Sjónvarpstexti

Blaðamennska
Sjónvarpstexti

Það jafnast ekkert á við góða sögu. Að vera blaðamaður er að vera sögumaður. Í ljósvakanum þarf að raða upp orðum á þann hátt, að auðvelt sé að hlusta. Um það snúast skrif fyrir útvarp og sjónvarp. Og útvarp og sjónvarp snúast um skrif.

Skrif þín ákveða, í hvað röð staðreyndirnar eru settar fram, hvernig sagan slær notendur, hvernig hún skilur hugarástand atburðarins og mikilvægi málsins. Mestu máli skiptir, að skrifin ákveða, að hversu miklu leyti notendur skilja atburðinn.

Velbúnaður hefur hrifið okkur svo mjög, að okkur finnst stundum mynd og hljóð vera mikilvægari en orðin, sem við notum til að skýra mynd og hljóð. Þótt okkur takist að dreifa mynd og hljóði, höfum við glatað listinni að búa til skilning.

Fréttaskrif fyrir ljósvakann eru sérstök tegund af stíl, þar sem reglurnar eru lagaðar að þörfum miðlanna. Málfræði og stafsetning ljósvakans er að vísu hefðbundin, en greinarmerki eru notuð til að auðvelda þulum að anda.

Skrif fyrir ljósvakann hafa ýmsar reglur til að tryggja skilning notandans. Þær fjalla meðal annars um, hvernig skuli vitna í fólk, hvernig skuli vísa til málsaðila og hvernig skuli kynna hljóð og myndband.

Stafsetning og greinarmerki eru auðveld, en erfitt er að ná kjarna sögu og koma honum til skila. Skrifin tala eins og fólk vill hlusta. Allir í ljósvakanum þurfa að átta sig á, hvernig fólk talar. Nota almennar myndir án þess að nota klisjur.

“Skakki turninn í Písa hallast á Touchy Avenue. Ég veit ekki af hverju, en hann er þar, sýnistaður á leiðinni niður Touchy Avenue. Aðeins norðar, í Milwaukee, er kínversk pagóða sem benzínstöð. Í Florída ferðu um kjaft allígators inn í …”

Þetta var eitt af nokkrum dæmum í bókinni um stíl í ljósvakamiðlum. Öll eiga þau að sýna, hvernig sögur eru sagðar á einfaldan og skýran hátt með miklum slagkrafti. Þær gera það, af því að þær skilja, hvernig fólk talar og hugsar.

Einu sinni var allt einfalt. Þá var útvarp hér og sjónvarp þar. Annar miðillinn hafði mynd og hinn ekki. Nú er allt breytt. Kominn er kapall, stafrænt sjónvarp, sértækt útvarp og veraldarvefur. Skilgreining ljósvakamiðla hefur breyst.

Ljósvakamiðlar og prentmiðlar mætast á veraldarvefnum. Sjónvarpið er farið að skilja hljóð og útvarpið er farið að skilja mynd, báðir þessir miðlar eru farnir að skilja orð. Ljósvakinn þarf allt í einu starfsfólk, sem skilur veraldarvefinn.

Fréttastofur allra tegunda fjölmiðlunar þurfa nú að hafa fólk, sem skilur einnig aðrar tegundir fjölmiðla. Starfsfólk prentmiðla þarf að skilja bita, hljóðbita og myndbita og starfsfólk ljósvakamiðla þarf að skilja orð og ljósmyndir.

Skilafrestir og eindagar hafa breyst. Prentmiðlar og ljósvakamiðlar hafa eindaga í núinu eins og útvarp gömlu daganna. Sívakandi fréttastöð hefur þennan sama skilafrest og eindaga, ekki bara núna, heldur nú. Í loftið með það strax.

Nú þurfa fjölmiðlar starfsfólk, sem
1) skilur mikilvægi myndskeiða sjónvarps,
2) getur sagt sögu af dýpt og nákvæmni prentmiðla og
3) notar skilafresti og eindaga útvarps.

Útvarpið er elsti miðill rauntímans. Útvarpið ríkir í bílnum, þar sem ökumenn geta ekki horft á sjónvarp eða lesið blöðin. Á morgnana notar fólk útvarpið í bílnum til að fá snöggar fréttir af veðri, umferð, úrslitum og atburðum.

Útvarp er að mestu framleitt á staðnum. Með eignafléttingu margra stöðva hefur komið sértækt útvarp með samnýtingu gæða. En miðillinn er enn rekinn með hljóðbitum, eðlishljóðum atburða og hljóðvakapersónuleika þular eða akkeris.

Flestir Bandaríkjamenn fá fréttir sínar úr sjónvarpi, en hlutfallið lækkar. Áhorf staðbundinna frétta hefur minnkað úr 64% árið 1998 niður í 56% árið 2000 og áhorf frétta keðjustöðva hefur minnkað úr 38% árið 1998 niður í 30% árið 2000.

Þrátt fyrir minnkandi áhorf hefur aukist framleiðsla staðbundinna myndskeiða fyrir fréttir og meira er um staðbundið fréttaefni á morgnana og um helgar. Aukist hafa óskir um myndskeið, fréttahugmyndir og fjölbreytta meðferð frétta.

Myndskeiðin einkenna sjónvarp. Dæmi um það eru tónlistarmyndböndin, sem bjóða stutta hljóðbita, hraða klippingu og grafískt áhugaverða framsetningu. Myndskeið í rauntíma eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr, oft 23 á hverjum hálftíma.

Tilfærsla hefur orðið í áhorfi frá hefðbundnu sjónvarpi yfir í fréttastöðvar á kapli, áhorf frétta í hefðbundnu sjónvarpi hefur minnkað niður í 51% meðan áhorf frétta á kapli hefur haldist stöðugt í 61%.

Áhorf hefur klofnað í Bandaríkjunum, markaðurinn hefur brotnað upp. Venjulegt heimili hefur 60 sjónvarpsrásir og notar tólf af þeim. Vandinn er sá, að hver áhorfandi fyrir sig notar ekki sömu tólf rásirnar.

Stafrænt sjónvarp er bylting. Nú er hægt að senda hljóð og mynd stafrænt eins og texta. Allar tegundir miðla eru orðnar gagnvirkar. Línurnar milli sjónvarps, útvarps og prents hafa dofnað á internetinu, einkum á veraldarvefnum.

Búa þarf til söguna fyrir alls konar form til að gefa notendum kost á vali. Sumpart er netið eins og prent, notar texta. Sumpart er það eins og útvarp, notar rauntíma. Sumpart er það eins og sjónvarp, notar myndskeið.

Blaðamaður nútímans þarf að hafa víða sýn. Til viðbótar er komin lófatölva og farsími með þráðlausri tengingu við netið. Þegar bandvídd þessara miðla vex, verður þar meiri krafa um hljóð og myndskeið.

Internetið er afturhvarf til prentmiðlunar, þar sem notkunin er ekki línulaga. Blaðamenn útvarps og sjónvarps eru þjálfaðir í línulaga miðlun, svo að aukast munu áhrif frá blaðamönnum, sem eru vanir notkun fram og aftur, út og suður.

Næstum allar heimaslóðir á vefnum bjóða leit og sumar bjóða leit í safni. Til að gera þá leit markvissa, þarf að skrá hljóðbita á skynsamlegan hátt. Safn og leit eru aðferðir við að halda tryggð fólks við fjölmiðla, sem bjóða slíkt.

Með veraldarvefnum er allt orðið ódýrt. Allir geta sett upp heimaslóð og þurfa ekki að segja til sín. Þeir geta þóst vera aðrir en þeir eru. Þeir geta klippt hugverk annarra og límt á sína slóð. Þeir geta þóst vera blaðamenn.

Stöðvar eru farnar að átta sig á þessu og verja hugverkarétt sinn. Blaðamenn þurfa að gæta sín, virða hugverk annarra. Sanngjörn notkun á efni annarra nær ekki svo langt, að nota megi efni annarra til að keppa við það efni.

Vinna blaðamannsins felst í að fylgjast með atburðum og segja fólki frá þeim. Margar skoðanir eru í þjóðfélaginu. Þess vegna þarf blaðamaðurinn að kunna að greina á milli staðreynda og skoðana. Hlutlægni er einkunnarorð blaðamannsins.

Associated Press var stofnað 1848, þegar blöðin voru flest pólitísk. Til þess að geta þjónað öllum þessum blöðum varð AP að vera hlutlæg fréttastofa, halda skoðunum frá fréttum.

Að vísu er sagt, að erfitt sé að vera fullkomlega hlutlægur. Blaðamenn ákveða, hvaða staðreyndir eigi að vera í sögum þeirra. Þeir hafa gildismat um, hvað sé fréttnæmt og hvað ekki. Þess vegna trufla skoðanir þeirra hlutlægni þeirra.

Blaðamaður er hlutdrægur, ef hann tekur með í söguna staðreyndir, sem styðja ákveðið sjónarmið og hafnar öðrum staðreyndum, sem styðja samkeppnissjónarmið. Blaðamaðurinn þarf að vera óhlutdrægur og nákvæmur.

Blaðamaður forðast hlutdrægni með því að hafa nákvæmni að leiðarljósi. Það þýðir, að allar fullyrðingar sögunnar þurfa að vera réttar. En það er ekki nóg. Almenn áhrif vals og röðunar staðreynda verða að endurspegla það, sem blaðamaðurinn sá.

Þetta er hægara sagt en gert. Blaðamenn hafa 30-35 sekúndur til umráða í útvarpi og 60-90 sekúndur í sjónvarpi. Svo takmarkaður er tíminn, að blaðamenn freistast til eins konar hraðritunar, segja frá túlkun sögunnar, ekki staðreyndum hennar.

Þar byrjar vandinn. Við eigum að segja: “Þar voru 20 vindstig og þriggja sentimetra rigning.” En segjum: “Það var stormur.” Það getur verið rétt túlkun, en er það ekki endilega. Legðu ekki í vana þinn að túlka sögu á þann hátt.

Þitt hlutverk er að raða upp staðreyndum, hlutverk notandans er að túlka þær. Ef hvellur heyrðist, þegar páfinn fór um mannþröngina, geturðu sagt, að hvellur hafi heyrst, ekki að hleypt hafi verið af skoti eða ráðist hafi verið á páfann.

Þér ber að trúa því einu, sem þú sérð sjálfur og ekki að hlaupa að neinni túlkun eða niðurstöðu. Efahyggja er nauðsynleg hverjum blaðamanni. Að baki sérhverrar yfirlýsingar embættismanns er ósagður hlutur, sem blaðamaður þarf að skilja.

Henry Kissinger: “Embættismenn leita að blaðamanni til að koma á framfæri málum sínum, til að jafna um einhvern eða til að stöðva ferli, sem er þeim er andsnúið. Hver sem er tilgangur embættismannsins, þá getur hann ekki verið óhlutdrægur.”

Efahyggja er góð, en tortryggni er skaðleg. Efahyggjumaðurinn efast um allt, en hinn tortryggni telur alla hafa sjálfselsku að tilgangi. Blaðamaður er kominn á hálan ís, þegar eðlileg efahyggja hefur magnast upp í sjúklega tortryggni.

Sjá nánar: Brad Kalbfeld:
Assoicated Press Broadcast News Handbook, 2001

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé