Lögreglan

Fréttir
Lögreglan

1) Fréttir líðandi stundar: Slys, glæpir, handtökur, eldsvoðar.
2) Greinar: Mannlýsingar lögreglumanna. Rannsóknir.
3) Túlkanir: Verklagsreglur. Breytingar á starfsliði.
4) Rannsóknir: Misbeiting valds, spilling, áhugaleysi.

Verksviðin:
1) Glæpir: Glæpur, rannsókn, handtaka, ákæra.
2) Slys: Umferð, flugumferð, drukknun, björgun.
3) Eldsvoðar: Lýsing sjónarvotta.
4) Deildir: Starfslið, verklag, virkni, ábyrgð.
5) Viðhorf: Staðlar, verklag, meðferð kvartana.
6) Aðrar stofnanir: Tollgæsla, vegaeftirlit.

Fréttamenn verða að muna, að maður, sem er handtekinn, hefur kannski ekki verið ákærður, og hafi hann verið ákærður, hefur hann ekki verið dæmdur. Segja þarf skilmerkilega, hvaða stöðu maðurinn hefur í lögreglu og dómskerfinu.

Fréttamenn nota því orð á borð við “handtekinn í tengslum við …”, “grunaður um”, “kærður fyrir”, “ákærður fyrir”, “lögregan segir”, “samkvæmt lögreglunni”, “lögreglan sakar”, svo að ljóst sé, að ekki sé enn um dómsniðurstöðu að ræða.

Þetta gildir líka um fyrirsagnir. Krafan um stuttar fyrirsagnir má ekki leiða til, að staða viðkomandi manns sé ýkt, af því að fyrirvari hefur fallið niður. Athugið líka, að lögreglumenn eru óáreiðanlegar heimildir eins og aðrir.

Nauðgun: Reynt er að verja fórnarlömb nauðganga með því að birta ekki nöfn þeirra. Þetta er erfiðara en áður, því að nöfnin eru oft komin á netið. Raunar er það spurning um hræsni, hvort sagt sé frá smáatriðum í lífi manns, en ekki nafninu.

Það er líka spurning um hræsni, þegar birt er forsíða, sem sýnir staðreyndir, sem stöðin vill ekki segja sjálf. Málið er, að sé nafnleynd nauðsynleg í nauðgunarmáli, er líka nauðsynlegt að gæta sín í öðrum skrifum um sama mál.

Mótmælaaðgerðir: Draga yfirleitt að sér fréttamenn, sem þurfa að gæta þess að vera ekki “notaðir”. Oft æsist leikurinn, þegar myndavélar birtast á vettvangi, og hnígur síðan aftur, þegar þær fara. Fréttamaðurinn þarf að fá báðar hliðar máls.

Uppþot: Mótmælaaðgerðir breytast stundum í uppþot. Ljósvakagengin mega ekki koma sér í hættu af þeim völdum. Erfitt er að spá, hvað stjórnlaus hópur gerir, hann getur allt eins beint reiði sinni að fjölmiðlunum.

Nóttin er sérstaklega hættuleg. Myndavélaljós eru ávísun á vandamál og menn forðast því að nota þau. Reynt er að nota kíkislinsur til að geta verið í fjarlægð. Þyrlur eru oft notaðar til öryggis. Margar stöðvar eiga þyrlur.

Stórslys: Geta orðið fréttamönnum tilfinningalega erfið. Heimildir eru oft ekki áreiðanlegar. Ef tvær kenningar eru til um manntjón, er rétt að nota báðar eða lægri töluna. Hafa verður fyrirvara á birtingu upplýsinga, sem vafi er um.

Deilur hafa verið í rúma tvo áratugi um of mikið ofbeldi í sjónvarpi. Mest snúast þær um ofbeldi sem skemmtun, en líka hefur verið rætt um ofbeldi í fréttum. Íbúar í Jonesboro kvörtuðu um ágang fjölmiðla, er hefðu notað börn sem heimildir.

Rannsókn á Jonesboro málinu leiddi í ljós, að flestir fréttamenn fengu góða útkomu fyrir nákvæmni, sanngirni, smekkvísi og næmi. En 10% fréttamanna hefðu þrýst of mikið eða hagað sér á kaldlyndan hátt. Fá dæmi voru um brenglanir.

Í rauninni vildu flestir ræða harmleikinn. Ginger Delgado sagðist aldrei hafa séð eins mörg fórnarlömb og fjölskyldur vilja tala að fyrra bragði. Kannski gildir þar nútímareglan: Það græðir sár að tala um þau.

Jon Katz í Brill’s Content gagnrýndi fréttir fjölmiðla af Coloradoskotárásinni. Hann sagði, að fréttamenn hefðu almennt tekið góðar og gildar kenningar um, að morðin stöfuðu af mikilli umgengni við ofbeldi í tölvum.

Katz: “Í stað þess að flytja sannleikann í málinu, gerðust sumir fjölmiðlar flytjendur geðshræringar og sefasýki.” Deilt er um, hvort fjölmiðlar eigi að halda sig meira við staðreyndir og spá minna í “hvers vegna” og “hvað svo”.

Varúð í harmleikjum:
1) Gættu þín á óstaðfestum fullyrðingum. Þegar fréttamaðurinn sér ekki sjálfur atriðið, á hann að bera nafngreindan aðila fyrir því.
2) Forðastu að gera grunaða eða fórnardýr að djöflum eða hetjum.
3) Leiðréttu villur strax og áberandi með öllum smáatriðum.
4) Farðu að lögum, farðu ekki inn á einkalóðir og taktu tillit til einkalífs.
5) Þiggðu ráð reyndra fréttamanna, sem þekkja samfélagið og hafa öðlast traust.
6) Mundu, að allt samfélagið er í sárum, þegar harmleikir verða, ekki bara þeir, sem beint tengjast þeim.
7) Áttaðu þig á, að áhorfendur eiga auðveldara með að höndla harmleik, en heildarmynd frásagnarinnar er víðtæk.
8) Ýktu ekki sögu, sem er hrikaleg fyrir.
9) Dragðu ekki skjótar ályktanir, gerðu ekki ráð fyrir neinu, búðu ekki til alhæfingar.
10) Villtu ekki á þér heimildir. Ekki draga fjöður yfir, hver þú ert og hvað þú gerir.
11) Segðu frá því, sem vel gekk, og hvaða ráðstafanir tókust vel.
12) Mundu, að traust er grunnurinn að samskiptum miðils og samfélags. Það gerir aðilum kleift að skýra satt frá málsatvikum og eykur skilning á fjölmiðlum.

Edna Buchanan hjá Miami Herald: “Lögreglublaðamennska er um fólk, hvað keyrir það áfram, hvað veldur morðæði, hvað dregur það besta út úr fólki, hvað veldur berserksgangi. Það hefur allt: Græðgi, kynlíf, ofbeldi, gaman og sorgarleik.”

Umgengni blaðamannsins er mest við varðstjóra og yfirlögregluþjóna. Blaðamenn eru vanir að umgangast yfirvöld af efahyggju, og eru oft hissa á hernaðarlegum viðhorfum í skipulagi lögreglunnar, leyndarhyggju og valdshyggju.

Charles E. Russell: “Eina menntunin, sem skipti mig máli, var að vera lögreglublaðamaður í Lower East Side á Manhattan. Þar lærði ég meira um lífið eins og það er í raun en ég hefði getað gert í skóla.”

Farið yfir vinnudag með Diana K. Sugg. Hún er meðal annars með hlustunartæki á lögreglutíðni, sem voru hér á landi til skamms tíma, en hafa nú verið bönnuð. Hún hlustar á tíðnina og eltir lögreglubíla og brunabíla um borgina.

Sugg segir: “Nágrannar eru frábærar heimildir. Sérstaklega ef þú finnur einhvern, sem horfir á götuna eins og haukur og veit allt um nágrannana. Svoleiðis fólk veit, hvar hver vinnur, hver vinnutíminn er, aldur barna, hvenær hann skildi.”

Lögreglublaðamennska er talin ágætur skóli fyrir blaðamenn. Þeir læra á borgina og læra að umgangast varðstjóra. Þeir læra hefðbundin vinnubrögð og fá góða heimildamenn. Þeir læra mun á tegundum glæpa og mun á gangi dómsmála.

Tvær tegundir glæpa:
1) Ofbeldi: Morð, nauðgun, rán, árás.
2) Eignatjón: Innbrot, þjófnaður, bílstuldur.

Lögreglan er svo vör um sig, að blaðamenn þurfa að vanda sig við heimildir. Edna Buchanan segir: “Ég tala mikið við löggur. Að tala við löggur er eina leiðin til að fá sumar sögur. Sumir þeirra átta sig þó ekki á góðum sögum.”

Þú heldur, að það sé lítil frétt, þegar dagbók lögreglunnar segir, að maður var sleginn niður og rændur. En leit kann að leiða í ljós, að maðurinn var með gervifætur og hækjur og að hann var rændur 140 sentum. Það er fréttnæmt.

Farðu varlega með nafn þess, sem handtekinn er. Það er algengt, að menn gefi upp rangt nafn við handtöku. Stundum gefa þeir upp nöfn frægðarfólks. Vertu einkum varfærinn fram að þeim tíma, að maðurinn er formlega ákærður fyrir glæpinn.

Minnislisti um morðfréttir:
1) Hvert er fórnarlambið.
2) Tími, dagur og staður.
3) Vopnið.
4) Opinber dánarorsök.
5) Hver fann líkið.
6) Sönnunargögn. Merki um geranda.
7) Ummæli lögreglu, ástæða glæps.
8) Tilvitnanir í nágranna, vini.
9) Lögregluskýrsla, tengsl fórnarlambs við glæpi.
10) Afleiðingar fyrir fjölskyldu.

Minnislisti um innbrot og rán:
1) Hvert er fórnarlambið?
2) Hvað var tekið, verðgildi þess?
3) Tími, dagur og stund.
4) Vopn (í ráni).
5) Hvernig var brotist inn (í innbroti)?
6) Áverkar, hvernig fengnir (í ráni)?
7) Sönnunargögn.
8) Óvenjulegar aðstæður.
9) Skýrslur vitna, fórnarlambs.
10) Nafn árásarmanns.
11) Hvernig handtekinn?
12) Hvernig fékk hann vopnið?
13) Voru áfengi eða eiturlyf í spilinu?
14) Þekktust fórnarlamb og árásarmaður?

Helmingur hinna handteknu eru síðan ekki ákærðir. Nota má í Bandaríkjunum nöfn þeirra, sem handteknir eru, án áhættu á málshöfðun. En það er spurning um siðferði.

David Krajicek sagði: “Miðlarnir standa sig verr í jafnvægi milli hins áhugaverða og hins mikilvæga. Þetta er munur á glæpasögu og glæpafrétt, milli sögu um enn einn glæpinn og fréttar, sem sýnir, hvort þetta sé ferli eða marklaust atvik.

Edna Buchanan hjá Miami Herald segir: “Blaðamenn geta fundið týnd börn, týndar ömmur eða týnd lík. Við fiskum upp fólk, sem dettur milli rimlanna. Frægð bjargar fólki, sem er flækt í völundarhúsi stjórnsýslunnar.

Við finnum stolna bíla og ómetanlega ættargripi. Saga í dagblaði getur leitt til blóðgjafar, peninga, stuðnings hins opinbera. Og stundum getur hún leitt til þess mikilvægasta, réttlætis.”

Sumir segja, að lögreglublaðamenn verði tilfinningalausir af öllum þeim hörmungum, sem þeir sjá. Ef þetta ofbeldi skiptir þig meira máli en endalaust ofbeldi í skemmtiþáttum sjónvarps, er lögreglublaðamennska fyrir þig.

Farðu varlega í nákvæmum lýsingum á nauðgunum og morðum. Sannreyndu öll nöfn, öll heimilisföng, öll starfsheiti. Varaðu þig á skyndiaðgerðum lögrglunnar. Oftast er um að ræða aðgerðir til að auglýsa sig fyrir almenningi.

Tékklisti um eldsvoðafréttir:
1) Dauði, meiðsli.
2) Staður.
3) Orsök.
4) Hvenær, hvar byrjaði?
5) Hvernig breiddist út?
6) Hvernig náð tökum?
7) Eignatjón.
8) Heildarkostnaður.
9) Gerð byggingar.
10) Notkun öryggisstaðla.
11) Björgunaraðgerðir.
12) Hver uppgötvaði?
13) Hvaða brunalið, hvaða brunaverðir?
14) Orsök dauða, slysa.
15) Hvert var farið með látna, slasaða?
16) Tilvitnanir í fórnardýr, vitni.
17) Tryggingar.
18) Var það íkveikja?
19) Handtökur.
20) Óvenjulegar aðstæður.

Heimildir: Varðstjórar, sjúkrahús, líkhús, björgunaraðilar, fasteignaskrá.
Fara þarf varlega með upplýsingar um upptök bruna.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Endir