Persónumiðlar 2007

Framtíð
Persónumiðlar 2007

Árið 2007 var ár Facebook. Það ár snerist líf unga fólksins um Facebook. Það lagði sig og ævi sína flata fyrir vinum sínum og kunningjum, og síðan væntanlega öðrum, sem hafa annarlegri sjónarmið í huga. Unga fólkið hugsar ekki um persónuvernd.

Facebook er staður, þar sem við deilum öllu með öðrum. Ef við viljum það. Facebook er staður, þar sem vefurinn segir vinum þínum, hvað þú hafir verið að kaupa, t.d. hvað þú hafir keypt í jólagjöf handa kærustunni. Hún frétti það auðvitað á Facebook.

Vefþjófar hafa tekið fyrir félagsmiðla vefsins, MySpace og Facebook. Þar lætur fólk í té upplýsingar um sig handa vinum sínum, en aðrir aðilar komast í þær. Fólk setur efni um ástir sínar, líf sitt, vinnu sína og áhugamál á vefinn eins og ekkert sé.

Mestur vöxtur á netinu hefur verið í félagslegum samskiptum, á MySpace, Facebook og Flickr.
Nýjungar eru á fréttavefjunum Digg, Reddit og Del.icio.us. Á tveimur fyrstu greiða notendur atkvæði um fréttir. Á þeirri síðustu setja menn inn bókamerki.

YouTube var stofnað af Steve Chen og fleirum árið 2005. Það snýst um dreifingu myndskeiða. 100 milljón skoðanir eru á dag. Rétthafar tónlistar hafa samstarf við YouTube og gefa þar út efni. Stjórnmálamenn eru þar líka.

Google og dótturfélag þess YouTube eiga ekkert af efninu, sem þau safna. Það gerir þau viðkvæm fyrir áhlaupi hefðbundinna fjölmiðla, sem höfða mál gegn þeim. Beinir viðskiptum til Joost, iTunes og MySpace, sem eru löglegir.

Fyrir kosningarnar 2008 var YouTube mikilvægur miðill fyrir stjórnmálamenn að koma sér á framfæri og taka við spurningum frá almenningi. YouTube hélt líka fundi með frambjóðendum.

MySpace var stofnað árið 2003 af Tom Anderson og Chris DeWolfe. Það er félagsmiðstöð 100 milljóna manna, fjórða stærsta vefsvæði í heimi. Það er mikið notað fyrir tónlist. NewsCorp (Rupert Murdoch) keypti fyrirtækið árið 2005.

MySpace er orðin eins konar náttúruleg einokun, sem nýr og betri hugbúnaður (t.d. Cyworld) fær ekki hróflað við. Notendur MySpace hafa lagt svo mikla félagsfestingu í það, að þeir fara ekki í grænni haga. MySpace er aðallega félagsleg samvera.

Ráðningarstofur nota ekki bara Google til að leita upplýsinga um þá, sem sækja um störf. Í auknum mæli leita þau á Facebook og MySpace til að finna persónulegar upplýsingar. Myndirnar frá stúdentaboðinu geta orðið að draugi, sem fylgir þér ævilangt.

Fortíðin getur verið erfið fyrir stjórnmálamenn, þegar dregin verða upp myndskeið á Facebook frá námsárum þeirra, notkun á hassi, stripl þeirra o.s.frv. Þar geta líka verið myndar teknar á gemsa í búningsklefum.

Ef þú færir upplýsingarnar um þig og myndböndin þín frá MySpace, þá yfirgefurðu líka vinina og verður að byrja upp á nýtt. Allir eru á MySpace. Það hafði í ársbyrjun 2007 yfir 150 milljón notendur og fjölgaði hratt. Kannski munu auglýsingar fæla þá frá.

Stéttaskipting er risin á félagslegum bloggsvæðum. Facebook er notað af fólki, sem fer í framhaldsnám, en MySpace er notað af minnihlutahópum. Liðsforingjar nota Facebook, óbreyttir nota MySpace.

Hópar eldra fólks en áður er farið að safnast saman á Facebook. Mun það breyta svæðinu. “There goes the neighborhood”. Ekki hefur borið á því, að fólki finnist þessi viðbót gera vefsvæðið lakara.

Facebook var í árslok 2007 að prófa nýja auglýsingatækni, þar sem vinir geta séð, hverju hver þeirra mælir með, hvað þeir hafi keypt á eBay o.s.frv. Hafi hann keypt Prius, þá koma fram auglýsingar á Prius. Á þessum tíma hafði Facebook 50 milljónir notenda.

Menn ráða því á Facebook, hvort neysluvenjur þeirra eru opin bók fyrir vini þeirra og kunningja. Ef þeir heimila notkun, fá vinir og kunningjar auglýsingar byggðar á neysluvenjum vinarins.

Reiði greip um sig í árslok 2007 vegna auglýsinga á Facebook, þar sem neysluvenjur eins eru notaðir í auglýsingar fyrir aðra. Umræða var í bloggi og mótmælaskjöl send. Forritið Beacon var upphaflega “opt-out”, en síðan breytt í “opt-in” eins og venja er.

Félagsmiðillinn Facebook hóf í árslok 2007 gagnsókn gegn News Google með samstarfi við ABC um fréttir af bandarískum stjórnmálum. Gert er ráð fyrir gagnvirkni og svörun hjá ABC við viðbrögðum á Facebook.

Google og bandalag nokkurra fyrirtækja hafa sameinast um að smíða opinn hugbúnað (Open Social) utan um Orkut, félagsviðmótið frá Google. Þessu er stefnt gegn Facebook, sem hefur um 500 ytri forrit. Sum fara á Open Social, eru með í bandalaginu.

Facebook er eyja út af fyrir sig, þar sem fólk talar við vini sína og félaga. Google vill tengja slíkar eyjur við umheimsvefinn. Með bandalagi ýmissa fyrirtækja um Open Social, opinn staðal um félagslega fjölmiðlun. MySpace og Bebo eru aðili að Open Social.

Google reyndi áður að kaupa Facebook. Bandalagið hefur 100 milljón notendur, rúmlega tvöfalt fleiri en Facebook. Meðal forrita í bandalaginu eru iLike, Slide, Frixter og RockYou. Google hefur lengi vantað nærveru í félagstengslum á netinu.

Google leitin hefur ekki aðgang að Facebook. Með OpenSocial fær leitin aðgang að samkeppnisaðila, sem er studdur af MySpace. OpenSocial og Android opna ýmsa möguleika fyrir fólk, sem ekki eru aðgengilegir á Facebook.

Facebook hafði í ársbyrjun 2008 helmingi færri notendur en MySpace, en hafði byggst upp á aðeins einu ári. MySpace framleiðir eigið efni, en Facebook ekki. Tekjur MySpace eru mest frá bannerum og eindálkum, en Facebook er með Beacon.

eBay var stofnað 1995 af Pierre Omidyar. Það hafði 168 milljón notendur árið 2006. Þar er markaður fyrir vörur og þjónustu og uppboð á vöru og þjónustu. Allt er fáanlegt á eBay. Fyrirtækið á PayPal og Skype.

Craigslist er ókeypis smáauglýsingavefur, stofnaður árið 1995 af Craig Newmark. Um leið er vefurinn samfélagsmiðstöð bæja og hverfa með milljónum notenda. Craigslist er meginástæða þess, að dagblöð hafa tapað smáauglýsingum.

Napster var stofnað af Shawn Fanning árið 1999. Hafði 500.000 gjaldskylda notendur árið 2006. Það gerði fólki kleift að dreifa tónlist milli sín án afskipta rétthafa. Tapaði málaferlum út af því og varð gjaldþrota. Önnur forrit hafa tekið við hlutverkinu.

Blogger er forrit um bloggútgáfu, stofnað af Evan Williams árið 1999. Árið 2006 var það með 18,5 milljón mismunandi gesti. Blogger gerði bloggið eins einfalt í notkun og ritvinnsla

Friendsreunited er hugbúnaður, sem heldur utan um skólafélaga. Það var stofnað árið 1999 og var árið 2006 notað af milljónum manna.

Amazon er vefverslun, fyrst með bækur og enn mest með bækur. Það var stofnað 1994 af Jeff Bezos og hafði 35 milljónir viðskiptavina árið 2006. Fyrirtækið er þekkt fyrir áreiðanleika og lágt verð. Það útvegar bækur, sem útgefendur hafa ekki lengur til.

Slashdot er slóð með tæknifréttum og spjalli um tækni. Það var stofnað 1997 af Rob Malda og hafði 5,5 milljónir notenda á mánuði árið 2006.

Yahoo má kalla notendaviðmót, heimasíðu margra, og leitarvél. Það var stofnað árið 1994 af David Filo og JerryYang. Árið 2006 var það með 3,5 milljarða smella á dag. Var stærsta vefsvæði heims, en er núna nr. 2 á eftir Google.

Vefsvæði, sem áður voru á gráa svæðinu milli lögmætis og lögleysis, svo sem BitTorrent, ganga til samninga við rétthafa efnis. Þetta þrengir kosti annarra vefsvæða, sem þurfa að standa í málaferlum við rétthafa, svo sem YouTube.

Stefnumótavefir með áskriftargjaldi hafa sótt fram. Meetic hefur náð miklum vinsældum um allan heim. Það notar líka farsíma. Stefnumótavefir eru í óbeinni samkeppni við persónulega og ókeypis fjölmiðla á borð við MySpace.

Gallinn við vinsældir eða fjölda tölvupóstsendinga er, að það er bara ein hlið frétta. NewsTrust reynir að bæta úr því með því að meta fréttir eftir trausti. Þar með er kannski komin viska fjöldans, sem sumir hafa beðið lengi eftir.

FactCheck.org hefur síðan 2003 fylgst með áreiðanlega upplýsinga, til dæmis hjá stjórnmálamönnum. Blaðamenn hafa betri möguleika en áður á að staðfesta heimildir, t.d. á LexisNexis. Pólitíkusar ljúga misjafnlega mikið.

Álitsgjafar Computing Which settu Bebo í efsta sætið með 79 stig og Facebook í annað sætið með 74 stig. Þeir voru að meta, hversu notendavænir félagslegir miðlar væru á vefnum. Á Bebo er auðveldara að verjast áreiti. Yahoo var lægst með 59 stig.

Aðrar fréttir ársins:
iPhone farsímatæki frá Apple.
Scrabulous, stæling á Scrabble.
Twitter, staðsetningarforrit.
StumbleUpon leitarforrit
Halo 3
Brain Training.

Síðustu tvö árin hefur podcasting verið mikið notað af pólitíkusum, sem flytja ávörp. Þessu efni er hlaðið niður af heimasíðu þeirra. Útgefendur blaða og tímarita nota podcasting mikið til að hressa upp á notendaviðmót sitt og gefa fólki kost á að sækja sér talað efni.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé