Öll smáatriðin

Ritstjórn
Öll smáatriðin

Victor Navasky, ritstjóri The Nation: Við sannreynum allar sögur. Við höfum innra kerfi, þar sem við þjálfum nýliða í sannreynslu undir stjórn prófarkalesara. Ef staðreyndir skipta máli fyrir söguna, þarftu að kanna, hvort þær séu réttar.

Útgáfa málfræðilega réttrar málsgreinar, sem fer með rangt mál, er alvarlegra en útgáfa málfræðilega rangrar málsgreinar, sem fer með rétt mál. Ástæðan er einföld: Traust er það eina, sem við seljum. Fólk vill geta treyst okkur.

Rangt er farið með:
1. Fullyrðingar.
2. Málsetningar, til dæmis upphæðir.
3. Nöfn.
4. Tölfræði, tæknilegur samanburður.
5. Tilvitnanir.
6. Titlar.
7. Bókmenntaspeki.
8. Starfsgreinar.
9. Frægar tilvitnanir.
10. Harðar staðreyndir.
11. Sagnfræði.
12. Stærðfræði.
13. Allt, sem virðist skrítið.

Bækur til notkunar:
1. Orðabók.
2. Alfræðibók.
3. Tilvitnanabók.
4. Staðreyndabók, almanak.
5. Íslenskir samtímamenn.

Annað til notkunar:
1. Reiknivél.
2. Gagnasafnsfræðingur.
3. Upprunaleg heimild.
4. Sérfræðingur.
5. Internetið: Vikipedia, Britannica (hvar.is), Google.

Ritstjórar reyna að endurheimta traust með því að vera í opinni og heiðarlegri sambúð með lesendum. Þú verður að játa mistök. Best er að játa það strax í næsta tölublaði. Þú ræður, hvort þú bætir við: “Blaðið harmar þessi mistök.”

Sannreynsla getur verið leiðinleg, hægfara, hvimleið, en hún er betri en leiðréttingar. Sá, sem sannreynir, verður að efast um allt, sem hann sér. Ef lesendur sjá, að þeir geta ekki treyst þér, gerast þeir lesendur hjá öðrum.

Prófarkalestur:
1. Líttu á hvert orð fyrir sig.
2. Notaðu leiðréttingaforrit, en treystu því ekki.
3. Komstu að uppruna orðanna.
4. Berðu orðin rétt fram.
5. Lærðu undantekningar.
6. Notaðu orðabókina.

Átta reglur Jónasar um stíl:
1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
5. Keyrðu á sértækum sagnorðum og notaðu sértækt frumlag.
6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.
8. Hafðu innganginn skýran og sértækan.

Þegar ég varð ritstjóri, kom mér á óvart, hvað ég þurfti að gera marga smáhluti, sem lesendur hugsa ekki um. Sumir eru mikilvægir, til dæmis fyrirsagnir. Höfundar koma oft með tillögur, en ritstjórinn sér hönnunina og býr til fyrirsögnina.

Fyrirsögn:
1. Kynnir málið.
2. Setur tóninn.
3. Vekur áhugann.
4. Spillir ekki innganginum.

Ritstjórinn semur myndatexta, sem segir ekki bara, hvað sé á myndinni, heldur er hluti af flæði efnisins frá mynd og myndatexta til fyrirsagnar og inngangs, meginefnis og niðurstöðu, hliðarboxa og boxaðra tilvitnana. Mundu myndarhöfund.

Boxaðar tilvitnanir rjúfa langan texta. Nærri helmingur lesenda flettir blöðum aftan frá og kemur fyrst að síðustu síðu greinar. Boxaðar tilvitnanir eiga að stöðva augað og vekja áhuga á greininni, fólk fari að lesa.

Athugið:
1. Tilvitnanir eru algengastar í boxunum, en ekki nauðsynlegar.
2. Er tilvitnunin orðrétt?
3. Er tilvitnunin úr efni á sömu síðu?

Forsíðutilvísanir eru oftast efst eða í vinstri kanti, svo að þær sjáist, þegar tímaritum er raðað hverju ofan á annað. Þetta eru yfirleitt mjög stuttir textar, sem þarf að liggja yfir.

Lesendabréf þarf að takmarka í lengd. Þau þurfa að fara með réttar staðreyndir. Eðlilegt er, að lagfæra tón þeirra, sömuleiðis stíl. Yfirleitt er þess krafist, að þau fjallir um efni blaðsins.

Harmoníkan (slangan) er uppfyllingarefni, flokkur stuttra, gamansamra greina eða sleggjugreina. Tekið er úr henni til að jafna efni á arkir, ef aðrar greinar reynast of stuttar eða of langar. Mikilvægt er, að þetta sé ekki ruslefni.

Hliðarbox eru oft notuð til að draga þurrt efni út greininni, sagnfræði, bakgrunn, tækniatriði, tölfræði. Það léttir stíl greinarinnar. Þetta efni er oft sett fram grafískt.

Efnisyfirlit er meira en skrá yfir fyrirsagnir. Í tímariti er ætlast til, að það sé lesið og hvetji til áhuga á lestri greinanna. Oft er það myndskreytt og sumt efni haft í sérstökum boxum.

Smáatriðin:
1. Blaðhaus.
2. Höfundaskrá.
3. Næsta tölublað.
4. Smáa letrið.
5. Framhald.
6. Blaðsíðutöl.
7. Höfundalínur.

William Whitworth, ritstjóri The Atlantic: “Ég veit aldrei með vissu, hvort við erum að standa okkur. Ég fæ hugmynd um það úr póstinum og með því að fylgjast með, hvort margir góðir höfundar vilja koma fram á síðum okkar.”

Útgáfa er fyrirtæki, sem þarf hagnað. Ritstjórar þurfa að vera þess meðvitaðir. Það er ekkert hræðilegt og þýðir einfaldlega, að hagnaður er einföld og meinlaus afleiðing þess, að þú virkar í umhverfinu.

Jeff Csatari, ritstjóri Men’s Health: Tímarit eiga að hafa hagnað. Ef þú selur ekki 40% af eintökum í lausasölu, ertu búinn að vera. Þú verður að láta forsíðuna virka, selja tímaritið. Þú verður að ná lesendum til að afla auglýsinga.

Csatari áfram: Þú verður að ná lesendum. Þú færð þá með því að láta þá hafa það, sem þeir vilja. Ritstjórn, auglýsingar og dreifing eru þrír fætur á stóli tímarita. Þú getur ekki verið án neins þeirra.

Michael Bawaya, ritstjóri American Archeology: “Viðskiptadeildin hefur í raun engin áhrif á ritstjórnardeild blaðsins. En ég hef unnið við tímarit, þar sem enginn veggur var milli auglýsingadeildar og ritstjórnar.”

Steve Spence, ritstjóri Car and Driver: “Viðskiptadeild og ritstjórn eru ríki og kirkja. Auglýsingadeildin er ekki einu sinni í sama sveitarfélagi. Hún selur auglýsingar, við búum til efni, aldrei í samlögum við auglýsingar.”

Sum tímarit, einkum þau litlu, sameina útgáfustjórn og ritstjórn í einu starfi. Það er yfirleitt ekki heppilegt, af því að yfirleitt fara ekki saman í einni persónu hæfni til að reka gott fyrirtæki og hæfni til að ritstýra góðu tímariti.

Yfirleitt er veggur milli efnis og auglýsinga. Lesendur treysta ritstjórn til að færa þeim óhlutdrægar og heiðarlegar upplýsingar. Ef við kynntum vörur og þjónustu fyrir þá, sem borga, værum við að bregðast trausti.

Lesendur komast fljótt að því, ef tímaritið er málgagn nokkurra auðfyrirtækja. Þegar það gerist, fara þeir annað til að fá upplýsingar. Hins vegar mega auglýsingadeild og ritstjórn vita af verkefnum hins aðilans.

Á síðari árum hefur sums staðar rofnað þessi veggur. Þar hafa auglýsendur áhrif á efnisval tímarita, aðallega vegna fjárhagslegs þrýstings. Þar er skammtímagróði tekinn fram yfir langtímagróða, sem byggist á trausti lesenda.

Jon Wilson, ritstjóri Wooden Boat: Auglýsendur segja: “Ef þú skrifar um X, skulum við auglýsa.” Það er ótrúlegur þrýstingur á seljendur auglýsinga, sem hafa sölutengdar tekjur. Þeir missa sjónar á mun eigin hagsmuna og trausts blaðsins.”

Wilson áfram: Þess vegna er yfirleitt spenna milli auglýsingadeildar og ritstjórnar. Ef við færum að birta kynningarefni fyrir auglýsendur okkar, mundu áskrifendur okkar flýja í hrönnum.

1. Auglýsingar afla tekna, ritstjórnin eyðir þeim.
2. Þykkt tímarita fer eftir auglýsingum, 50%.
3. Auglýsingadeild vill góða sambúð við auglýsendur.
4. Ritstjórnarákvarðanir hafa áhrif á tekjur seljenda auglýsinga.

Dreifingin
1. Fríblöð. T.d. 50% afsláttur.
2. Bréf til markhópa. Lítill árangur.
3. Útvarpsauglýsingar. Dýrar.
4. Dagblaðaauglýsingar. Ódýrar, kúponar.
5. Auglýsingar í sjálfu tímaritinu. Lausir áskriftarkúponar.
6. Símaherferðir. Oft með tilboðum. Oft besta leiðin. En fólk tekur ekki síma.

Hlutverk þitt er að afla nýrra áskrifenda hraðar en þú tapar hinum gömlu.
1. Stöðugur áróður fyrir framhaldi áskriftar.
2. Boðin margra ára áskrift.
3. Boðin föst áskrift á krítarkorti.
4. Hlustað á lesendur.

Ritstjóri þarf að vita, hvaða vandamál steðja að tímaritinu og geta skýrt frá, til hvaða aðgerða hann hefur þegar gripið til að fást við þau. Fækkun áskrifenda er skýrasta dæmið, tölfræðilegur dómur um misheppnaða ritstjórn.

Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé