Samþætting á vefnum

Framtíð
Samþætting á vefnum

Randy Covington:
Þegar veggirnir munu hrynja.
Associated Press er að gera róttækar breytingar á fréttum sínum og viðskiptamarkmiðum til að svara kröfum vefsins. Margmiðlun er komin til skjalanna hjá AP.

Vefurinn var fyrst talinn vera viðbót eins og útvarp og sjónvarp. En hann hefur reynst vera miklu meira, þótt hann hryndi miðja vega á fyrsta áratugnum.
Árið 1996 snerust áætlanir um endurnýtingu efnis úr öðrum fjölmiðlum og endurpökkun þess.

Í nokkur ár komu áskriftir til greina. Síðan kom Google og kenndi heiminum að leita að fréttum í stað þess að taka áskrift. Menn hafa verið að reyna að ná jafnvægi síðan. Vefurinn árið 2006 snýst ekki lengur um endurvinnslu.

Vefurinn 2.0 er fullur af nýju innihaldi, sem meira er framleitt af notendum en fagmönnum. 25 ára fólk þekkir ekki aðra leið að fréttum. Það safnar fréttum á skjái margs konar miðla og bætir við eigin ummælum og upplýsingum í valddreifðu kerfi.

Í hálfa aðra öld höfðum við byggt upp sterka viðskiptahringa í prentmiðlum, útvarpi og sjónvarpi. Hver tegund miðils hafði sína tegund blaðamanna. Núna er það vefurinn, sem skúbbar. Tæknin hefur leitt þetta, gagnagrunnar og víxltilvísanir.

Metadata er notað til að merkja allt frá höfundarlínum og fyrirsögnum yfir til þekkta nafna í megintextanum, svo að fréttir frá öllum aðilum tengist sjálfvirkt og nýtist saman. Enginn miðill er nógu sterkur til að hafa tök á neinu innihaldi, sem máli skiptir.

Ef innihald á að ná fullu gildi í leitardrifnu hagkerfi, verður það að finna notendur, hvar sem þeir eru. Enginn miðill getur jafnast á við hinn leitandi notanda í samanburði á völdum.

* Forrester hvatti fjölmiðla í árslok 2005 til að búa sig undir framtíð, sem væri skilgreind af leit, sem sækti innihald á flugi.
* Gartner sagði í desember 2005, að leit yrði upphafspunktur upplifunar á innihaldi árið 2008 og að menn yrðu að skipuleggja sig nú.

Outsell sagði í mars 2006, að fjölmiðlar yrðu að reka stefnu þriggja ára aðlögunar að útgáfu á vefnum. Annars yrðu þeir skildir eftir.
AP mun framvegis byggja á gagnagrunni á vefnum. Múrar hefðbundinna fjölmiðla eru farnir að hrynja.

John Solomon :
Framtak í blaðamennsku í heimi margmiðlunar.
Með vídeó, hljóði og víxlverkun gerir Associated Press rannsóknir sínar aðgengilegar, gagnlegar öðrum fréttastofnunum og knýjandi fyrir notendur.

Markmið okkar var að framleiða rannsóknablaðamennsku, sem höfðaði til margvíslegs smekks notenda, mismunandi mikillar athygli þeirra og sérstaks áhuga einstakra tegunda fjölmiðlunar. Öll hefðbundin tæki reyndust ónóg í þessu hlutverki.

Markmiðið var orðað þannig:
Ekki segja notendum frétt, láttu þá upplifa hana og komast í gagnkvæm samskipti við hana.
Nokkur dæmi voru í fyrirlestri hans.

Við höfum ekki skilið hefðbundna fjölmiðla eftir. Vinnubrögð okkar bæta sögur á prenti. Þær syngja meira en áður. Þau gerðu líka kröfur um, að AP færði landfræðilega út kvíarnar og reynsluna. Þetta efni varð líka oftar umfjöllunarefni í leiðurum.

Við gerðum ráð fyrir, að þessi tilraun mundi bæta getu AP til að segja sögur. Síðan kom í ljós, að sögurnar vöktu svo mikla athygli, að áhugi dagblaða á notkun þeirra margfaldaðist.

Við getum núna boðið lesendum aðgang að mörgum stigum fréttaöflunar, þar á meðal að upprunalegum gögnum, myndum og myndskeiðum, þegar við setjum fram vinnu okkar. Þetta veitir gagnsæi, sem við teljum að auki áhrif greinanna.

Við bjuggum til gagnvirkan leik á grundvelli frétta um innanríkisráðherrann. Við smíðuðum gagnabanka, auðveldan í notkun, til að ná utan um vísitölur, sem ríkisstjórnin hélt leyndum. Við fundum út, að einkunnir svartra manna voru felldar úr gögnum.

Paul E. Steiger:
Ekkert getur fært dagblöðum aftur fortíðina. Búa við brostið viðskiptamódel, aukna samkeppni og virðingarleysi unga fólksins. Blaðamenn þurfa að ákveða, hverjum þeir þjóni og hvernig þeir fái greitt. Það verður að vera annað en NYT og BBC.

Blaðamennska er mikilvægari en dreifingaraðferð. Tvö vandamál:
* Misjafnir auglýsingataxtar ráða því, að kúnni á prenti er þrefalt verðmætari en kúnni á vefnum. Auglýsingaverð verður að hækka á vefnum langt umfram það, sem markaðurinn virðist núna þola.

* Leitarvélar á borð við Google og Yahoo! draga súrefnið til sín. Auglýsendur hópast að sérhæfðum leitarsvæðum fremur en vefsvæðum dagblaða.

Bloomberg hefur fundið gott blaðamennskumódel á vefnum og aðrir munu finna það líka. Wall Street Journal er með góðum árangri að prófa að reka á samþættan hátt prentaða útgáfu og útgáfu á vefnum. Er þó að fella niður áskriftir að efni á vefnum.

Kosturinn við vefinn er hraði og ódýr dreifing, persónulegt val, óháð tíma og rúmi, nánast ókeypis ítarefni og viðbótarviðskiptavinir. Auðveldara er að bera prentið, það er læsilegra, því fylgir slökun og auðveldara er þar að uppgötva óvænt atriði.

Prentútgáfan leggur áherslu á sínar sterku hliðar: Grípandi sögur, rannsóknablaðamennsku, fréttaskýringar, spár, einkaviðtöl, skúbb staðreynda og skúbb hugmynda. Hins vegar dregur úr stuttum fréttum.

WSJ tvöfaldaði lesturinn á tveimur áratugum með því að vera með dagverð hlutabréfa og aðrar fjármálaupplýsingar. Núna eru slíkar upplýsingar fáanlegar ókeypis hvar sem er.

Hugsanleg viðskiptamódel:
* Eignarhald gjafmildra auðmanna.
* Eignarhald starfsmanna.
* Eignarhald sjóða, St. Petersburg Times.

Google og Yahoo! hafa mikinn hraða og mikið magn. En er það nóg, ef efnið er ekki vandað að hætti fagmanna í blaðamennsku? Þrátt fyrir góða leitartækni á vefnum er erfitt að finna þar áreiðanlegar og fullnægjandi upplýsingar um flókin mál

Neil Chase:
Vefurinn mataður við vinnslu frétta.
Við New York Times er margmiðlun sagnagerðar ekki lengur bakþanki, heldur orðin hluti blaðamennskunnar

Blaðamenn og ritstjórar, dálkahöfundar og ljósmyndarar eru enn hræddir við tæknina. Það virðist óeðlilegt að hafa “deadline”, dauðastund, oftar en einu sinni á dag. En margir hafa prófað það og finnst það bæta vinnu sína.

Vefútgáfan er fyrsta útgáfan. Hún finnur þráð prentsögunnar. Fyrri útgáfur hjálpa mönnum við að ná fókus og búa til beinagrind, sem síðari útgáfur hvíla í. Það getur líka verið fróðlegt að svara spurningum lesenda á vefnum.

Nýjar aðferðir í blaðamennsku:
* Blaðamenn nota blogg til að koma smáfréttum á framfæri.
* Efni, sem þarf að klippa úr prenti, má birta á vefnum.
* Íþróttalýsingar má birta í rauntíma og búa til samtal við áhugafólk.

Með fleiri birtingarmyndum geta blaðamenn gert vinnu sína dýpri og sagt meira en þeir gátu áður.
Úr þessu verður oft til efni, sem stenst tímans tönn, yfirlit um mál, sem hafa lengi verið í gangi.
En ekki má þvinga blaðamenn, aðeins bjóða þeim þjálfun, hjálp.

Sumt tekur lítinn tíma:
* Talað í kortér við framleiðanda til að undirbúa hljóðrennsli.
* Setið í myndveri stutta stund til að búa til hliðarramma.
* Skrá niður vefslóðir og gera sumar þeirra aðgengilegar.

Sumir blaðamenn hafa með sér stafræn upptökutæki fyrir mynd og hljóð í stað myndbandstækja. Blaðamenn, sem vita mikið um málaflokk, geta risið hærra með hjálp fleiri tegunda fjölmiðlunar. Margir gleðjast, þegar þeir sjá vinsældir frétta sinna á vefnum.

Aukinn tími blaðamanna fer í gagnvirkni gagnvart notendum, í blogg. Ritstjórar og blaðamenn þurfa að vinna saman til að stýra þessu. Stundum þarf að fella niður önnur verkefni á móti. Stundum þarf að læða inn vinnu fyrir vefinn, þegar tími gefst.

Susan Albright:
Séð og heyrt í leiðurum dagblaðs.
Víðáttumikill vettvangur með sköpunarkrafti fyrir blaðamenn, sem vilja nýta nýja miðla og höfða til lesenda á nýjan hátt.

Nú koma flest bréf í tölvupósti, sem fljótlegt er að klippa og líma inn. Það sparar mikinn tíma til annarra verka. Leiðarahöfundar spara tíma með því að leita nákvæmra upplýsinga á vefnum.

Ný veftækni gerir notendum kleift að bregðast við vinnu okkar. Þeir geta lesið leiðara og sett inn um hann athugasemd. Við birtum líka á vefnum lesendabréf, sem ekki komust í blaðið, þar sem er bara pláss fyrir nokkur bréf.

Sumpart hægir tæknin á okkur. Ritstjórar og höfundar fá miklu meiri póst en áður. Sumt er gagnslaust, en öðru þarf að svara eða bregðast við á annan hátt. Menn þurfa að vera skipulagðir til að fást við tölvupóstinn.

Sjá nánar: Nieman Report, Goodbye Gutenberg, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé