Kerfið

Rannsóknir
Kerfið

Stuttu fyrir kosningar fréttist, að bæjarstjórinn sé í samlögum við verktaka. Bókhaldari hjá verktakanum hætti, af því að hann var ósáttur við ferli málsins, meðal annars með skattskýrslur fyrirtækisins. Blaðamaður talaði við hann.

Skömmu síðar kom umslag með mörgum ljósritum, sem staðfestu aðild bæjarstjórans að málinu. Spurningin: Átti að keyra málið áfram rétt fyrir kosningar. Voru þetta fölsuð ljósrit, sem voru send til að koma sök á bæjarstjórann? Eru þau stolin?

Sum af þessum gögnum mundu vera talin einkamál samkvæmt þröngum skilningi á íslenskum lögum. Má birta þau eða nota á annan hátt? Er eðlilegt, að kjósendur viti, hvort bæjarstjórinn sé svindlari eða að hann sé rangt hafður fyrir sök?

Ef rannsóknablaðamaðurinn kemst að raun um, að gögnin fari með rétt mál, þarf hann að meta tímasetningu birtingar. Er hann orðinn aðili að kosningabaráttu með því að birta þau. Lendir hann í málaferlum vegna þessa? Algengt vandamál.

Rannsóknablaðamaðurinn þarf að tala við bæjarstjórann og fara yfir þau atriði, sem hann er sakaður um. Slíkt viðtal leiðir oft nýjar upplýsingar í ljós. Þegar menn átta sig á, að blaðamaður hefur gögn, bila þeir oft í þvermóðskunni.

Mikill fjöldi verðlauna fyrir rannsóknablaðamennsku eru fyrir rannsóknir, sem blaðamenn skipuleggja frá upphafi, án leka að utan. Í slíkum tilvikum eru fréttir ekki birtar jafnóðum, heldur er þeim safnað í fókusaða, auðskiljanlega pakka til birtingar.

Rannsóknablaðamenn verja dögum, vikum og stundum mánuðum í að safna gögnum fyrir verkefni áður en kemur að birtingu. Samdar eru skrár yfir umfang málefnisins og tímaskrár yfir atburðarás. Oft vinnur teymi blaðamanna að slíkum rannsóknum.

Þriggja manna hópur er algengur og flytur þá hver aðili með sér ákveðna sérþekkingu inn í teymið. Þá er til dæmis einn sérfræðingur í fréttaöflun, annar sérfræðingur í skrifum og sá þriðji sérfræðingur í ritstjórn. Líkt því, sem var í Watergate.

Rannsóknin byrjar á hugmynd, sem stundum er byggð á óþægilegri reynslu eins aðila, sem ræðir hana við annað fólk og kemst að raun um, að fleiri hafa orðið fyrir slíku. Dæmi er um vondan skólamat eða nálægð flutningabíla í akstri.

Spurningar um skólamat: Börnin borða hann ekki, síðan skipt var um verktaka. Er maturinn frambærilegur, eru réttu efnin í honum? Hvernig fékk verktakinn verkið? Var hann lægstbjóðandi og voru menn vissir um, að hann hefði frambærilega vöru?

Oft má flokka efnisþætti hvers máls í tvennt, gæði og kostnað:
1) Gæði: Er skólabíllinn öruggur? Kostnaður: Eru of háir reikningar sendir?
2) Gæði: Er hjúkrunaheimilið heilsusamlegt? Kostnaður: Eru of háir reikningar sendir?
3) Gæði: Er fólk raunverulega tryggt samkvæmt smáa letrinu í tryggingunum? Kostnaður: Er verðið rétt?
4) Gæði: Hefur félagsþjónustan frambærilegt húsnæði samkvæmt lögum? Kostnaður: Er peningum sóað í rekstrinum?

Stjórnvöld eru margs konar, sameiginlega kölluð kerfið. Leið rannsóknablaðamanns að fréttum þar er þríþætt:
1) Blaðamaður hefur grun um rangindi og skilgreinir þau.
2) Lærir allar reglur, sem gilda um viðkomandi stjórnvald.
3) Staðfrestir, að um rangindi sé að ræða, með því að beita tækjum rannsóknablaðamennsku, viðtölum, skjölum, eftirliti og könnunum.

Grunsemdir vakna um kosningar:
1) Eru fölsuð eða tilbúin nöfn á meðmælalistum framboða?
2) Eru fölsuð nöfn á kjörskrá?
3) Fá styrktaraðilar loforð um greiða á móti greiða?
4) Verða starfsmenn stofnunar að styrkja framboð til að halda starfi?
5) Eru starfsmenn að hjálpa í kosningabaráttu í stað þess að vinna?
6) Er opinbert fé notað í kosningabaráttu?
7) Eru notuð skítabrögð eins og nafnlaus bréf? Dæmi hér í gær.
8) Er starfsfólk eins framboðsins hindrað í starfi af lögreglu?
9) Eru atkvæði keypt?

Grunsemdir vakna um skatta:
1) Er sumum veittur afsláttur af fasteignagjöldum?
2) Eru innheimt vanskil á söluskatti, umferðarlagabrotum?
3) Eru eyrnamerkt gjöld notuð í annað?
4) Hafa sveitarfélög hraðagildrur til að afla sektarfjár? Blönduós.
5) Er skattfé lagt á lágvaxtareikninga sem greiðasemi gegn greiðasemi.

Grunsemdir vakna um atvinnu:
1) Ef starf er háð prófi, er það haldið, reiknað og metið af sanngirni?
2) Fá ættingjar og stjórnmálafélagar forgang að vinnu?
3) Eru stofnanir og deildir undir eða yfirmannaðar?
4) Eru of margir millistjórar og of fáir starfsmenn? Allir í ráðuneytum eru skrifstofustjórar.
5) Vinnur fólk samkvæmt starfslýsingu?

Grunsemdir vakna um eftirlitsiðnaðinn:
1) Er byggingaeftirlit og matvælaeftirlit undirmannað?
2) Er byggingaeftirlit og matvælaeftirlit vanhæft?
3) Eru keyptir hlutir eða þjónusta, sem opinberi aðilinn getur annast sjálfur?
4) Eru útboðslýsingar samdar með tilliti til hagsmuna eins birgis?
5) Bjóða birgjar opinberum starfsmönnum gjafir, veislur, afslætti?

Grunsemdir vakna um þjónustu?
1) Er gata bæjarfulltrúans malbikuð fyrst? Hér mokuð?
2) Er betur hugsað um garða í hverfum ríka fólksins?
3) Bregst gatnagerðin seint við ábendingum um þörf á viðgerðum?
4) Er brú að hruni komin?
5) Nota skólar meira fé en svipaðir skólar annars staðar í stjórnstöðvar, hús og íþróttamannvirki, en minna í bækur og hádegismat?
6) Hver er viðbragðstími lögreglu og slökkviliðs í samanburði við aðra staði?

Grunsemdir vakna um siðferði:
1) Hafa þingmenn eða bæjarfulltrúar hagsmuni af lögum og reglum, sem þeir setja?
2) Fara þingmenn eða bæjarfulltrúar að tillögum styrktaraðila?
3) Er dómari og málflutningsmenn í gömlu “strákafélagi”?

Grunsemdir byggjast venjulega á leka um ákveðinn vanda. Sá leki getur komið innan úr opinberri stofnun eða frá almenningi, sem er ósáttur við þjónustuna. Rannsókn getur líka byggst á grunsemdum, sem vakna inni á ritstjórn.

Þótt rannsóknablaðamaður telji sig vita, hvernig stjórnvöld starfa, kemur oft í ljós, að þekkingu skortir á smáatriðum. Hann aflar sér þekkingar með því að vera í miklu sambandi við fólk, sem þekkir til, og með því að afla gagna um málin.

Blaðamaðurinn aflar sér þekkingar á svona sviðum:
Kosningar:
1) Hverjar eru reglurnar um meðmælendur á framboðslistum?
2) Hverjar eru reglurnar um framboðsauglýsingar á almannafæri?
3) Hverjar eru reglurnar um áróður við kjörstaði?
4) Hverjar eru reglurnar um söfnun styrktarfjár?
5) Getur frambjóðandi notað afgang styrktarfjár í eigin þágu?
6) Hverjir mega ekki bjóða sig fram, hverjir mega ekki kjósa?

Skattar:
1) Hverjar eru reglurnar um nýtingu skattpeninga?
2) Hvernig er skattaálagning kærð?
3) Eftir hvaða reglum er innkomið skattfé geymt á bankareikningum?
4) Hverjar eru reglurnar um sölu opinberra bygginga? Jarða?
5) Hvernig geta stjórnvöld tekið fé að láni?

Atvinna:
1) Hvaða hæfni þarf til skilgreindra opinberra starfa?
2) Þarf að auglýsa laus störf?
3) Hvaða störf eru háð útkomu í prófi?
4) Hvernig er eftirlit með starfsfólki?

Eftirlit:
1) Hvers konar hús þurfa hvers konar eftirlit?
2) Hvaða starfsgreinar eru háðar leyfisveitingu?
3) Hvernig er skipuð aganefnd vegna læknamistaka?
4) Eftir hvaða reglum er farið, þegar ákveðið er, að maður sé handtekinn, ákærður, fangelsaður eða látinn laus fyrir tímann?

Birgjar:
1) Hverjar eru reglurnar um útboðsauglýsingar?
2) Hverjar eru reglurnar um höfnun tilboða og samþykkt?
3) Hvað er hægt að kaupa án útboðs?
4) Eftir hvaða reglum er farið í úthlutun félagsþjónustu?
5) Hvernig eru námsstyrkir veittir eða námslán?
6) Hverjir eiga rétt á húsnæðisstyrk?

Siðferði:
1) Hvaða viðskipta eða persónutengsl eru óheimil hjá dómurum, þingmönnum, embættismönnum?
2) Listi yfir ósiðlegar aðstæður?
3) Hvaða embættismenn verða að gefa út opinbera skrá um einkahagsmuni?

Sjá nánar:
Brant Houston, Len Bruzzese & Steve Weinberg,
The Investigative Reporter’s Handbook
A Guide to Documents, Databases and Technologies
4th Edition 2002

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé