Sjónvarp I

Textastíll
Sjónvarp I

Ernest Hemingway: “Steffens, sjáðu þetta skeyti, engin fita, engin atviksorð, engin lýsingarorð, ekkert nema blóð og bein og vöðvar. Þetta er nýtt tungumál.

Ernest Hemingway var frábær fréttamaður. Hann skrifaði skáldsögur sínar í harðsoðnum fréttastíl. Í fréttamennsku lærði hann að fara sparlega með orð. Við skulum sjá, hvað hann segir í Gamla manninum og hafinu:

“Hann var gamall maður, sem fiskaði einn á báti í Mexikóflóa og hafði róið í 84 daga án þess að draga fisk. Fyrstu 40 dagana var drengurinn með honum. En eftir fisklausa 40 daga höfðu foreldrarnir sagt drengnum, að gamli maðurinn væri ógæfa, sem er verri en óheppni. Drengurinn hafði fyrir orð þeirra fært sig á annan bát, sem veiddi þrjá góða fiska í fyrstu vikunni. Það hryggði drenginn að sjá gamla manninn koma inn á hverjum degi. Hann fór alltaf og hjálpaði honum að bera kaðlana og rána og skutulinn og seglið, sem var vafið um mastrið. Seglið var bætt með hveitisekkjum og þegar það var þanið, leit það út eins og fáni samfellds ósigurs. Gamli maðurinn var magur og beinaber með djúpar hrukkur aftan á hálsi. Brúnir blettir góðkynjaðs húðkrabba af völdum endurkasts sólarinnar frá heitu hafinu voru á kinnum hans, láku niður andlitið. Og hendurnar voru með djúp ör af völdum fiskveiðanna. En örin voru gömul eins og rof í fiskilausri eyðimörk.”

Sögumenn fréttamennsku geta lært mikið af rithöfundum, eins og Hemingway lærði mikið af blaðamennsku. Allar sögur, hvort sem þær eru fréttir eða skáldsögur, þurfa að hafa innri gerð, rökrétta áætlun með upphafi, miðju og enda.

Gott er að vera þolinmóður, þangað til þú finnur rétta orðið. Mark Twain: “Munurinn á rétta orðinu og næstum rétta orðinu er munurinn á eldingu og eldflugu.”

Listin að skrifa sögur, fréttir eins og aðrar sögur, er að skera, skera, skera. Taktu út allt skrautið, sem þú ætlaðir að nota, taktu burt allt það sem truflar auðveldan lestur, og þú ert kominn með betri sögu. Sem sagt: Hafðu það einfalt.

Öflugur texti fyrir ljósvaka:
1) Einföld málsgrein með sagnorði í germynd.
2) Notar málvenju og myndmál talmáls.
3) Sameinar texta, hljóð og mynd.
4) Upplýsir, blindar ekki.

Næstum allt er skrifað niður. “Ad libbing” er sjaldgæft nú til dags. Endurritanir eru nauðsynlegar, líka endurritanir efnis annarra höfunda. Hæfni þarf til að skrifa undir álagi og standast tímasetningar.

Ljósvakamenn líta aðeins öðrum augum á málin en prentmenn. Lengd sögu í sjónvarpsfrétt er 2030 sekúndur, hámark 2 mínútur. Þess vegna eru þar notaðar sögur, sem aðeins henta útvarpi eða sjónvarpi.

Forðist atviksorð og önnur smáorð, notið sagnorð og nafnorð. Notið framsöguhátt, germynd. Notið stuttar setningar. Ljósvakafréttir þurfa að ná athyglinni í upphafi, segja þar ekki alla söguna. Fella þarf út upplýsingar til að koma frétt fyrir.

Ekki er notaður öfugur píramídi, heldur “leikræn eining”. Hápunktur, orsök, áhrif. Píramídann er hægt að klippa að neðan, en leikræna einingu ekki. Ljósvakafréttir þurfa að ná athyglinni í upphafi, segja þar ekki alla söguna.

Tólf ljósvakareglur:
1. Forðist skammstafanir. Notið aðeins þær allra algengustu, sem allir þekkja.
2. Forðist beinar tilvitnanir. Erfiðar í töluðu máli án gæsalappa.
3. Getið heimildarmanns á undan tilvitnun.
4. Notið lítið af greinarmerkjum. Þau trufla bara upplestur.
5. Sléttið tölur og vísitölur. Nákvæmar tölur henta ekki töluðu máli.
6. Persónugerið fréttirnar, svo að hlustandinn, áhorfandinn fái áhuga.
7. Forðist að nota tákn á leturborðum. Skrifaðu dollara og pund fullum stöfum.
8. Notið hljóðskrift fyrir erfið nöfn. Skrifið “kaRAkas” (Caracas) vegna áherslunnar.
9. Forðist fornöfn. Vertu viss um, að þau vísi rétt á nöfn.
10.Forðist innskotssetningar eftir mannanöfnum. Þær geta valdið misskilningi.
11.Notið nútíð sagna. Það færir fréttirnar nær líðandi stund.
12.Notið ekki aukasetningu í upphafi málsgreinar. Slíkt truflar notendur.

Sjónvarpsfréttir: Stuttar málsgreinar, kunnuglegt orðaval, skýr framsetning. Lengdin passar. Nútíð sagnorða. Persónuleg framsetning. Heimildarmanns getið framan við tilvitnun. Tölur notaðar sparlega og sléttaðar út.

Skrifaður texti er oft erfiðari en lesinn texti, af því að tóninn vantar. Finndu muninn: GETUR þú gert eitthvað; getur ÞÚ gert eitthvað; getur þú gert EITTHVAÐ?

Allar málsgreinar í ljósvakanum eiga að segja skýrt, hver sé að tala. Beinar og óbeinar tilvitnanir. Aðeins það, sem þú hefur sjálfur séð, er án beinnar eða óbeinnar tilvitnunar. Það gerir textann trúverðugan og eykur traustið á miðlinum.

Erfiðara er að ná góðu rennsli í texta, þegar tilvitnanir eru notaðar. En það er ekki ómögulegt. Það er ekki nóg, að rennslið sé gott og sagan góð, hún þarf að vera trúverðug. Frétt er sönn, hún er ekki getgáta, hún er ekki skoðun.

Þú tekur ekki orð heimildarmanns og gerir að þínum. Þú segir, að þessi ákveðni heimildarmaður hafi sagt það. Þú veist það ekki sjálfur, það er málið. Þú staðfestir orð hans með því að ná í aðra, óháða heimildarmenn, sem segja það sama.

Þetta er sérstaklega mikilvægt í glæpa og dómsmálum. Ef lögregla segir frá glæp, er nauðsynlegt að bera hana fyrir fullyrðingum. Ef hún segist hafa gómað þrjótinn, segir þú ekki, að hún hafi gert það, heldur hafi hún sagst hafa gert það.

Oft er nauðsynlegt að nota orðið “meintur”, þótt það sé stirt lýsingarorð. Ef einhver er talinn hafa verið myrtur, er munur á “morð” og “meint morð”. Ef einhver er ákærður fyrir það, er munur á “morðingi” og “meintur morðingi”.

Þegar orðið “meintur” er notað, er mikilvægt, að fram komi, hver meini það. Er það lögreglan, er það dómarinn, er það blaðamaðurinn, er það amma blaðamannsins? Þetta er hættulegt orð eins og “sagður”. Hver segir það?

Oft geta önnur orð komið í stað “meintur”. Góð orð eru “kærður”, “ákærður”, “handtekinn í tengslum við”, “sakaður af Jóni”. Mundu, að kærður er ekki sama og ákærður. Það fyrra á við hvaða kæranda sem er, en það síðara við opinbera ákæru.

Þú verður líka að gæta heiðarleika gagnvart öðrum miðlum. Ef þú tekur fréttaefni úr öðrum miðli, þarftu að segja: “Að sögn Morgunblaðsins í morgun.” “Samkvæmt hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.” “Í nýjasta tölublaði Hér og Nú segir, að …”

Heimildamenn vilja stundum ekki, að nafn þeirra komi fram:
1) Þeir gætu lent í vandræðum, ef frá þeim væri sagt.
2) Þeir vilja tjá sig án þess að bera ábyrgð.
3) Þeir vilja hafa áhrif án þess að aðrir viti það.

Fyrsta ástæðan er besta ástæðan og raunar sú eina, sem hægt er að viðurkenna. Tvær síðari ástæðurnar fela í sér tilraun til að misnota fjölmiðla. En því miður eru þær algengastar. Samanber ummæli David Wise:

“Nafnlaus leki er sterkt vopn, sem stjórnvöld nota til að villa fólk; til að skrúfa fyrir andstæðing; til að kanna stuðning við mál, sem er í skoðun; til að senda öðrum landsfeðrum skilaboð; til að afla stuðnings við mann/mál; til að neita óþægilegri sögu; stýra fréttum.”

Í Washington er daglegt brauð, að embættismenn og aðstoðarmenn tali við blaðamenn og segi álit sitt með því skilyrði, að þeir séu ekki hafðir fyrir því, heldur kallaðir dulnefni: “Hátt settur embættismaður í utanríkisráðuneytinu sagði …”

Mikilvægt er að fara varlega með sögur af þessu tagi og ekki viðurkenna nafnleynd nema í ítrustu neyð. Mikilvægt er, að notendur viti, hver sé heimild að hverju áliti og hvaða burði hann hafi til þess að hafa slíka skoðun.

Mundu líka að bera aðila fyrir skoðanakönnun. Ekki segja, að flokkur hafi 51% fylgi, heldur, að það komi fram í könnun nafngreindrar stofnunar fyrir aðra nafngreinda stofnun. Segðu einnig, hvert sé úrtakið og hver sé skekkjan.

Best er að byrja á heimildarmanni: “Lögreglan segir …” “Borgarstjórinn segir … Eða hafa hann í miðjum klíðum: “Enn logar í rústunum og lögreglan segir, að …” Það er gamall prentmiðlastíll að segja: “… segir lögreglan.”

Litur í frásögn er það, sem gerir hana minnisstæða. Sjáum þá, sem eru hrókar alls fagnaðar, sem segja sögur af snilld, fá okkur til að hlæja, ögra okkur og fá okkur jafnvel til að gráta. Þeir kunna að nota móðurmálið, eru litríkir.

Litur í texta ljósvakans á að vera eðlilegur, engar klisjur eða ýkjur. Litur í texta fæst ekki endilega með litríkum orðum. Fólkið í sögunni og orð þess eru litrík. Ljósvakatexti á að endurspegla tilfinningar þess í hljóð og myndbitum.

Hljóð og myndbitar af fólki í fréttum færa okkur gamansemi, samúð og aðrar tilfinningar. Sama á að gerast í textanum, hann á að búa til sögu eins og listamaður býr til málverk. Smáatriðin skipta máli í þessum texta.

Sjónvarp I:
Talaður texti hefur fleiri víddir: Finndu muninn: GETUR þú gert eitthvað; getur ÞÚ gert eitthvað; getur þú gert EITTHVAÐ?

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé