiri dýpt? Það mundi þykja ósiðlegt. Sama er að segja um önnur bakgrunnshljóð, sem myndatökumaðurinn missti af á vettvangi.

Í öllu þessu verðið þið að muna, að munurinn á fréttum og skemmtun á borð við skáldsögur er sá, að fréttirnar eru sannar, en skáldsögurnar skáldaðar. Fréttamenn geta ekki stigið yfir markalínuna yfir til skáldsögunnar.

Vegna fátæktar eða hirðuleysis sýna sjónvarpsstöðvar oft gamlar myndir úr safni án þess að geta þess, að þær eru gamlar og úreltar. Aðrar stöðvar setja ofan í myndirnar textann: “Mynd úr safni”. Stundum eru sýndar myndir úr röngu stríði.

Hljóðbönd og myndbönd eru yfirleitt ekki talin gild sem málsgögn, af því að svo auðvelt er að falsa þau. Á ljósvakastöðvum má lítið snyrta þetta til og alls ekki skekkja það, sem upphaflega var sagt, nema málið skýrist í lýsingu akkeris.

Yfirfærslur í sjónvarpi:
1) Skurður, “cutaway”. Myndin fer af viðtalsefni yfir á aðra viðstadda og farið svo inn á viðtalsefnið aftur á öðrum stað í viðtalinu. Áhorfendur vita ekki, að það vantar í viðtalið.
2) Öfugt skot, “reverse shot”. Eftir viðtalið þykist fréttamaðurinn ver að hlusta meðan tekin er af honum mynd. Verst er, þegar hann byrjar að brosa og kinka kolli. Þetta efni er svo sett inn í viðtalið.
3) Öfug spurning, “reverse question”. Fréttamaðurinn leikur spurningarnar og þær eru ekki hinar sömu og upprunalegu spurningarnar. Flestar stöðvar hafa hætt þessari aðferð.

Ýkjur myndavélarinnar eru algengar í sjónvarpi. Í mörgun tilvikum eru mótmæli háværari, þegar myndavélin er í notkun, en þau voru á undan og verða á eftir. Oft er líka skotið þröngt til að láta líta út fyrir fleira fólk.

Akkeri eða fréttaþulir hafa alltaf haft geislabaug. En í auknum mæli er farið að hrósa þeim eða kenna þeim um allt, sem gert er eða aflaga fer. Bill Small segir: “Það er ósiðlegt að gefa í skyn, að þú hafir safnað fréttunum, sem þú lest upp.”

Rob Sunde: “Þegar við sjáum fréttamenn á vettvangi reiknum við með, að þeir segi söguna, segi hvað þeir sáu, heyrðu, fundu og lyktuðu. Það er fréttamennska. Ef annar þykist hafa gert það, þá er það ósiðlegt.

Fjölmiðlarnir eru í smásjá fólks. Traust almennings á fjölmiðlum hefur minnkað. Blaðamenn eru oft taldir vera ruddalegir og tilfinningasljóir, sumpart vegna þess að þeir eru boðberar óhjákvæmilega válegra tíðinda.

Morð og aðrir glæpir, þjófnaður og margs konar spilling er daglegt brauð í samfélagi nútímans. Fjölmiðlarnir eru í þungamiðju frásagna af þessum og öðrum neikvæðum þáttum í trosnuðum vef samfélagsins og verða að gjalda fyrir það.

Vandi felst líka í stærð fjölmiðlanna sjálfra og þeirra samsteypa, sem reka marga fjölmiðla eða jafnvel fjölmiðla til viðbótar alls kyns öðrum rekstri. Fólk hefur grun um, að hagsmunir samsteypanna endurspeglist í efni fjölmiðlanna.

Samfélagið leggur hlutverk á herðar blaðamanna. Frásagnir úr pólitík þjóna þeim pólitíska tilgangi, sem felst í verndun frjálsrar pressu í stjórnarskrám. Þeir eiga að skyggnast undir hulu, sem valdhafar breiða yfir verk sín.

Upplýsingar í fjölmiðlum eru umræðuefni í samtölum fólks og efla þannig félagslíf þess. Fjölmiðlarnir hjálpa við að setja fram umræðuefni samfélagsins og geta haft áhrif á niðurstöður þeirra. “Lastu úttektina um vatnalögin í Mogganum í morgun.”

Fjölmiðlar eru markaðstorg hugmynda og skoðana í þjóðfélaginu. Ef menn vilja hafa áhrif á gang mála, leita þeir í fjölmiðla til að láta að sér kveða, fá þar birtar kjallaragreinar eða viðtöl við sig með hvatningu um að mæta á fundi.

Margar aðferðir eru við að meta fjölmiðla og bera þá saman. Fólk getur gert það sjálft. Það getur borið saman dagblöðin, fréttatíma og fréttatengda tíma í sjónvarpi. Efni fjölmiðlanna er daglega til rannsóknar í almenningsálitinu.

Meðal almennings ríkir skortur á skilningi á hlutverki fjölmiðla. Svo virðist sem fólk hafi síðan um 1990 ekki séð hagsmuni sína í stjórnarskrárbundnu prentfrelsi. Það lítur á pressuna sem hluta af vandamálinu, ekki sem hluta af lausninni.

Margir urðu reiðir, þegar fjölmiðlar birtu mynd af brenndum líkum manna, sem höfðu verið myrtir af skæruliðum í Írak. Margir urðu líka reiðir, þegar fjölmiðlar birtu myndir af hörmungunum í World Trade Center.

Efasemdir um smekkvísi hafa lengi loðað við fjölmiðla. Oliver Wendell Holmes varði fjölmiðla í þrælastríðinu: “Látum þá, sem vita vilja, hvernig stríð er, sjá þessar raðir af ljósmyndum.”

Smekkur er safn af gildum fólks, hegðun þess og siðum, sem sameinar hóp þess eða hópa. Þessi gildi eru ekki algild. Það, sem einu sinni þótti dónalegt, þykir nú eðlilegt og sjálfsagt. Áður dónalegur texti er orðinn hluti af orðabók fólks.

Kvikmyndir, leikrit, bækur og tímarit hafa tæpast skilið neitt eftir, sem nú á tímum mætti skilgreina sem dónaskap eða ruddaskap. Fyrir þá, sem það vilja, er til sjö milljarða dollara atvinnuvegur á sviði kláms af hvers kyns tagi.

Orðbragðið á segulböndum Nixons gerbreytti því, sem leyfilegt er að segja í fjölmiðlum. Sú breyting hefur orðið jafnt og þétt á síðustu þremur áratugum. Orð, sem alls ekki sáust á prenti fyrir þremur áratugum, þykja hversdagsleg í dag.

Í Lúkasarguðspjalli segir: “Því mun allt það, sem þér hafið talað í herbergjunum, heyrast í birtunni og það sem þér hafið hvíslað í herbergjunum, það mun kunngjört verða á þökum uppi.”

Nú stendur í Columbia Journalism Review um fund Karen Rothmeyer með Richard Scaife: “Rothmeyer: Herra Scaife, af hverju læturðu svo mikið fé renna til hægri málefna? Scaife: Farðu út, helvítis kommúnistakuntan þín.”

Sérstaða sjónvarps í þessum málum er sú, að það er talið ná til fólks, hvort sem það vilji eða ekki. Kapalstöðvar voru til skamms tíma einkum áskriftarstöðvar, sem fólk valdi eða hafnaði. Búið var til svigrúm fyrir klám kl. 0006.

Bandarísk blöð birtu mynd af konu, sem hengdi sig í skógi í Bosníu. Art Neuman, umboðsmaður Sacramento Bee sagði: “Á 15 ára starfstíma mínum sem umboðsmaður hef ég aldrei áður séð aðra eins skriðu af mótmælum.

Það er staðreynd, að fólk lætur sér fátt um finnast, ef vafasamar myndir eru birtar í afþreyingarefni, svo sem bíómyndum og framhaldsþáttum, en rís upp til mótmæla, ef slíkar myndir eru birtar í fréttaefni.

Mel Optowsky segir um þessi viðbrögð: “Myndin segir sögu af hryllingi. Það er hryllingur, sem gerist í Bosníu. Það er þjóðarmorð, eyðing líkama, huga og sálar fólks og eigna þess. Myndin segir sögu, sem tugþúsundir orða hefðu ekki sýnt.”

Flint Journal afsakaði sig í leiðara út af annarri mynd: “Já, myndin var skelfileg. Hún lét fólki líða illa. Það var tilgangurinn með birtingunni. Hún átti að opna augu fólks fyrir skelfingum, sem halda áfram að gerast þar.”

Leiðbeiningar um myndbirtingu:
1) Hvað á myndin að sýna?
2) Hverju bæta lesendur við, þegar þeir túlka myndina?
3) Hvernig náðist myndin?
4) Hversu brýnt var málefnið?
5) Hversu mikilvæg er kennslan í myndbirtingunni?
6) Vegur gagnið af myndinni upp á móti andúð hluta af lesendum?

Christopher Meyers sagði: Helsta röksemd birtingar myndarinnar var fréttnæmi hennar. Hún var tímabundin og mikilvæg fyrir Kaliforníubúa, listræn og grípandi. En hún var innrás í einkalíf fólks og gerði það að andlagi fyrir forvitni.

Nora Ephron sagði: “Ég skil, að myndir af látnu fólki vekja spurningar um smekk og forvitni og æsifréttir. En staðreyndin er sú, að fólk deyr. Dauði er einn af helstu atburðum hvers lífs. Og það er ábyrgðarlaust og rangt að sýna þær ekki.”

Staðlar um siðsemi voru áður samdir af yfirstéttum og öldungum samfélagsins, sem nú hafa misst völd. Heimsstyrjaldirnar tvær voru vettvangur ólýsanlegrar grimmdar. Átti að leyna því fyrir lesendum og hlustendum?

Tillögur að birtingu efnis:
1) Er efnið hluti af mikilvægri sögu, þá er knýjandi að birta það.
2) Hafa ber hefðir fjölmiðilsins í huga.
3) Notkunin fer eftir eðli fjölmiðilsins og notendum hans og þá öllum notendum, ekki bara hávaðasams minnihluta.
4) Einkamál frægðarfólks geta varðað almannahagsmuni.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé