Klisjur I

Textastíll
Klisjur I

Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni

Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn
Settu sem víðast punkt og stóran staf.
Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.

Þetta voru fyrstu þrjár reglurnar um stíl. Þessi kafli fjallar um fjórðu regluna:
Forðastu klisjur þreyttra blaðamanna.

Persóna í leikriti Moliere var hissa að fá að vita, að hann hefði talað prósa alla ævi. Eins eru sumir blaðamenn hissa að fá að vita, að þeir hafi skrifað blaðamannaklisjur alla ævi.

Fæstar fréttastofnanir eru lausar við sjúkdóminn. Reyndir og frægir blaðamenn láta sumir eina og eina fagklisju sleppa í gegn. Við getum ekki kennt opinberum sérfræðingum um þetta. Þær eru okkar eigin villur, ræktaðar af blaðamönnum.

Sjúkdómurinn hófst í gamla daga, þegar drykkjumenn byltu sér í dálkum dagblaða. Við búum enn við klisjur þeirra: Áríðandi, kaldhæðnislegt, sögulegt, einstætt. Við hafa bæst nýjar klisjur: Senda skilaboð, markmið, kynþokki, svo sannarlega.

Wilson Follett: “Almennt felur blaðamannaklisja í sér ýktan æsing. Er staðreyndir málsins fá ekki hjarta lesenda til að slá hraðar, telur blaðamaðurinn það vera skyldu sína að nota spora og svipu andstuttra og mikið notaðra frasa.”

Enginn talar svona: “Ég tek hreinskilnislega fram, að áhyggjur mínar hafa farið vaxandi undanfarnar vikur og síðasti atburðurinn hefur svo sannarlega aukið gremju mína. Hvað fær unga fólkið til að efna til eilífra uppþota við Tjörnina?”

Ekki: “Spenna magnaðist milli tveggja þingmanna frá Suðurlandi í fjárlaganefnd þingsins.” Heldur: “Tveir sunnlenzkir þingmenn rifust opinberlega í fjárlaganefnd Alþingis.”

Ekki: “Mikhail Gorbatsjof forseti fékk í gær friðarverðlaun Nóbels fyrir að draga úr spennunni í alþjóðamálum.” Betra er: “Mikhail Gorbatsjof forseti fékk í gær friðarverðlaun Nóbels fyrir að taka þátt í að enda kalda stríðið.”

Fleiri blaðamannaklisjur: Brennandi eldur, vítisturn eldsvoðans, glæsilegt veitingahús, alger stöðvun, logar brustu. Menn “kveikja í brennandi ágreiningi” í pólska þinginu. Jarðskjálftar eru “öflugir”, áhorfendur eru “skelfingu lostnir”.

Lögreglumenn eru “veifandi kylfum”, glæponar eru “veifandi hnífum”, hermenn eru “þungvopnaðir”, óeirðir “blossa upp”, atburðir eru sem “olía á eldinn”, ráðherra “sendir skilaboð” með torskildum texta, “mælir með” eða “veifar sáttatilboði.”

Endalaust lýsa menn áhyggjum út af öllu. Ísrael hefur áhyggjur af (óttast) Hamas. Borgarstjórn hefur áhyggjur (er undrandi á) af háum tilboðum í lóðir. Rússar hafa áhyggjur af (áhuga á) efnahagsmálum. Ég hef áhyggjur af (samúð með) Sómölum.

Þegar eitt hugtak verður yfirþyrmandi og ryður öðrum til hliðar, er það gott dæmi um blaðamannaklisju. New York Times er hins vegar dæmi um fjölmiðil, sem forðast slíkar klisjur. Það skrifar einfaldan og tilgerðarlausan stíl, sem allir geta skilið.

Blaðamannaklisja er eins og Stóri Dani, sem aldrei hefur vaxið upp úr því að vera hvolpur. Hann flaðrar upp um gesti og slefar á andlit þeirra. Það er svo sem hægt að kalla það aðferð við að ná athygli, en hún er ekki sú besta.

Blaðamannaklisjur fela í sér hugsunarleysi. Skrif fela ekki í sér að raða upp þekktum klisjum. Þau felast í að velja orð fyrir orð það, sem hentar textanum. Samuel Johnson sagði: “Það sem er skrifað án áreynslu, er yfirleitt lesið án ánægju.”

Í ensku hefur á síðustu árum verið lögð mikil áhersla á félagslegan réttrúnað í skrifum, “þau”, ekki “þeir”. “Karlar og konur”, ekki “menn”. Í stílbók AP er lögð áhersla á, að ekki sé alltaf gert ráð fyrir, að viðkomandi sé karl. Gera má ráð fyrir slíkri kröfu hér líka.

Og/eða er vinsælt hugtak í lögfræði. Látið lögfræðingana um það, blaðamenn geta alltaf forðast og/eða. Sama er að segja um hugtakið “ef einhver”: “Sá sem vill, ef einhver, gera þetta …”

Það er ekkert rangt við notkun viðtengingarháttar, en hann er yfirleitt óþarfur í blaðamennsku og leiðir þar til erfiðari lestrar. Í blaðamennsku er verið að tala í framsöguhætti um staðreyndir, en spekúlasjónir látnar eiga sig.

Margir höfundar grýta punktaröðum og bandstrikum í textann til að lífga upp á hann. En þessi fyrirbæri líkjast að því leyti semikommum og svigum, að þau eiga betur heima í stærðfræði. Í blaðatexta hafa þau truflandi áhrif.

Passaðu þig á tölum. Vertu viss um, hvað er meira og hvað er minna. Ekki setja of mikið af tölum í einn málslið. Vertu viss um, hvað er tvöfalt meira en annað og hvað er helmingi meira en annað. Ekki blanda saman nákvæmum og ónákvæmum tölum.

Meira eða minna: Ekki skrifa: “Jón Jónsson fékk meira en 100.000 dollurum minna en hann hafði vonað.” Ekki skrifa: “Færri en meira en 60.000 miðakaupendur voru mættir.” Mundu líka að telja rétt.

Sumar setningar hljóma vel með orðinu “það”, aðrar ekki. Útilokaðu ekki þetta orð, það er að vísu oftast óþarft, en er ekki beinlínis rangt. Stundum virkar texti stuttaralegur, þegar því er sleppt: “Ljóst er, að árangur næst ekki.”

Sumir blaðamenn hafa vísindi að sérgrein eða önnur sérsvið. Þeir vita, að hluti starfsins er að þýða orðaforða sérstaks tungumáls fagstéttar yfir á mannamál. Aðrir þurfa að þýða klisjur og tækniyrði yfir á mannamál.

Algeng villa blaðamanna er að telja, að venjulegir lesendur hafi áhuga á flóknum atriðum í ferli máls. Fólk vill hins vegar vita, hvað sé í þessum texta fyrir það sjálft. Hverjar séu afleiðingar málsins fyrir venjulegt fólk.

Ekki flækja: “Þingið í Mass. hefur lokið meðferð frumvarps um atkvæðagreiðslu við kosningarnar í nóvember um, hvort banna eigi opnun sölubúða á sunnudögum.” Betra er: “Þingið í Mass. hefur ákveðið að leyfa fólki að kjósa um opnunartíma.”

Ekki flækja: “44. þing Alþingis kemur saman á þriðjudaginn til að hefja umræðu um mál, sem þingmenn segja mikilvægast á þessum vetri.” Betra er: “Á þriðjudaginn verður fjallað á þingi um leyfi til byggingar álvers í Helguvík árið 2008.” Ekki endurtaka:

“Lítið val smárétta er í kaffistofu háskólans. Kaffistofan er rekin í 130 fm herbergi á neðstu hæð skólans. Fyrir utan kleinur og tebollur mátti sjá þar samlokur og tvær ávaxtategundir. Eyrún afgreiðslukona í kaffistofunni sagði að allir ættu að greiða ábót.”

Betra er: “Lítið er um smárétti í kaffistofu háskólans á neðstu hæðinni. Þar eru kleinur og tebollur, samlokur og tvenns konar ávextir. Eyrún afgreiðslukona segir, að allir eigi að greiða fyrir ábót.” 41 orð verða að 30.

Ekki: “Nokkrum sjálfsölum er stillt upp við vegg þar sem hægt er að verða sér úti um gos og sælgæti. Einnig er lítil veitingasala staðsett innst í salnum þar sem fólk getur keypt sér kaffi og samlokur. Fáir nemendur eru staddir í matsalnum.”

Betra: “Við vegginn eru sjálfsalar með gosi og sælgæti. Innst eru seldar veitingar. Þarna er fámennt.” 42 orð verða 15.

Ekki: “Þegar komið er inn í mötuneytið blasir við stórt afgreiðsluborð. Í afgreiðslunni er ung ljóshærð afgreiðslustúlka sem er önnum kafin við að hella upp á nýtt kaffi. Veitingar sem boðið er upp á eru ekki af verri kantinum.”

Betra: “Í mötuneytinu blasir við stórt afgreiðsluborð með góðum veitingum, þar sem ljóshærð stúlka hellir upp á kaffi.” 38 orð verða 17.

Næst: Kvenna hvað?: “Staða stjórnarflokkanna er veik meðal kvenna; þriðjungur kvenna kýs Sjálfstæðisflokkinn, um 39% kvenna styðja stjórnarflokkana tvo. Atkvæði kvenna geta breytt hinu pólitíska landslagi. Flokkarnir höfða til kvenna áður en gengið verður að kjörborðinu.”

Ekki “maður”: “Beinar tilvitnanir notar maður [ég/eru notaðar] í fréttir til að færa þeim líf og [lesendum] víðari sýn á það sem gerðist. Þær verða að segja manni meira en það sem maður [ég/hefur verið] hefur þegar sagt í innganginum.”

Veraldarvefurinn er orðinn foss af rugluðum orðtökum: “Ég dorgaði fyrir framan sjónvarpið allt kvöldið og lá svo andvana alla nóttina.” “Ég mála í pastalitunum, þeir höfða svo til mín.”

“Ég var alveg að drepast í bringusvölunum.” “Ég stóð algerlega á fjöllum.” “Lumbraðu nokkuð á garni handa mér?” “Þetta er svo langbesta sultuterta sem ég hef aldrei nokkurn tíma smakkað.”

“Hann kom eins og þjófur úr sauðaleggnum.” “Hann kom eins og þruma á nóttu.” “Hann kom eins og skrattinn úr heiðskíru lofti.”

Verstu málalengingarnar eru þó hversdagslegri, langt frá orðtökum. Blaðamaður skrifar: “Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” (10 orð). Þetta þýðir á íslensku: “Engan sakaði” (2 orð)

4. regla Jónasar: Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé