Markmið tímarita

Ritstjórn
Markmið tímarita

Jeff Castari, ritstjóri Men’s Health: Við höfum formúlu og höldum okkur við hana. Lesendur okkar vilja líkamsrækt, megrun, næringu, lyftingar, streitulosun, heilsu og karlaspeki. Við tryggjum, að hvert tölublað hafi eitthvað af þessu.

Scott Meyer, ritstjóri Organic Gardening: Við höfum verið málgagn félagslegra og læknisfræðilegra skoðana, handbók fyrir frístundabændur, pólitískt blað og lífsstílsblað. Einkum leiðbeinum við um ræktun án tilbúins áburðar og eiturs.

Fókus tímaritsins á ekki að breytast milli tölublaða. Þegar ritstjórinn eldist, fær hann ný áhugamál. Það getur haft slæm áhrif á ritstjórnina. Fókus tímaritsins fer að ramba. Tímaritið má yfirleitt ekki eldast með ritstjóranum.

Ed Holm, ritstjóri American History: Mikilvægasta hlutverk ritstjórans er að halda öllu í fókus, vinna með höfundum og starfsmönnum og hönnunarstjóra að samþættingu orða, mynda og hönnunar, sem sameinast þannig, að hvað styðji annað.

Ef þú getur ekki lýst fókusi tímarits í einni einfaldri yfirlýsingu, er ekki líklegt, að þar sé um að ræða uppáhaldstímarit þitt. Mörg tímarit hafa skriflega ritstjórnarstefnu í einni málsgrein. Það tryggir, að allir átti sig á fókusnum.

Sum tímarit ramma inn ritstjórnarstefnu sína og hengja hana upp, þar sem allir geta séð hana. Sum gefa hana út í handbók ritstjórnar. Sum birta hana. Hank Nuwer, ritstjóri Arts Indiana: Ég les ritstjórnarstefnuna fjórum sinnum í mánuði.

Cele G. Lalli, ritstjóri Modern Bride: Með skýrri ritstjórnarstefnu getum við haft fókusinn á því, sem lesendur vænta að finna í blaðinu. Við þekkjum markað okkar og fylgjumst með þróun hans. Við þekkjum hjónaband hvers tíma.

Flestar ritstjórnarstefnur eru stuttar, t.d.: “Lake Superior Magazine vill vera augu, eyru og rödd Lake Superior og fólksins þar. Með góðum skrifum, gröfum og myndum reynum við að koma lesendum á óvart, upplýsa þá og gleðja þá.”

Greg Cliburn, ritstjóri Outside: Outside er mánaðarrit um fólk, íþróttir og tómstundir, pólitík, listir, bókmenntir og tækjakost útilífs. Við viljum ná til fjallahjólamanna, bakpokamanna og hægindastólsferðamanna.

Cheryl England, ritstjóri MacAddict: Við erum opinská, alltaf endalaust hjálpsöm, með nákvæmum leiðbeiningum um, hvernig megi nota makka í sniðuga hluti. Við ráðum blaðamenn eftir makkaást þeirra ekki síður en eftir reynslu þeirra.

Jean LemMon, ritstjóri Better Homes and Gardens: “Stofnandinn þróaði fókusinn fyrir 73 árum. Allir ritstjórar hafa notað hann síðan. Hann er þéttur, þótt efnissviðið sé vítt. Sameiginlegi þráðurinn er: Heimili og fjölskylda.”

Matthew Carolan, ritstjóri National Review: “Hlutverk tímaritsins er að segja fréttir frá íhaldssömum sjónarhóli, sem í stuttu máli þýðir áhersla á takmörkun stjórnvalds, ábyrgð einstaklinga, frjálsa markaði og hefðbundin siðferðisgildi.”

Hugmyndir um efnisval tímarita koma m.a. frá greinahöfundum. Mikið berst inn af ónothæfu efni, sem er utan við fókus, óljóst, þreytt eða á annan hátt lélegt. En stundum sér greinahöfundur hugmynd, sem hentar nákvæmlega þessu tímariti.

Hugmyndir um efnisval tímarita koma líka frá samstarfsaðilum í atvinnulífinu. Mest af efni fréttatilkynninga er gagnslaust. En stundum má finna þar nýjar og áhugaverðar upplýsingar, sem nota má til að þróa gagnlegt efni í tímaritið.

Hugmyndir um efnisval tímarita koma líka frá ritstjórunum, sem fara út úr húsi og gera það, sem tímaritin fjalla um. Ritstjórar Organic Gardening rækta grænmeti. Þannig átta þeir sig á nýrri þróun og breyttri forgangsröð.

Góðir ritstjórar lesa samkeppnisritin. Ekki er gott, að áhugasvið tímarita skarist of mikið. Hvert tímarit þarf að bjóða eitthvað nýtt, sérstakt, einstætt. Þannig nær það sinni eigin holu í markaðskerfinu með því að fylgjast með hinum.

Peggy S. Person, ritstjóri Mature Outlook: “Við fylgjumst stöðugt með samkeppni. Reynum að átta okkur á því, sem greinir okkar efni frá efni annarra og leggja áherslu á það, svo að við verðum ekki eftirmynd annarra tímarita fyrir aldraða.”

Ef efnisflokkur hefur ítrekað birst í Cosmo, Glamour og Elle, munu ritstjórar Vogue hugsa sig um tvisvar áður en þeir fela höfundum sínum að fjalla um það. Stundum er nóg komið að sinni. Það getur hentað Vogue að fara í aðra átt.

Gerry Bishop, ritstjóri Ranger Rick: Við þjónum börnum ekki með að birta daprar greinar um minnkun regnskóga, fækkun tegunda og útfjólubláa geislun. Við skrifum um fegurð villtrar náttúru og umhverfisins og reynum að fá börn til að meta það.

Starfsmenn ritstjórnar þurfa að kunna ritstjórnarstefnuna, í fyrsta lagi til að koma með efni, sem er í samræmi við hana. Annars lenda þeir í að þurfa að reyna að koma inn grein, sem hentar betur í annað tímarit.

Starfsmenn ritstjórnar þurfa í öðru lagi að kunna stefnuna til að hjálpa tímaritinu til að vaxa. Stefnan á ekki að frysta tímaritið, heldur á hún að tryggja, að fókusinn sé jafn og breytist aðeins hægt.

Meiðyrði eru ummæli, sem valda einhverjum álitshnekki. Sönnunarbyrði getur lent á höfundi. Hann kann að vera sakaður um illvilja eða gáleysi gagnvart sannleikanum. Greinar mega ekki vera ófullnægjandi eða ónákvæmar og alls ekki rangar.

Ritstjórar kanna vel nöfn í greinum. Eru þau rétt, má ruglast á þeim og öðru nafni? Sama gildir um aðrar staðreyndir, sérstaklega tölur. Prentmiðlar eru vanir að fást við slíkt, en meiri ónákvæmni er oft í vefritum.

Fjölmiðlar geta ekki ábyrgst, að enginn móðgist eða lendi í tilfinningaróti. Slíkt er bara afleiðing af því, að margt fólk býr á einni plánetu. Erlend lög gera ráð fyrir, að allir séu sæmilega brynjaðir gagnvart ágjöf. Hér á landi er áreiti hins vegar bannað.

Auðvelt er að greina milli löglegrar og ólöglegrar hegðunar blaðamanna. En erfitt er að greina milli siðlegrar og ósiðlegrar hegðunar þeirra. Erlendis er tekið gilt, að almannahagsmunir séu teknir fram yfir persónulega hagsmuni. En ekki hér á landi.

Ritstjóri tímarits þarf að velta fyrir sér, hvort efni sé meiðandi fyrir einhvern. Hann þarf að hafa tilfinningu fyrir leikreglum. Hann má ekki skapa tímaritinu orð fyrir illvilja. Auglýsendur mundu væntanlega flýja af hólmi.

Siðfræði snýst um að fá nauðsynlegar upplýsingar án þess að stíga á tærnar á fólki. Eða að fá nauðsynlegar upplýsingar og sýna jafnframt mannasiði. Gullna reglan: Gerðu öðrum það, sem þú vilt, að þeir geri þér.

Það er ekki siðfræðileg lausn á vanda að birta ekki, það er uppgjöf fyrir vanda. Eiga lesendur ekki rétt á að fá sannleikann? Betra er að segja allan sannleikann og láta einnig þá koma fram, sem hafa aðra sögu að segja.

Immanuel Kant: Það er rangt að ljúga. Vertu beinn. Það er rangt að þegja yfir ólöglegu eða ósiðlegu athæfi. Þú glatar trausti, ef þú segir ekki satt. Það er ekki hlutverk blaðamannsins að hylma yfir með fólki.

Önnur sjónarmið (félagslegur rétttrúnaður):
Einstaklingurinn: Hvað kemur sér best fyrir sem flesta.
Samfélagið: Hvað kemur sér best fyrir samfélagið.

Blaðamenn lenda stundum í flóknum aðstæðum, þar sem eru engin einföld svör. Nafnleysi eða dulnefni í texta er umdeild leið. Ennfremur að sigla undir fölsku flaggi. Taka við gjöfum. Borga fyrir viðtöl. Starf með löggunni.

Athugið að nafnleysi heimildarmanns gildir ekki gagnvart ritstjóra, sem þarf að vita, hver heimildarmaðurinn er. Nafnleysi dregur úr trausti. Er sagan svo mikilvæg, að verjandi sé að nota nafnlausan heimildarmann? Watergate og Washington Post?

Sigling undir fölsku flaggi hefur leitt til mikilvægra uppljóstrana. En helgar tilgangurinn meðalið? Þar sem markmið blaðamennsku er að segja sannleikann, er þá ekki rangt að dulbúa sig til að afla sannleikans?

Greiðsla fyrir viðtöl er umdeild. Allir fá borgað nema viðmælandinn, á hann að tala ókeypis? Gallinn við greiðslur er, að þær hafa áhrif á, hvað viðmælandinn segir, hann segir nógu mikið til að viðtalið sé nógu spennandi og verði birt.

Ef þú talar við lögbrjót til að fá hans hlið á máli, ertu þá skyldugur að segja til hans? Af hverju gat lögreglan ekki fundið hann, úr því að þú gast fundið hann? Í Bandaríkjunum vernda blaðamenn viðmælendur sína. Spurning um traust.

Ef ritstjóri er ekki á vaktinni, læðist gáleysi inn í tímaritið. Það gætir sín ekki á félagslegum rétttrúnaði, segir “litaður” í stað “svertingi”, “indjáni” í stað “frumbyggi”. Í Kanada segir rétttrúnaður að indjánar séu “fyrstu þjóðir”.

Sumt daglegt orðalag er hættulegt: “Útivinnandi móðir”, “miðbær”, einnig ójöfnuður kynja: “Forsetinn kom með forsetafrúnni, sem var í bláum satínkjól með hvítum skóm og hvítri snyrtitösku.”

Victor Navasky, ritstjóri The Nation: “Ekki flækja málið með því að telja siðfræði vera töfraland, sem þú lærir eins og nýtt tungumál. Sérhvert skólabarn hefur hugmynd um, hvað sé rétt og rangt. Beittu því bara.”

Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé