Samþættir miðlar

Nýmiðlun
Samþættir miðlar

Í þessum fyrirlestri er lýst tilhögun verka á samþættum fjölmiðli. Einnig er fjallað um siðareglur á slíkum fjölmiðli.

Samþættir vefmiðlar:
Fólk er ýmist í efnisstarfi eða framleiðslustarfi.
Fréttafólk skiptist í fréttastjóra, framleiðendur og fréttamenn. Tæknilegir sérfræðingar sjá um tölvuvædd og stafræn atriði, sjá t.d. um streymi (streaming).

Fréttastjórar á vefnum taka oft ákvarðanir, sem varða samstarfsaðila á sjónvarpi eða dagblaði. Þeir eru oft í samstarfi við blaðamenn á þessum samstarfsstofnunum.

Framleiðendur á vefnum endurvinna fréttir frá öðrum aðilum til birtingar á vefnum. Þeir skrifa kynningarlínur, myndatexta, fyrirsagnir og forma sögur fyrir síður á vefsvæðinu. Starf þeirra minnir á framleiðendur í sjónvarpi.

Fréttamenn á vefnum bæta oft fréttir frá samstarfsaðilum. Þeir setja inn efni, sem ekki var pláss fyrir í blaði eða sjónvarpi. Þeir setja inn bakgrunnsefni og tengingar. Þeir bæta við myndskeiðum.

Samþætting hefur áhrif á fréttaöflun og framleiðslu frétta. Það er fólk, ekki tækni sem lætur samþættingu takast. Ekkert eitt mynstur er ráðandi. Þetta sést: Hvatt er til samþættingar, ekki þvingað. Hún þarf meiri og betri samgöngur. Hún er teymisvinna.

Samþættendur eru í sambandi við málsaðila í samstarfinu.
Sums staðar hafa fréttastofur verið sameinaðar til að auðvelda samþættingu. Eða bítin sameinuð. Sums staðar hafa málsaðilar sameiginlegan desk til að raða saman hinum ýmsu fjölmiðlum.

Samþætting tekur á sig ýmsar myndir hjá fréttamönnum. Algengast er, að þeir tala í ljósvaka um fréttir sínar (talkbacks). Þeir koma nýjum vendingum frétta á vefinn og fylgiskjölum með fréttum. Þeir hanna margmiðlun.

Sums staðar taka fréttaljósmyndarar með sér vídeóvélar. Sumir blaðamenn skrifa jöfnum höndum fyrir dagblað, sjónvarp og vefinn. Fyrir þeim er nýmiðlun orðin að hluta daglegra verka.

Enn aðrir eru lengra komnir, t.d. altmúligmenn eða bakpokablaðamenn. Þeir eru algengastir á styrjaldarsvæðum eins og Afganistan og Írak, þar sem erfiðara er fyrir teymi að komast um. Kevin Sites er frægt dæmi um bakpokablaðamann.

Samþætting felur í sér fjölbreytta vinnu. Fréttir eru endurnýjaðar ört á vefnum. Menn koma fram í sjónvarpi til að útskýra þær. Menn skrá náttúruhljóð og myndir í safn, safna gögnum til birtingar á vef. Menn víkka út fréttirnar, sem birtast hvar og hvenær sem er.

Dagblaðamenn hafa klukkustundir til að ganga frá fréttum á kvöldin. Sjónvarpsstöðvar hafa líka fasta skilatíma, einkum á kvöldin, hin síðari ár líka á morgnana. Vefurinn hefur hlaupandi skilatíma allan daginn, suma tengda útkomutíma samstarfsdagblaðs.

Í samstarfi dagblaðs, sjónvarps og vefmiðils þurfa málsaðilar að semja um að deila með sér fréttum og finna sameiginlega, hvernig og hvenær þeir eigi að gera það. Þetta jafngildir breyttu vinnu og samgönguflæði.

Fréttalistar:
Á morgnana halda samstarfsaðilar fund eða símafund um fyrirhuguð verkefni dagsins. Þar eru gerðir sameiginlegir fréttalistar til að forðast tvíverknað. Þar eru ýmsir vinklar fyrir mismunandi miðla.

Að öðru leyti er vinnuferli miðlanna misjafnt. Dagblaði hentar að hafa fund kl.10, sjónvarpi kl.09. Dagblaðastjórar hittast oft aftur um kl.17 til að ræða forsíðuna. Yfirleitt er mest fólk á dagblöðum og þaðan koma flestar hugmyndir í púkkið.

Sjónvarp er ekki eins forhannað og dagblað og bregst fremur við áreiti líðandi stundar.
Sjónvarp sendir dagblaði fréttalista kl.10 og dagblað sendir sinn lista til baka kl.12.
Sums staðar er samstarfið óformlegra en þetta.

Prentblaðamenn hafa verið hræddir um að gefa skúbb eftir í sjónvarp eða vefinn, áður en fólk sér þau í blaðinu. Þetta viðhorf er að breytast. Margir sjá sér hag í að fá stafina sína með frétt á vefnum og að koma fram í sjónvarpi til að kynna fréttina.

Í rauninni eru skúbb blaðs eða sjónvarps oft umskrifuð fyrir vefinn, bætt við einu eða tveimur atriðum og upprunalegs höfundar ekki getið. Slík vinnubrögð opna málið fyrir samkeppnisblöð og sjónvarp og tefja auðvitað fyrir samþættingu samstarfsmiðlanna.

Ljósvakinn og vefurinn breyta fréttum og myndum reglulega, til dæmis fréttum af veðri og umferð. Fólk vill slíkar fréttir á morgnana, harðar fréttir á morgnana og yfir vinnudaginn, sport og léttmeti á kvöldin. Vefurinn er mest notaður í vinnunni.

Samþætting er svar við væntingum notenda. Fjölþætt blaðamennska breiðist út. Á móti hamla siðir, gildi og venjur, sem hafa einkennt fréttastofur um langan aldur. Erfiðast er að hreyfa við sjónarmiðum á sviði samkeppni við aðra fjölmiðla.

Blaðamenn telja samkeppni framkalla betri blaðamennsku og meiri skúbb. Samþættingin biður þá hins vegar um að tengjast við fólk á öðrum fjölmiðlum og að treysta óvininum. Blaðamenn þurfa að tala minna um að eiga frétt og meira um að skipta henni.

Sjónvarpsmenn telja prentmenn staðnaða og leiðinlega. Prentmenn telja sjónvarpsmenn innihaldsrýra og sjálfmiðjaða. Þegar stálin mætast stinn, verður stríð milli lífsviðhorfa úr prenti, ljósvaka og vef. Það er ekki auðvelt að gefa af sínu.

Samþætting gengur best, þegar hún þjónar almenningi, en kynnir ekki bara frétt og fréttamann. Starfsmenn ritstjórna þurfa að venja sig við að taka sameiginlega hagsmuni fram yfir sitt eigið egó.

Þegar blaðamenn sjá, að notendahópurinn stækkar við, að fréttir þeirra komast í fleiri tegundir miðla, verða þeir minna hræddir við samþættingu. Milljónir lesa Christian Science Monitor á vefnum, 70.000 á prenti. Smám saman fara þeir að meta vefinn.

Prent, ljósvaki og vefur hafa ólíka menningu á fréttastofum. Blöð eru valddreifðari og nota sérhæfingu meira, hafa færri skilatíma. Ljósvaki og vefur eru fámennari og sérhæfa menn síður. Á öllum stöðum eru teymi, sem starfa að fæðingu og frágangi frétta.

Innra starf fréttastofa dagblaða snýst um fréttastjóra, vaktstjóra, hönnuði, myndstjóra. Á fréttastofum sjónvarps eru þetta verkefnastjórar, framleiðendur og akkeri. Á vefnum eru það fréttastjórar og framleiðendur.

Menn berjast við að reyna að mæta breyttum 24/7 fréttahring, þar sem fréttir birtast allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Samþætting opnar leiðir í þessu efni, býr til nýjar samgönguleiðir og ný viðhorf um skiptingu frétta. Hún vill hugsa um notandann.

Við hefðbundna vefmiðlun hefur fyrir löngu bæst símamiðlun, sem lýtur sérstökum lögmálum, meðal annars vegna lítils skjás og takmarkaðs rýmis á honum. Um símamiðlum verður fjallað í öðrum fyrirlestri.

Fyrirtækinu, sem nú heitir 365, mistókst árið 2006 að festa 24/7 fréttastöð í sessi. Hluti af tilrauninni var sameiginleg fréttastofa fyrir dagblað, útvarp og sjónvarp. Fréttablaðinu líkaði ekki fyrirkomulagið og fór úr samstarfinu. Fréttastofan varð því vanburðug.

Siðareglur:
Allir blaðamenn hafa svipuð gildi, sannleika, nákvæmni, óhlutdrægni, jafnvægi og sjálfstæði. Allir leita jafnvægis milli þess, sem fólk vill vita og þarf að vita. Allir beita núi, nálægð, frægð, nýstárleika, áhrifum og mikilvægi.

Að leita sannleikans:
Þetta er oftast nefnd sem mikilvægasta gildi blaðamennskunnar. Um leið er það óáþreifanlegt gildi. Á tímum spuna er sannleikur annars áróður hins.

Kovach og Rosenstiel segja, að blaðamenn þurfi að afla réttra frétta og að skilja þær. Í veruleikanum átti fólk sig á, hvenær blaðamaður hafi komist nálægt réttu. Það er, þegar heimildir eru skráðar, rannsóknin er fullnægjandi og aðferðin er gegnsæ.

Besta leiðin til að forðast frávik frá sannleikanum er að geta heimilda til að leyfa notendum að ákveða, hvort þeir taki mark á þeim eða ekki. Þegar menn geta vinnubragða sinna, geta notendur sett sig í spor þeirra. Gögn eru stundum birt á vef.

Þegar birt er frétt um deilu, er á vefnum hægt að birta tilvísanir í vefsvæði beggja eða allra aðila. Blaðamenn flaska oft á að segja notendum ekki frá, hvert þeir sækja upplýsingar sínar. Stundum hafa heimildir hagsmuna að gæta án þess að sagt sé frá því.

Að vera óháður:
Oft er óháður talið vera samheiti þess að vera hlutlægur, sem er álíka óáþreifanlegt og að segja satt. Aðalatriðið er, að miðillinn setji fram sjálfstætt mat eftir að hafa aflað sjónarmiða hinna ýmsu málsaðila.

Sumir segja, að samþætting feli í sér brot á sjálfstæðisreglu í siðareglum. Samþætting felur í sér samstarf, sem getur leitt til hagsmunaárekstrar. Sameiginlegt eignarhald hefur sömu áhrif.

Rannsóknablaðamennska kallar á tíma, fólk og fé. Þrýstingur keðjufyrirtækja á aukinn hagnað hefur afleiðingar í minni tíma, færra fólki og minna fé. Það getur dregið úr áherslu á efni, sem er til þess fallið að fæla frá auglýsendur.

Sanngirni og jafnvægi:
Sumir kalla þetta óhlutdrægni. Átt er við, að blaðamaður virði staðreyndir og skilning notenda á þeim. Það þýðir ekki, að öll sjónarmið fái sama pláss. Óhlutdrægni felur ekki í sér ping-pong blaðamennsku.

Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé