Ljósvakinn

Fréttir
Ljósvakinn

Ef lesendur dagblaða skilja ekki framsetningu í texta, geta þeir lesið hann aftur. Hlustendur og áhorfendur geta það ekki. Þess vegna þarf ljósvakatexti að vera skýr og einfaldur. Segja þarf hugsanir á einfaldan og snöggan hátt.

Þú finnur muninn, ef þú lest fréttina upphátt. Þá sérðu kosti og galla textans frá sjónarmiði ljósvakans. Svo kann að fara, að þú áttir þig ekki á, hversu flókinn skrifaður texti er, fyrr en þú lest hann upphátt.

Sögur fyrir útvarp og sjónvarp eru skrifaðar til að vera auðskildar:
1) Notaðu hversdagslegt tungumál.
2) Skrifaðu stuttar málsgreinar.
3) Hafðu aðeins eina hugmynd í málsgrein.
4) Notaðu nútíð, ef mögulegt er.
5) Hafðu aðeins eitt þema í hverri sögu.

Ofhleðsla upplýsinga er algeng. Fyrir ljósvakann þurfum við að klippa flókinn texta niður í stuttar málsgreinar, sem hlustandinn skilur.

Forðist tilvísanir: Sem. Aukasetningar, sem byrja á tilvísunarorði, vísa yfirleitt til nafnorðs, sem kom framar í málsgreininni. Hlustendur átta sig síður en lesendur á, hvert nafnorðið var. Betra er að klippa málsgreinina sundur.

Forðist löng orð: Notaðu stutt orð, ef það er til.
Notaðu “minnisstæður” í stað “eftirminnilegur”.
Notaðu “játaði” í stað “viðurkenndi”.
Forðastu líka orð, sem erfitt er að bera fram.

Ljósvakafréttir þurfa alltaf að vera tengdar núinu. Hlutverk skrifarans er að segja fréttina eins og hún sé að gerast eða hafi verið að gerast, án þess þó að reyna að blekkja hlustendur á því að meðhöndla gamla frétt eins og hún væri ný.

Flestir eru að heyra fréttina í fyrsta skipti. Nútíð og núliðin tíð sagnorða tengir fréttina við núið. Ekki segja: “Alþingismenn luku störfum í dag og fóru heim.”. Heldur: “Alþingismenn eru á heimleið eftir að hafa lokið störfum.”

Ekki: “Forsetinn hélt fund með ríkisstjórninni í morgun.” Betra: “Forsetinn er á fundi með ríkisstjórninni í morgun. Ekki: “Stormviðvörun fyrir Vestfirði var gefin út í kvöld.” Heldur: “Stormviðvörun gildir í kvöld fyrir Vestfirði.”

Frétt kann að fela í sér atburði, sem gerðust í fortíðinni. Hún getur hafist í nútíð, en flust til þátíðar, svo að orðavalið sé við hæfi. Þú segir ekki: “Hann er á fundi í gær”. Þú getur sagt: “Hann er ánægður með fundinn, sem var í gær.”

Í útvarpi og sjónvarpi eru oft endurritaðar fréttir, sem koma frá fréttastofum. Efni þeirra er þjappað saman, málsgreinarnar eru styttar og tíðum sagna er breytt. Þar að auki fer efni sjónvarps eftir því, hvaða myndefni er fáanlegt.

Ljósvakastíll er ólíkur öðrum stíl, af því að hann er skrifaður fyrir eyrað, ekki fyrir augað. Texti, sem kemur frá öðrum aðilum, er umskrifaður, svo að hann henti útvarpi og sjónvarpi. Fréttastofutexti er yfirleitt hugsaður út frá dagblöðum.

Þegar þú færð fréttastofutexta, þá lestu hann, meltu hann og fleygðu honum síðan. Skrifaðu svo það, sem þú manst og horfðu ekki á fréttatextann aftur nema til að sannreyna staðreyndir. Þetta er eina leiðin til að breyta yfir í ljósvaxtatexta.

Fréttir í útvarpi og sjónvarpi eru hlustaðar, ekki lesnar. Flestar sögur eru lesnar af akkeri og eru 25 málsgreinar eða 10-30 sekúndur. Sjaldgæft er, að sögur fari yfir 90 sekúndur. Allar sjónvarpsfréttir komast fyrir á hluta úr síðu.

Í útvarpi og sjónvarpi þarf að koma aðalatriðum á framfæri með miklum hraða. Aukaatriðin eru skilin eftir. Það þarf sérstaka tækni til að koma þessum stuttu skotum til skila hjá fólki, sem getur ekki lesið eða heyrt fréttina aftur.

Þessar fréttir þarf að skoða vel. Of margar hugmyndir í frétt flækja málið fyrir hlustendum. Hafðu textann því þéttan, eina hugmynd í hverri málsgrein. Þegar þarf að nota tilvitnun, skaltu byrja málsgrein á kynningu hennar.

Phil Newsom setti upp þessar reglur fyrir United Press Radio:
1) Slepptu aukasetningum og öðrum óþarfa, jafnvel frumlagi og umsögn.
2) Sumar bestu setningarnar eru alls ekki heilar setningar, bara frasar.
3) Stuttar málsgreinar henta útvarpi. Aðalatriðið er, að hægt sé að lesa þær upp, án þess að þulurinn þurfi að grípa andann á lofti.
4) Reyndu ekki að segja of mikið í fyrstu málsgreininni. Hlustandinn þarf upphitun fyrir hverja frétt.
5) Aldrei hafa spurningu í innganginum. Hlustendur rugla því saman við auglýsingar.
6) Ekki nota hangandi frasa, “… sagði lögreglan í gær.” Enda er núna reynt að sleppa sem mestu af tilvitnunum.

Nokkur dæmi eru sýnd um, hvernig texta frá fréttastofu er breytt til þess að hann henti í útvarp eða sjónvarp. Í seinni tíð er mikið notað af fréttayfirliti, þar sem nokkrar fréttir eru sagðar á tæpri mínútu, jafnvel sjö fréttir.

Skrifaðu stuttar og einfaldar setningar. Notaðu venjulegt tungumál. Hafðu sem flestar setningar frumlagumsögnandlag. Hafðu eina hugmynd í málsgrein. Skrifaðu eins og þú talar, spjallaðu við hlustendur. Hér koma nokkrar leiðbeiningar:

1) Byrjaðu á heimildinni fremst í málsgreininni. Ekki skrifa: “Borgin þarf ný umferðarljós, sagði borgarstjórinn.” Heldur svona: “Borgarstjórinn segir, að borgin þurfi ný umferðarljós.”
2) Ekki byrja á lýsingarhætti. Ekki skrifa: “Fagnandi sigri í kosningunum, lýsti forsetinn yfir stuðningi við álver.” Heldur svona: “Forsetinn lýsti yfir stuðningi við álver, þegar hann fagnaði sigri í kosningunum.”
3) Notaðu sem mest af stuttum orðum. Ekki skrifa: “Óvænt aukning hagnaðar varð til þess, að þingið ákvað afnám reglugerðarinnar.” Heldur svona: “Methagnaður fékk þingið til að afnema reglugerðina.”
4) Notaðu kraftmikil sagnorð. Ekki skrifa: “Hann gerði verkefnið auðvelt fyrir hlustendur sína.” Heldur svona: “Hann auðveldaði hlustendum verkefnið.”
5) Notaðu vel þekkt orð í vel þekktum aðstæðum.
6) Notaðu germynd, ekki þolmynd. Ekki skrifa: “Honum var sýnt skjalið af lögmanninum.” Heldur svona: “Lögmaðurinn sýndi honum skjalið.”
7) Skrifaðu einfalt, beint. Slepptu gagnslausum orðum.
8) Skrifaðu á máli, sem auðvelt er að lesa upp. Æfðu þig fyrst á textanum.
9) Notaðu orð kringum tilvitnanir. “Hann sagði, “Ég er ekki glæpamaður”.” Notaðu ekki orðalagið: “Gæsalappir hefjast”, “gæsalöppum lýkur”.
10. Settu titla fram fyrir nöfn. Skrifaðu allar tölur upp í ellefu. Notaður ekki skammstafanir nema í allra þekktustu tilvikum. Notaðu styttingar, svo sem Gæslan. Hafðu ekki fleiri en 20 orð í málsgrein.

Nútíð er æskileg, en sumar lýsingar er ekki hægt að setja í nútíð. Ekki skrifa: “Jarðskjálfti skekur Kaliforníu og sendir nokkra tugi á sjúkrahús.” Heldur svona “Jarðskjálfti skók Kaliforníu og sendi nokkra tugi á sjúkrahús.”

Forðastu klisjur: Alltof algengar í ljósvakatexta, tíðari en í prenttexta. Í ljósvaka reyna menn stundum að klippa textann niður í hálfgerð stikkorð. Mest er af klisjum í íþróttafréttum, frægast er “Enginn annar en Ingimar Stenmark.”

Klisjur eru hugtök, sem hafa verið notuð svo mikið, að þau hafa ekki lengur neina spennu. Þær hafa lifað lengur en hæfilegt er. Klisja er þreytt hugtak. Í fyrsta skipti, sem hún er notuð, er hún spakmæli, í 100asta skipti er hún klisja.

Góður texti notar virkar sagnir, ekki óvirkar. Virkar sagnir hraða sögunni og gefa henni vægi, af því að þær setja fókus á atburðinn sjálfar fremur en andlag hans. Dæmi: “Eldur eyðilagði þrjú hús.” Ekki: “Þrjú hús voru eyðilögð í eldi.”

Vertu ekki hræddur við SAGÐI. Sumir reyna að nota önnur orð eins og samheiti, en þau eru yfirleitt ekki samheiti. Öll þessi orð þýða annað en SAGÐI: Lýsti yfir, játaði, samþykkti, hrópaði, upplýsti, fullyrti. Sagði er hlutlaust orð.

Stundum koma lýsingarorð og atviksorð auknum lit í ljósvakatexta, en oftast eru þau þó til vandræða. Þau bæta þá við óþarfri lýsingu, sem bindur textann niður fremur en að lyfta honum upp. Þau fylgja oft óvirkum sagnorðum. Finndu virk.

Ráð frá AP:
Lengd setninga: Mundu alltaf, að einhver þarf að lesa textann upphátt. Langar málsgreinar með miklum aukasetningum verða þulum að fótaskorti.

Ef málsgrein fer yfir tvær línur á skjá, kann hún að vera of löng. Farðu aftur yfir hana. Lestu hana upphátt, hægt. Geturðu það án þess að hrasa eða grípa andann á lofti?

Ef þú getur það, þarftu að spyrja þig, hvort hlustandinn geti skilið allar staðreyndirnar, sem þú hefur sett í eina málsgrein. Gætir þú komið upplýsingunum að á skýrari hátt í tveimur setningum?

Inngangurinn: Því styttri því betri. Safnaðu ekki þróun málsins yfir daginn í langa, flókna málsgrein. Reyndu heldur að búa til ástæðu fyrir hlustandann að halda áfram að leggja eyrun við.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé