Saga og staða

Rannsóknir
Saga og staða

Rosemary Armao: Sagan:
Rannsóknablaðamennska hefur aldrei einkennt bandaríska fjölmiðla, ekki einu sinni eftir Watergate. Flestar fréttir byggjast á opinberum heimildum, einkum á stjórnvöldum og pólitíkusum.

Rannsóknir eru gamlar. Árið 1690 birti Publick Occurences frétt um pyndingar á frönskum hermönnum að undirlagi breska hersins. Slíkar fréttir fóru vaxandi á næstu öld. Bylting varð svo upp úr 1830, þegar penníblöðin komu til sögunnar.

Gullöld rannsóknablaðamennsku var upp úr aldamótunum 1900, þegar blöðin komu upp um Standard Oil. Alls staðar voru uppljóstranir á ferðinni. Á þessum tíma urðu blaðamenn fagmenn. Kennsla hófst í blaðamennsku í University of Missouri 1908.

Þessi blaðamennska dalaði síðan í heimsstyrjöldum aldarinnar. Auglýsendur neituðu að birta auglýsingar í blöðum, sem voru með uppljóstranir. Föðurlandsást jókst og stuðningur við ríkisstjórn á stríðstímum. Komið var þó upp um sumt.

Tímamót urðu aftur, þegar Seymour Hersh fór að skrifa um hryðjuverk bandaríska hersins í My Lai. Fyrir það fékk hann Pulitzerverðlaunin 1970. Bernstein og Woodward unnu í Watergatemálinu árin 1971 og 1972.

Aðferðir þeirra tveggja urðu frægar. Þeir eltu uppi lágt setta starfsmenn í ráðuneytum, stofnunum, samtökum og fyrirtækjum í leit að nafnlausum heimildum. Þeir röktu slóð peninga. Þetta urðu hversdagsleg vinnutæki blaðamanna.

Ekki voru allir jafn klárir og Bernstein og Woodward. Sums staðar voru notaðar nafnlausar heimildir, sem voru villandi og blésu smámál upp í stórhneyksli. Sumir litu svo á, að spilling réði nærri öllum stofnunum og ráðamönnum. Nánast vænisýki.

Árið 1975 voru stofnuð samtök rannsóknablaðamanna, IRE, til að bæta vinnubrögð í faginu. 3.500 félagsmenn eru í samtökunum. Þau hafa sjálf unnið að rannsóknum og sett upp siðareglur fyrir félagsmenn sína. Og heimasíðu, sem er mjög mikilvæg.

Miklum árangri náði Eugene Roberts, ritstjóri Philadelphia Inquirer, og Bill Kovach, ritstjóri Atlanta JournalConstitution. En þeir hættu störfum, af því að þeir töldu, að nýtt fjármálaumhverfi fjölmiðla gæfi ekki svigrúm til rannsókna.

Roberts og Kovach urðu fyrir þrýstingi eigenda, sem vildu draga úr rannsóknum, af því að þær fældu auglýsendur frá og kölluðu á málaferli. Hvort tveggja væri líklegt til að hræða fjárfesta og lækka gengi hlutabréfa í fjölmiðlunum.

Rannsóknablaðamaðurinn er andstaða fjármálamannsins. Sá fyrri hefur efasemdir um valdhafa, lítur niður á valdið, kærir sig ekki um hópvinnu, hefur ekki áhuga á að vinna 95, klæðir sig eins og honum sýnist, hafnar gildum stórfyrirtækjanna.

Flestir eigendur fjölmiðla eiga vini, sem fá betri meðferð en aðrir í fjölmiðlum. Neytendafréttir og stílfréttir eru dubbaðar upp sem rannsóknir. Einkum hefur orðið útvötnun á rannsóknum í sjónvarpsfréttum, til dæmis í 60 Minutes.

Eignarhald: Því er haldið fram, að markmið fyrirtækja um hámarksarð og rólegt umhverfi séu ósamrýmanleg eftirlitshlutverki blaðamennsku með yfirstéttinni, sem felur í sér eigendur fjölmiðla, stjórnendur fjölmiðla og frægðarfólk í fjölmiðlun.

Pete Hamill hjá New York Daily News: “Flóknar rannsóknir eru minna á dagskrá. Þær taka of langan tíma og eru of dýrar og hæ, er lesendum ekki sama? Svona efni er ekki í sjónvarpinu, af hverju ættum við að vera í því.”

Eftir 1985 fór að bera á, að stjórnendur fjölmiðla væru farnir að efast um rannsóknablaðamennsku. Aðrir efuðust um, að lesendur hefðu áhuga á henni. Margir blaðamenn misstu sjálfstraust til að geta haldið áfram á þeirri braut.

Með upptöku fjölmiðla í stórar fjölmiðlakeðjur hafa stjórnarmenn fyrirtækjanna litla reynslu af fjölmiðlun og lítinn skilning á henni. Á sama tíma hefur skemmtiefni rutt sér til rúms, ekki bara í sjónvarpi, heldur líka í dagblöðum.

Þegar Ben Bagdikian skrifaði Media Monopoly árið 1984, stjórnuðu 50 fyrirtæki fjölmiðlun í Bandaríkjunum, en árið 1997 var talan komin niður í 10 fyrirtæki. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á augljósar afleiðingar þessarar breytingar.

Rannsóknablaðamennska er skilgreind sem fréttir, er ljóstra upp um, að eitthvað ástand sé annað en það, sem stjórnvöld, stórfyrirtæki og aðrar valdastofnanir segja það vera, og einnig sem fréttir, er ljóstra upp um félagsleg vandamál.

Hún er líka skilgreind sem fréttir, er ljóstra upp um ill verk eða lögbrot eða siðferðilega ranga hluti, sem reynt er að fela fyrir almenningi. Samkvæmt slíkum skilgreiningum hefur rannsóknablaðamennska minnkað verulega 1980-1995.

Á þessum tíma minnkaði leki á skjölum til fjölmiðla. Mikil aukning var á notkun tölva í tengslum við rannsóknir, til dæmis skoðun á gagnabönkum og samanburður á þeim. Aðrar aðferðir héldust nokkurn veginn óbreyttar á ofangreindu tímabili.

Fréttir af dauða rannsóknablaðamennsku eru þó ýktar. Mörg dagblöð hafa dregið úr henni, en sum bestu blöðin halda henni áfram af fullum krafti. Sum lítil blöð hafa bætt stöðu sína, svo sem Dayton Daily News og Akron Beacon Journal.

Rannsóknir hafa leitt í ljós, að stuðningur almennings við rannsóknablaðamennsku rís og hnígur eftir skoðun fólks á því, hvað vaki fyrir fjölmiðlunum. Almennt er stuðningur, fólk vill töff blaðamennsku, ef hún styður hagsmuni samfélagsins.

Á sama tíma hefur stuðningur almennings við aðferðir fjölmiðlanna í rannsóknum farið á ýmsa vegu. Skoðanakannanir, umræða og dómsúrskurðir sýna, að fólk ætlast til, að fjölmiðlar fari eftir siðlegum og löglegum leiðum í rannsóknum þeirra.

Þótt blaðamenn haldi fram, að umdeildar aðferðir séu stundum nauðsynlegar til að ná árangri í rannsóknablaðamennsku, lítur fólk á, að þeir séu þar dómarar í eigin sök. Fólk mun þó áfram styðja rannsóknir og þær munu áfram verða í fjölmiðlum.

Faldar myndavélar hafa verið ofnotaðar og of mikið notaðar til að skemmta skrattanum í fólki. Traust á ónafngreindum heimildamönnum fer minnkandi og sumir fjölmiðlar forðast slíkt. Þeir, sem eiga harma að hefna, segja fjölmiðla “evil”.

Segja má, að viðhorf almennings til rannsóknablaðamennsku einkennist af spakmælinu “tilgangurinn helgar ekki meðalið”. Þótt ásetningur blaðamanna sé góður, réttlæti hann ekki aðferðir sem eru vafasamar siðferðilega eða lagalega.

Sérstaklega efast fólk um faldar myndavélar og hljóðnema, um að blaðamenn noti nafnlausa heimildamenn, og um að þeir greiði heimildamönnum fyrir upplýsingar. Um aðrar aðferðir er meiri sátt í þjóðfélaginu.

Viðhorf fólks er tvíeggjað. Það telur 1) að fjölmiðlar ráðist á einkalíf fólks, 2) að fjölmiðlar gefi skakka mynd af raunveruleikanum og 3) að fjölmiðlar séu sekir um æsing, blási hluti upp úr réttum hlutföllum.

En fólk 1) vill líka vera upplýst um gang mála og fá alla söguna, 2) vill að komið sé upp um glæpi, fólk sé heiðarlegt og sannleikurinn komi í ljós, og 3) telur fjölmiðlana þjóna hlutverki eftirlitsaðila með gangverkinu í kerfinu.

Sjónvarp í vanda:
Á yfirborðinu var mikið um rannsóknir í sjónvarpsfréttum síðasta áratug 20. aldar. En margir telja, að ekki sé allt sem sýnist. Markmið þessara þátta sé fremur að skemmta fólki en að veita því fréttalega næringu.

60 Minutes var fyrsti rannsóknaþátturinn í sjónvarpi og er enn sá besti. Einnig hafa komið Dateline og Prime Time Live, sem eru þó meiri skemmtiþættir. Þessir þættir eru ódýrir í framleiðslu, kosta bara brot af því, sem skemmtiþættir kosta.

Fréttaskýringaþættir í sjónvarpi hafa iðulega farið út böndum, til dæmis í Simpsonmálinu, þar sem þáttastjórar voru eins og úlfahópur að tæta í sig hræ. Að sumu leyti hefur minnkað munurinn á þessum þáttum og raunveruleikaþáttunum. Ath. Lewinsky.

Munurinn á Watergatefréttum Washington Post og Lewinskyfréttum sjónvarps er mjög mikill. Annars vegar var fjallað um hornstein þjóðskipulagsins og hins vegar um ástarsamband í Hvíta húsinu.

Æsingslegur upplestur á glannalegum texta, notkun mynda og hljóðs í þeim stíl, allur pakkinn af dramatík er notaður í sjónvarpsþáttum, sem segjast vera rannsóknir. Sjónvarpið árið 2000 er orðið eins og blöðin voru árið 1700.

Í eðli sínu er siðferðishyggja að baki fréttaþáttanna og gömlu æsingsblaðanna. Báðir aðilar eru íhaldssamir, verja hefðbundið siðferði og gagnrýna þá, sem víkja af vegi þess. Gagnrýnin er alvörugefin, þótt hún sé yfirborðskennd á köflum.

Stuðningsmenn æsingsfrétta í sjónvarpi og dagblöðum segja, að hefðbundin blaðamennska sé yfirstéttarleikur, sem feli í sér hræsni og yfirdrepsskap og sé úr sambandi við veruleika fólks.

Æsingsfréttir í sjónvarpi hafa bjargað mannslífum, leitt til handtöku glæpamanna, bætt lagasetningu. Þær eru oft betri en fréttaskýringarnar. Auk þess eru þær vinsælar og auka tekjur sjónvarpsins.

Rannsóknablaðamennska þarf að vera áhugaverð og skemmtileg til að fólk vilji nota sér hana án þess að detta niður í skrum. 60 Minutes er enn í dag dæmi um farsælan meðalveg í rannsóknum, mjög vinsæll þáttur, sem oft sýnir vandaða blaðamennsku.

Ekki má búa til girðingu milli mikilvægrar og lítilvægrar blaðamennsku eins og milli mikilvægrar og lítilvægrar tónlistar, þannig að yfirstéttin noti leiðinlega blaðamennsku og almenningur halli sér að skemmtun í blaðamennsku.

Við megun ekki gleyma, að frá upphafi hefur það verið besta blaðamennskan, sem felur í sér, að miklir sögumenn segja skemmtilegar sögur, sem eru vinsælar um leið og þær eru sannar.

Marilyn Greenwald & Joseph Bernt
The Big Chill 2000

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé