Mindich-Cappella

Umræða
Mindich
Cappella & Jamieson

David T.Z. Mindich
Just the Facts,
1998

Hafi bandarísk blaðamennska trúarbrögð, heitir guðinn Hlutlægni. Þótt sumir lofi hana og aðrir vilji hætta henni, hefur verið erfiðara að skilgreina hana. Hlutlægni er loðið orð eins og Raunveruleiki, Sanngirni, Nákvæmni, Hlutleysi.

Könnun leiddi árið 1997 í ljós að þriðjungur sjónvarpsnotenda undir þrítugu fékk fréttir einkum úr gamanþáttum á síðkvöldum. Stjórnmálamenn koma sér á framfæri í umræðusýningum í sjónvarpi og í spjalli á veraldarvefnum, ekki í fréttum.

Sumir segja, að hlutlægni sé miðuð við félagslegan rétttrúnað, endurspegli heim hvítra karlmanna og stefni að óbreyttu ástandi í þjóðfélaginu. Amanpour segir, að hlutlægni feli í sér, að allir fái að komast að, en séu ekki jafnt meðhöndlaðir.

Til skamms tíma var Hlutlægni hátt skrifuð í bandarískum siðareglum blaðamanna. Árið 1996 var orðið fellt úr siðareglunum. Í staðinn hafa komið önnur loðin orð á borð við Sannleikur, Nákvæmni og Víðtækni. Aðrir tala um Jafnvægi og Sanngirni.

Að baki orðsins Hlutlægni eru fimm kröfur. Fréttirnar tali, ekki höfundurinn. Þær séu óhlutdrægar, einkum í stjórnmálum. Stíll texta sé hinn hefðbundni píramídi á haus. Að baki þeirra sé naíf trú á staðreyndum. Í þeim ríki jafnvægi sjónarmiða.

Þannig skilgreint varð hlutlægni til í bandarískri fjölmiðlun upp úr 1833, meira en hundrað árum á undan Íslandi. Allar götur síðan hafa bandarískir blaðamenn þóst vera hlutlægir eða reynt að vera hlutlægir.

Það, sem gerðist um 1833, var, að óháð pennídagblöð fóru að leysa flokkspólitísku sexpensa dagblöðin af hólmi. Bókin tekur einkum mið af New York, sem ætíð var mikil dagblaðaborg og þar sem löngum hafa geisað styrjaldir milli fjölmiðla.

Penníblöðin voru fyrstu dagblöðin, sem líktust dagblöðum nútímans. Með þeim kom hlutlægnin og fimm þættir hennar, sem skilgreindir voru hér að ofan. Um 1876 voru blaðamenn farnir að skilgreina sig sem blaðamenn.

Svertingjadrápin, sem tíðkuðust fram yfir aldamótin og voru ekki talin vera glæpir og hvað þá blaðamál, sýndu, að hlutlægni var ekki nægilegt markmið fyrir fjölmiðla. Sannleikurinn í þeim efnum reyndist vera utan við hlutlægnina.

Dan Rather akkerismaður kvartar um Hollywoodiseringu fréttamiðlunar og talar þar um Bill O’Reilly í Inside Edition. Segja má, að O’Reilly stundi fréttatengda skemmtanamiðlun og að Rather stundi skemmtanatengda fréttamiðlun.

Til viðbótar við sögumenn á fjölmiðlum eru nú komnar þúsundir sögumanna á heimasíðum. Þetta hefur leitt til umræðna í samfélagi blaðamanna um, að aftur þurfi að skilgreina hlutverk blaðamanna.

Ef blaðamenn tala um hlutlægni, þurfa þeir að geta skilgreint hugtakið. Og þeir þurfa að átta sig á, að hlutlægni jafngildir ekki réttri mynd af veruleikanum. Myndin, sem þeir gefa, er alltaf lituð af bakgrunni menningar þeirra.

Ýmis orð geta komið í staðinn fyrir hlutlægni, til dæmis óhlutdrægni, sannleikur, veruleiki, sanngirni, hlutleysi, nákvæmi. Nú er mest talað um sannleika og nákvæmni. En menn þurfa alltaf að vita um takmarkanir slíkra hugtaka.

Sjá nánar:
David T.Z. Mindich
Just the Facts,
1998

Joseph N. Cappella &
Kathleen Hall Jamieson
Spiral of Cynicism,
The Press and the Public Good, 1997

Rannsóknir á vegum bókarhöfunda hafa leitt í ljós, að tortryggni og vantraust fremur en efahyggja einkennir fréttir fjölmiðla af stjórnmálum. Að einhverju leyti er samspil um þetta milli fólks og fjölmiðla. Dæmi um eggið og hænuna.

Fókus frétta af stjórnmálum er herfræðilegur, hvað sé að baki málefnanna annað en málefnin sjálf. Meðal frambjóðenda, leiðtoga, hugmyndafræðinga og þrýstihópa er útbreidd tortryggni og vantraust. Fréttaflutningur eflir þessi sjónarmið.

Í bland er til mikið af fréttum um málefni, vandamál og lausnir, misjafnar skoðanir, millileiðir og endurskoðanir, en þær hafa ekki haft eins mikil áhrif og tortryggnu fréttirnar, enda eru fréttir um málefni oft einnig gagnrýnar.

Tilraunir hafa verið gerðar með hefðbundinn fréttaflutning af stjórnmálum, lausa við kappræður sérfræðinga, sögur af raunverlegu fólki með áhugamál sín og áhyggjur, lítil kraftalæti á vegum frambjóðenda, siðræn framkoma af allra hálfu.

Tortryggni og vantraust fólks á stjórnmálum hefur um leið litað skoðanir þess á fjölmiðlum. Kannanir sýna ört rýrnandi traust á fjölmiðlum. Almennt telja menn, að fjölmiðlarnir dragi fram herfræðileg atriði og hryllileg.

Fjölmiðlarnir eru almennt gagnrýndir fyrir sömu atriði og áður, skort á hlutlægni, brenglanir, ónákvæmni og æsing. Í tvo áratugi á eftir Watergate og Víetnam hefur gætt rýrnandi trausts, hvort sem það er réttmætt eða ekki.

Pólitísk slagsmál og úthrópanir fá meira pláss en umræða um málefni. Vissulega eiga fjölmiðlar að vera með efahyggju, en ekki tortryggni. Hinum tortryggna finnst allt vera slæmt, en efahyggjumaðurinn er ekki viss um það.

Blaðamenn vita af því, að þeir eru taldir tortryggnir, en segjast ekki geta gert neitt við því. Þeir lýsi bara heiminum eins og þeir sjái hann. Þeir segja tortryggnina nauðsynlega vegna linnulauss spuna frambjóðenda.

Maureen Dowd: Bandaríkjamenn urðu ekki tortryggnir, af því að fjölmiðlar gáfu þeim brenglaða mynd af gangverkinu í þjóðfélaginu, heldur af því að fjölmiðlar komu upp um brenglað gangverk í þjóðfélaginu. Sögumanni er kennt um ótíðindin.

Almenningur hefur sent stjórnmálunum og fjölmiðlunum greinileg skilaboð um, að hann sé ekki sáttur við núverandi ástand. Lestur og áhorf hefðbundinna frétta hefur minnkað. Fólk fyrirlítur nánast fjölmiðlana.

Ýmislegt bendir til, að sumir fjölmiðlar séu farnir að vinna á móti þessari þróun, til dæmis með meiri fréttum af málefnum og minni fréttum af slagsmálum í pólitík. Heildarprósentan hefur heldur lagast á síðustu árum.

Almenningur í Bandaríkjunum gefur sjálfum sér C+ í einkunn, fjölmiðlunmum C, Bob Dole forsetaframbjóðanda C og Bill Clinton B.

Sjá nánar:
Joseph N. Cappella &
Kathleen Hall Jamieson:
Spiral of Cynicism,
The Press and the Public Good, 1997

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé