Siðfræði

Rannsóknir
Siðfræði

Hvaðan kemur traust og vald blaðamennsku? Og hvernig tapast það? Nú er samdráttur í rannsóknablaðamennsku, fjölmiðlar eru knúnir áfram af meiri kröfu um arð en áður var og um leið hefur fyrirlitning og vantraust aukist meðal almennings.

Vald blaðamanna til að rannsaka sukk, svindl og svínarí hefur minnkað. Þjóðin er ekki sátt við ögrun og tortryggni fjölmiðla og er meira sátt við fyrirtæki, sem blaðamenn hafa elt uppi, og meira sátt við friðhelgi einkalífsins. (Bókin tekur ekki á internetinu.)

Aðferðir rannsóknablaðamanna, sem stundum minna á leynilögreglusögur, hafa leitt blaðamenn í siðferðisvanda. Þeir verja sig með hagsmunaskýringum: Já, við lugum og þannig náðum við í sannleikann. Tilgangurinn helgar meðalið, segja þeir.

Á sama tíma gera blaðamenn kröfu til valdamanna um, að þeir fari eftir reglunni: Tilgangurinn helgar ekki meðalið”. Gerðar eru meiri kröfur til valdamanna, en blaðamenn gera til sjálfra sín. Það getur ekki gengið lengi, áður en það hefnir sín.

Lesendur, hlustendur og áhorfendur taka eftir þessum tvískinnungi blaðamanna, þótt sumir blaðamenn taki ekki eftir honum. Enda er mikil og gömul reynsla fyrir því, að merkilegir hlutir hafa komið í ljós með óvönduðum aðferðum.

Fyrir öld lagðist Nellie Bly inn á geðsjúkrahús og skrifaði um hneykslanlegt athæfi þar. Um svipað leyti lék Lewis Hine hlutverk biblíusölumanns og ljósmyndaði ólögmæta barnavinnu. Upton Sinclair komst í sóðaleg sláturhús Chicago.

Í framhaldi af þessu fóru Bernstein og Woodward í gang með Watergate, notuðu ónafngreindar heimildir, stolin skjöl, tóku viðtöl við eiðsvarna kviðdómara. Eins og í hinum tilvikunum var þetta forsenda þess yfirleitt, að Watergate komst upp.

Dómstólar í Bandaríkjunum eru farnir að segja, að tilgangurinn helgi ekki meðalið og verða við klögumálum lögmanna stórfyrirtækja. Roone Arledge segir: “Ef stórfyrirtækjum leyfist að stöðva rannsóknir, mun bandaríska þjóðin tapa.”

Arldege sagði líka: “Ef þú segir, ég er frá ABC og vil taka myndir hér inni af rotnuðu kjöti, mun þér ekki verða hleypt inn.” Þér er ekki sagt satt, ef þú spyrð, þú verður að sjá veruleikann með eigin augum. Þetta er raunar erfið staða.

Kviðdómari komst svo að orði um þessi sjónarmið: “Ég hef ekkert á móti aðferðum leynilögreglumanna í blaðamennsku. En ef þið stundið slík vinnubrögð, verða þau að vera framkvæmd á löglegan hátt.” Og ekki fara með lygar til að komast inn.

Dauði Diönu prinsessu var um tíma kenndur aðgangshörku paparazziljósmyndara og er enn, þótt þeir hafi verið sýknaðir. Það mál hafði óafmáanleg áhrif á viðhorf til myndatöku á opinberum vettvangi og leiddi óbeint til Karónlínudómsins.

Louis Hodges hefur sett upp reglur: Upplýsingarnar verða að vera knýjandi og ekki fáanlegar með öðrum hætti og ekki tefla öryggi í hættu. Blaðamenn verða að geta viðurkennt aðferðina opinberlega, ef nauðsyn krefur.

Ennfremur: Skaðinn, sem blaðamenn upplýsa, verður að vera meiri en skaðinn, sem þeir valda. Blaðamenn þurfa að gera sér grein fyrir afleiðingum af huldumennsku þeirra og gera sér grein fyrir, hvers vegna þeir telja sig þurfa hana.

Eigendur blaða vilja í auknum mæli, að blaðamenn segi það, sem lesendur, hlustendur og áhorfendur vilja heyra, en ekki það, sem þeir þurfa að heyra. Þess vegna aukast fréttir um, hvað allt sé svo gott, fréttir um börn og hunda.

Yfirtaka fjármálakeðja á dagblöðum felur í sér skuldsetningu, sem kallar á mikinn arð, meiri arð en tíðkast hefur í fjölmiðlum. Þetta gerir fjölmiðla viðkvæma fyrir kröfum um, að þeir skeri grimmt niður kostnað við ritstjórnir.

Á sama tíma aukast afskipti auglýsenda. Chrysler heimtar að fá fyrirfram að sjá viðkvæmt efni, áður en fyrirtækið staðsetur auglýsingar sínar. Aðrir auglýsendur hafa tekið upp þessa sömu kröfu. Afleiðingin er, að umdeild mál detta út.

Blaðamenn við WTVT sjónvarpsstöðina upplýstu, að frétt um hormónahættu af mjólk hefði verið stöðvuð að kröfu Monsanto og þess í stað krafist að þeir segðu frétt, sem var andstæð sannleikanum. Þegar þeir neituðu, voru þeir reknir.

Monsanto er dæmi um fyrirtæki, sem minnir á tóbaksfyrirtækin gömlu, neitar öllum vísindalegum rannsóknum um hugsanlega skaðsemi erfðabreyttra matvæla og sendir sveitir lögmanna á hvern þann fjölmiðil, sem efast um hagsmuni Monsanto.

Ljóst er, að krafan um arðsemi, ágengni auglýsenda og þrælsótti stjórnenda í fjölmiðlum, hefur dregið og mun draga úr rannsóknablaðamennsku. Afleiðingin er félagslegur rétttrúnaður, sjálfsritskoðun og stuðningur við valdamenn.

Rannsóknir sýna, að sjónvarpsáhorfendur vita minna en aðrir um þjóðmál. Ef til vill stafar það af, að áhorfendur sitja og meðtaka, meðan blaðalesendur fletta fram og aftur, hlaupa yfir og skoða það, sem þeim sýnist. Blöð eru gagnvirk.

Blaðamennska í sjónvarpi hefur tilhneigingu til að vera æsingsleg og spennandi. Það er eðli miðilsins. Hins vegar er ekkert, sem bannar, að rannsóknablaðamennska sé skemmtileg, eða heimtar að hún sé leiðigjörn. 60 Minutes er gott prógramm.

Niðurstaða okkar er, að blaðamenn þurfa sjálfir að sýna sama siðferði og þeir ætlast til, að þeir sýni, sem þeir skrifa um. Málið er, að tilgangurinn helgar ekki meðalið, ekki einu sinni í blaðamennsku.

Hafa ber í huga, að þessi höfundur eins og fleiri höfundar þessarar bókar tekur ekki tillit til veraldarvefsins, þar sem nýjar tegundir fjölmiðla hafa komið til sögunnar, t.d. Wiki. Þótt staðan hafi versnað á sjónvarpi, hafa kostir komið með veraldarvef.

Dómstólar hafa ákveðið, að það afsaki ekki ólöglega framgöngu að vera blaðamaður. Árið 1964 úrskurðaði Hæstiréttur, að þeir, sem saka blaðamenn um meiðyrði, verði að sýna fram á illvilja (actual malice) blaðamannsins, að hann hafi vitað betur.

Blaðamennska Seymour Hersh, Bob Woodward og Carl Bernstein hefði ekki getað gengið, ef Hæstiréttur hefði ekki kveðið upp þennan úrskurð. Fyrir þann úrskurð hefðu þeir verið teknir í gegn fyrir meiðyrði. Hér á landi eru meiðyrðamál að mestu horfin.

Hugmyndaríkir lögmenn fjársterkra aðila eru tilbúnir að ryðja fram margvíslegum kærum, sem eru byggðar á ýmsum lagalegum forsendum, sem snúast ekki um rétt eða rangt í fréttaflutningi, heldur um það, hvernig upplýsinganna var aflað.

Lög, sem takmarka hegðun fólks almennt, svo sem bann við skráningu símtala á segulbönd, eru ekki andstæð stjórnarskránni, þótt beiting þeirra gegn pressunni geti í sumum tilvikum takmarkað getu þeirra til að safna fréttum og skrifa þær.

Ljóst er þó, að meiðyrði hafa takmarkað gildi, ef þau snúast um opinbera persónu. Ennfremur hafa dómstólar ekki heimilað sækjendum að túlka meiðyrði sem eins konar “tort”, sem hægt sé að stöðva fyrirfram með lögbanni.

Með þessum undantekningum hefur áratugurinn 1990-2000 einkennst af áður óþekktri stærðargráðu af árásum á rétt blaðamanna til að safna fréttum. Málaferli byggjast nú á meintum svikum, einelti, för inn á einkasvæði og takmörkunum á einkalífi.

Dómurinn gegn ABC vegna réttra skrifa um sóðalega framleiðslu matvæla er dæmi um, að keðjufyrirtæki í matvælaframleiðslu gat náð háum skaðabótum með því að snúa málfærslunni um röng vinnubrögð sjónvarpsmanna við öflun efnisins.

Í framhaldi af þessu máli fór að rigna inn kærum á blaðamenn. Sumir kvörtuðu um, að ró þeirra hefði verið raskað af völdum blaðamanna. Aðrir veifuðu “rétti þess að vera látinn í friði”, samkvæmt orðavali dómaranna Warren og Brandeis.

Dómstólar í Bandaríkjunum hafa þennan áratug verið í úlfakreppu milli frelsis til tjáningar og frelsis til að vera í friði, baráttu málfrelsis og einkalífs. Fólk hefur tekið eftir þessu og fleiri leggja stein í götu blaðamanna.

Sem dæmi má nefna, að lögregla er tregari en áður við að taka blaðamenn með sér í útköll, af því að lögmönnum hefur tekist að hnekkja málum á þeirri forsendu, að óviðkomandi aðilar hafi farið á einkalóð og verið viðstaddir handtöku, húsleit.

Dómstólar hafa farið tvær leiðir til að takmarka fjölmiðlun. Þeir hafa dæmt fyrir ónæði blaðamanna á almannafæri og þeir hafa gefið málsaðila tækifæri til að fá stöðvaða birtingu efnis meðan beðið sé eftir niðurstöðu dóms, það er að segja lögbann.

Lög gegn hegðun ljósmyndara, paparazzi, eru þess eðlis, að þeim er einnig hægt að beita gegn öðrum þeim, sem safna upplýsingum. Þau geta gert eðlilega fréttaöflun að lögbroti, einkum á þeim grundvelli, að hún sýni skort á smekkvísi, mannasiðum.

Slæmt er, að í sumum tilvikum láta fjölmiðlar ekki reyna á dómsmál, heldur semja um skaðabætur til að spara fé og fyrirhöfn. Þannig hætti CBS við að birta frétt um tóbaksfyrirtæki, ekki vegna innihalds, heldur vegna aðferða við fréttaöflun.

Það eru ekki lengur stjórnvöld, sem ógna fjölmiðlun, heldur fjársterkir aðilar í þjóðfélaginu, fyrirtæki og einstaklingar, sem stefna að því að hrekja fjölmiðla til þagnar, áður en þeir birta fréttir. Þeir fara í önnur mál en meiðyrðamál.

Sumir dómar hafa falið í sér, að ekkert er litið á, hvort frétt sé rétt eða að einhverju leyti röng, heldur snúast eingöngu um aðferðir við öflun fréttar. Og nokkrum sinnum hafa verið kveðnir upp dómar, sem banna birtingu fyrirfram, eru lögbann.

William Brennan sagði, að nauðsynlegt væri að verja pressuna, ekki bara þegar hún segir frá, heldur líka, þegar hún er að gera allt það marga og smáa, sem þarf til að afla fréttarinnar og byggja hana upp. Á þessu er orðinn misbrestur. Málfrelsið er skert.

Til að koma skikk á misræmi í dómum, verða dómstólar að viðurkenna, að viðauki nr. 1 við stjórnarskrána feli ekki bara í sér málfrelsi, heldur veiti líka vörn gegn tilraunum til að hefta fréttaöflun eins og gegn yfirlýsingum um meiðyrði.

Sjá nánar:
Marilyn Greenwald & Joseph Bernt
The Big Chill 2000

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé