Prentmiðlar 2007

Framtíðin
Prentmiðlar 2007

Senn fer að líða að því að dagblöð loki sjoppunni. Atvinna á blöðum er þegar farin að dragast saman, í Bandaríkjunum um 18% milli 1990 and 2004. Knight Ridder samsteypan féll árið 2005. New York Times riðar til falls í skothríð greiningarfræðinganna.

Dagblaðaútgáfa í Bandaríkjunum er um áramótin 2007-2008 42% minna virði en hún var fyrir þremur árum og 26% minna virði en hún var fyrir ári. Þetta er ekki bylgja, heldur hrun. Margir forstjórar dagblaða verða ekki lengur í bransanum árið 2009.

Þótt minni kostnaður hafi verið lagður í ritstjórn New York Times árið 1972 en árið 2007, er ekki að sjá, að blaðið hafi verið lakara þá. Sumt ætti að auka hagræðingu núna, vefur, farsími, flug, gagnabankar. Ekki ætti því að þurfa fleiri starfsmenn 2007 en 1972.

Þrátt fyrir samdrátt í blaðaútgáfu er fjöldi blaðamanna víða meiri en áður, ef litið er til lengri tíma. Á þremur áratugum hefur blaðamönnum New York Times fjölgað út 750 í 1200. Fjöldi fréttaútibúa hefur haldist óbreyttur. Efni frá fréttastofum er minna notað.

Í september 2007 hætti New York Times að selja aðgang að efni á netinu. Búist var við, að Wall Street Journal mundi koma í kjölfarið. Á móti minni áskriftartekjum koma meiri auglýsingatekjur. Eina blaðið, sem þá selur, er Financial Times, sem lækkaði verð.

Auglýsendur hafa ekki áhuga á íbúum fátækrahverfa. Þess vegna hafa ýmis dagblöð í Bandaríkjunum sparað kostnað og hætt að dreifa í sumum póstnúmerum. Um leið hefur verið dregið úr tilboðum og annarri gervisölu.

Ef útgefendur eru fáanlegir til að gefa efni blaða á vefnum, er ekki hægt að krefjast þess, að við förum að kaupa þetta efni á pappír. Vefefnið er líka oft skemmtilegra. Að lokum er augljóst, hvert allt stefnir, í átt til vefsins.

Því meira sem ég nota vefinn þeim mun minna þarf ég á pappírsdagblöðum að halda. Fólk er í dag farið að lesa pappírsfréttir morgundagsins. Dagsgamlar fréttir geta varla lengur talist fréttir. Áður voru dagblöðin til umræðu í morgunútvarpi, nú er það bloggið.

Kevin Marsh, BBC: Liðinn er tími dálkahöfunda með skoðanir í stað frétta. Bloggið hefur betri skoðanir, er betur skrifað, er skjótara, meira ekta, er í takt við tímann og hvetur meira til hugsana en skoðanasíður dagblaða.

Gallar við dagblöð:
1.Fleiri vilja veffréttir.
2.Ekki rétt að halda lífi í gömlu.
3.Ögra ber hefðbundnum prestum
4.Við búum við lýðræði.
5.Dagblöð eru fúl. Wall Street hefur tekið yfir og innihald dagblaða hefur versnað.

Nú er það innblað dagblaðanna sem gildir. Þar er plássfrekt efni, sem hefur meira flatarmál en hægt er að hafa á vefnum. Þar eru risastórar myndir og risastór gröf. Pappírinn heldur uppi samkeppni út á flatarmálsfræðina.

Í stað pappírs er komin gagnvirkni, margmiðlun, blogg, félagsvefir, tölvupóstur og bókmerking. Við erum farin að skanna, hætt að lesa. Gamla kerfið er að deyja og það nýja er lengi í fæðingu. Við skulum ekki hanga í því gamla.

Fréttablöð fyrir minnihlutahópa hafa styrkst í Bandaríkjunum, t.d. dagblöð á spænsku. Í Þýskalandi hafa þau átt erfitt uppdráttar, því að lesendur telja venjulegu, þýsku blöðin vera betri og áreiðanlegri. Unga fólkið þar fjarlægist tyrknesku og nálgast þýsku.

Gott dagblað er samfélag sem talast við. Það fellir Nixon úr embætti. Það andar á háls valdamanna. Það stjórnar umræðunni í samfélaginu. Þessi valinkunna stofnun er núna í útrýmingarhættu. Dagblöð hafa miðla mest tapað á internetinu.

Vefurinn hefur tekið yfir smáauglýsingar og hefur fundið upp lesendavænar auglýsingar. Til dæmis auglýsingarnar á Google og TripAdvisor. Þær eru miðaðar við áhugaefni lesandans. Þær eru samkomustaður seljanda og kaupanda.

Dagblöð í hættu reyna að fitja upp á nýjungum á vefnum og utan hans. Þau fjárfesta í fríblöðum, sem spara sér þungavinnu í rannsóknum. Þótt það takist allt, boðar það ekkert gott fyrir fag blaðamennskunnar og hlutverk hennar í samfélaginu.

Blaðamenn og fjölmiðlafræðingar hafa áhyggjur. Mun rannsóknablaðamennska hverfa? Ástandið er þó ekki eins alvarlegt og hinir svartsýnu telja það vera. Lýðræði hefur þegar lifað af árás sjónvarps og árás léttara efnis dagblaða á kostnað þungs efnis.

Þetta mun ekki koma niður á frægustu dagblöðunum, sem geta víkkað dreifingarsvæði sitt. Léttu blöðin og miðlungsblöðin hverfa, en New York Times og Wall Street Journal geta hækkað áskriftargjaldið. Léttustu blöðin munu líka geta lifað áfram.

Gagnsemi dagblaða snerist ekki bara um afhjúpanir. Einnig um almennt aðhald og umræðu, sem eru í fullum gangi á internetinu. Aldrei hafa menn fengið meiri og betri upplýsingar. Þökk sé Google og fleiri aðilum, t.d. Guardian.

Borgarar í hlutverki blaðamanns og bloggarar hafa fengið vettvang framhjá hliðvörðum ritstjóra og stjórnenda lesendasíðna. Allir, sem eiga tölvu, eru sínir eigin ritstjórar. Innan um ruslið á vefnum hafa komið fram frábærar uppljóstranir.

Blaðamenn vefsins hafa svo sem ekki afrekað mikið. Þeir eru ekki í skotgröfunum í Írak, heldur í hægindastólnum heima. Þeir segja ekki bestu fréttirnar, heldur tjá sig um fréttir úr hefðbundnum fjölmiðlum. Þeir fjalla mest um það, sem næst þeim stendur.

Að vísu höfðar mikið af netinu til innilokaðs fólks, en það gerðu mörg dagblöðin líka. Netið hefur ekki einkaleyfi á tröllum, fordómar eru alls staðar. Þeir, sem vilja finna fordómalaust efni á vefnum, geta auðveldlega fundið það án þess að láta ruslið tefja sig.

Reynt er að koma alvöru blaðamennsku á vefinn, til dæmis á vegum sjóða, sem kosta rannsóknir. Dæmi um aðferð er NewAssignment.net, sem sameinar fagfólk og amatöra í starfi.

Guardian, Christian Science Monitor og National Public Radio afla sér tekna úr sjóðum. Að öllu samanlögðu munu blaðamenn stórblaðanna, borgaraleg bloggun og sérstakir sjóðir taka saman höndum um góða blaðamennsku í framtíðinni.

Þeir fjölmiðlar, sem ekki nota eigin umba, verða að sætta sig við, að gallar þeirra verði til umræðu utan garðs, á vefnum. Mikil gagnrýni á fjölmiðla fær ekki útrás á síðum þeirra sjálfra, bara á vefnum. Það er ekki gott vegarnesti til framtíðarinnar.

Árið 2006 varð fríblaðið 20 Minutos útbreiddasta dagblað Spánar, sex ára gamalt. Upplagið var þá orðið 2,3 milljónir eintaka. Fríblöð voru þá orðin helmingur af upplagi dagblaða á Spáni. Á Íslandi voru fríblöð þá komin yfir 70% af heildarupplaginu.

Samtals var þá upplag fríblaða í Evrópu komið í 23 milljónir eintaka árið 2006, 33% aukning frá árinu áður. Helmingur þess kom frá útgáfu á vegum hefðbundinna dagblaða. Þetta fer saman við minnkaða notkun ungs fólks á hefðbundnum dagblöðum.

Víða um Evrópu eru hefðbundin dagblöð farin að gefa út fríblöð við hliðina. Metro er farið að skila hagnaði. Dagsbrún, síðan 365 á Íslandi gefur út fríblað, sem fer heim til fólks, og hafði síðan frumkvæði í að setja af stað slík blöð í Danmörku og í Boston.

10% útgjalda fríblaða fara til ritstjórnar. Til samanburðar fara 20-40% útgjalda seldra dagblaða til ritstjórnar. Efni fríblaða höfðar yfirleitt til ungs fólks. Tilkoma fríblaða þrýstir niður ritstjórnarútgjöldum seldra dagblaða.

Um mitt ár 2006 efldist barátta fríblaða í London. London Lite var sett af stað til höfuðs London Paper, City AM og Metro. Í öllum blöðunum fjórum er lítið um pólitík og álitsgjafa, en mikið um vörur, skemmtun, lista, slúður og sport. Fríblöðin eru í lestunum.

National Geographic hefur misst þrjár af átta milljónum áskrifenda í Bandaríkjunum yfir á internetið. Bætir sér það upp með útgáfum á öðrum tungumálum, árið 2006 í Slóveníu. Það er þrítugasta útgáfan. Samtals eru tvær milljónir áskrifenda á öðrum tungumálum.

Læknatímarit eiga í erfiðleikum með að losa um samskipti sín við lyfjaiðnaðinn. Þau prenta greinar eftir höfunda úr iðnaðinum án þess að gert sé grein fyrir hagsmunatengslum. Sum tímarit hafa þrengt að slíkum greinum, en tæpast á fullnægjandi hátt. Traust.

Þrátt fyrir erfiðleika prentmiðla hafa sum tímarit blómstrað. Tímarit samtaka eru þar áberandi, einkum Consumer Reports og AARP, tímarit aldraðra. Áskrift AARP er innifalin í árgjaldi, en Consumer Reports tekur áskriftargjöld, bæði á pappír og vef.

AARP er gefið út í 22 milljónum eintaka. Á þremur árum hafa áskrifendur Consumer Reports tvöfaldast. Það borgar $60 milljón fyrir prófanir á vöru og þjónustu. Pappírsútgáfan selst í 4,3 milljónum eintaka. Consumer Reports tekur ekki við auglýsingum.

Consumer Reports hefur 4.5 m. áskrifenda á pappír og 3 m. á vefnum. Hvort tveggja er selt. Auglýsingar eru ekki birtar. Hagnaður er mikill og meiri á vef en pappír, því að kostnaður er minni. Vefsvæðið geymir kannanir langt aftur í tímann.

Þótt vandi tímarita sé mikill, er hann minni en dagblaða, sem hafa misst smáauglýsingar til vefsins. Samdráttur hefur komið harðast niður á karlablöðum. Ýmis önnur svið eru í góðu lagi, tímaritin og myndirnar þar glansa vel og hafa ekki tapað ungu fólki.

Auglýsingar halda áfram að koma í tímarit, því að notendur þeirra sækjast eftir auglýsingum, finnst þær vera hluti efnisins. Tímarit hafa verið hægfara í að koma sér á netið. Ef þau verða þar brýnasta sérfræðin, geta þau komið sér vel fyrir.

Frægðarfólk reynir í auknum mæli að semja um innihald efnis um þau í tímaritum. T.d. Hilary Clinton. Rétt svar er: “Thank you, your crude effort to kill this story will be included in the story. Goodbye.” Í slíkum tilvikum er rétt að skrifa efnið hjálparlaust.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé