Ný blaðamennska

Framtíð
Ný blaðamennska

Bill Kovach:
Leit að nýrri blaðamennsku með sannreynslu.
Þessi blaðamennska verður að átta sig á, að dreifingin, skipulagið og heimildirnar verða að breytast.

Þegar járntjaldið féll streymdu ótritskoðaðar fréttir um löndin. Václav Havel: Þjóðir náðu tungumáli sínu úr höndum áróðursmanna. Þá gat fólk farið að hafa heiðarlegar hugsanir um stjórnmál, um hið sanna ástand heimsins og um stöðu sína í heiminum.

Orð Havels skipta vestrænar þjóðir máli. Við erum í samkeppni um notkun upplýsinga á öllum sviðum mannlífsins. Hún mun leiða í ljós, hvort fjölmiðlar muni þjóna sjálfstæðum borgurum eða valdahópum samfélagsins.

Fyrst kom sú freisting að gefa út, af því að “við getum alltaf leiðrétt það síðar”. Síðan að gefa út “af því að fréttirnar eru þarna”. Nýja fólkið á vefnum telur, að enginn stjórni upplýsingum. Við erum hættulega meðvitundarlaus um tækifæri nýrrar samskiptatækni.

Miðlun á vefnum hefur breytt tveimur þriðju hlutum fólks úr frumkvæðislausum neytendum upplýsinga í frumkvæðisaðila, sem velja sína eigin vitneskju um heiminn. Borgarar eru orðnir sínir eigin ritstjórar og útgefendur.

Spurningin er þessi: Þeir, sem ýta upplýsingum fram um vefinn, hafa þeir tíma, meðvitund og hæfni, sem þarf? Ef ekki, þá er spurning til blaðamanna þessi: Höfum við hæfni og vilja til að hjálpa borgurunum til að fá þessa tækni.

Ríkisstofnanir læða áróðri inn í opinberar upplýsingar til að stýra viðbrögðum fólks við gerðum og tillögum stjórnvalda. Skemmtibransinn og kirkjurnar stuðla að þessu sama.

Innihald blaðamennsku kemur meira frá tilkynningum og fullyrðingum stofnana en á óháð sannreyndum upplýsingum. Nánast enginn dregur opinberar upplýsingar í efa. Þessu fylgir, að fréttastofur skera niður útgjöld sín í kjölfar fækkunar notenda.

Mestu valdastofnanir þjóðfélagsins nota nýja tækni fjölmiðlunar á skipulegan hátt til að gera það, sem þær hafa alltaf gert, stýra umræðunni inn á hagstæðar brautir og halda völdum í samfélaginu.

Breytingar í kjölfar vefsins minna á breytingar í kjölfar prentverks á upplýsingaöld. Þegar fréttir birtast í samskiptakerfi fólks, reynir það að leita samskipta í kerfum, sem orðið hafa til á vefnum. Fólk bregst við fréttum með hliðsjón af sýn þess á eigin veruleika.

Við lifum í fjölmiðlaheimi, þar sem samkeppnisaðilar framleiða veruleika, sem ætlað er að byggja upp samfélag neytenda, samfélag trúar og samfélag trúnaðar.

Hlutverk blaðamanna í þessum heimi er að finna tæki, sem gerir aðferð sannreynslu mögulega í útgáfu borgaranna og að hjálpa fólki til að vega það á móti því, sem daglega er sagt í skemmtimenningu og pólitískum spuna nútímans.

Leitin að sönnum upplýsingum verður að halda áfram, ef upplýst sjálfstjórn borgaranna á að verða samkeppnishæft form á skipulagi samfélagsins. Þetta er mesta ögrun nýrrar fjölmiðlunartækni.

Má nota tækni samþættingar til að hjálpa notendum fjölmiðla til að byggja samfélög á nýjum upplýsingar í fréttum og til að leysa samfélagsvanda? Ef nýr veruleiki er kominn, getum við þá hjálpað fólki til að byggja eigin veruleika á grunni sannreyndra staðreynda.

Sumt var áður aðeins hægt að segja í heilli bók. Er hægt að gera það sama núna með tækjum margmiðlunar? Geta þau sogað notendur inn í söguna og fengið þá til að uppgötva meira spennandi, nærtækari og meira gefandi veruleika en sýndarveruleikann.

Hjálpa þarf almenningi til að hafna áleitnum skilaboðum um ótta og sjálfsást, sem gera fólk ósjálfstætt. Hlutverk blaðamennsku er að veita nákvæmar og áreiðanlegar fréttir, svo að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir í lýðræðisþjóðfélagi.

Francis Pisani:
Blaðamennska og Vefurinn 2.0.
Notendur morgundagsins nota vefinn á hátt, sem við eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund. Ef við viljum halda við mikilvægi okkar, verðum við að skilja, hvernig þeir gera þetta.

YouTube er staður, þar sem fólk setur inn vídeó. Stjórnmálamenn taka þátt í því. Það hefur ekkert með blaðamennsku að gera. En það getur kennt blaðamönnum ýmsa gagnlega hluti.

Þeim fjölgar, sem heldur vilja skoða heimsmynd YouTube en að nota sér það, sem blaðamenn bjóða. Ef þú vilt ná til þessa fólks, þarftu að finna, um hvað slíkir vefir snúast, skilja þá og bregðast við á viðeigandi hátt.

Vefurinn 2.0 hefur fimm þætti:

* Tegund miðils:
Vefurinn er tegund miðils, þar sem hægt er að gera nánast allt: Senda tölvupóst, skrifa skjöl, dreifa skjölum, gera viðskipti, sinna símtölum. O.s.frv.
* Taka við/gefa út/breyta:
Tegundin leyfir víxlverkun. Þegar tekið er við upplýsingum eða þær finnast, hefst samtal. Notendur tjá sig og setja það í blogg og wiki. Þeir gætu jafnvel breytt sjálfri tegund miðilsins.
* Breiðband:
Fólk hefur víðar rásir, sem alltaf eru í gangi. Um þessar rásir má flytja myndir, tónlist og vídeó.
* Framlag:
Þetta auðveldar aðild. Fólk vill gefa öðrum aðgang að sínu efni.
* Áhrifin:
Framlög fólks byggjast upp og mynda heildarþekkingu, sem er meiri en einstakra þátta.
Fyrirtæki koma til sögunnar og búa til innihald, sem byggist einkum á framlögum notenda (t.d. TripAdvisor).

Breytingar hefjast á jaðrinum. Þar prófa notendur nýjar aðferðir. Því verður hugsun blaðamannsins að byrja á jaðrinum. Notendur morgundagsins nota vefinn á hátt, sem við eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund. Við verðum að skilja, hvernig þetta gerist.

Byrjum á leitarvélunum. Þær eru stór þáttur flæðisins á vefnum. Fólk nær í sögur án þess að fara gegnum kerfi fjölmiðla. Það efni, sem er bak við greiðslumúra, er ekki indexerað, er ekki í atriðisorðaskrá, og er því í rauninni ekki til.

Craigslist er smáauglýsingakerfi ókeypis. Það dregur tekjur frá dagblöðum.
Wikipedia sýnir, að útgáfa á alfræði er ekki lengur einkamál nokkurra útvalinna. Villufíkn fær mótvægi í leiðréttingargetu.

Google News, Yahoo! News, Wikinews hafa hundruð milljóna notenda og bjóða eigin fréttir líka. NewAssignment.net er sameiginleg fréttastofa fréttamanna, ritstjóra og borgara, sem er studd ýmsum sjóðum og Craigslist.

Aðrir vefir:
* Del.icio.us: Notendur skiptast á greinum, tagga þær og opna fyrir öðrum. Eins og vaktstjórar mundu gera á dagblaði.
* Digg.com: Greinar eru boðnar fram og greidd eru atkvæði um þær. Sigurvegarar færast upp.

* NewsVine.com: Gerir notendum kleift að skrifa eigin greinar.
* Wikio.com: Samþættur Google News og Google Reader safnari fyrir “dummies” dregur fréttir úr hefðbundnum fjölmiðlum og bloggi. Notendur persónugera svo síður vefsins.

* Félagslíf í bloggi. Áhugaverð grein er dregin upp í matseðil vafrans til að fá aðgang að hliðstæðu efni. Eykur fjölbreytni.
* ChicagoCrime.org: Setur lögreglufréttir á kort frá Google. Sýnir glæpahverfi og góð hverfi.

Cnrneighbors.org: Barðist gegn skipulagsáætlunum með kortum, myndum og þrívídd.
NewsTrust.net: Leitar að gæðum í blaðamennsku, “sem hægt er að treysta”. Fréttir fá þar einkunn.

Slíkir vefir og þúsundir hliðstæðra vefja breyta blaðamennsku. Margmiðlun kemur í stað fréttar frá einum miðli.

Hlutverki ritstjóra er ógnað úr þremur áttum. Google News notar algóriþma til að setja sögur á heimasíðuna. Leitarvélar leiða notendur beint í greinarnar og fara fram hjá hliðvörslu ritstjóra. Sama er að segja um RSS fréttasafnara og þeir tagga efni.

Villta vestrið á vefnum þýðir, að fjölmiðlar verða að forma efni sitt á vefnum með hliðsjón af margs konar tegundum miðlunar og notkunartækja. Þeir verða að vonast til að ná athygli notenda hvar og hvenær sem er og hvernig sem þeir vilja umgangast fréttina.

Þótt blaðamennska borgaranna hafi enn ekki fundið fjárhagslegan grundvöll, er ljóst, að blaðamennska er nú minni fyrirlestur en áður og meira samtal.
Sjá tilraunir El País, Clarin.com, BBC, OhMyNews. Blaðamenn verða að temja sér meiri auðmýkt.

Ekki er tryggt að blaðamennsku takist að höndla breytinguna. Tekjugrundvöllur hefðbundinnar fjölmiðlunar hefur brostið. Ekkert viðskiptamódel er til fyrir vefinn sem vettvang blaðamennsku. Nýtt hagkerfi verður að þróast.

Traust á mörgum opinberum og öðrum stofnunum hefur minnkað og í sumum tilvikum horfið. Fólk notar tækni til að gera það sjálft, sem ótrúverðugar stofnanir, svo sem prentmiðlar, gerðu áður fyrir það. Blaðamenn eiga samt erfitt með að skilja þetta.

Fremur en að fara í vörn gegn breytingunum eiga blaðamenn að ganga til samtals við þá, sem hafa hlotið aðra þjálfun, og finna leiðir til að hjálpa þeim að skilja og öðlast gildi og hæfni, sem gerir starf blaðamannsins félagslega gagnlegt.

Sjá nánar: Nieman Report, Goodbye Gutenberg, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé