Næstu grasrótarskref

Nýmiðlun
Næstu grasrótarskref

Framtíðin mun koma okkur á óvart. Tvennt skiptir þar máli. Annars vegar þurfa gildi blaðamennskunar að haldast, nákvæmni, sanngirni og siðferði. Hins vegar er það eðli tækninnar, að hún er án afláts og óstöðvandi.

Atvinnumenn í blaðamennsku hafa lært eða tamið sér vinnubrögð, sem efla traust, svo sem siða- og starfsreglur. Sumir fjölmiðlar hafa umboðsmenn notenda og símenntun. Áhugafólk á vefnum hefur flest ekki komist í tæri við þessar hefðir.

Andinn í bandarískum siðareglum fjölmiðla er: Sannleikurinn = góður vilji + mikil vinna = staðfestingar + staðfestingar + staðfestingar. Sannleikurinn er torsóttur og flókinn, en menn komast næst honum með góðum vilja og mikilli vinnu

Skýrt dæmi um siðamismun hefðbundinna fjölmiðla og nýrra: Samskipti Yahoo, Google, Microsoft, Cisco, AOL og Skype við kínversk stjórnvöld um að þrengja kosti fólks og koma upp um andófsmenn. Nýir miðlar hafa reynst vera “siðferðisdvergar”.

Yahoo afhenti Kínastjórn tölvupóst, sem leiddi til tíu ára fangelsis Wang Xiaoning og Shi Tao. Til sögu í fjölmiðlun eru komnir nýir efnahagsrisar með víða hagsmuni og mikla ágirnd. Þeir telja sig ekki þurfa að lúta siðareglum hefðbundinna fjölmiðla.

Lög og reglur: Tækni nútímans og óánægja með hefðbundna fjölmiðla hafa skapað nýjar aðstæður. Samtal mun ýta fyrirlestrum til hliðar. Þrjú lögmál leiða okkur áfram, Moore lögmálið, Metcalfe lögmálið og Reed lögmálið.

Moorelögmálið: Þéttleiki örgjörva tvöfaldast á 18-24 mánaða fresti. Tölvubúnaður í kaffikönnu er öflugri en fyrstu stórtölvurnar voru.

Metcalfelögmálið: Gildi nets eykst í öðru veldi fjöldans af endastöðvum þess. Þegar milljarðar manna eru tengdir saman, verður ekki lengur hægt að reikna gildi netsins.

Reed lögmálið: Hópar eru endastöðvar. Fjöldi hópa í n’ta veldi. Allir tala við alla í hópnum, ekki bara einn við einn.

Þeir, sem munu finna upp miðla framtíðarinnar, eru núna unglingar.

Framleiðsla frétta: Tæki sköpunar hafa batnað. Tónlistarmenn fá sér tölvuhljóðver fyrir lítið fé. Vídeó er orðið svo ódýrt, að allir geta búið til kvikmyndir eða myndskeið fyrir brot af fyrra kostnaði.

Hundruð milljóna manna nota myndsíma, sem nú hafa breyst í myndskeiðasíma.
Enn er bloggið flókið, en tæki framtíðarinnar verða einföld.
Síun og hlutverk blaðamanna heldur áfram, en hlutdeild sjálfvirkrar tækni mun aukast.

Að finna það, sem þig vantar: Nýir risamiðlar eru komnir, Google, Microsoft, Yahoo. En einnig eru færi fyrir litla miðla. Google fréttir eru áhrifamikil kynning á risamiðlum og á því, sem hliðverðir þeirra telja vera miklar fréttir.

Sá, sem vill vita meira, getur grafið dýpra í Google News. Það er mikilvægasti þáttur hugbúnaðarins.
Google Alerts leitar að fréttum eftir leitarorðum og gefur þér færi á að lesa þær í RSS-perlufestum.

Gallinn við Google er, að það viðurkennir ekki fréttaefni frá grasrótinni. Hugbúnaðurinn hefur eina reglu: Fréttir þurfa ritstjóra. Google endurspeglar það, sem ritstjórar telja mikilvægt. Google er viðbót við dagblöð, væri ekki til án ritstjórnar þeirra.

Um leið og Google styður hliðvörslu hefðbundinna fjölmiðla þá er Google í samkeppni við þessa sömu fjölmiðla. Það gerist þannig, að fólk notar Google í stað þess að fletta fjölmiðlunum. Það sér því ekki auglýsingarnar, sem kosta útgáfu fjölmiðlanna.

Yahoo er að mörgu leyti mest spennandi af nýju risamiðlunum. Það gerir fólki kleift að hanna fréttaleitarsíður fyrir sig. Það hefur haft RSS frá 2004, sem gerir fólki kleift að velja fréttir úr bloggi og bæta þeim við síðuna. Góð blanda af gömlu og nýju.

Sammiðlun tekur flugið: RSS-runan er skjal með lista yfir fyrirsagnir með stuttum texta. RSS lýsir gerð og hluta innihalds efnisins. Slíkar runur eru lesnar af RSS-lesurum, sem gera kleift að safna efni frá ýmsum miðlum á eina heildarsíðu.

Nú eru RSS-lesarar fremur frumstæðir, en munu batna. Eitt besta dæmið er Feedster. Einnig Technorati. Blogbot er á leiðinni. Google hefur dregist aftur úr, þótt það eigi fyrirtækið Blogger. Hugmyndaríkir aðilar munu koma með enn betri lausnir.

Veraldar lifandi vefur: Technorati byrjaði 2002. Hjálpar fólki að leita að áhugaverðum eða vinsælum bloggum, fréttum og umræðuefnum. Gerir þér líka kleift að gæðaflokka þetta efni. Þetta er dæmi um krækjuheim nútímans.

Hugbúnaði krækt saman:
API: applications programming interface. Er þáttur í Technorati. Vefþjónusta er kerfi, sem leyfir heimasíðum að tala saman og deila með sér upplýsingum án milligöngu manna. Þetta gera Google, Amazon, Technorati.

Þetta gerir fólki að lokum kleift að fylgjast með samtali. Ég get fylgst með spjalli fólks um Feneyjar, fólks sem ég treysti, hvað það segir um Feneyjar, nýjar fréttir, kosti og galla í ferðaþjónustu þar í borg. Til dæmis TripAdvisor.

TripAdvisor segir, hvaða hótel séu vinsæl, hvaða einkunn þau hafa fengið hjá notendum og birt myndir þeirra. Ég skoða ummælin og leita að atriðum, sem ég hef áhuga á, t.d. hvort þar sé þráðlaust net. Sum ummæli eru marklaus, en flest eru uppbyggileg.

En hverjum treystirðu?
Það sem vantar er að meta gildi hvers aðila á netinu umfram það gildismat, sem nú fer fram. Google er að visu leyti kerfi með gildismati. Líka Technorati. Því fleiri krækjur, þeim mun meira gildi. En betri aðferðir koma.

Dæmi um gildismat: Wiki er sía, þar sem áhugafólk ritskoðar lygi hagsmunaaðila. WikiNews er hluti af því dæmi. NewsTrust mælir traust fólks á fréttum. Digg mælir vinsældir frétta. Ýmsar aðrar slóðir eru vettvangur svindlara og spunakarla.

Árið 2001 kom í ljós, að kvikmyndafyrirtæki í Hollywood höfðu sett upp vefsvæði með gervisamtali um nýjar myndir. Þannig er vefurinn vettvangur fyrir svindlara, spunakerlingar, slúðurbera og grínista. Internetið er ekki himnaríki. Er vandamál.

Klippt og límt, rétt og rangt:
Stundum er vitlaust skorið. Ef þú klippir, sendu alla greinina. Best er að senda krækju í upphaflegu greinina og láta lesandann sjálfan um að meta málið. Varaðu þig líka á hæðni, margir skilja hana ekki.

Nýjar leiðir til mistúlkunar: Ljósmyndir, vídeó sanna ekkert. Þetta er auðfalsað. Auglýsingar eru settar inn í sjónvarpsþætti, bráðum líka í fréttir. Slík tækni er kjörin fyrir netið, þar sem lygar dreifast hratt og valda miklum skaða, áður en sannleikur finnst.

Hver talar og hvers vegna? Svindlarar hafa notað spjallrásir og fréttahópa lengi til að planta fréttum og kaupa síðan eða selja í kjölfarið. Á þessum stöðum eru líka ótrúlega góðar upplýsingar. Mikilvægast er að átta sig á heimildinni.

Matt Drudge er ekki ábyrgur, en hann kemur fram undir nafni. Nafnleysið er höfuðslys vefsins. Margir telja, að losna þurfi við nafnleysið. Fyrir því eru góðar ástæður. Með nafni standa menn við fullyrðingar sínar, annars ekki. Athuga þó flautublásara.

Þeir, sem fylgjast með spjallrásum og umræðuhópum, verða að átta sig á nafnlausum texta. Gillmor reynir ekki að stöðva nafnleysið, en viðurkennir aðeins fáar undantekningar á nafnbirtingu. Enginn má taka neitt mark á nafnlausum skrifum.

Ég leyfi ekki athugasemdir á vefsvæði mínu. Það sparar mér að vakta vefsvæðið. Ef ég leyfði athugasemdir, yrði ég að vakta svæðið oft á dag til að kippa burt því efni, sem tröll og púkar setja þar inn. Ég vil ekki láta þau stela frá mér tíma. Ég hef nóg að gera.

Tröll og aðrir leiðindapúkar: Þeir reyna að stífla rásir með þvaðri og bulli og dónaskap. Þeir reyna að eyða tíma annarra. Þeir þrá athygli. Sumir eru óþolandi, fanatískir og heimskir, án þess að vera tröll. Og ekki eru öll tröll mjög leiðinleg. Hunsaðu þau öll.

Höfundur veraldarvefsins, Tim Berners-Lee, er haldinn efa um vefinn. Vefurinn breiðir út meiri lygi en sannleika, segir hann. Raunar segir hann vefinn vera orðinn samkomustað svindlara og lygara. Ef svo fari fram, verði vefurinn gagnslaus.

Spunagæsla: Blaðamenn þekkja spuna og spunakarla. Samt er texti fjölmiðla fullur af klipptum spuna úr tilkynningum. Vefspuni verður sífellt lúmskari, enda segja menn ekki frá tengslum sínum við mál. Fyrirtæki bjóða hjálp við vefspuna. Afhjúpaðu spuna ætíð.

Eyjan.is er dæmi um fjölmiðil á vefnum. Hann býður krækjur í fréttir hefðbundinna miðla og í blogg nafngreinds fólks. Blanda bloggaranna er skrítin blanda af sjálfstæðum einstaklingum og af fólki, sem talar fyrir hönd pólitískra eða annarra hagsmuna.

Borgaralegir blaðamenn hjálpa: Kaycee Nicole var tilbúin persóna. Bloggarar komu upp um hana. Hvað eftir annað hafa árvökulir netverjar áttað sig á misnotkun og spuna á vefnum.

Flótti til gæða: Mikið magn óáreiðanlegra upplýsinga á vefnum eykur áhrif hefðbundinna miðla, sem lúta ritstjórn. En margir treysta þeim ekki. Hakkarar munu komast inn á vefi hefðbundinna miðla og setja þar inn óábyrgar fréttir.

Gamaldags, heilbrigð skynsemi: Notendur netsins þurfa að koma sér upp filtrum, setja upp virðingarstiga trausts. Það mun verða auðveldara á næstu árum. Á meðan tökum við öllu með varúð. Ef móðir þín segist elska þig, skaltu fá það staðfest.

Sjá nánar:
Dan Gillmor: We the Media, Grassroots Journalism by the people for the people, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé