Ritstjórar hafa orðið

Ritstjórn
Ritstjórar hafa orðið

Gerry Bishop, ritstjóri Ranger Rick: “Við vitum, að við erum að gera rétt, þegar margir lesendur skrifa til að hrósa greinum, sem við vitum, að voru ekki nógu góðar. Við vitum þetta líka, þegar starfið veitir okkur gleði og ánægju.”

Jeff Csatari, ritstjóri Men’s Health: “Þú veist, að þú hefur staðið þig, þegar þú lest blaðið og ert stoltur af því. Þú veist, að þú hefur ekki staðið þig, ef þú vildir, að nafnið þitt væri ekki þarna.”

Jackson Mahaney, ritstjóri Endless Vacation: “Markmið mitt er að nota eins mikla skapandi orku og hægt er til að kynna umheiminn fyrir lesendum, auka skilning þeirra á ferðum og ævintýrum, svo og að skrifa góðar ritstjórnargreinar.”

Susan Ungaro, ritstjóri Family Circle: “Sumir segja, að þeir hafi ekki verið að vinna vinnuna sína, ef þeir hafi ekki móðgað lesanda, embættismann eða fyrirtæki í sex mánuði. Ég held, að í þessu sé sannleikur.”

John McDonald, ritstjóri Woodwork: “Þú veist, að þú hefur staðið þig, ef þú hefur sett þér markmið og staðið við þau. Þú verður stöðugt að bæta blaðið. Álit annarra getur verið þægilegt eða óþægilegt, en þú verður að meta árangurinn.”

Margot Slade, ritstjóri Consumer Reports: Það er gott, þegar ritstjórnin er í góðu skapi yfir því, sem vel hefur verið gert. Það er gott, þegar ég fletti blaðinu og sé, að við erum að láta lesendur hafa gagnlegar upplýsingar.

Cheryl England, ritstjóri MacAddict: “Lesendur segja þér, ef þú stendur þig. Þeir senda þér “ástarbréf”. Þeir senda þér gjafir. Ég hef fengið myndir, plastdýr, diskaskáp, döðluplómur, súkkulaði, dúkku og margt annað.”

Jon Guttman, ritstjóri Military History: Ég les niðurstöður spurningalista og bréf, svara þeim oft. Ég fylgist með, hvað kemur mikið til baka úr lausasölu. Lesendur blaðsins hafa ákveðnar skoðanir og leyna þeim ekki.

Gerry Mandel, ritstjóri Stone Soup: Stundum fáum við að vita í bréfum, hvort lesanda hafi líkað eða ekki líkað við efni. Við tökum mark á þessu. Við vorum gagnrýnd fyrir of margar sorgarsögur og höfum því fækkað þeim.

Joan Hamilton, ritstjóri Sierra: “Lesendur bregðast við í bréfum, könnunum og símtölum. Stundum höfum við kúpona um aðgerðir í umhverfismálum. Ef við fáum marga til baka gerum við ráð fyrir, að tilheyrandi grein hafi haft áhrif.”

Mimi Handler, ritstjóri Early American Life: “Ef þú stendur þig ekki, láta lesendur þig vita. Tölurnar fara niður. Ef þú ert heppinn, segja þeir, hvað þeir vilja ekki. Ef mikið er um slíkt, er það toppur á ísjaka og þú skalt vara þig.”

Fred L. Schultz, ritstjóri Naval History: Við vitum, hvernig við stöndum okkur, af tóni í bréfum. Ef við fáum kvartanir um staðreyndavillur, þurfum við betri sannreynslu. Ef við fáum bréf með gagnstæðum sjónarmiðum, höfum við staðið okkur.

Fulton Oursler, ritstjóri Guideposts: Við förum ekki eftir könnunum, en sendum út lista eftir hvert tölublað, þar sem við biðjum um viðbrögð. Við spyrjum um traust. Ekkert er þó betri mælikvarði en hreyfing áskrifendafjöldans.

Peggy S. Person, ritstjóri Mature Outlook: Við höfum trú á könnunum hjá lesendum. Við notum opnar spurningar, sem gefa tækifæri til skoðana, fókushópa og spurningalista til úrtaks áskrifenda. Þeir vilja líka gjarna tjá sig.

Patrick J. McGehan, rannsóknastjóri National Geographic: Við notum tölfræði um viðbrögð lesenda. Við fáum þau í pósti, síma og á netinu. Eftir hvert tölublað sendum við úrtaki 800 lesenda spurningalista um það blað. Notum niðurstöðurnar.

Mat á árangri:
1. Settu mælanlegan árangur í ritstjórnarstefnuna.
2. Fáðu viðbrögð lesenda. Verst er, ef þau eru engin.
3. Notaðu fókushópa og gerðu þér grein fyrir takmörkunum þeirra.
4. Láttu ritstjórnina meta hvert tölublað.
5. Fylgstu með samkeppninni.
6. Fylgstu með brotfalli og endurnýjun áskrifta.

Brad Pearson, ritstjóri Heartland USA: “Þar sem við erum ekki í lausasölu, getum við ekki notað hana til að meta árangurinn. Fókushópar og óformleg símtöl gefa okkur hins vegar góða hugmynd um, hvernig við stöndum.

Mary Clemens Meyer, ritstjóri On the Line: Mér finnst gott að fá viðbrögð. Þau eru mikil. Ég þakka fyrir tölvupóstinn, hann gerir miklu auðveldara að halda sambandi við lesendur.

Cele G. Lalli, ritstjóri Modern Bride: “Við mælum árangurinn í dreifingunni, í könnunum meðal lesenda, í fókushópum og í viðtölum könnunarfyrirtækis og í skýrslu rannsóknastofnunar um lesendaferlið.

Karan Davis Cutler, ritstjóri Harrowsmith Country Life: Lesendur láta okkur vita. Við höldum fundi til að meta hvert útkomið eintak. Við lesum önnur blöð. Stundum biðjum við starfsbræður um að fletta með okkur nokkrum síðustu eintökunum.

Peggy S. Person, ritstjóri Mature Outlook: Við höldum frjálslega hugmyndafundi, þar sem við gagnrýnum blaðið og skoðum, hvernig önnur tímarit standa sig. Við viljum forðast stöðnun með því að endurskapa blaðið sífellt og fylgjast með.

Craig Cox, ritstjóri Utne Reader: Við fylgjumst með lausasölu, endurnýjunum áskrifta, umsögnum í fagritum. Og við hlustum hvert á annað í gagnrýni á hvert tölublað.

Bonnie Leman, ritstjóri Quilter’s: Þú ættir að gagnrýna öll tímarit á þínu sviði til að sannfærast um, að þitt blað sé samkeppnishæft. Þú ættir að fylgjast með eins mörgum blöðum og þú getur og vita um stíl, form, gröf og efni hvers tíma.

Amy Ulrich, ritstjóri Sail Magazine: “Lesendur kjósa með veskinu. Lausasala og endurnýjun áskrifta, ásamt markaðshlutdeild gefa nokkuð góða mynd af viðtökum blaðsins hjá fólki, sem hefur áhuga á að lesa um siglingar.”

Jean LemMon, ritstjóri Better Homes and Gardens: Þú veist, að þú stendur þig, þegar áskrifendum fjölgar og þegar viðbörgð eru góð við lausum kúponum. Þetta bendir til, að lesandi hafi notað tölublaðið og honum geðjist nógu vel að því.

Susan Ungaro, ritstjóri Family Circle: Við notum póst frá lesendum, fókushópa, könnunarstofnun og hóp 1000 sjálfboðaliða, sem vilja fylla út 100 blaðsíðna spurningalista tvisvar á ári.

Matthew Carolan, ritstjóri National Review: Við fylgjumst með viðbrögðum stjórnvalda og fjölmiðla. Við fylgjumst með fjölda áskrifenda. Við fylgjumst með fjölda lesendabréfa.

Edward Kosner, ritstjóri Esquire: Eru endurnýjanir eru góðar?
Jill Benz, lesendastjóri Ladies’ Home Journal: Lausasala og endurnýjanir.
Frances Huffman, ritstjóri U: Svörun. Viðbrögð nemenda í blaðamennsku.
David J. Eicher, ritstjóri Astronomy: Þegar svörun er góð, áskriftir aukast.
Beth Renaud, ritstjóri National Gardening: Sölutölur, lesendabréf, kannanir.
John H. Johnson, ritstjóri Ebony: Bréf og símtöl. Sölutölur.

Roanne P. Goldfein, ritstjóri American Indian Art Magazine: Við höfum staðið okkur, ef greinarnar hafa meiri sannleika en innantómar alhæfingar, ef við höfum sloppið við pólitíska eða viðskiptalega hlutdrægni, ef sannreynsla er mikil.

Goldfein áfram: Útgefandinn hefur mestan áhuga á áskrifendafjöldanum. Ég mæli árangurinn í sannleika í hverju tölublaði og í því, hvort hvert efni er vel sett fram eða ekki.

Bonnie Leman, ritstjóri Quilter’s: Fylgjumst með viðbrögðum lesenda. Höfum árlega lesendakönnun. Fylgjumst með endurnýjun áskrifta, þær eru hreinasta mælingin.

Tom Slayton, ritstjóri Vermont Life: Endurnýjanir séu yfir 70%. Fókushópar. Verðlaun í gæðasamkeppni.

Ritstjórinn hugsar: “Þessi Bonnie Penn hefur gert góða hluti fyrir okkur. Mér líkar stíllinn og hún er þægileg í símanum. Hún talaði um áhuga sinn á starfi í framtíðinni. Það er best, að ég hringi í hana.”

Jon Wilson, ritstjóri Wooden Boat: Tímarit eru svo áhrifamikil. Þú getur haft svo mikil áhrif á hugsanagang fólks, þótt þú getir ekki stýrt honum. Þú getur séð litlar hugmyndir vaxa í krafti hins ritaða máls. Og þetta er spennandi starf.

Wilson áfram: Það er ekki mikill glaumur í þessu, en dálítið af heiðri, ef stefnan er árangursrík. Og það geta verið sæmilegir peningar fyrir hæfa og reynda menn, sem leggja að sér.

Margot Slade, ritstjóri Consumer Reports: Þú verður að elska það, sem þú ert að gera, því að vinnumarkaðurinn er ekkert frábær. Þú ert hér, af því að þú ert sannfærður um, að fólk þurfi upplýsingar til að geta tekið ákvarðanir í lífinu.

Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé