Orðalist greina

Textastíll
Orðalist greina

Orðalist: Þegar orðalist er bætt við sögu, sem er vel smíðuð á annan hátt, getur útkoman orðið frábær. Það hlýtur að vera markmið blaðamannsins. Orðalist byrjar með réttri málfræði, setningarfræði og málvenju.

Sértæk skrif: Sögusmiður málar þegar hann getur. Hann stingur við fótum, þegar hann er farinn að nota hugsunarlaust orð á borð við: Vandamál, aðstæður, viðbrögð, hagur. Og spyr sjálfan sig, hvort hann geti ekki notað sértækari orð, meira lýsandi.

Þér ber að efast um hvert nafnorð, jafnvel þau, sem við fyrstu sýn virðast vera nógu sértæk. Farþegaskip verður: 200 metra lúxusskip. Viðbrögð verða: Ótti, efi, hatur, áhugi, óbeit. Barátta verður: Stríð, orrusta, bardagi, fætingur.

Sértækar sagnir styrkja textann: “Ímyndaðu þér ekki, að ég sé brjálæðingur, öskraði bæjarstjórinn.” Sögnin að öskra er miklu nákvæmari lýsing á viðburðinum, heldur en sögnin að segja hefði gert.

Margir blaðamenn gera þau mistök að nota veikt, almennt orðaval í staðinn fyrir sterkt og sértækt orðaval. Hinir eru líka til, sem þurfa að draga úr orðavali í sínum texta, af því að þeir taka of sterkt til orða miðað við málsefni.

Orðaníska: Sögusmiður þarf að vera grimmur, þegar hann sker niður. Sá er ekki nógu grimmur við sjálfan sig, sem lætur frá sér fara feitar, slappar og orðmargar sögur. Menn þurfa að aga sjálfan sig.

Þú verður að efast um klisjur í orðalagi, hreinsa burt flatt orðalag. Þú verður að spyrja, hvort rökfræðin sé í lagi, hvort fullyrðingarnar séu í samræmi við raunveruleikann. Þú verður þó fyrst og fremst að skera niður textann.

Gagnrýni á texta þarf að vera óvægin, hvort sem ritstjóri gagnrýnir blaðamann eða blaðamaður gagnrýnir sjálfan sig. Væg gagnrýni veldur engri þjáningu og leiðir ekki til nauðsynlegra sinnaskipta á stundinni. Ekki bara núna, heldur nú.

Blaðamaður hefur oft notað allt plássið, sem er til ráðstöfunar og hefur samt ekki skilað frá sér nema tveimur þriðju hlutum sögunnar. Hann þarf að skera 1200 orða texta niður í 800 orð. Hann græðir á því pláss og betri texta.

Lýsingar: Lesandi, sem stendur utan við sögu, er ekki snertur. Höfundurinn tekur hann inn í söguna með því að leyfa honum að ganga með sér um göturnar og hitta eina eða tvær persónur og verða vitni að atburði. Slíkt snertir lesandann.

1. Nákvæmni: Þegar við lesum, að hattur sé svartur, vitum við nákvæmlega, við hvað er átt. Þegar við lesum, að eigandinn sé örlátur, vitum við ekki nákvæmlega, við hvað er átt. Hvernig örlátur? Fókusinn er skýr í fyrra tilvikinu, þokukenndur í hinu síðara.

Bros getur þýtt hitt og þetta. Við vitum hins vegar nákvæmlega, hvað þýðir samsetningin: “Brosið var frosið í skelfingu.” Miðaldra maður hittir unglingagengi, er hræddur við það og hatar það, en brosir til að reyna að sleppa áfallalaust.

2. Fólk: Lesendur taka fólk fram yfir staði og hluti. Þess vegna setur sögumaður fólk inn í sögunar, hvar sem hann getur gert það sómasamlega.
3. Hreyfing: Lesendur vilja fólk og vilja það helst, þegar það hreyfir sig, gerir eitthvað.

4. Skáldaleyfi: Greinahöfundur getur einstaka sinnum notað skáldaleyfi til að útskýra málsefni fyrir lesendum og endurspegla veruleikann: “Almennt er talið, að kýr muni fljúga áður en lög um heilsugæslu fái stuðning repúblikana.” En skáldaleyfi geta verið hættuleg.

Samræðulist felur í sér, að greinahöfundur talar við þig einan sem lesanda og er ekki að flytja ræðu fyrir 90.000 manns. Góður rithöfundur skrifar fyrir einstakling. Hann spyr sig: Mundi ég orða þetta svona í samtali á kaffihúsi.

Hér er ekki verið að leggja til, að talmál verði tekið upp í skrifuðu máli. Við höfum hins vegar gott af því að hafa talmál í huga, þegar við skrifum. Sérstaklega á þetta við um texta, sem lesinn er upp í ljósvakamiðlum.

Ekki vera hræddur við upphrópunarmerki, upphrópanir, eins orðs eða tveggja orða málsgreinar og annað slíkt, sem sums staðar þykir ekki gott á prenti. Þetta getur haft frásagnargildi, en má alls ekki ofnota og alls ekki í fyrirsögnum.

Mikið af þyngslunum, sem hvíla eins og mara á efni dagblaða, eru þar, af því að höfundarnir eru óafvitað að reyna að koma vel fyrir í augum heimildarmanna í stað þess að koma vel fyrir í augum lesenda. Leiðindin verða markmið í sjálfu sér.

Höfundar eru stífir og formlegir, af því að þeir telja, að sérfræðingarnir taki sig ekki alvarlega, ef textinn leiftrar. Þess vegna er skelfilega leiðinlegt að lesa mikinn hluta af texta dagblaða. Höfundar telja ábyrgt að vera leiðinlegir. Þeir eru uppteknir af stöðu sinni í tilverunni.

Rennsli: Þegar rennsli er í sögu, fer lesandinn erfiðislaust gegnum hana og er næstum því hissa, þegar hann er búinn. Hann varð hvergi var við holur eða hvörf á veginum og engar skarpar beygjur.

1. Yfirfærslutexti: Höfundar gera oft þau mistök að nota sérstök orð í yfirfærslutexta milli kafla í frásögninni, til dæmis “En”. Þetta dregur úr rennslinu. Góður greinahöfundur reynir að sleppa yfirfærslutextanum og fara beint yfir í nýja sálma.

Stundum neyðist sögumaðurinn til að nota einhvern texta til að sýna, að nú sé komið að þáttaskilum í sögunni. Við slíkar aðstæður borgar sig að hafa texta yfirfærslunnar eins stuttan og hægt er.

2. Nöfn heimildarmanna: Nöfn embættismanna með löngum titlum rjúfa frásögnina. Reyndu að skera titlana niður og jafnvel að sleppa tilvitnuninni alveg. Ef hún er mikilvæg og kemur lesendum þar á ofan á óvart, er þó rétt að láta hana ekki niður falla.

Ef tilvitnun kemur lesendum ekki á óvart, er hún væntanlega ekki viðkvæm. Blaðamaðurinn getur því sjálfur fullyrt textann og þarf ekki að bera viðkomandi heimildarmann fyrir honum.

Hér er ekki verið að tala um meirihlutaskoðanir, heldur óumdeildar yfirlýsingar. Ef skoðanir eða yfirlýsingar eru af því tagi, að um þær er meirihluti og minnihluti, er rétt að bera nafngreinda persónu fyrir texta innan gæsalappa.

3. Útskýringar: Hér og þar í hverri sögu þarf höfundurinn að stöðva rennslið til að útskýra atriði. Yfirleitt eru þetta hversdagsleg smáatriði, sem virka þreytandi, en eru nauðsynleg. Vertu fljótur að afgreiða slíkar útskýringar.

Gerð málsliða: Með því að beita gerð og skipulagi á málsliði og málsgreinar getur höfundurinn haft meðvituð áhrif á lesandann.

1. Hraði: Til að ná hraða í frásögnina smíðar höfundurinn málsgrein, sem er eins og járnbrautarlest. Eimvagn frumlags og sagnorðs dregur nokkra vagna af andlagi og aukasetningum:

Járnbrautarlest: “Þeir fóru í mótmælagöngu, stóðu með spjöld fyrir framan Alþingishúsið og afhentu undirskriftalista í forsætisráðuneytinu.” Mikið af upplýsingum er hengt aftan við frumlag og sögn til að spara pláss og tíma, viðhalda hraðanum.

Kraftur: Ef höfundurinn vill frekar ná krafti í frásögnina, hægir hann á ferðinni og notar oft fleiri orð en nauðsynlegt er. Hann sameinar ekki setningar í málsgrein, heldur klippir málsgreinar niður í hamarshögg:

“Við höfum tuttugu sinnum ákveðið að flytja burt. Við höfum tuttugu sinnum ákveðið að verða eftir. Við höfum ákveðið að flýja og við höfum ákveðið að berjast. Við trúum ekki því, sem okkur er sagt.”

Kraftur fæst einnig með því að velja áhersluorði stað í málsgrein. Sterkast er að hafa það fremst eða aftast, veikara að hafa það í miðjunni.

Ekki: “Gregor Samsa fann, að hann hafði breyst í risastóra pöddu, þegar hann vaknaði í rúminu um morguninn.” Kafka skrifaði svona: “Þegar Gregor Samsa vaknaði í rúminu um morguninn, hafði hann breyst í risastóra pöddu.”

3. Fjölbreytni og ryþmi: Lesendur eru ekki bara ánægðir með fjölbreytni í efni, heldur einnig í framsetningu, gott rennsli í einum hluta frásagnar, skorinorðan einfaldleika í öðrum hluta hennar. Gott er að láta kafla hraða og kafla krafts kallast á.

Ryþmi gefur sveiflu í texta. Endurtekning orða gefur styrk. Endurtekning málsliða gefur ryþma. “Engisprettur eyddu ökrum í Utah, ofsaregn spillti túnum í Iowa og kæfandi hiti krumpaði baðmull í Arizona.”

Langar málsgreinar eru yfirleitt ekki æskilegar. En þær geta gengið með réttri skipan orða og aukasetninga.

Langar greinar: Hér hefur verið talað um venjulegar blaða og tímaritagreinar frá 1200 orðum upp í 2500 orð. Stundum fá blaðamenn færi á lengri greinum með 10.000 orðum. Á bls. 189-215 í Blundell er rakið dæmi um heillandi tilvik af slíku tagi.

Sjálfsritskoðun: Ekki skila handritinu strax. Lestu það yfir. Prófaðu að lengja það með atriðum, sem vantar í það. Farðu svo yfir fullyrðingar og rennsli. Klipptu það loks, ekki klippa kafla, heldur orð og setningar. Skerðu það þannig niður um 30%.

Mundu svo: Stíll vex hvergi, þar sem óttinn gengur um garða. Lærðu af rithöfundum. Mest gagn hefurðu af Graham Greene. Hann skrifar sparlega, segir mikið í fáum orðum. Hann skrifar einfalt mál um flókna hluti. Hann skrifar eins og blaðamaður.

Orðalist greina
Sögusmiður málar þegar hann getur. Hann stingur við fótum, þegar hann er farinn að nota orð hugsunarlaust. Spyr sjálfan sig, hvort hann geti ekki notað sértækari orð, meira lýsandi.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé