Kosovo I

Umræða
Kosovo I

International Press Institute:
The Kosovo news & propaganda war, 1999

Eftir Kosovostríðið tók IPI, Alþjóðasamband ritstjóra, saman bók um það, þar sem skýrt kemur fram sú meginniðurstaða, að ekki bara stjórnvöld og her í Serbíu fóru yfirleitt með rangt mál, heldur einnig Atlantshafsbandalagið og stjórnvöld aðildarríkja þess.

Peter Goff: Samantekt

Blaðamenn á fréttafundum voru í auknum mæli pirraðir út af því, að fréttir bandalagsins gengu fyrst og fremst út á hljóðbita og áróður. Fréttirnar voru fullar af lygum og fölsunum. Patrick Bishop, The Daily Telegraph: Ef aftur verður stríð, munu fjölmiðlarnir ganga út frá algeru vantrausti.

Stefna bandalagsins í fjölmiðlun var þessi: Komum á fót kviksögum, ýkjum botnlaust og endurtökum í sífellu rangar fréttir og ranga spádóma. Allar sprengjuárásir eru hreinar, þær hitta ekki óbreytta borgara. Við köllum það “collateral damage”, ef óbreyttir borgarar drepast óvart.

Paul Watson, Los Angeles Times, var í Pristina: Fréttafundir bandalagsins neituðu fréttum, sem hann vissi með eigin augum, að voru réttar, og fullyrtu aðrar fréttir, sem hann vissi með eigin augum, að voru rangar. Réttlætingar bandalagsins breyttust í sífellu, eins og hjá fjárhættuspilafíkli.

Í einu vetfangi breyttust samviskulaus hryðjuverkasamtök Albana í Kosovo í frelsishreyfingu og mikilvægan bandamann. Til aðstoðar við fjölmiðlastefnuna voru fengnir spunakarlar á borð við Alastair Campbell, aðalráðgjafi Tony Blair, og Jonathan Prince, ræðuhöfundur Bill Clinton.

Myndaræmur bandalagsins af sprengjuárásum minntu á stríð í spilakössum. Þar kom hvergi fram, að svokallað “collateral damage” fólst í 2000 dauðum borgurum, 6000 særðum borgurum, 300 eyðilögðum verksmiðjum, 200 eyðilögðum skólum, 20 eyðilögðum sjúkrahúsum og 30 eyðilögðum slysadeildum.

Í fyrri heimsstyrjöldinni var almenningur æstur til stuðnings við stríðið með lognum fréttum um, að þýskir hermenn fleygðu belgískum börnum milli sín á byssustingjum. Í Persaflóastríðinu var fólk æst til stuðnings við stríðið með lygi um, að Írakar fleygðu nýfæddum börnum úr hitakössum í Kúvæt.

Þótt blaðamenn gerðu sér grein fyrir tilraunum Atlantshafsbandalagsins til að stýra fréttum og rangfæra þær, kom það ekki í veg fyrir, að þær kæmust reglubundið í fyrirsagnir. Sérstaklega var áberandi, að 24 stunda fréttastöðvar á Vesturlöndum voru háðar matreiðslu bandalagsins á fréttum.

Fréttamenn spurðu í sífellu: Hvað ef Milosevits samþykkir ekki Rambouillet úrslitakostina? Var aukin þjóðahreinsun afleiðing loftárásanna? Var einhver varaáætlun til hjá bandalaginu? Styrktu árásirnar stöðu Milosevits? Var rétt að segja, að þær beindust gegn stjórnvöldum, en ekki gegn almenningi?

Geta Vesturlönd verið í styrjöldum undir forustu ríkis, sem neitar að viðurkenna Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn í Haag, neitar að samþykkja Alþjóðlega sáttmálann um réttindi barna, neitar að staðfesta Alþjóðasáttmálann um bann við jarðsprengjum og heldur áfram að fremja dauðarefsingar?

Hvers vegna studdu Vesturlönd Franjo Tudjman, forseta Króatíu, þegar hann gaf fyrirmæli um “hreinsun” 200.000 Serba í Krajina héraði? Var þjáning þeirra minna virði en þjáning annarra á átakasvæðum í arfaríkjum Júgóslavíu? Voru Serbar hinir einu, sem frömdu óhæfuverk á þessum svæðum?

Blaðamenn höfðu tvær uppsprettur frétta, fundina hjá Atlantshafsbandalaginu og flóttamannabúðirnar. Í flóttamannabúðunum fengu menn réttari fréttir, komust til dæmis að raun um, að morð, sem Serbum hafði verið kennt um á fundunum, voru í raun dauðsföll af völdum loftárása Atlantshafsbandalagsins.

Fréttir frá Belgrað í vestrænu sjónvarpi voru merktar sem ritskoðaðar af stjórn Serba. Af hverju voru fréttir frá blaðamannafundum bandalagsins ekki líka sérstaklega merktar sem áróður? Blaðamenn, sem sáu gegnum þvæluna, sættu árásum stjórnvalda í heimalöndum sínum, einkum í Bretlandi.

John Simpson, ritstjóri alþjóðafrétta hjá BBC varð einkum fyrir aðkasti breskra stjórnvalda. Tony Blair sagði breska þinginu, að fréttir Simpson væru samdar undir stjórn og forskrift stjórnvalda í Serbíu. Síðar kom auðvitað í ljós, að fréttir Simpson voru réttar og að hann varð fyrir rangri sök.

Blaðamenn, sem neituðu að hlíta fyrirmælum bandalagsins, náðu fréttum, sem aðrir náðu ekki. Paul Watson hjá Los Angeles Times varð eftir í Kosovo, þegar aðrir fréttamenn voru fluttir burt, og gat sagt réttar fréttir af loftárásum bandalagsins og átökum þjóðahópa á svæðinu.

Heildarniðurstaða fréttaflutnings af átökunum um Kosovo var sú, að Atlantshafsbandalagið var á sama plani og stjórn Serbíu í fölsunum og lygum. Þar að auki gerði bandalagið blaðamenn sérstaklega að skotmörkum í stríðinu, til dæmis með hinni frægu loftárás á sjónvarpið í Belgrað.

Ríkisstjórnir, sem ofsækja, misþyrma, fangelsa og drepa blaðamenn víðs vegar um heiminn hafa nú vörn í þeirri staðreynd, að Atlantshafsbandalagið gerir slíkt hið sama, samanber árásina á sjónvarpið í Belgrað. Harðstjórar um allan heim segja bara, að vesturlönd hafi tvenns konar siðgæði.

Meðferð Atlantshafsbandalagsins á fréttaflutningi vegna stríðsins við Serbíu er hættulegt fordæmi um allan heim, þar sem harðstjórar sækjast eftir afsökunum og útskýringum á ofsóknum þeirra gegn frjálsum fjölmiðlum. Atlantshafsbandalagið hefur tekið forustu í baráttu gegn frjálsri fjölmiðlun.

Richard Tait, ritstjóri ITN:
Breska ríkisstjórnin byrjaði með stríði gegn John Simpson hjá BBC og síðan gegn breskum fjölmiðlum yfirleitt. Verst var henni við fullyrðingar um, að árangur aðgerðanna væri lítill. Spunakarlar voru greinilega mjög pirraðir á fjölmiðlunum, einkum vegna frétta af afleiðingum loftárása á almenning.

Atlantshafsbandalagið þóttist hafa grandað 120 skriðdrekum Júgóslava í Kosovo. Þegar flökin voru síðan talin, reyndust þau vera þrjú. Slíkar fréttir komu mjög illa við spunakarla, sem héldu því fram, að hernaðaraðgerðir bandalagsins væru hárnákvæmar eins og hverjar aðrar skurðaðgerðir.

Hvað hefði komið fyrir fjölmiðlana, ef Bretar hefðu tapað stríðinu í Kosovo? Hefðu þeir verið kærðir fyrir landráð? Er stríð svo léttvægt, að fréttir af því eigi að vera hreinn áróður? Blaðamenn gáfu notendum fjölmiðla réttar upplýsingar af gangi mála og þeim var það ekki fyrirgefið.

Richard Keeble, City University:
Persaflóastríðið 1991 sýndi, að ríkisstjórnir og herforingjar vesturlanda reyna einkum að hindra blaðamenn í að vera á sjálfum átakasvæðunum, svo að þeir verði ekki vitni að fjöldamorðum á óbreyttum borgurum. Blaðamenn, sem víkjast undan þessu, eru ofsóttir, svo sem Robert Fisk hjá The Independent.

Paul Watson hjá Los Angeles Times: Jafnvel í Kosovo komst ég ekki undan því að heyra rödd Jamie Shea, blaðafulltrúa Nató. Hún elti mig eins og draugur, neitaði staðreyndum, sem ég vissi, að voru réttar, og fullyrti hluti, sem ég hafði séð, að voru rangir.

Með því að kalla fjöldamorð á óbreyttum borgurum “collateral damage” er yfirstjórn bandalagsins að gera hryllilega alvarlega hluti að hversdagslegum tilviljunum. Loftárásir Nató voru ekkert annað en slátrun á óbreyttum borgurum. Það var áhættulaus aðferð við að murka lífið úr saklausu fólki.

Jake Lynch, fréttaritari Sky News:
Allt árið 1998 upplýsti nánast enginn vestrænn fjölmiðill um þjóðahreinsun 90 þorpa Serba af völdum KLA, hryðjuverkasveita Albana. Sú tala er komin frá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Nánast allar fréttir á vesturlöndum ræddu bara um þjóðahreinsun af völdum Serba.

Harrier flugvélarnar gátu ekki varpað sprengjum, af því að þær höfðu ekki nákvæman miðunarbúnað. Þyrlur til kafbátaleitar nýttust ekki heldur til neins annars en að flytja George Robertson varnarmálaráðherra til Albaníu í 20 mínútna myndbita.

Þegar BBC sýndi “docudrama” frá hörmungum fólks á átakasvæðinu voru myndirnar gamlar, frá 1995 í Krajina, er hundruð þúsunda Serba voru hrakin burt af króatíska hernum. Þær höfðu aldrei verið sýndar í breska sjónvarpinu, en nýttust til að sýna hörmungar albanskra Kosovobúa nokkrum árum síðar.

Sjá nánar:
International Press Institute:
The Kosovo news & propaganda war, 1999

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé