Sjónvarpsvinnsla

Blaðamennska
Sjónvarpsvinnsla

Framleiðendur, skrifendur, blaðamenn og fréttastjórar sitja á fréttastofunni, deila út verkefnum og hafa mikið um að segja, hvað fer í loftið. Þeir fjalla um fleiri mál en hinir, sem eru í útköllum, og eru áhrifameiri í bransanum.

Þessir aðilar taka viðtöl á staðnum, velja skurð í myndvinnslu og eru þulir með myndskeiðum. Framleiðendur velja myndbönd og ritstjórar setja fréttir saman í heildstæðan pakka. Framleiðendur velja efni úr aðkeyptum pökkum.

Svo eru akkerin eða fréttaþulirnir í útvarpi og sjónvarpi, sem taka þátt í að velja, skrifa og raða saman fréttatímum og eru þar þulir. Allir þessir aðilar taka þátt í fréttamati og eru eins mikilvægir og blaðamenn úti á vettvangi.

Síminn er mikilvægasta tæki blaðamannsins, sérstaklega í útvarpi, þar sem viðtal er aðeins í sjö tölustafa fjarlægð. Meira af útvarpsfréttum kemur um símann heldur en af vettvangi. Meira að segja vettvangsmenn eru mikið í símanum.

Notkun símans er fag út af fyrir sig. Það er ekki gefið, að viðtalsefni komi með góða hljóðbita í símtali eða aðrar góðar upplýsingar. Erfitt er að finna fólk, sem hefur séð atburð og getur líka tjáð sig. Menn verða að vita, hvar skal leita.

Vitni að atburði má finna í símaskránni á vefnum, þar sem leita má eftir götunúmerum að nágrönnum atburðarins. Þegar uppreisnin var í Manila 1989, hringdi AP í fólk eftir götum og náði í enskumælandi mann, sem sá atburðina út um glugga.

Fyrst með faxinu og enn frekar með tölvupóstinum fór að berast inn skæðadrífa af fréttatilkynningum. Þær má nota, en ekki setja í loftið. Aldrei má skrifa sögu, sem byggist eingöngu á fréttatilkynningu. Hún er einhliða, hlutdrægt gagn.

Of margar útvarps og sjónvarpsfréttir byrja og enda með öðru sjónarmiðinu í umdeildu máli. Ef þú ert með fréttatilkynningu í höndunum, þarftu að hringja í þá, sem sjá aðrar hliðar á málinu, til að fá fullnægjandi mynd af málinu.

Sérstaka gætni þarf við að umgangast vefinn. Við verðum að vita, hver á vefinn og hver setur þar inn upplýsingar. Við þurfum að geta metið, hvort óhætt sé að treysta slóðinni og við þurfum að vísa til hennar í fréttinni sem heimildar.

Róttækir einstaklingar af ýmsu tagi stofna gervifélög með traustvekjandi heiti og gera fullyrðingar sínar gjaldgengar sem óhlutdrægar. Sumir birta kannanir, sem við vitum ekki, hvernig eru gerðar eða hvort þær hafa verið gerðar.

Tölvupóstur er þægilegur. En margir geta falið sig bak við netfang. Notaðu því tölvupóst aðeins þegar nauðsyn krefur og segðu notendum frá því, að þessar upplýsingar hafi komið í tölvupósti.

Fréttastofufréttir eru mikið notaðar erlendis. Þær koma inn sjálfkrafa og flokkast sjálfkrafa, þegar þær koma. AP sendir sex milljón orð á dag. Það er auðvelt að drukkna í þessu flóði. Menn þurfa reynslu til að átta sig fljótt.

Fréttir frá AP eru í dagblaðastíl. Þær eru sögur með ótal smáatriðum og alls konar beinum tilvitnunum. Inngangur slíkra frétta er yfirleitt með efni, sem líklegt er að verði í fyrirsögnum dagblaða næsta morgun.

Þetta hentar ekki beint í ljósvakamiðil, sem birtir fréttina samdægurs. Þar er skipt um inngang og sett inn nýjasta vendingin í viðkomandi máli. Þessi vending skiptir ekki miklu máli í blaði morgundagsins, en skiptir ljósvakann máli núna.

Dagblað segir fréttir gærdagsins í þátíð og hefur yfirsýn yfir allan gærdaginn í senn. Ljósvakamiðill segir fréttir líðandi stundar í nútíð og hefur fókusinn tiltölulega þröngan á því, sem er nýjast eða mest spennandi hverju sinni.

Sumir ljósvakamenn falla í þá gryfju að nota dagblaðastílinn óbreyttan, skipta bara úr þátíð og nútíð og færa nafn hins tilvitnaða fram fyrir tilvitnunina. Betra er að lesa dagblaðafréttina, leggja hana til hliðar og skrifa upp á nýtt.

Takmark þitt er að upplýsa. Þú verður að hafa staðreyndirnar í lagi. Hlutlægni felst í að hafa nákvæmlega endurspeglað hin ýmsu sjónarmið á sögu og látið notendum eftir að draga af því ályktanir. Þú þarft líka að skilja eðli miðilsins.

Útvarp: Styrkleiki þess felst í hraða þess, rauntímanum.
Sjónvarp:
1) Sögur með myndskeiði
2) Sögur til upplestrar, svipaðar útvarpi.

Fréttir eru oftar sagðar en áður. Sumar stöðvar segja fréttir á klukkutíma fresti, sumar segja fréttir í sífellu. Í öllum tilvikum ljósvakans eru sögurnar færri og styttri en í prentmiðlum og koma ekki í staðinn fyrir prentsögur.

Miðlarnir bæta hver annan upp. Ljósvakinn hefur tíðnina, rauntímann, skúbbin, tilfinningarnar. Prentmiðillinn hefur smáatriðin, bakgrunninn og dýptina. Hver miðill þarf sínar sérstöku aðferðir í skrifum.

Texti í útvarpi og sjónvarpi er skrifaður fyrir eyrað. Hver saga þarf að vera skiljanleg í fyrstu atrennu. Gerð sögunnar þarf að vera einföld. Hver málsgrein þarf að fljóta eðlilega inn í aðra. Eins og persóna mundi hugsa söguna gerast.

Málsgreinar eiga að vera stuttar. Hver þeirra á aðeins að segja einn punkt. Ef málið er svo flókið, að málsgreinar verða lengri en venjulega, eiga þær að klippast niður í auðmeltanlegar málsgreinar.

Sögur nota myndir úr daglegu lífi. Allir bera í huga sér minningar um það, sem þeir hafa séð og fundið til. Bestu sögurnar nota þessar myndir til að sýna eðli atburðar. Galdurinn við það er að nota ekki klisjur sem verkfæri til þess.

Stíllinn er samræða. Við notum orðalag venjulegra samræðna. Við notum þó ekki slangur nema í sérstökum tilvikum, né heldur ranga málfræði. Fréttirnar eru skrifaðar á eðlilegu og auðskiljanlegu talmáli, sem skilst í einni umferð.

Allar fullyrðingar í sögunni eru í beinni eða óbeinni tilvitnun, nema blaðamaðurinn hafi séð það sjálfur. Tilvitnanir eiga að vera ofarlega í sögunni. Fyrst kemur nafnið og svo kemur tilvitnunin, öfugt við röðina í prentmiðlum.

Við skrifum í nútíð, sérstaklega í inngangi. Núliðin tíð er betri en þátíð. Við skrifum um það, sem er að gerast eða hefur gerst, en dagblöðin skrifa um það, sem gerðist í gær. Við skrifum: Jón er í Reykjavík. Jón hefur farið suður.

Augljós efni í sögur eru stórslys af völdum manna og náttúru, stríð og friður, þjóðmál og alþjóðamál, glæpir og refsing, peningar og lífsstíll, umhverfi og mengun, spilling og hneyksli, vísindi og heilbrigði.

Fólk vill líka tala um hluti, sem það hefur áhuga á, þótt þeir snúist ekki um líf og dauða. Þetta eru sögur, sem fólk talar um við kaffivélina. Þær snúast um frægt fólk, svo sem í sporti og skemmtibransanum, en líka um skemmti- og furðusögur.

Erfiðara er að skilgreina sögur, sem fólk ætti að tala um. Þar er fjallað um ferli, sem mun hafa áhrif á líf okkar síðar, hagþróun, sumartísku, málaferli. Þitt hlutverk er að útskýra, af hveru þetta séu mikilvæg mál.

Fólk opnar ekki fyrir útvarp eða sjónvarp til að komast að, hvað gerðist í síðustu viku. Það opnar til að komast að, hvað sé að gerast núna. Því yngri sem sagan er, þeim mun betri er hún. Hvað gerðist og hvenær eru mikilvægustu atriðin.

Einnig þarf að hafa í huga í fréttaskrifum, að fréttatímar þjóna misjöfnu hlutverki. Morgunfrétt í sjónvarpi er annað en kvöldfrétt. Fréttaútvarp á annatíma umferðar á morgnana eru annað en hádegisfréttir.

Oftast vilja menn vita, hvað er að gerast núna. Stundum vilja þeir vita, hvað gerðist í nótt, þegar þeir sváfu. Stundum vilja þeir vita, hvað gerðist, þegar þeir voru í vinnunni. Þessir þarfir koma með misjöfnum þunga yfir daginn.

Frægðarfólk skiptir meira máli en óþekkt. Ef Eiður Smári lendir í bílslysi, er það meiri frétt, en þegar Smári Eiður lendir í slíku. Gætið ykkar, almannatenglar reyna að beita frægðarfólki til að vekja athygli á málefni, vöru eða þjónustu.

Sumar sögur gerast ekki bara einu sinni, heldur rísa og hníga í öldum. Allir, sem skrifa fréttir eða stýra þeim verða að fylgjast með. Þú verður að þekkja alla sögu máls til að sjá, hverning ný vending í því fellur að fréttaþörfum dagsins.

Væntingar notenda skipta máli. Ef Bandaríkin og Íran semja um kjarnorkumál, er það frétt, af því að hún kemur á óvart. Ef þau deila hins vegar um slík mál, kemur það engum á óvart og fréttagildið er þeim mun minna.

Hverja sögu þarf að skoða í samhengi fréttanna í heild. Stór frétt lyftir upp litlum fréttum á skyldu sviði. Daginn, sem hryðjuverk er framið í flugvél, verður frétt um nýtt málmleitartæki á flugvöllum meiri frétt en hún væri ella.

Notendur ljósvakamiðla eru ekki óbreytanlegir. Kynslóðir koma og fara, skoðanir koma og fara, tíska kemur og fer. Blaðamenn þurfa að átta sig á þessum breytingum og geta lagað sögur sínar að breyttum aðstæðum í samfélaginu.

Inngangur fréttar stýrir gerð hennar. Eftir því sem inngangurinn breytist, þá breytist gerðin líka. Þú byrjar á því nýjasta eða mikilvægasta, en þú skilur ekki eftir áður sagðar upplýsingar, sem enn skipta máli. Inngangurinn stýrir þessu.

Sjá nánar:
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé