Sleppum fortíðinni

Framtíð
Sleppum fortíðinni

Ralph Gage:
Við ákváðum árið 2000 að sameina dagblaðið og kapalkerfið og láta blaðamenn beggja miðla sitja hlið við hlið, þar sem einnig eru blaðamenn vefmiðilsins. Við lærðum af því, sem áður var búið að gera í Chicago, Orlando og Tampa.

Fréttamenn voru hikandi í byrjun. Við fórum framhjá PCMac vanda stýrikerfa með því að setja upp netkerfi verkefnalista. Það gerði öllum kleift að nota sama stýrikerfið, veraldarvefinn. Árið 2001 varð sameiginleg fréttastofa að veruleika.

Ef prentmenn voru ekki sáttir við að koma fram í sjónvarpinu, voru þeir ekki þvingaðir. Sjónvarpsfólk var ekki þvingað til að skrifa í blaðið. En þjálfun á staðnum gerði okkur kleift að samþætta verk margra blaðamanna í framsetningu í formi margmiðlunar.

Á þessum fimm árum hafa forustuhæfileikar þróast. Aðild blaðamanna og ritstjóra að margmiðlun hefur aukist. Mat okkur á hæfileikum og gagnsemi starfsmanna byggist á aðlögun þeirra að breytingunni.

Þrjú þrep á leiðinni:
1. Grunnurinn lagður. Hvatt var til samstarfs, en ekki þvingað. Menn gátu valið sig sjálfir, ef þeir höfðu áhuga á margmiðlun.
2. Minni handvirk stjórn, meiri lífræn samþætting. Margmiðlun spratt fram úr daglegum störfum.

3. Ráðinn var framkvæmdastjóri sem afmarkaði valdið. Ritstjóri margmiðlunar getur núna tekið ákvarðanir, sem ná til allra fjölmiðla samstarfsins. Hann þarf ekki lengur að hvetja, hann ræður, skipar fyrir. Hann ákveður, hvað hentar best hverjum fjölmiðli.

Samþætting er ekki auðveld eða einföld. Daglega þarf að minna á trúnað við hana. Við sækjumst eftir aðlögunarhæfni hjá nýju fólki. Þeir, sem fyrst laga sig að nýjum aðstæðum, taka við forustuhlutverki. Margmiðlunarfólki er betur borgað en hinum.

Ef til vill förum við að reiða okkur meira á frílansara. Borgaraleg blaðamennska hefur sínu hlutverki að gegna. Við bjóðum almenningi þjálfun í blaðamennsku, siðfræði og verklagsreglum fagmanna.

Við erum að þróa hugbúnað ritstjórnarefnis. Með honum náum við betur til frílansara og gerum samborgurum okkar kleift að komast í nánara samtal við okkur með athugasemdum, bloggi, netfundum og skjaladreifingu. Þetta er ekki lengur einstefnugata.

Philip Meyer:
Enn er hægt að bjarga blaðamennsku, kannski þó ekki eins og við þekktum hana. Í fjóra áratugi hafa dagblöð reynt að verjast hnignun. Allar tilraunir hafa mistekist. Þetta voru ekki róttækar tilraunir, heldur ónógar lagfæringar hér og þar.

Útgáfufyrirtæki þurfa að huga að þörfum neytenda og vinna afurðir sínar út frá því. Fólk kaupir í raun ekki vörur, heldur leigir sér þær til að ná sértækum árangri. Menn kaupa ekki bor, menn kaupa holur og helst vilja þeir fá þær lánaðar hjá nágrannanum.

Þessi hugsunarháttur leiðir til þröngvarps á prenti eða vef. Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa sértækir fjölmiðlar verið að þenjast út á kostnað altækra fjölmiðla. Ef við yfirfærum ekki gamla gæðastaðla á nýja tækni, getum við verið hóflega bjartsýn.

Hefðbundið hlutverk dagblaða er að hjálpa notandanum til að skipuleggja tíma sinn. Það getur dagblaðið, af því að það er í senn fróðlegt og skemmtilegt. Það verður að vera nógu skemmtilegt til að keppa við alla aðra tækni, sem skipuleggur tíma fólks.

Óvönduð eru fríblöðin, sem fólk tekur á samgöngumiðstöðvum. En þau koma fólki að gagni, því að annars þyrfti það að horfa aðgerðarlaust út um gluggann á lestinni eða strætisvagninum. Við þær aðstæður eru fríblöð áhugaverður kostur fyrir fólk.

Daglegt hlutverk fjölmiðla er að fylgjast með atburðum og segja afar lauslega frá þeim, þegar eitthvað mikilvægt gerist. Við þær aðstæður á notandinn auðvelt með að sækja sér ítarlegri upplýsingar eftir sínum þörfum. Daglega hlutverkið er að “vera nógu gott”.

Fólk kærir sig ekki um frábæra fréttaþjónustu. Það vill “nógu góða fréttaþjónustu”. Til dæmis þegar fólki leiðist í strætó. Þegar ný tækni kemur, t.d. vefurinn, á hann í upphafi bara að reyna að vera “nógu góður”. Síðar getur hann batnað, ef tilefni gefast.

Fagmenn vanmeta fréttaflutning borgaranna sjálfra. Þeir segja hann vera lélegan. En hann getur batnað með tímanum. Borgarar eru farnir að fá þjálfun í ritstjórn og sannreynslu að hætti fagfólks.

Fjölmiðlar eru ekki almáttugir. Áhrifin dreifast frá þeim til álitsgjafa og þaðan sáldrast þau út til almennings. Nýju miðlarnir færa þessu ferli þrjú þrep. Fyrst kemur bloggari með hugmynd, sem næst er tekin upp af traustvekjandi fagmönnum og dreifist loks um allt.

Craig Newmark:
Craigslist, samfélag á vefnum um upplýsingar, þjónustu, gerðir og hugmyndir. Fólk hjálpar þar hvert öðru við þarfir, finnur húsnæði eða starf. Frá öðru sjónarhorni má líta á listann sem smáauglýsingar. Við stjórnum litlu og erum ekki fyrir.

Vondir kallar eru til og koma stundum í ljós á vefsvæði okkar. Þeir eru örlítill, en hávaðasamur minnihluti. Þeir auglýsa og blekkja. Árið 2004 urðum við vör við róg um stjórnmálamenn, stundum undir fölsku flaggi. Þetta getur rýrt traustið á vefsvæðum.

Traust er grundvöllur vefsvæðis. Notendur þurfa að geta treyst því. Sanngirni er mikilvægari en hlutlægni.
Fréttir eru því miður ákveðnar af hóphyggju ritstjóra, sem ákveða, hvað sé frétt og hvað sé rugl úr rugludöllum.

Borgaraleg blaðamennska á vefnum tekur of oft ekki tillit til hefða blaðamennsku í siðfræði, stöðlum og færni. Sannreynsla fer ekki fram fyrr en búið er að birta greinina eða fer alls ekki fram. Athyglisverðir vefir vinna gegn þessu, t.d. Congresspedia.

* Jay Rosen leitar að nýju mynstri samstarfs í rannsóknablaðamennsku á NewAssignment.net.
* Jeff Jarvis hefur byggt upp nýja gerð fréttasafnara á Daylife.com.
* Dan Gillmor rekur Center for Citizen Media, sem fjallar um stöðuna á blaðamennsku borgara.

Við hugsum alltaf um, hverjum og hverju við eigum að treysta og viljum vita, hvernig upplýsingar eru sannreyndar. Vefsvæði þurfa að afla sér trausts á grundvelli fenginnar reynslu.

Gary Kebbel:
Getur hlutverk dagblaða í samfélaginu endurspeglast í nýmiðlum og í sjóðum, sem styðja þá, sem kunna nýmiðlun?
Rýrnar samfélagið við, að notendur hefðbundinna fjölmiðla færa sig yfir á nýmiðla, sem hafa ótraustara hlutverk í samfélaginu?

Við horfðum aftur á bak og spurðum, hvort hin stafræna veröld sé notuð til að sannreyna blaðamennsku og byggja samfélag. Færa fréttir á vefnum fólk saman í rými og hjálpa þær fólki, þar sem það lifir og starfar?

Dagblöð og sjónvarpsnet tapa áskrifendum og auglýsingatekjum til fyrirtækja á vefnum, sem ekki hafa beinagrind blaðamennskunnar, eru ekki ræktuð í siðfræði hennar og telja sig ekki hafa skuldbindingar við samfélagið.

Í samdrættinum taka menn trú á vefinn. Þeir skilja, að framtíð blaðamennsku felst ekki í prentvélum. En þeir vita ekki enn, hvort pláss er á vefnum fyrir þá, sem trúa á borgaralegar skyldur blaðamennskunnar.

Hæfni á vefnum er önnur en hæfni í prentmiðlum. Sögur í vefmiðlum eru ekki línulaga, þær eru netlaga, beita margmiðlun og lifa í núinu. Samt leita þær eftir nákvæmni, dýpt og innsæi.

Dagblað, sem byggist á blaðamönnum og hliðvörðum, lagar sig ekki létt að borgaralegri blaðamennsku og bloggi. Blaðamenn hætta að vera hliðverðir og verða leiðbeinendur upplýsinga, þegar fólk á dreifðu svæði leitar frétta, sem það þarf á að halda.

Steve Yelvington:
Bréf til blaðsins eru með nafni höfundar og í fréttum er heimilda getið í flestum tilvikum. Svo þegar blöð fara á vefinn, eru menn komnir í samræður við fólk, sem heitir “Mad Hatter” eða “Salty Dog”. Hver er siðfræði þessarar breytingar?

Venja nafnleysis hafði áður fest rætur á vefnum. Fréttahópar frumbýlingsáranna vöndust á nafnleysi. Slíku er erfitt að breyta núna. Hverju þjónar nafnbirting, hvern skaðar hún? Stundum er nafnleysi eða nafnbirting æskileg.

Miðaldra hommi í suðurríkjunum getur tekið þátt í umræðu um samkynhneigð, af því að hann er nafnlaus. Að öðrum kosti yrði hann rekinn úr starfi. Annar gagnrýnir skóla, þar sem maki hans er í skólanefnd. Hann þarf líka verndun nafnleysis.

Ritstjóri vefsvæðis þarf að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni á og áhættu af nafnlausum skrifum. Eigendur vefsvæða vilja vísa ábyrgð frá sér, en við vitum ekki, hvernig dómstólar meta stöðuna. Bandarískir dómstólar gera ráð fyrir rétti til nafnleysis skoðana.

Dagblöð á vefnum þurfa að spyrja sig: Hvers vegna erum við með samræður á vefnum? Hver eru markmið þess? Ritstjórar slíks efnis þurfa að geta sagt annað en: Af því bara.

Með kröfu dagblaða um nöfn er skrúfað fyrir sumar skoðanir. Slíkar raddir heyrast nú á vefnum. Menn þurfa ekki lengur að komast á síður dagblaða. Eru lesendasíður orðnar úreltar? Eiga skoðanir almennt að flytjast á vefinn?

Fimm aðferðir:
* Raunveruleg, sannreynd nöfn, þarfnast krítarkortameðferðar.
* Raunveruleg nöfn, ekki sannreynd (Jón Jónsson). Flest nöfn á vefsvæðum eru slík.
* Gervinöfn, þar sem blaðið eitt þekkir réttu nöfnin (Svarthöfði).
* Gervinöfn með fullri nafnleynd.
* Galopin kerfi, þú notar hvaða nafn, sem þér dettur í hug. Aðhald jafningja getur dregið úr skaða af völdum illyrtra misnotenda.

Engin ein leið er algerlega rétt. Millileiðir geta verið heppilegar.
Sjá nánar: Nieman Report, Goodbye Gutenberg, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé