Örsögur

Textastíll
Örsögur og litur

Litur felur í sér, að þú getir séð sögu á þann hátt, að þú getir sýnt hana öðrum. Lýsingarorð og aukningarorð hjálpa ekki, enda eru þau blekkjendur. Af hverju segja fólki, að eitthvað sé dramatískt? Láttu heldur söguna sjálfa segja það.

Hvað þýðir, að segja fólki, að borgin sé borg andstæðna? Eru þær ekki allar borgir andstæðna. Litur felst í að birta réttu smáatriðin eins og þau koma þér eða vitnum fyrir sjónir. Lítum á lýsingu á fundi í borgarstjórn:

“Þegar langhundar voru komnir fram yfir miðnætti, voru flestir áheyrenda farnir. En konan í fremstu röð hélt áfram að prjóna peysu. Aftast hraut aldraður maður. Guðrún virtist telja rakabletti í loftinu og Pétur hvíldi höku á hamrinum.”

Þarna var litur í texta við óvenjulegar aðstæður. Hvaða blaðamaður hefði nennt að hafa fyrir að segja þannig frá hundleiðinlegum borgarstjórnarfundi, að allir geta séð fundinn fyrir sér. Við skulum líta á texta frá AP um Exxon Valdez slysið:

“Eins og sleikjó í höndum tveggja ára barns hafði olían frá Exxon Valdez komist í allt. Slettur of froðu þöktu malarströndina. Regnið hraut af klettum eins og af bónuðum bíl. Hreinsunarmaður grefur í fjöruna og hönd hans er smurð í brúnu.

Þrekvaxinn fiskimaður fer að gráta, þegar hann lýsir, hvernig hann stýrði bátnum gegnum olíuna. Vatnið skvettist ekki við bátinn, ekki heyrðist í neinum fugli, ekkert nema æpandi þögn olíunnar, sem báturinn fór gegnum.

Í fuglabjörgunarstöðinni í Seward eru sjúklingarnir að bila. Þeir hafa verið þvegnir, en hafa innbyrt of mikið af banvænni olíu. Þeir láta ekki í sér heyra, undirvitundin segir þeim, að kalla ekki til sín ránfugla eða rándýr.”

Lítil, sértæk smáatriði:Blaðamenn geta ekki fengið lit í söguna með því að nota orðtök og klisjur. Þeir verða að nota sértæk smáatriði. Þeir verða að venja sig á að finna þessi litlu, sértæku smáatriði, sem gefa lesendum náin kynni af eðli viðfangsefnisins.

Jules Loh skrifaði kastljós um Herbert Hoover og tók eftir, að strokleðrið var upp urið á mörgum blýöntum, sem hann hafði í boxi. Þetta smáatriði sagði meira um viðfangsefnið en allt hitt, litur á hálsbindi, glans á skóm, klútur í brjóstvasa.

Gervilitur virkar ekki: Miklar alhæfingar og ógreinilegar samsetningar nafnorða og lýsingarorða bæta ekki lit við frásagnir, smáatriðin gera það.

Ekki svona strengur af klisjum: “Fyrir utan þinghúsið er hann fyrst og fremst skapmildur. Með hóflega greiddu hári, vel skornu skeggi og hornspangargleraugum má ruglast á honum og háskólaprófessor við hinn nálæga Texasháskóla.”

Betra er þessi lýsing AP á trésmið af flokki Shakers: “Charles Caffal er 43 ára iðnaðarmaður, í vextinum eins og það, sem hann dáist mest að. Hann er magur eins og stúmtjener, uppfinning shakeranna, og eina skartið er þykkt, rautt skegg.”

Ekki hæfir litur öllum sögum. Það er ekki hægt að sprauta lit á gamla og kuldalega veggi. Þar á litur ekki heima og lítur út eins og veggjakrot, sem gerir ekkert annað en að pirra fólk.

Ekki ofkeyra það: Flatneskja er meiri vandi í fréttum en óhóflegur litur, en það er einnig hægt að ofkeyra lit: “Foringjar sjö ríkustu landa heims hittust í gær á fundi, sem getur mótað landslag efnahags í heiminum og nært blómahaf friðar milli austurs og …”

Hlutverk sögumanns:
1. Þú tekur saman, kemst að niðurstöðu. “Disney neyðir alla til að taka þátt í draumum sínum. Allir hafa einhvern tíma sett upp Mikka músar húfu. Sem kaupsýsla er Disney einkum verk snillings, sem menning eru þau einkum hryllingur.”

Sum mál eru svo hlaðin gildismati, að blaðamaðurinn þorir ekki að taka á því, jafnvel þótt hann hafi kynnt sér vel rök málsins. Hann verður að hafna ótta sínum við að hafa rangt fyrir sér og segja skýrt og skorinort, hver niðurstaðan er.

2. Þú ert dómari í leiknum. Þras milli manna hefur lítinn tilgang, ef það er sett fram eins og tennis, er ping-pong blaðamennska. Þess í stað raðar þú upp röksemdum hvors fyrir sig, klippir út þær ósannanlegu og ósvífnu, raðar fyrst inn rökum annars, síðan hins.

3. Þú ert sjónarvottur og leiðsögumaður. Hvers vegna ekki, þú hefur kynnt þér málið, kannt að meta málsaðila, hefur hitt fólk, sem lesandinn þekkir ekki, komið á staði, þar sem hann kom ekki og séð ferli, sem hann veit ekki um.

Staða þín sem sjónarvotts nýtist til að færa lesandanum tilfinningu fyrir stað og persónum. Þú verður að vísu að fara varlega, alltaf að spyrja sjálfan þig: Er þetta sanngjarnt, hef ég næg gögn í höndunum. Alhæfingar pirra lesendur.

Tilvitnun er mikilvæg yfirlýsing eða túlkun, sem notuð er til að gera söguna trúverðugri, af því að þar talar maður, sem er sérfróður vegna reynslu eða þjálfunar.

Tilvitnun er mikilvæg fyrir lýsingu hennar á tilfinningum viðmælandans. Þú getur endursagt rök hans og útskýringar, en markmið tilvitnunarinnar er að sýna hans innri mann.

Tilvitnun getur sýnt hvassyrði eða skörulegan málflutning viðmælandans. Pólitíkus segir um annan pólitíkus, að hann eigi að skammast sín fyrir að fara vitlaust með tölur um stimpilgjöld og tala út í eitt í ræðustóli.

Tilvitnun getur aukið fjölbreytni í textanum, til dæmis rekið endahnút á atriði, sem þú vilt leggja áherslu á, einkum ef tilvitnunin er mikilvæg og færir lesandanum síðasta atriðið, sem vantar í þægilega framsetningu greinarinnar.

Blaðamaður með þjálfun í að skoða smáatriði, fyllir minnisbókina af atriðum, sem hugsanlega mætti nota í grein. Þegar hann fer að skrifa, tímir hann ekki að sleppa þeim. Hann freistast til að nota þau, af því að hann náði þeim.

Það er ekki litur að segja lögmann hafa verið í gráum jakkafötum. Eða að segja ungfrú Ísland hafa rætt við blaðamenn með tæra tómatsúpu á borðum. Settu það hins vegar í fréttina, ef flakaður skröltormur var á borðum.

Virkar: “Hópurinn hafði byrjað á Henrico Country leiðinni fyrir mánuði og var búinn að vera að í mesta sumarhitanum. Þetta var hins vegar blár og svalur dagur. Fangarnir í bláum vinnufötum og gulum hjálmum höfðu tíma til að kvarta við blaðamanninn um …”

“Með milljónaskuldir dollara á bakinu og vina og ættingjalaus var Elkins að undirbúa endurkomuna. Hann sat við eldhúsborð með óhreinum diskum og pítsuskorpu. Símastúlkan á mótelinu varð að hringja fyrir hann, það var eina samband hans við …”

“Í gullbrúnu húsi á horni Dopey Drive og Mickey Mouse breiðgötu hafa tvö herbergi verið frosin í tíma í fimm ár að skipun forstjóranna. Þar bjó Walt Disney til drauma sína. Hér hefur engu verið breytt síðan stofnandinn dó úr lungnakrabba árið 1966.”(WSJ)

“Reykjavík er sá staður á landinu, þar sem auðveldast er að verða fullur og haldast fullur. Alls staðar eru vínveitingar. Ofan á allt þetta bætist, að Reykjavík hefur sérstakan garð fyrir róna. Sá garður heitir Arnarhóll.”

“Napizaro, Mexikó Furðanlega skilvirk viðskiptaáætlun er í þessu 1200 manna þorpi. En ríkisstjórn Bandaríkjanna veit ekkert um hana. Henni mundi ekki geðjast að áætluninni, ef hún vissi um hana.” (WSJ)

“Wright, Wyoming Þetta er engin París sléttunnar. Hvergi sést gangstéttarkaffihús eða læknastofa, leikhús, bílaverkstæði eða pítsustaður. Og fyrir utan 1600 manna þorpið er endalaus sléttan, lamin þrálátum vindi.” (WSJ)

“Mike er 28 ára verðbréfasali hjá góðu fyrirtæki í Wall Street. Hann hefur góðar tekjur, hefur gaman af starfinu og nýtur fjölskyldu sinnar. Eins og margir starfsbræðranna notar Mike kókaín.” (WSJ)

“Morgunsólin þvær Fourth og Vance götur, skvettist á þreytta framhlið 4Way Bar og knattstofunnar við hliðina. Jafnvel á stigann upp í hóruhúsið á efri hæðinni. Að ofan heyrist söngur, sem nær til mjólkurpóstsins og mannanna undir trénu. (WSJ)

“Á nákvæman og rökréttan hátt sýndi verkfræðingurinn, hvernig grunnvatnið tengdist fljótinu. Hvernig dælustöðvar mundu draga úr fljótinu og gera NýjuMexikó ókleift að verða við skyldum sínum gagnvart Texas.” (WSJ)

“Hafnarfjörð vantar fólk á mörgum sviðum. Lögreglumenn hafa tekið upp störf við eftirlit í álverinu. Og kennarar fá meira kaup við að hræra í álkötlum. Jón Pétursson þarf ekki að taka með sér nesti, því að nóg er boðið í mötuneytinu. Hann á fyrir bíl …”

Kris Kristofferson: “Well I woke up Sunday morning/with no way to hold my head, that didn’t hurt/And the beer I had for breakfast/wasn’t bad so I had one more for dessert./ Then I fumbled through my closet for my clothes./And found my cleanest dirty shirt .”

Að vera leiðinlegur jafngildir ekki því að vera góður.

Örsögur og litur: Settu pensilinn í smáatriðin
Blaðamenn geta ekki fengið lit í söguna með því að nota orðtök og klisjur. Þeir verða að nota sértæk smáatriði, til dæmis örsögur.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé