Ritstjórn tímarita

Ritstjórn
Ritstjórn tímarita

Jeff Csatari, ritstjóri Men’s Health: Ef höfundurinn skilur það, sem þú vilt, og skilar því, þarftu ekki að trufla rödd hans. En sé hún ekki í stíl blaðsins skaltu óhræddur breyta henni. Hugsaðu bara um lesandann, bestu greinina fyrir hann.

Eftir fyrstu yfirferð kemur röðin að þessu:
1. Passar greinin?
2. Er tónninn við hæfi?
Þú kannt að hafa tugi spurninga fyrir höfundinn í minnisbók, en krotar þær ekki í handritið.

1. Passar greinin stefnu blaðsins?
2. Passar greinin lesendunum?
3. Passar greinin fyrirmælum ritstjóra?
4. Passar greinin við aðrar greinar í sama blaði?
5. Passar greinin í röð áður birtra greina?

Fyrirmæli geta verið um:
1. Lengd.
2. Heimildir.
3. Uppbygging.
4. Tónn.
Ritstjórinn á að verða var við frávikin og skilja þau.

John McDonald, ritstjóri Woodwork: “Hvert tölublað þarf að vera í jafnvægi, fjallað er um verkefni og um fólk. Jafnvægið er matsatriði, en þú átt að hafa tilfinningu fyrir því. Jafnvægi næst ekki í tímahraki, þarfnast umhugsunar.”

Tímarit um íslenzka hestinn þarf jafnvægi milli keppni, áhorfenda, ræktenda, braskara, útreiðafólks, langferðafólks, hryssueigenda, áhugafólks um einstaka liti, um einstakar gangtegundir. Í mörgum tilvikum les fólk bara sinn eina efnisþátt. Og kvartar yfir hinu.

Patrick J. McGeehan, rannsóknastjóri National Geographic: “Við fjöllum um lönd og svæði í fréttunum, en reynum líka að vera tímalausir, svo að nota megi safnið af tölublöðum blaðsins sem eins konar alfræðiorðabók um lönd og svæði.”

Lausn á jafnvægi í tölublaði felst oft í að færa stakar greinar milli tölublaða. Þú þarft alltaf að geta útskýrt, hvers vegna þetta efni er í blaðinu eða hvers vegna það er ekki þar, og getað vísað til ritstjórnarstefnunnar í því samhengi.

Tónn greinar er rödd hennar, persónuleiki hennar, sjónarhóll, tilfinning hennar. Hann felst í: Nafnorðum. Sagnorðum. Gerð málsgreina. Gerð málsliða. Ýkjum og úrdrætti. Spakmælum og samlíkingum. Háði.

Tónn er innifalinn í vef greinar. Það er ekki hægt að sletta honum ofan á. Best er að höfundurinn komi sér í rétt hugarástand, þegar hann sest við skriftir. Þá er líklegt, að fram komi tónn við hæfi.

Forskrift ritstjórans þarf að fela í sér tóninn, sem óskað er eftir. Annars getur illa farið. Það er mjög erfitt að breyta tóni í þegar komnu handriti. Höfundurinn getur ekki hent inn orði hér og þar. Hann verður að skrifa greinina upp.

Mat á tóni:
1. Fyllir hann þarfir lesenda?
2. Fylgir hann smekk lesenda?
3. Hæfir hann málefninu?
4. Samræmist hann öðru efni?
5. Samræmist hann efni fyrri blaða?

Enn er ekki komið að því að krota neitt í handritið. Þú hefur spurt ýmissa spurninga, ekki endurskrifað handritið. Þú ert viss um, að það sé vit í því, það hæfi forskriftinni, lesendum og tímaritinu. Þú ert viss um, að tónninn sé réttur.

Með góðri hugsun á réttum tíma hefurðu nú fengið grein, sem hentar. Þú hefur ónáðað höfundinn, sem sættir sig við það, af því að hann veit, að greinin batnar. Jafnvel Pulitzerverðlaunahafar vilja endurskriftir á greinum sínum.

Góðir höfundar vilja, að það, sem birtist undir nafni þeirra, sé það besta fáanlega í stöðunni. Þeir vilja ekki lata eða feimna ritstjóra, sem láta allt fram hjá sér fara. Ritstjórinn hefur heldur ekki fyrirskipað, heldur bent á.

Spurningar ritstjórans ögra höfundinum til að gera sitt besta. Þegar öllu þessu er lokið og endurskrifuð grein er komin inn, þá kann svo að fara, að endurskrifa þurfi greinina aftur og enn aftur, þangað til hún er orðin hrein.

Nú kemur að skoðun stoðkerfis greinarinnar. Þú skoðar beinagrindina og fullvissar þig um, að allt hangi rétt saman. Þú lítur á megingerðina, upphafið, endann, án þess að krota neitt í handritið. Af þessu er megingerðin erfiðust viðureignar.

Þegar markvissa beinagrind vantar, freistast höfundurinn oft til að skrifa textann í þeirri röð, sem hann fékk upplýsingarnar. eða til að skrifa hann í þeirri röð, sem honum datt hann í hug. Hvorugt dugar.

Michael Bawaya, ritstjóri American Archaeology: Vel skipulögð grein flæðir eðlilega milli atriða og fer yfir öll atriði. Ég legg áherslu á flæðið milli atriða, margir höfundar eiga erfitt með það. Áhersluatriði mega ekki týnast.

Góð beinagrind:
1. Veitir lesendum upplýsingar, þegar þeir þurfa þær.
2. Veitir upplýsingar á náttúrulegan hátt.
3. Gefur greininni samheldni og öryggi.
4. Sýnir afstöðu staðreynda, persóna og atburða.
5. Byggir upp spennu og kemur á óvart.
6. Gefur greininni rökréttan og eðlilegan enda.

Grein á ekki að gefa upplýsingar á klossaðan og tilviljanakenndan hátt, heldur láta þær flæða eðlilega í textanum. Lesendur mega slaka á og njóta ferðarinnar. Þeir skilja, hvar þeir eru, og vita, á hvaða leið þeir eru.

Í brotinni frásögn kemur allt á óvart. Hvers vegna segirðu þetta? Hver er þessi maður? Hvað er að gerast hér? Greinin á að enda sterkt. Beinagrind greinar er það, sem skilur milli áhugamanns og atvinnumanns í skrifum.

Góðir ritstjórar gefa sér tíma til að velta fyrir sér beinagrindinni. Er hún skýr? Örugg með sig? Sterk? Hreyfir hún söguna fram eftir vegi? Vill ég halda áfram að lesa? Er eitthvað pirrandi, eitthvað óviðkomandi? Vantar upplýsingu?

1. Virkar greinin löng, þótt hún sé það ekki?
2. Ruglar greinin okkur í ríminu.
3. Finnst okkur greinin enda aftur og aftur eða aldrei.

Þú getur gefið höfundi forskrift að beinagrind:
1. Tímaröð. Algengust og auðveldust. Hentar frásögn.
2. Skref fyrir skref. “How to do” greinar.
3. Öfugi píramídinn. Hefðbundinn dagblaðastíll.
4. Frá almennu til sértæks. Súmmað inn.
5. Frá sértæku til almenns. Súmmað út.
6. Landafræði. Frá einum stað til annars.
7. Rammi. Byrjað á örsögu, hún frosin og síðan afþýdd í endann.
8. Mæna. Fylgt beinni línu, en farið í útúrdúra.
9. e-aðferðin. Byrjað er á örsögu. Síðan kemur samhengi og bakgrunnur, sem skýra örsöguna. Þar á eftir koma upplýsingar um málefnið.

Ef þú getur ekki lýst beinagrind sögu, er ekki víst, að hún hafi beinagrind, og þú getur lent í vanda. Talaðu um málið við höfundinn og leyfðu honum að leysa vandann.

Augað færir okkur fyrst að myndunum, síðan myndatextunum og í þriðja lagi að fyrirsögnunum. Í fjórða lagi kemur röðin að innganginum, sem hefur það meginhlutverk að fá lesandann til að halda áfram.

Hlutverk inngangs:
1. Selur greinina.
2. Kynnir málið.
3. Setur tóninn.
4. Setur upp þægilega yfirfærslu frá einum punkti til annars.

Tegundir inngangs:
1. Örsaga.
2. Auðug lýsing.
3. Spenna eða ráðgáta.
4. Gamansemi.
5. Áhugaverð persóna.
6. Þá og nú.
7. Kemur á óvart.
8. Tilvitnun.
9. Listi.

Hættur:
Spennan er leyst.
Lesandinn er blekktur.
Óþarfa “sex & violence”.
Of miklu er lofað.
Gamalþreyttar aðferðir.

“The nut graf” er “nutshell paragraph”, sem segir kjarna málsins. Hver gerði hvað, hvenær, hvar, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Venjulega kemur þessi kjarni málsins beint eftir innganginn.

Endirinn:
1. Lokun málsins.
2. Samantekt þess.
3. Mikilvægi þess.
4. Minnishjálp.
5. Tónn, persóna, stíll.

Endirinn tekur saman alla greinina, ekki bara síðasta punktinn. Endirinn er valdamiðstöð greinarinnar. Lesendur muna hann best. Höfundar mega ekki eyða þeim krafti á linan og óvirkan endi.

Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé