Mindich II

Umræða
Mindich II

Við höfum ungt fólk, sem veit lítið, hefur lítinn áhuga, les dagblöð lítið, tekur lítinn þátt í kosningum, er minna gagnrýnið á leiðtogana. Ef allt þetta er svona fjarlægt ungu fólki, hvað er það þá, sem kveikir áhuga þess?

Eitt dæmið er um unga konu, sem skipulagði mótmæli gegn ýmsu, en vissi nánast ekkert um málin, miklu minna en ætla mætti af mikilli þátttöku hennar í opinberu lífi. Skipta staðreyndir ekki lengur neinu máli, jafnvel fyrir slíkt fólk?

Til þess að skilja áhugaleysi ungs fólks á fréttum þurfum við að skilja freistingar skemmtana. Þær eru skemmtilegri en stjórnmál. En hvað skal gera, þegar líf fólks snýst eingöngu um skemmtun?

Eitt dæmið er um hóp ungra kvenna, sem horfði saman á Survivor. Þær virtust ekki vita neitt um, að það er leikstýrður þáttur, þar sem atriðin eru meira eða minna leikin, það er að segja endurspegla ekki neinn veruleika.

Samt var þessi hópur tilbúinn til að hafna fréttum. Fréttirnar koma frá stórfyrirtækjum, sögðu þær. Ein sagði, að þær kæmu frá Sony, tóbaksframleiðendum og öðrum slíkum. Fréttir væru ekki ekta, hins vegar væri Survivor ekta.

Með þessu rugli hafnar ungt fólk fréttum. Það telur þær ekki vera sannar, jafnvel vera annarlegar. Það vill heldur skipulagða leiksýningu og telur sér trú um, að hún sé sönn, sýni veruleikann. Þetta fólk er hjálparlaust í misskilningi sínum.

Fólk horfir á leiksýningu, sem er meira eða minna tengd auglýsingum, og telur sér trú um, að þar sé veruleikinn og sannleikurinn, en hafnar hefðbundnum fréttum á þeim forsendum, að auglýsingatengd sjónarmið séu þar að baki. Þvílíkt rugl.

Þær ungu konur, sem hér hefur verið fjallað um, hafa afsalað sér frumburðarrétti borgara í lýðræðisþjóðfélagi. Þær hafa afhent frumburðarréttinn einmitt þeim auglýsendum, sem þær segjast hafna. Þær synda ósjálfbjarga í skemmtun sinni.

Æsingur er gamall í sögunni, frumstæður. Við erum aftur að fá fjölmiðlun, sem er eins og hún var fyrir tveimur öldum. Hún einkennist af gróða stórfyrirtækja, samkeppnisþrýstingi fjölmiðlunga og vilja þeirra til að sleikja lágkúru fólks.

Upp úr 1830 fóru nútíma fjölmiðlar að koma til sögunnar, óháðir stjórnmálum. Þá komu upp siðareglur á borð við Sannleikurinn = staðreyndir + staðreyndir + staðreyndir = góður vilji og mikil vinna. Toppurinn í dag er New York Times.

Þessu góða tímabili er að ljúka. Frumstæðar óskir skemmtanasjúks fólks hafa tekið stjórnina. Ungt fólk snýr sér að skemmtun, af því að hún höfðar til veruleika þess, ótta þess og drauma þess. Skemmtun gefur fróun hér og nú.

Því tímabili er að ljúka, þegar fjölmiðlarnir marséruðu undir merki óhlutdrægni og hlutleysis. Það er lítið líf og blóð og tár í slíkum hugtökum. Nú hafa Time og Newsweek sjö sinnum oftar en áður sömu forsíðu og People, mannlega forsíðu.

Köld óhlutdrægni höfðar ekki til fólks með sama hætti og mannlegt efni. Fólk er ekki lengur æst af völdum frétta. Það verður æst af völdum lífsstíls og skemmtana. Fréttir geta aldrei gripið fólk eins og þáttur af Friends.

Forstjórar viðskiptakeðja eru farnir að stjórna fjölmiðlum. Disney finnst ekki viðeigandi, að fjölmiðlar þess segi frá baráttu í stjórn þess. “Samband forstjóra Disney og fjölmiðlunar er eins og samband gullfiska og bóka.”

Disney vildi skipta út Ted Koppel og ráða í staðinn David Letterman, af því að sá fyrri hafði 50 ára meðalaldur í áhorfi og sá síðari 46 ára meðalaldur. Þannig hugsa forstjórar stórra keðjufyrirtækja, sem ekki vita neitt um fjölmiðlun.

Fjölmiðlar reyna að vekja athygli ungs fólks með því að öskra hærra en aðrir og henda út fréttum fyrir The Real World, Survivor og Temptation Island. Í staðinn fyrir borgaralegar upplýsingar kemur endalaus skemmtun.

Áhugi ungs fólks snýst um: Mun ég giftast? Fæ ég feitt djobb? Hef ég efni á íbúðinni? Hvernig borga ég afborganir af bílnum? Hversu sæt er skvísan/gaurinn við hinn endann á barnum? Kemur hún/hann heim með mér á eftir?

Eftir því sem minnkar eftirspurn eftir fyrsta flokks fréttamennsku þá munu fyrirtæki í fréttaöflun ekki hafa efni á henni og af því að þau hafa ekki efni á henni mun framboð fyrsta flokks fréttamennsku fara minnkandi.

Veggurinn milli ritstjórna og annarra deilda á fjölmiðlum hefur rofnað á nokkrum stöðum. Undir nýjum eiganda reyndi Los Angeles Times að láta múta sér til að styðja nýja verslunarmiðstöð. Honum tókst það að vísu ekki. En víðar er reynt.

Áhorf á Fox News hefur aukist, einkum meðal ungs fólks, af því að þar eru skoðunum spýtt inn í fréttir. Ágreiningur selst. Þess vegna er mikið um skoðanir í umræðusýningum á Fox, því meiri reiði og upphrópanir, þeim mun betra.

Meira vit er fréttunum hjá Dan Rather heldur en hjá Victoria Sinclair, sem fækkar fötum, þegar hún segir fréttirnar, og endar með að fara úr þeim öllum. Þetta vill unga fólkið miklu fremur en að horfa á og heyra alvörufréttir.

Skoðanakönnun hefur leitt í ljós, að meðal fólks, sem er innan við 30 ára, fær helmingurinn fréttir sínar úr skemmtiþáttum á síðkvöldum, ekki úr hefðbundnum fréttum. Fréttir eru orðnar að hluta af strippi Victoria Sinclair.

Mest notuðu CNN fréttir á vefnum: 1. Fastur í klósetti í flugvél. 2. Sprengjur í böngsum. 3. Þorp í Florida rekur djöfulinn út. 4. Erfðabreyttur köttur. 5. Dóttir Jeb Bush falsar lyfseðil. 6. Skautadómari rekinn. 7. Níunda röð Friends.

Fólk vill sögur, sem sjokkera, snerta við hjartarætur. Vinsælustu sögurnar fjalla um ferli, sem kemur á óvart, t.d. maður drukknar í sundlaug í partíi hjá lífvörðum eða maður fer í Útlendingaherdeildina til að hitta ekki tengdamömmu.

Margir umgangast fjölmiðlana eins og morgunkorn. Þeir velja það, sem hefur að geyma mesta sykurinn. Allir, sem ég talaði við í Los Angeles, vissu ekkert um neinar fréttir, sem ekki snerust um sjóbissness.

Ég fór á Newsroom barinn, þar sem voru dagblöð og sjónvarpsfréttir. Enginn horfði á fréttirnar og enginn las blöðin. Einn las Variety. Fólk stundaði hinn forna fréttaflutning, það talaði saman. Að öðru leyti var staðurinn fréttalaus.

Á sumum vinnustöðum þurfa menn að vita, hvað er í fréttum, til að vera teknir alvarlega. Á sumum fundum þurfa menn að vita, hvað er fréttum, til að vera teknir alvarlega. En slíkar aðstæður eru í miklum minnihluta í samfélagi nútímans.

Samtöl eru frumþörf hjá fólki, notkun frétta ekki. Þeir, sem eru í mestum önnum, nota fréttir mest og taka mestan þátt í opinberu líf. Þeir, sem hafa ekkert að gera, nota þær minnst og taka ekki þátt í opinberu lífi.

Dæmi eru um skóla, sem venja börn og unglinga við notkun dagblaða í þeirri von, að það verði að vana. Niðurstöður benda til, að slíkar leiðir geti aukið blaðalestur. En lítið er um prógrömm af slíku tagi.

Við harmafréttirnar 11. september 2001 fóru menn að nota fréttir meira, en sú breyting gekk hratt til baka og breytti ekki venjum fólks. Þegar fréttir urðu hversdagslegri, fór fólk aftur að sökkva sér í skemmtiþætti.

Tímabilið 1990-2005 hefur sala dagblaða minnkað, en hagnaður haldist óbreyttur. Vefútgáfur hafa aukið útbreiðslu, en fjárhagslegur ávinningur er minni. Um netið gildir eins og um sjónvarpið, að fólk tekur skemmtun fram yfir fréttir.

Internetið leiðir í sjálfu sér ekki til aukinnar neyslu frétta. Fæstir nota það til að afla frétta. Fréttaneysla er fremur háð þörfum atvinnu, samræðum, stjórnmálatengslum og öðrum þáttum, sem nefndir voru hér að framan.

Einkenni internetsins er að geta fullnægt persónulegum þörfum. Samtöl á netinu ganga lítið út á fréttir, snúast einkum um einkamál. Þeir eru fáir, sem nota netið sem meginuppsprettu frétta og láta vakta fyrir sér ákveðnar tegundir.

Meðalaldur lesenda New York Times er 48 ár, svipaður og fréttatímarita. Það er tiltölulega lágur aldur, mun lægri en hjá CNN. Það sýnir, að til er ákveðinn lesendahópur í hverjum aldursflokki, en samt afar lág prósenta af þjóðinni.

Tölvupóstur og óteljandi heimasíður gefa okkur “mínar fréttir”, sérhannaðar fyrir okkar smekk. Fólk vill frétta um sig og vini sína og fæstir vilja staðbundnar fréttir. Slíkar fréttir hafa verið á miklu undanhaldi.

Undanhald staðbundinna frétta stafar einkum af lélegri útbreiðslu borgaralegra viðhorfa, brottfalli ungs fólks af fréttamarkaði og ritstjórnarstefnu, sem byggist á mælingum á áhorfi.

“Mér geðjast ekki að fréttum, það er meira bullið og gerir mig svartsýnan”, eru algeng viðbrögð. Þeir, sem fylgjast með ríkisfréttum, hafa oft lítinn áhuga á heimafréttum, segja þær vera klipptar-og-límdar fréttir frá fréttastofum.

Fjölmiðlar græða mikla peninga. Sparnaður og forheimskun virðist ekki fæla notendur frá. Það, sem selur, er kynlíf, frægðarfólk og einkum ofbeldi. Ungt fólk er einkum talið vilja ofbeldi og frægðarfólk.

David T. Z. Mindich
Tuned Out
Why Americans Under 40
Don’t Follow the News,
2005

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé