Sagnagerð

Fréttir
Sagnagerð

Skipulag fer á undan skrifum. Sérhver málsgrein og sérhver málsliður er á sínum stað af ásettu ráði. Meðan blaðamenn eru að afla fréttarinnar eru þeir í huga sér að sjá fyrir gerð og innihald sögunnar.

1. NOTAÐU BEINAGRIND. Hafðu meginatriðin í huga, þegar þú sest við skriftir og setur hold og blóð á beinagrindina. Því betur sem höfundur gerir sér grein fyrir skipulagi, þeim mun meiri árangurs er að vænta.

2. NOTAÐU MÁLSLIÐI SEM EININGAR. Þegar þú hefur skrifað málslið (paragraff), skaltu líta yfir hann og skoða, hvort megi skipta honum. Gættu þín á mjög löngum málsliðum, þeir eru ekki árennilegir fyrir lesandann. skiptu þeim í fleiri málsliði.

3. NOTAÐU GERMYND SAGNA. Ekki skrifa: “Fyrsta heimsókn mín til Akureyrar verður mér alltaf minnisstæð.” Heldur: “Ég man alltaf eftir fyrstu heimsókn minni til Akureyrar.

4. SKRIFAÐU JÁKVÆTT, STERKT, LITRÍKT. Ekki: “Hann var ekki oft á réttum tíma.” Heldur: “Hann var venjulega seinn.” Ekki: Hún taldi ekki, að það kæmi að gagni að læra latínu.” Heldur: “Hún taldi latínulærdóm óþarfan.”

5. NOTAÐU ÁKVEÐIÐ, SÉRTÆKT, HLUTLÆGT MÁL. Ekki segja: “Tími óhagstæðra veðurskilyrða kom”. Heldur: “Það rigndi á hverjum degi í viku.” Ekki segja: “Hann virtist ánægður”. Heldur: “Hann brosti.”

6. STRIKAÐU ÚT ÓÞÖRF ORÐ. Ekki “spurningin um hvort”, heldur “hvort”. Ekki “það er enginn vafi um”, heldur “vafalaust”. Ekki “hann er maður sem”, heldur “hann”. Ekki “þetta er málefni, sem”, heldur “málið”. Ekki “ástæðan fyrir því að”, heldur “þess vegna”.

7. FORÐASTU RÖÐ LOSARALEGRA SETNINGA. Settu punkt og stóran staf í stað þess að nota hlutlaus tengingarorð á borð við “og”, “en”, “sem”, “meðan”.

8. HAFÐU SAMRÆMI Í ORÐAVALI. “ÁÐUR voru vísindi kennd af bók, NÚ eru þau kennd í tilraunum.” Athugið mismun á föllum: “Ræða hans einkenndist af tillitssemi VIÐ flokksmenn og fyrirlitningu Á andstæðingum.”

9. HAFÐU TENGD ORÐ SAMAN. Ekki: “Hann tók eftir stórum bletti á teppinu, sem var í miðjunni.”. Heldur: “Hann tók eftir stórum bletti í miðjunni á teppinu.

10. NOTIÐ SÖMU TÍÐ ÚT Í GEGN. Ekki: “Hann gekk út úr húsinu og fer síðan upp í bíl.” Heldur: “Hann gekk út úr húsinu og fór síðan upp í bíl.”

Kennsla í blaðamennsku byrjar á kennslu í íslensku. Þeir, sem ekki kunna sæmilega íslensku eiga að leita sér að vinnu annars staðar. Þú verður að kunna að fara með orð og setningar, málsgreinar og málsliði, en þarft ekki að vera Halldór Laxness.

Eftir innganginn getur framhald textans verið fólgið í tilvitnun, mannlegri rödd, sem síðan tengir yfir í næsta málslið og hjálpar sögunni til að þróast á rökréttan og samfelldan hátt. Þetta er ein leið yfirfærslu.

Yfirfærslur geta verið heilar málsgreinar eða jafnvel málsliðir, en venjulega eru þær aðeins eitt orð: en, eða, þess vegna, samt, til dæmis, auk þess, þar af leiðandi, þá, þess vegna, þannig, að auki, loksins, almennt, einnig.

Slík orð gefa rökrétt tengsl milli málsgreina og málsliða. Án yfirfærslu hrynja sögur og sundrast. Yfirfærslur flytja lesendur frá málefni til málefnis,frá staðreynd til staðreyndar, frá einum tíma til annars, án þess að rugla þá.

Eftir innganginn og tilvitnunina heldur sagan áfram í smáatriðum. Venjulega er hún sögð í öfugum píramída, en fleiri aðferðir eru til. Til dæmis frásagnarstíll, sem notar tímaröð í frásögninni og vefur frásögnina inn í hana.

Einnig kemur til greina blandaður stíll, sem byrjar á öfugum píramída og fer síðan yfir í frásagnarstíl. Þessi stíll hentar vel fréttum af atburðarás, þar sem tímaröð og tímasetningar skipta máli.

Þið þurfið að hafa stílinn í huga, þegar þið skrifið. Einstakir fjölmiðlar kunna að hafa eigin reglur um stíl, sem þið fylgið. Stutt orð og stuttar málsgreinar auðvelda lestur. Einnig þéttur stíll og stíll, sem er laus við klisjur og fagmál.

Notið einföld og auðskiljanleg orð. “Hann laug”, ekki “hann sagði ósatt”. “Hann er feitur”, ekki “hann á við þyngdarvandamál að stríða”. “bíll”, ekki “vélknúið ökutæki”, “hann var þar”, ekki “hann var staðsettur þar á svæðinu”.

Vandinn við fagmál stétta er, að stundum eru þær svo sérhæft mál viðkomandi hópa, að enginn annar skilur það. Talsmáti sérfræðinga af ýmsu tagi er utan við venjulegt tungumál. Enginn veit, hvað er “edbta”, sem stundum sést í dagblöðum.

Segðu: Hver gerði hvað við hvern. Ekki: Hvað var gert við hvern af hverjum. Notið germynd sagna, ekki þolmynd þeirra. Germynd gefur hraða í frásögn, einkum ef notuð er grípandi sögn, t.d. “kannaði” í stað “gerði rannsókn á”.

Flestar sögur eru línulaga:
1) Byrjunin felur í sér yfirlit um helstu atriðin.
2) Afgangurinn magnar, styður, gefur dæmi og skýrir, hefur bakgrunn og ýmsar viðbætur.

Fyrst er hugmyndin. Svo eru orðin. Hvað vil ég segja? Hvert fer það í fréttina? Flestar sögur í fjölmiðlum hafa þessa beinagrind:
1) Inngangur.
2) Skýringar á inngangi.
3) Bakgrunnur.
4) Veigaminni þættir sögunnar.

Edward Everett Hale sagði: “Vittu, hvað þú vilt segja. Segðu það. Byrjaðu ekki á að segja eitthvað í þeirri von, að það leiði til þess, að þú segir það, sem þú ætlaðir að segja.” George Orwell sagði þér að spyrja þig: “Hvað er ég að reyna að segja?”

Menn verða að hafa skipulag á sögunni og halda sér við það. Ef það virkar ekki, verður maður að ná í nýtt skipulag. Of margir skrifa skipulagslaust, án þess að hafa fókus. Menn þurfa að stjórna sögunni áður en þeir byrja að skrifa hana.

Átta skref skipulagðrar sögu:
1) Finndu fókusinn í nótunum.
2) Skrifaðu niður meginhugmyndina.
3) Settu upp form fyrir afganginn.
4) Tengdu einingarnar með yfirfærslum.
5) Lestu söguna til að vera viss um að allt sé með.
6) Lestu söguna til að fá nákvæmni, stuttan texta og skýran.
7) Lestu söguna til að laga málfræði, stíl og orðanotkun.
8) Ef 5-7 sýna vandamál, sem er algengt, skrifaðu þá söguna aftur.

Þegar menn geta ekki fest sig við fókus, fara þeir að ramba um söguna fram og aftur. Þeir virðast trúa, að þeir geti fundið eitthvað fréttnæmt, ef þeir skrifa söguna nógu lengi. Samanber Lísu í Undralandi á tali við köttinn.

Saga með einni staðreynd þarf:
1) Inngang.
2) Útskýringar.
3) Bakgrunn (stundum).
4) Annað efni (stundum).
Þetta form er almennt notað í sjónvarpi og á netinu.

Ef staðreyndirnar eru fleiri:
1) Inngangur A.
2. Útskýringar. Meira um A.
3. Frekara efni. B, C, D, E.
4. Bakgrunnur
5. Enn meira um A.

Þegar saga er margþætt, fer höfundurinn frá einum þætti til annars í röð mikilvægis. Inngangurinn fjallar um fyrsta þáttinn og hann er síðan skýrður. Síðan er teknir fyrir aðrir þættir og þeir skýrðir. Settu allt um hvern þátt á einn stað.

Wall Street Journal notar svona beinagrind:
1) Dæmisaga um fréttina.
2) Inngangur, þemað skýrt (nut graph).
3) Mikilvægi. Af hverju á ég að lesa þetta?.
4) Þemað útskýrt, sannað.
5) Hvers vegna er þetta svona, hvað gerist svo?

Stundum felst kúnstin í að búa í upphafi til spennu og hlaða henni síðan upp, uns lausnin kemur í miðju kafi. Við slíkar aðstæður er notaður frestaður inngangur, annars er notaður beinn inngangur.

Frásagnarstíll er einfaldur. Lesandanum er boðið í ferðalag með ögrandi upphafi: “James Freeman var á leið í páskamessu, þegar hann sá mann á South Street brúnni. “Ég vissi, að hann ætlaði að stökkva. Ég tók Ubeygju og stöðvaði umferðina”.”

Byrjendur elska margir frásagnarstílinn. Loksins er ég frjáls, hrópa þeir. Laus við leiðinlega, öfuga píramídann. Því miður verð ég að hella köldu vatni á þetta. Frásagnarstíll er eins erfiður og hefðbundinn fréttastíll.

Frásagnarstíll passar ekki hér: “Litli, gamli maðurinn var kominn yfir nírætt. Þegar hann var á lífi, var hann aðeins 160 sem á hæð. Og þegar ég sá hann í kistunni, virtist hann vera enn minni.”

Betra er þetta: “Skrítið að Marshall Caifano skuli hafa dáið eðlilegum dauðdaga. Í lifanda lífi var riffillinn í uppáhaldi hjá honum, svo og bílasprengjan, því að hann var einn alræmdasti morðinginn í sögu Chicagomafíunnar.”

Vinsældir frásagnarstíls hafa margfaldast undanfarin ár, því að fjölmiðlar vita, að auglýsendur vilja unga lesendur, sem vilja láta skemmta sér. Venjulegt efni höfðar ekki til 18-34 ára fólks, sem hefur séð bíómyndir með hraðri atburðarás.

Tölvuskjárinn hefur lítið pláss og hentar ekki löngum sögum. 25 sentimetra saga í dagblaði virðist vera endalaus, þegar hún birtist á skjá. Þeir, sem lesa frétt á internetinu, vilja fyrirsögn, örstuttan inngang og stutta frétt.

MSNBC notar afbrigði af öfuga píramídanum, T-söguna. Toppurinn segir kjarna sögunnar strax, hitt má koma í hvaða röð sem er. Ruth Gersh hjá AP segir, að tölvuskjárinn kalli á einfaldari fréttastíl en áður.

Láttu heildina fylgja sýnishorni. Í sögu er best að byrja á sýnishorni, sem fær síðan almenna umfjöllun. Þetta er rökrétt uppbygging á sögu, oft notuð í fréttagreinum. “Antoinette Trotter vissi ekki, hvað var að drengnum sínum.”

Ef blaðamaðurinn áttar sig ekki á mun þeirrar sögu, sem hann er að vinna, og öllum hinum sögunum, er hann í vanda staddur. Þá er ein slysafrétt eins og hver önnur. Hann þarf að finna það sérstaka við söguna, það sem gerir hana einstæða.

Bíll rakst á barn. Vekur spurningar. Var það að leika sér? Var það að elta bolta? Var það í feluleik? Var það að líta eftir hundi, ketti, yngri bróður? Var það að fara yfir götu, fara í skóla? Var þetta alvarlegt, mun það geta gengið aftur?

Sagt er, að kennarar við skóla ætli ekki að mæta í haust. Er það satt? Hversu margir? Hvers vegna? Hvenær verður þetta ákveðið? Hver eru viðbrögð ráðamanna? Hvaða varaplön eru til að tryggja kennslu, ef það verður verkfall?

Svar: “Kennarar við alla 15 skóla borgarinnar hótuðu í dag að fara í verkfall í september, nema þeir fái 8% launahækkun á næsta ári. Talsmenn stéttarfélagsins sögðu, að hótunin yrði lögð fram á fundi með fræðsluráði á fimmtudaginn.”

Blaðamenn, sem blakta, vinna að sögum sínum frá þeirri stundu, er þeir fá verkefnið. Þeir reyna að gera sér grein fyrir fréttinni og endurskoða svo fókus sinn, þegar þeir safna efni, aftur áður en þeir skrifa og loks þegar þeir skrifa.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé