Mindich III

Umræða
Mindich III

Virðing fyrir blaðamennsku og blaðamönnum hefur minnkað. Að sumu leyti stafar það af smjaðri þeirra fyrir skemmtilegheitum. Að öðru leyti stafar það af viðskiptastefnu fyrirtækjanna, samanber Stapleshneyksli Los Angeles Times.

Fimmti hver ritstjóri telur, að Staplesmálið sé ásættanleg viðskiptastefna. Einnig hefur orðið hrun í veggjum, sem áður voru hlaðnir milli ritstjórna og viðskiptadeilda. Menn búa til ritstjórnarefni til að gleðja auglýsendur.

Þegar við hættum að líta á okkur sem gæslumenn almannahagsmuna og förum að líta á okkur sem viðskiptatækifæri, flýtir það fyrir hnignun gæðanna. Almennt telur ungt fólk, ranglega þó, að fréttir séu keyptar og samdar af risafyrirtækjum.

Staðreyndin er sú, að sumir fréttamiðlar, sérstaklega á smáum stöðum, sprauta auglýsinga- og viðskiptahagsmunum inn í fréttirnar. Einna sorglegust er minnkun og jafnvel afnám staðarfrétta í sjónvarpi.

Enn meira áberandi í heimafjölmiðlum er gegnumgangandi ofbeldi. Fréttirnar eru endalaus röð af hnífsstungum, manndrápum, nauðgunum, morðum og ýmsum slíkum glæpum. Blaðamenn eru á þönum milli ofbeldisstaða. Forgangsröðin er ljós.

Ofbeldi og viðskipti tröllríða staðbundnum sjónvarpsstöðvum. 90% frétta á slíkum stöðvum eru frá lögreglunni eða almannatenglum. Innan við 10% allra frétta verða til að eigin frumkvæði á ritstjórn.

Fréttir af stjórnmálum einstakra ríkja hafa einnig látið undan síga hjá staðbundnum sjónvarpsstöðvum. Í staðinn hafa komið fréttatilkynningar frá almannatenglum í stjórnmálum.

Áður en Schwarzenegger kom til sögunnar vörðu staðbundnar sjónvarpsstöðvar í Kaliforníu 0,5% af fréttatíma sínum til baráttunnar um embætti ríkisstjóra. Svertingjar horfa mest á staðbundið sjónvarp, því að þeir þekkja fólk í ofbeldi.

Þegar miðstéttirnar flúðu úr borgunum í úthverfin, losnaði um rætur þeirra, borgaraleg meðvitund minnkaði, þátttaka í samfélaginu minnkaði, kirkjusókn minnkaði og blaðamennska veiktist.

Þekking á samfélaginu er mikilvæg, af því að hún eykur umburðarlyndi, eykur pólitíska þátttöku, gerir fólki kleift að sjá hagsmuni sína og gerir því kleift að vinna að hagsmunum sínum.

Þekking á samfélaginu fer saman við dagblaðalestur, en vanþekking á því fer saman við sjónvarpsáhorf. Þekking á samfélaginu leiðir til meira trausts milli fólks og trausts á því, að þjóðfélagið bregðist við þörfum fólks.

Nú er unga fólkið önnur kynslóð af því tagi, sem ekki notar fréttir. Foreldrar þess notuðu ekki og nota ekki fréttir. Sama er að segja um pólitíkina. Foreldrar og börn vita lítið um pólitík og fréttir.

Internetið getur verið gagnlegt við dreifingu upplýsinga. Stuðningur við bann gegn jarðsprengjum fékkst meðal annars með herferð á netinu. Andstaða við fréttir af notkun eiturgass í Víetnam fékkst meðal annars með herferð á netinu.

Internetið gefur tækifæri til gagnkvæmra samskipta út af fréttum. Þar er hægt að ná til blaðamanna og í sumum tilfellum hægt að koma skoðunum á fréttum á framfæri á vefsíðum fjölmiðla.

Gallinn við internetið er, að þar sækja líkir líkan heim. Samskiptin eru yfirleitt milli fólks, sem er sammála hvert öðru. Ef okkur líkar illa við fólk á umræðurás, förum við út af henni

Samfélagið byggist hins vegar á málamiðlunum og gagnkvæmum sáttum. Þar horfast menn í augu við skoðanir, sem eru aðrar en þeirra. Þannig er internetið ekki nein eftirlíking af veruleikanum.

Við þurfum góða blaðamennsku. Við þurfum hana, af því að hún gefur okkur upplýsingar, sem við getum notað til að styðja hernaðaráætlanir eða hafna þeim. Við þurfum hana, af því að annars hefðum við ekki frétt af Watergate.

Fyrst og fremst þurfum við þó góða blaðamennsku, af því að án hennar hefðum við engar áreiðanlegar upplýsingar. Góð blaðamennska þarf þrennt, að við notum hana, að við borgum fyrir hana og að við styðjum viðauka númer eitt í stjórnarskránni.

Hjá Joseph Pulitzer á New York World hékk plakat, sem á stóð: “World á enga vini.” Að eiga enga vini felur í sér, að dagblaðið kemur upp um spillingu, neðanjarðarstarfsemi og vangetu, hvar sem þetta er að finna.

Blaðamenn hafna enn þrýstingi frá stjórnvöldum og viðskiptaaðilum, en stjórnendur á viðskiptavæng fjölmiðla eru sumir farnir að hugsa undarlega, eins og til dæmis þegar Disney ætlaði að sparka Ted Koppel til að yngja áhorfendahópinn.

Menn geispa, þegar þeir sjá góða blaðamennsku. Almenningur tekur ekki við sér og það er jafnvel engin pólitísk umræða. Unga fólkið í landinu lætur þetta sig engu varða og ekkert lát virðist verða á slíku.

Góð blaðamennska kostar peninga. Þegar Tom Brokaw var spurður um markmið sitt, sagði hann: “Að lifa af.” Þegar ágóði minnkar og verð hlutabréfa staðnar, er gripið til neyðarráðstafana. Fréttastofum er lokað. Fréttapláss er minnkað.

Þegar menn reyna að halda uppi ágóða við minnkandi lestur, ráða þeir fólk á borð við Mark Willes, sem leitaði eftir nánara samstarfi milli viðskiptadeilda og ritstjórnar Los Angeles Times. Los Angeles Times reyndist hafa ýmsa vini.

Lestur dagblaða er nálægt botni í Bandaríkjunum í samanburði við Evrópulönd og á sjálfum botninum í áhorfi sjónvarpsfrétta. Og tíminn, sem fer í fréttir, fer minnkandi. Þeim fækkar, sem eru fúsir til að borga fyrir góða blaðamennsku.

Tom Brokaw sagði, að ungt fólk, sem kæmi þangað að vinna, væri gáfaðra og menntaðra en áður. Það þekkir sjónvarp og vill vinna þar. En því miður gefur það skít í fréttir. Það vill gera magasínþætti og umræðusýningar.

Þegar Burlington Free Press birti nöfn nokkurra stúdenta minna, sem höfðu verið handteknir vegna ölvunar, skildu stúdentarnir ekki skyldu dagblaðsins. Ég reyndi að skýra út fyrir þeim nauðsyn fréttarinnar, en kom þeim ekki í skilning um það.

Ef blaðið hefði ekki gert þetta, hefðu rangir stúdentar legið undir grun. Með því að birta nöfnin, var blaðið ekki að taka afstöðu, það sagði bara frá handtöku, sem var á skrám lögreglunnar. Stúdentar eiga líka að vera ábyrgir gerða sinna.

Ef þú lest ekki fréttir um, hve langt er milli repúblikana og demókrata í skoðunum á byssueftirliti, skattaafslætti auðmanna, sjúkratryggingum og fóstureyðingum, gætirðu keypt fáránlega fullyrðingu Nader um einflokkinn.

Unga fólkið, sem sækir í nám í blaðamennsku og síðan í störf á sama sviði, hefur minni áhuga en áður á sögu blaðamennsku og markmiði hennar. Það sér síður en forverarnir, að fréttir eru ekki sama og skemmtun.

Jay Leno: “Bandaríkjamenn þekkja raunar ekki stjórnmál. Þegar þú ert kominn fram hjá utanríkisráðherranum, þekkja þeir engann. Til að gera grín að John Ashcroft dómsmálaráðherra þarftu bókstaflega að útskýra hver hann er og hvað hann gerir.”

Vandinn er hrikalegur og leysist ekki af sjálfu sér. Lausnir í boði eru annað hvort ófrumlegar eða gagnslausar. Markaðsmenn tala um að líta á ungt fólk sem markhóp, er þurfi sérstakar vörur og afmarkaðar söluherferðir.

Kenningar markaðsfræðinga eru teknar alvarlega af örvæntingarfullum millistjórum í fjölmiðlaútgáfu. Þær skilja ekki, að góðir fjölmiðlar eru til og að verkefnið er að búa til aðstæður í þjóðfélaginu, sem hlúa að góðri fjölmiðlun.

Dagblöð um öll Bandaríkin bæta við Britney Spears og draga frá Tom Daschle, reyna að höfða til ungs fólks og höfða að lokum til einskis.

Sérblað Chicago Tribune fyrir ungt fólk, RedEye, lítur á það sem ofdekrað, eigingjarnt, óseðjandi fólk, sem vill sjónvarp, skemmtun, ruslfæði og ertingu. Það er fyrirsagnablað, þar sem fyrirsagnirnar eru um froðu og neyslu.

Lausn 1: Ríkið á loftvakann, getur heimtað alvörufréttir með barnaefni, getur heimtað fréttahnapp á vafra, getur bannað hringamyndun.

Lausn 2: Allir grunnskólanemendur taki próf í félagsfræði, tíu spurningar með hefðbundnu grunnskólaprófi. T.d. hvar er Írak, hver er forseti Alþingis, var halli á fjárlögunum í fyrra?

Lausn 3: Ríkisstyrkir til flokka séu háðir því, að flokkstengsl frambjóðenda komi fram í auglýsingum og að minnsta kosti þrír umræðuþættir fari fram milli mikilvægra frambjóðenda. Opnað sé fyrir ókeypis auglýsingar í sjónvarpi.

Lausn 4: Við gagnrýnum æsifréttamennsku, en gleypum hana í okkur. Hún selur. Við verðum að gera fréttir aðgengilegri, ekki heimskulegri. Við þurfum að setja betri umferðarmerki í dagblöðin. Við þurfum að borga vel fyrir fréttir.

Ef New York Times eða Wall Street Journal bættu 1% við af gamni og tvöfölduðu upplagið, væri það fínt. Ef þau bættu við 25% af gamni og ykju upplagið um 1%,væri það tap fyrir lýðræðið.

Notendur Fox sjónvarpsins eru verulega verr upplýstir um þjóðfélagið en notendur CNN, annarra sjónvarpsstöðva og dagblaða. Þeir hafa ýmsar ranghugmyndir umfram aðra í þjóðfélaginu, telja til dæmis að gereyðingarvopn hafi fundist í Írak.

Hins vegar gerir Fox vel í að sýna mannlegar hliðar fréttamanna, akkerismanna og stjórnenda umræðusýninga og að sýna, að þeim finnst fréttirnar skipta máli. Það er ekki nauðsynlegt, að hlutlægar fréttir séu tilfinningalausar.

Amartya Sen nóbelsverðlaunamaður benti á, að hungursneyð verði ekki í ríkjum með frjálsri pressu og frjálsum kosningum.

David T. Z. Mindich
Tuned Out
Why Americans Under 40
Don’t Follow the News,
2005

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Endir