Klisjur II

Textastíll
Klisjur II

Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni

Við skulum enn hverfa frá lifandi lit inn í undirheima af klisjum, misheppnuðum orðtökum og torskildum samanburði. Allt rís það af lofsverðum áhuga á lit í frásögn, en tækin eru léleg og einnig árangurinn.

Veraldarvefurinn er orðinn foss af rugluðum orðtökum: “Ég dorgaði fyrir framan sjónvarpið allt kvöldið og lá svo andvana alla nóttina.” “Ég mála í pastalitunum, þeir höfða svo til mín.”

“Ég var alveg að drepast í bringusvölunum.” “Ég stóð algerlega á fjöllum.” “Lumbraðu nokkuð á garni handa mér?” “Þetta er svo langbesta sultuterta sem ég hef aldrei nokkurn tíma smakkað.”

“Hann kom eins og þjófur úr sauðaleggnum.” “Hann kom eins og þruma á nóttu.” “Hann kom eins og skrattinn úr heiðskíru lofti.”

Verstu málalengingarnar eru þó hversdagslegri, langt frá orðtökum. Blaðamaður skrifar: “Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” (10 orð) Þetta þýðir á íslensku: “Engan sakaði” (2 orð)

Klisjur eru skilgreindar sem snjáðir frasar, sem góðir höfundar reyna að forðast. George Orwell var hreintrúarmaður í stíl og sagði: “Notaðu aldrei myndlíkingu, samlíkingu eða orðtak, sem þú ert vanur að sjá á prenti.”

Enginn getur alveg komist hjá hinum mikla forða málshátta eða orðtaka. Þar vegur margt salt mitt á milli orðtaksins og klisjunnar. Að nokkru leyti er smekksatriði, hvort menn telja frasa vera orðtak eða klisju. Það verður að velja og hafna.

Munurinn felst í, að menn grípa sjálfvirkt til klisjunnar til að spara sér hugsun. En nota orðtak að yfirlögðu ráði sem bestu leiðina til að koma ákveðinni hugsun á framfæri. Klisjur eru líka misjafnlega fráhrindandi:

“Þær seljast eins og heitar lummur.” “Komast út í ferskt loft.” “Forðast eins og heitan eldinn.” “Leggja upp laupana”. “Velta við hverjum steini.” “Í annan stað.” Allt eru þetta dæmi um þreyttar klisjur.

“Þau eru súr”, er að vísu gömul klisja, en segir langa dæmisögu í þremur orðum. Slíkar klisjur má nota í hófi, ef það er leiðin framhjá annars löngum texta um, hvernig menn hafna því, sem þeir ná ekki til. Klisjur eru ekki alvondar.

Forðist: Hlutfallslega. Ekki: “Staða stjórnarflokkanna meðal kvenna er hlutfallslega veik.” Betra er: “Staða stjórnarflokkanna meðal kvenna er veik.”

Nokkrar tillögur um meðferð á klisjum:
1) Hafðu ekki áhyggjur af örfáum klisjum. Ef þú ferð hins vegar að raða þeim upp á þráðinn, fölnar sagan. Með hverri viðbótarklisju margfaldast dapurleikinn.

2) Klisja er þolanleg, ef hún nær tilgangi þínum nákvæmlega. Notaðu ekki klisju til að skreyta textann eða til að leggja aukna áherslu, þá hefur hún glatað gildi sínu. Ekki segja: “Orðrómurinn barst eins og eldur í sinu um bæinn.”

3) Ekki nota klisju á yfirborðshátt til að blása út einfalda hugmynd. Ekki segja: “Að ári liðnu hafði hinn langi armur laganna náð til hans.”

4) Farðu rétt með klisju. Ekki segja: “Fleygði barninu út með baðkerinu”. Rétt er “Fleygði barninu út með baðvatninu. Ekki segja: “Eins og þjófur úr heiðskíru lofti”. Rétt er annað hvort “þjófur á nóttu” eða “þruma úr heiðskíru lofti”.

5) Ekki er hægt að lappa upp á klisju. Notaðu hana eins og hún er, en reyndu ekki að laga hana. Ekki segja: “Þeir settu skrautvagninn fyrir framan gamla hestinn.” Rétt er: “Þeir settu vagninn fyrir hestinn.”

6) Ekki setja gæsalappir utan um klisju eða nota afsakandi orðalag á borð við: “Eins og gamla máltækið segir” eða “eins og kerlingin sagði”. Ef þú biður lesandann um að halda fyrir nefið, ertu bara að vekja athygli á fýlunni af þér.

7) Ekki skreyta textann með tilvitnunum í frægar setningar frægðarfólks. Ekki segja: “Austur er austur og vestur er vestur og aldrei munu þau hittast.” Ekki segja: “Hafa skal það, sem sannara reynist.”

8) Ef einhver leið er til að kreista safa úr gamalli klisju, felst aðferðin í að nota hana í nýrri og óvæntri merkingu, til dæmis snúa henni við: “Oft má satt kyrrt liggja” verður “Ei má satt kyrrt liggja.”

Hvergi blómstra klisjur meira en á íþróttasíðum. Góðir blaðamenn á því sviði sanna þó, að svo þarf ekki að vera. En hinir veiklunduðu hrynja hópum saman fyrir handhægri flatneskju. Það er óafsakanlegt, en hefur ákveðnar skýringar.

Sögur blaðamanna í íþróttum eru oft hver annarri líkar. Morð, skipskaðar og bílslys eru hins vegar hvert með sínum hætti. Þess vegna er meiri freisting hjá blaðamönnum í íþróttum að draga upp skrautfjaðrir úr klisjubankanum.

Úr íþróttunum streymir þessi klisjunotkun inn í skrif um stjórnmál. Menn hafa tilhneigingu til að skrifa um þau eins og um íþróttaleik: “Framsóknarflokknum hefur alltaf gengið illa í skoðanakönnunum, en hann hefur náð sér upp á endasprettinum.”

Hrifning íþróttablaðamanna á nokkrum hetjum leiðir til lýsinga, sem ekki hafa jarðsamband. Í texta þeirra eru engar vanlýsingar. Það er kjörin leið fyrir klisjur inn í textann: “Jón mætti grimmur til leiks í seinni hálfleik”.

Hópeðli íþróttafréttamanna er óvenju mikið. Hver étur nýjustu klisjuna upp eftir öðrum. Hún var kannski góð, þegar hún var notuð í fyrsta sinn, en er orðin hvimleið í hundraðasta skipti: “Enginn annar en Ingimar Stenmark.”

Sumt af klisjunum kemur í stað hugsunar hjá íþróttamönnum, sem blaðamenn tala við í búningsklefum. “Við vorum að spila vel í fyrri hálfleik, en misstum okkur niður í þeim síðari. Við mætum grimmir til leiks í næsta skipti.”

Fólk er sjálft farið að sjá íþróttaleiki í sjónvarpi. Þess vegna hefur orðið erfiðara fyrir íþróttablaðamenn að troða upp með klisjur og upphrópanir. Fólk veit betur og tekur minna mark á þeim en það gerði áður.

Margar klisjur eru myndlíkingar og samlíkingar, sem hafa verið notaðar fram yfir andlátið, en neita samt að láta grafa sig. Sumir höfundar búa til nýjar, sem eru góðar hjá þeim, en verða leiðinlegar við endurtekningu annarra.

Hættur eru á ferli, þegar menn búa til nýjar klisjur. Þær eru góðar, ef þær hitta í mark, en vondar, þegar þær reynast vera púðurskot. Hægt er að búa til nýjar myndlíkingar eða samlíkingar, en hættulegt að rembast við þær tilraunir.

Blönduð myndlíking: “Hann hljóp af stað og sigldi þöndum seglum, uns hann flaug í mark.” Dauð myndlíking: “Þetta var rótgróin hugmynd, sem hljóp með þá í gönur.”

Persónugerðir og táknsögur voru í tísku á 18. öld, en henta ekki í nútímanum. Að vísu eru persónugerðir til í málinu: “Gæfan brosir við”. En verra er, þegar til leiks eru dregnir aðilar eins og “móðir náttúra” eða “Kári konungur”.

Þegar menn leita dauðaleit að gáfulegu, sætu eða skáldlegu hugtaki lenda menn oft í eitraðri blöndu. Ekki blanda ómerkilegu við mikilvægt, fíflalegu við alvarlegt.

Ekki skrifa: “Reykurinn er horfinn úr sistínsku kapellunni í Vatíkaninu, en eldurinn brennur enn í búningsklefum Fram, sem á í erfiðleikum í meistaradeildinni.”

Gamansemi er hættuleg í blöndu. Ekki skrifa: “Maður, sem veiddi í Atlantshafi styrju á stærð við körfuboltamanninn Pétur Guðmundsson, missti fiskinn í hendur ríksins og sætir kröfu saksóknara um árs fangelsi og hundrað þúsund króna sekt.”

Strikaðu klisjur út, hvenær sem þú efast um þær. Sparaðu þær, því að þær þreyta lesendur, þegar þær koma í röð. Fólk vill ekki stöðugt standa andspænis samlíkingu einhvers atriðis við eitthvert annað atriði.

Forðastu klisjur af þessu tagi: Hann málaði sig út í horn. Hún reis upp á afturfæturna. Hann gein við agninu. Við plægðum akurinn. Hún tók honum opnum örmum. Þeir voru dregnir á asnaeyrunum. Hann rak upp stór augu.

Hún er eins og álfur út úr hól. Hann hafði hönd í bagga. Hún braut hann á bak aftur. Hann bar í bakkafullan lækinn. Hún er að hlaða batteríin. Hann er á biðilsbuxunum. Hún braut blað í sögu flokksins. Hann er kominn í blindgötu.

Hún situr báðum megin borðsins. Hann hefur borð fyrir báru. Hún er komin á beinu brautina. Hann beygir sig í duftið. Hún stingur dúsu upp í hann. Hann er eftirbátur annarra. Hún veður elginn. Hann situr eftir með sárt ennið.

Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.

Þá eru reglur Jónasar orðnar fjórar:

Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn
Settu sem víðast punkt og stóran staf.
Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé