Slys II

Fréttir
Slys II

Varúð í harmleikjum:
1) Gættu þín á óstaðfestum fullyrðingum. Þegar fréttamaðurinn sér ekki sjálfur atriðið, á hann að bera nafngreindan aðila fyrir því.
2) Forðastu að gera grunaða eða fórnardýr að djöflum eða hetjum.
3) Leiðréttu villur strax og áberandi með öllum smáatriðum.
4) Farðu að lögum, farðu ekki inn á einkalóðir og taktu tillit til einkalífs.
5) Þiggðu ráð reyndra fréttamanna, sem þekkja samfélagið og hafa öðlast traust.
6) Mundu, að allt samfélagið er í sárum, þegar harmleikir verða, ekki bara þeir, sem beint tengjast þeim.
7) Áttaðu þig á, að áhorfendur eiga auðveldara með að höndla harmleik, en heildarmynd frásagnarinnar er víðtæk.
8) Ýktu ekki sögu, sem er hrikaleg fyrir.
9) Dragðu ekki skjótar ályktanir, gerðu ekki ráð fyrir neinu, búðu ekki til alhæfingar.
10) Villtu ekki á þér heimildir. Ekki draga fjöður yfir, hver þú ert og hvað þú gerir.
11) Segðu frá því, sem vel gekk, og hvaða ráðstafanir tókust vel.
12) Mundu, að traust er grunnurinn að samskiptum miðils og samfélags. Það gerir aðilum kleift að skýra satt frá málsatvikum og eykur skilning á fjölmiðlum.

Wacomálið var dæmi um, að opinberar stofnanir notuðu fjölmiðla til að koma á framfæri röngum upplýsingum um sértrúarsöfnuðinn og koma í veg fyrir, að þeir kynntu sér söfnuðinn og sögu hans. Fjölmiðlar létu segja sér, að þetta væri “cult”.

Afleiðingin varð fyrst sú, að fjölmiðlarnir sögðu gagnrýnislaust söguna eins og opinberar stofnanir sögðu hana og lýstu öryggissveitunum sem frelsisenglum, sem væru að ná börnum úr höndum glæpamanna. FBI leit á fjölmiðlana sem tæki.

Síðan varð afleiðingin sú, að mikill harmleikur varð á svæðinu. Aðgerðir FBI reyndust vera skelfileg og alger mistök, því að flestir dóu, börnin líka. Það eina, sem tókst, var að mýla fjölmiðlana gersamlega í þágu FBI.

Miklar breytingar hafa orðið á stríðsfréttum eftir Víetnamstríðið. Eftir það urðu herforingjar sannfærðir um, að ekki megi hleypa fréttamönnum að stríði. Þeir fengu ekki að koma nálægt Grenada fyrr en aðgerðum hersins var lokið þar.

Mikil fréttaskömmtun og ritskoðun var í fyrra Persaflóastríðinu, en mestar urðu breytingarnar í síðara Persaflóastríðinu. Þá voru 700 fréttamenn “innifaldir” í hersveitum bandalags hinna stríðsfúsu ríkja. Miðlarnir létu bjóða sér þetta.

Walter Cronkite sagði þinginu, að “með hroka sem er fjarlægur lýðræðiskerfinu trampaði bandaríski herinn í SádiArabíu á rétti Bandaríkjamanna til að vita um hluti.” Robert McKewon sagði: “Meiri misnotkun fjölmiðla en nokkru sinni fyrr.”

“Innifaldir” fréttamenn voru hugmynd hermálaráðuneytisins. Gera átti þá að hluta af stríðinu, passa að þeir færu á rétta staði og ekki á aðra, að þeir vinguðust við hermenn. Niðurstaðan varð sú, að Bandaríkjamenn sáu annað stríð en hinir sáu, t.d. Evrópumenn.

Stríðið gegn Írak hefur reynst vera mesti lágpunktur í sögu bandarískrar fjölmiðlunar í heila öld. Henry Rubin: Á sama tíma og aðrar þjóðir heims sáu skemmdir og mannfall í stríðinu, sáu Bandaríkjamenn endalaust sigurstríð.

Lynch hneykslið leiddi til, að umboðsmaður Washington Post, Michael Getler, gagnrýndi skrif blaðsins. Blaðið skúbbaði hetjusögunni, sem “var röng í öllum atriðum, sem máli skipta”. “Hvers vegna var hún ekki leiðrétt strax,” spurði hann.

Getler segir, að sagan af Lynch hafi lyktað illa frá upphafi. Todd Gittlin segist vera hissa á, að fréttamenn trúi hverju orði, sem þeim sé sagt, ef stjórnvöld eiga í hlut. Og réttar sögur af styrjöldum eru fjarlægari en nokkru sinni fyrr.

Sjónvarpsstöðvar sýndu stríðið gegn Írak eins og það væri tölvuleikur, þar sem sprengjur féllu í óraunverulegum heimi. Þær þjóðir, sem fengu fréttir frá blaðamönnum, sem ekki voru “innifaldir”, sáu hins vegar blóðbaðið.

Myndirnar af pyndingum í Abu Gharib vekja spurningar:
1) Hver er fréttalegur tilgangur þeirra? Skilur fólk söguna betur?
2) Eru myndirnar eina leiðin til að segja söguna?
3) Ef þú þarft að verja birtinguna, hvernig gerir þú það?
4) Hvenær er saga nógu mikilvæg til að réttlæta slíka myndbirtingu?
5) Ættu að vera til leiðarvísar eða umræður um hana?
6) Hvenær á að vara fólk við myndbirtingum.

Sherry Ricchiardi segir, að fjölmiðlar hafi verið of seinir að taka upp pyndingasöguna, þótt enginn skortur hafi verið á upplýsingum um, að hlutirnir væru í ólagi. Til dæmis skýrslur frá Amnesty og Human Rights Watch.

Ricchiardi: “Hvers vegna voru fréttamiðlar svona seinir að grafa upp söguna?” Philip Taubman: “Við unnum ekki vinnuna okkar fyrr en myndirnar komu á CBS og sagan eftir Seymour Hersh kom á internetinu. Þetta var bilun í fréttaöflun.”

Eftir 11. september 2001 hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum spilað á þjóðerni fréttamanna og farið að veifa vofu hryðjuverka, þegar gagnrýni heyrist. Stjórnvöld eru hæfari til að villa um fyrir fólki heldur en fréttamenn eru að sjá gegnum það.

Minningar

Tvær skoðanir: “Minningarorð eru rútína, sem enginn blaðamaður nýtur.” Eða: “Á minningarsíðunni má finna samlagningu allrar frægðar, afreka, meðalmennsku og mistaka í lífi, sem að öðru leyti hefur verið fjallað um annars staðar í blaðinu.”

Báðar þessar skoðanir eru réttar. Enginn blaðamaður má þó nálgast sögu á þann hátt, að hún sé rútína eins og allar aðrar sögur. William Buchanan hjá Boston Globe segir: “Ég þarf að finna eitthvað, sem hinn látni getur verið stoltur af.”

Minnislisti um minningarorð:
1) Nafn, aldur, starf, heimilisfang.
2) Tími, staður og orsök andláts.
3) Fæðingardagur og staður.
4) Nánustu ættingjar.
5) Félög, þjónusta.
6) Jarðarför.
7) Störf og árangur.
8) Aðild að áhugafélögum.
9) Örsögur og minni vina og ættingja

Heimildir: Auglýsingar, jarðarfararstofur, prestar.
Með því að tala um ýmsa, yfirmanninn, starfsbræður, skólafélaga, nemendur, viðskiptavini, er hægt að finna gullmola í minningarorð.

Pete Hamill hjá AP skrifaði um Frank Sinatra: “Hann var hin upprunalega hetja hins vinnandi manns. Aðdáendur Mick Jagger keyptu plötur hans af vasapeningunum, en aðdáendur Sinatra keyptu plötur hans af kaupinu sínu.”

William B. Ketter: “Of oft eru græningjar látnir sjá um minningarorð, nemendur í starfsþjálfun. Það er það fyrsta, sem nýr blaðamaður tekur að sér. Samt er ekkert mikilvægara fyrir traust blaðsins en nákvæmni og næmi í minningarorðum.

Ein af ástæðum þess, að byrjendur eru oft látnir í minningarorð, er, að þar læra þeir að fara nákvæmlega rétt með nöfn og tímasetningar í tímahraki. Fólk er alltaf að deyja rétt fyrir lokun.

Joseph L. Galloway hjá U.S. News & World Report sagði: “Minningarorð eru sennilega lesin af fleirum af meiri athygli en annað efni blaða. Hvergi taka menn betur eftir mistökum. Góður blaðamaður skrifar þetta varlega og nákvæmt.”

NYT: “Ronald Wilson Reagan, áður filmstjarna, sem varð 40. forseti Bandaríkjanna, sá elsti, sem þangað kom, en geislandi af unglegri bjartsýni með rótum í liðnum tíma, dó í gær heima hjá sér í Los Angeles, 93 ára að aldri.”

NYT gróf upp texta úr gömlu viðtali: “Ég hef ekki mikið að segja venjulegum blaðamanni, sagði Perry Como einu sinni. Ég hef ekki gert neitt spennandi. Ég var rakari. Síðan hef ég verið söngvari. Það er allt og sumt.”

NYT um Milt Sosin fréttamann: “Á þessum tímum fyrir öld gemsans, þegar blaðamenn flýttu sér í peningasímana, kom Sosin með blokk af miðum, sem á stóð “bilaður” og límdi einn miðann á einn símann, áður en hann fór inn í dómsalinn.”

NYT: “Selma Koch, kaupmaður á Manhattan, sem varð landsfræg á því að hjálpa konum við að finna rétta stærð á brjóstahöldurum, aðallega með augnaráði og aldrei með málbandi, dó á fimmtudaginn á sjúkrahúsinu Mount Sinai. Hún var 95 ára og 34B.”

Of margar minningargreinar eru eins og innihaldslýsing á pakkavöru. Þar er allt talið upp, en engin hugmynd gefin um bragðið af matnum. Blaðamaðurinn þarf að grafa upp öll smáatriðin og segja svo, hvernig persónan var.

Ekki birt: Red Skelton horfði á þá, sem fylgdu Louis B. Mayer til grafar og sagði: “Þetta sýnir, að menn mæta, ef þeir fá það, sem þeir vilja.” Þegar Georges Pompidou dó 1974 sagði Richard Nixon: “Þetta er stór stund í sögu Frakklands.”

Lítil dagblöð í Bandaríkjunum birta oft minningarorð um alla, sem deyja. Í stærri borgum, þar sem 50 eða fleiri deyja á dag, birta blöðin slatta, kannski 5 greinar. Register Star lætur ættingja borga fyrir minningargreinar, sem þeir senda blaðinu.

Það er eins mikið drama í lífi konu, sem ól upp þrjú börn og menntaði sig líka, eins og í lífi manns, sem rak fyrirtæki í 35 ár. Hún á alveg eins mikið skilið og hann að fá um sig minningarorð. Er einhver, sem man eftir henni í skóla?

Howell: Of mörg stórborgarblöð birta aðeins minningarorð um stjórnmálamenn og forstjóra. Það er vitlaust. Þessi blöð muna ekki eftir konunni, sem kom á hverjum degi að gefa öndunum brauð, eða apótekaranum, sem gaf hollræði í hálfa öld.”

Deborah Howell hjá St. Paul Pioneer Press: “Hinn látni á að lifa í greininni. Hún á að minna ættingja og vini á, hvers vegna hann var svo mikilvægur. Of oft birta blaðamenn aðeins grundvallarstaðreyndir, menntun, hjónaband, starf, stríðsorður.”

Margir fjölmiðlar hafa tilbúin minningarorð. AP er með 700 á lager. Flest blöð eru með tilbúnar greinar um helstu mikilmenni á útbreiðslusvæði blaðsins.

Á að sleppa neikvæðum eða viðkvæmum atriðum? Um það verður að fylgja reglum blaðsins. New York Times sleppir ekki slíku: “Bryan barðist gegn jafrétti kynþátta”. “Jerry Garcia dó á meðferðarstofnun fyrir eiturlyfjasjúklinga.”

Slík atriði eru kunn þeim, sem til þekkja. Hafi hins vegar einhver framið afbrot í æsku, en síðan lifað flekklausu lífi í 30 ár, má sleppa afbrotinu í greininni.
Sjálfsmorð eru höndluð að hætti blaðsins, flest þeirra segja frá sjálfsmorðum.

Nokkur dagblöð hafa sérfræðinga í minningarorðum. Alden Whitman skrifaði um, hvernig Mies van der Rohe bjó í gamaldags íbúð, hvernig André Malraux keðjureykti sígarettur. Minningarorð eru saga út af fyrir sig eins og aðrar fréttir blaðs.

Allt í lífinu er fréttnæmt, líka minningarorð. Það er hlutverk blaðamannsins að finna út, hvað það er.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé