Myndir-Hönnun-Lestur

Blaðamennska
Myndir-Hönnun-Lestur

Mundu, að texti, sem skrifaður er í tölvu, er ekki meitlaður í stein. Þú getur litið á hann sem uppkast, sem þú getur breytt eða fleygt. Ekki gefast upp, þótt fyrstu fimm tilraunirnar misheppnist. Þú dettur fyrir rest niður á góða lausn.

Myndir:
1. Atburðamyndir:
Heppni skiptir miklu máli. Margir geta tekið fyrirvaralaust myndir á síma, en þær geta bara orðið eindálkur í blaði. Myndir af vefnum verða líka litlar. Vel heppnaðar atburðamyndir eru hornsteinn í fjölmiðli.

2. Skipulagðar myndir:
Það eru myndir, sem pantaðar eru í tengslum við efni, sem fyrirhugað er í blaðinu. Þær eru yfirleitt ekki tengdar neinum tímasettum atburði og gefa oft færi á spennandi, yfirvegaðri og listrænni myndatöku.

3. Portrett:
Fjölmiðlar eru fullir af andlitsmyndum. Þær fara í safn, sem sótt er í, þegar birta þarf mynd af manni án mikillar fyrirhafnar. Smám saman verða slíkar myndir leiðigjarnar, svo að nauðsynlegt er að endurnýja þær.

4. Myndaklisjur:
Langur listi er til yfir ömurlegar myndir. Þær verða til, þegar ljósmyndari er sendur án fullnægjandi leiðbeininga. Slíkar myndir eru óvenjulega algengar í fjölmiðlum hér á landi. Sex þekkt dæmi um slíkt fylgja hér á eftir.

1. Tvær persónur rétta út hendina, heilsast og horfa í myndavélina.
2. Tvær persónur halda á pappír milli sín til að tákna kaup og sölu.
3. Þrjár persónur sitja við hlut á borði, tveir horfa á hann og einn í vélina.
4. Tvær persónur heilsast og halda á plakati, bikar eða vottorði.
5. Meirihluti myndflatarins sýnir hlutlausan vegg eða vegg með málverki.
6. Mynd í sjónvarpi af útidyrum stofnunar eða af skýringartöflu í inngangi.

Þegar myndataka er pöntuð á efnisstjórinn að láta 25 orða skýringar fylgja með. Ljósmyndari, sem fær slíka leiðsögn, er miklu betur settur en hinn, sem fær bara miða með stað og tíma. Hann skilur betur, hver er tilgangur myndarinnar.

Flestar myndir hafa eina eða fleiri kraftlínur, t.d. þriðjungaskiptingu myndflatar. Ekki má eyða þeim í umbroti. Hægt er að gera lóðrétta mynd að láréttri, ef umbrot krefst þess. Betra er þó að til séu tvær myndir. Einnig bæði þröng mynd og mynd með víðu sjónarhorni.

Orð geta staðið án mynda, en myndir í dagblaði geta ekki staðið án orða. Letur myndatexta er annað en meginletrið, oft steinskrift í stað antíkvu.
Muna að láta fylgja nafn eða einkenni ljósmyndarans, t.d. vegna réttinda.

Letur og hönnun:
Lesendur vilja, að textinn sé auðlesinn. Hafa ekki áhuga á tæknilegum atriðum. Forðastu umbrot, sem truflar lesanda eða lestur. Skökk eða bogin fyrirsögn.
Mósaíkumbrot er skemmtilegt; þar getur lesandinn rambað.

Upphaf síðunnar er efst til vinstri, endir hennar neðst til hægri.
Milli þessara punkta er þyngdarafl lestrarins, höfuðlína síðunnar
Sjónrænir seglar draga augað annað. Gæta þarf hinna horna síðunnar.

Allur texti skal vera jafnaður til vinstri. Megintexti oftast líka til hægri. Fyrirsagnir eiga að vera jafnaðar til vinstri, en ekki jafnaðar til hægri. Lesandinn skannar, þegar hann skoðar umbrotsatriði, síðan les hann, kannski.

Textalínur mega ekki vera of langar. Brauðskrift blaða er oftast 8 punktar.
Notað er belgmikið letur, nánast eingöngu antíkva, svo sem Times Roman.
Framhöld hafa alveg verið aflögð. Hverri síðu nægir sín þjáning.

Fyrirsagnir draga fréttirnar saman. Áberandi þættir í umbrotinu.
Fyrirsagnir eiga að vera jafnaðar til vinstri.
Fyrirsagnir eiga ekki að vera í hástöfum. Slíkar eru erfiðir aflestrar.

Hámark stafa í fyrirsögn er 45, hámark stafa í línu fyrirsagnar er 32.
Leturblað fyrirsagna segir, hvaða letur megi nota og í hvaða stærðum.
Letur í föstum heitum og lógóum er annað en letur fyrirsagna.

Fimmtán reglur um myndaval:

1. Breyttu sjónarhorni, skjóttu á hlið eða að neðan. Ekki beint að framan. Fáðu nýtt sjónarhorn.
2. Fáðu hreyfingu í myndina. Láttu fólk vera að gera eitthvað.
3. Notaðu fylgihluti, draga athygli myndefnisins frá myndavélinni.
4. Hafðu myndina þétta. Forðastu dauða veggfleti milli hausa.
5. Hver mynd á aðeins að hafa einn fókuspunkt. Annað dreifir athyglinni.
6. Takmarkaðu fjölda fólks á mynd eins og hægt er. Ekki hafa tíu manns.
7. Hafðu fólk á myndunum. Fólk vill skoða fólk.
8. Hafðu auga fyrir skapi fólks. Glaður svipur hentar ekki sorglegum viðburði.
9. Gerðu kröfu til tæknilegra gæða. Myndir séu ekki úr fókus eða illa lýstar.
10. Myndir eiga að segja eitthvað, ekki bara vera til.
11. Athuga þarf, hvort aðrar myndir en ljósmyndir komi til greina.
12. Fáar vel valdar myndir eru betri en margar myndir.
13. Efnisstjórinn þarf að hafa auga fyrir myndamöguleikum efnis.
14. Gæði forskriftar þarf að leiða til, að ljósmyndari skilji óskirnar.
15. Hundar, börn, hestar, fólk hafa mest áhrif, einnig sérkennilegar myndir og gamansamar.

Tólf reglur um myndskurð:

1. Myndskurður er beztur þröngur. Taktu kjarnann, fleygðu hinu.
2. Láttu kraftlínur myndarinnar halda sér. Klippa þarf með gætni.
3. Hafðu einn fókuspunkt á myndinni. Klipptu út mann, sem horfir í aðra átt.
4. Hafðu sjóndeildarhringinn láréttan. Láttu ekki heiminn hallast.
5. Hafðu auðvelt að lesa myndina. Örvar, hringir settir inn til skýringar
6. Farðu varlega í að leggja efni, fyrirsagnir ofan í órólega myndfleti. Getur komið illa út.
7. Reyndu óvenjulegar stærðir, háar eða breiðar, mjóa eindálka, lága fimmdálka.
8. Fylgstu með heildarstærð myndarinnar við breytta dálka.
9. Ekki skera af höfuð eða hluta höfuðs, eyru, höku. Slíkt truflar lesandann.
10.Leitaðu eftir myndaseríum, einkum af fólki. Passaðu að hafa sömu höfuðstærð.
11.Blanda ljósmynda og teikninga getur virkað vel, t.d. af hönnun.
12.Gættu þess, að myndatextinn breytist í samræmi við myndskurð.

Vaktstjórar:
Dagblað á að þekkjast á forsíðunni. Ekki samt hafa of mikið af föstum reglum. Ýmis smáatriði draga úr sveigjanleika hennar og stærð þess flatar, sem hægt er að nýta. Gott er að hafa reglur um hámark sveigjanleika.

Umbrotsblöð eru enn notuð. Tölvuumbrot er eins staðlað og hefðbundið umbrot.
Textabálkar eru betri láréttir en lóðréttir, sem eru óárennilegir.
Betra er að hafa eina stóra mynd á síðu en tvær jafnar millistærðar í innri samkeppni.

Síður raðast í skipulega blaðhluta. Þróunin er í átt til meiri skiptinga.
Hver síða/opna þarf að hafa eina berandi fyrirsögn. Og eina áberandi ljósmynd.
Leiðarasíðan er sér á parti, oft með annarri dálkabreidd og stærra meginmálsletri.

Enginn munur er á umbrotsreglum breiðsíðublaða og smábrotsblaða. Fyrirsagnir og myndir eru oft stærri í smábrotsblöðum og meiri æfingar leyfðar í umbroti. En meginlínur þær, sem hér hafa verið settar fram, gilda jafnt um bæði formin.

15 reglur um handritalestur:

Öll handrit þarf að lesa af öðrum en höfundi. Prófarkalestur tíðkast enn hér, en hefur lagst niður víða erlendis. Þar taka vakt og textastjórar við hlutverkinu. Íslenskir fjölmiðlar eiga að vera á góðu tungumáli miðað við önnur lönd.

1. Lestu fyrst alla greinina áður en þú breytir nokkru. Þú þarft að sjá allt.
2. Fullvissaðu þig um, að sagan sé rétt upp byggð með skynsamlegri efnisröð.
3. Þéttu söguna, styttu hana, taktu út hluta, sem ekki skipta máli.
4. Taktu út óþörf orð, bættu bygginguna, léttu rennsli málsgreina.
5. Fullvissaðu þig um, að öllum mikilvægum spurningum sé svarað í greininni.
6. Fullvissaðu þig um, að sagan sé sanngjörn og óhlutdræg.
7. Hafðu efasemdir um svokallaðar staðreyndir. Passaðu nöfn og tímasetningar.
8. Einfaldaðu málið. Breyttu flóknum málsgreinum í einfaldar.
9. Útskýrðu, útskýrðu. Láttu ekki lesandann fá eitthvað, sem hann skilur ekki.
10.Forðastu óþarflega miklar tilvitnanir. Gættu þess, að rétt sé eftir haft.
11.Hafðu málfræðina rétta. Forðastu tískuorð og klisjur.
12.Fylgdu stíl blaðsins. Víða eru samræmdar reglur um notkun tungumálsins.
13.Skerðu miskunnarlaust niður nauðsynlegar, leiðinlegar sögur.
14.Notaðu læknishníf, ekki kjötskurðarhníf við allan niðurskurð.
15.Vertu í símasambandi við höfundinn, ef hann er farinn af skrifstofunni.

Undirfyrirsagnir eru aftur komnar til skjalanna. Voru horfnar um tíma.
Lesendur sjá ekki mun, þegar 48 pkt eru minnkaðir niður í 42 pkt.
Óreyndir setja oft þarflaus aukaorð í fyrirsagnir til að þær fylli betur.

Fyrirsagnir vísa oft til efnis, sem ekki er fremst í grein. Hún er þá úr fókus.
Virk sagnorð eru lykilorð fyrirsagna. Íslenska er mál sagnorðanna, eins og enska.
Forðist skammstafanir. Notið stutt orð. Klippið óþörf orð.

Fyrirsagnir eru oft styttar í meiningarleysu. “Stjórnin mun skoða áætlun” gæti verið fyrirsögn á mörgum stöðum í blaði. Hvaða stjórn, hvaða áætlun? Fyrirsagnir eru oft samdar í tímahraki og verða þá oft lélegar.

Sjá nánar: Malcolm F. Mallette,
Handbook For Journalists, 1998

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé