Jafnvægi náð

Framtíð
Jafnvægi náð

William Dietrich:
Eru blaðamenn hinir misheppnuðu svipumenn 21. aldar?
Dagblöð kunna að hverfa, ef þau halda áfram að dreyma um forna yfirburði, þegar þau taka afurð sína og reyna að láta hana passa inn í landslag samkeppnisaðila.

Ódýrar, stafrænar myndavélar og upptökutæki, sigur netsins og sprenging í útgáfu amatöra valda þeim mönnum hugarangri, sem muna eftir gömlu, góðu dögum dagblaðanna. Blaðamenn eru að verða lúxus, sem samfélagið hefur ekki lengur ráð á.

Fækkað hefur á fréttastofum vegna minni auglýsingatekna og minni áskriftartekna. Munu hinar auðsóttu upplýsingar á vefnum leiða til þess, að hefðbundin blaðamennska verði minna virði eða jafnvel úrelt?

Allir geta verið blaðamenn í 15 mínútur. Stjórnmálamenn fara framhjá fjölmiðlum með baráttu á vefnum, t.d. á YouTube. Blaðamenn sitja ekki lengur í fremstu röð áhorfenda heimssögunnar, heldur tveimurþremur röðum aftar.

Blaðamenn keppa við amatöra, sem segja frá atburðum strax, af tilfinningu, með slúðri, ýkjum og rangfærslum. En satt að segja var sumt lélegt af hefðbundinni blaðamennsku. Því lélegri sem hún er, þeim mun fremur verður hún úrelt á öld veraldarvefsins.

Fólk borgaði fyrir dagblöð til að fá upplýsingar, sem oft var dýr þolinmæðisvinna að afla. En með veraldarvefnum höfum við tapað einokuninni. Dagblöðin höfðu sína kosti, en sama mátti segja um reiðhestana. En hefur þú oft farið ríðandi í vinnuna upp á síðkastið?

Víða veita sérhæfð vefsvæði betri og nákvæmari upplýsingar og dýpri rannsóknir en fréttablað svæðisins veitir á því sviði. Vefsvæðin eru oft einhliða og stundum koma þau og fara. En þau leggja oft meiri vinnu í fréttirnar en hefðbundnir miðlar.

Í úthverfi Seattle er New York Times eina fáanlega dagblaðið í Starbucks. Ein risakeðja kaffihúsa plús eitt risavaxið dagblað. Það þýðir, að staðbundnar fréttir eru látnar eiga sig. Ríkisfréttir eru reknar af fimm dagblöðum og stóru fréttastofunum.

Verra er, að dagblöð hafa minna gildi fyrir auglýsendur. Dietrich kaupir bíla, heimilistæki, raftæki og föt á vefnum. Hann fann húsið sitt á vefnum. Sumt fólk finnur maka á vefnum. Það er engin furða, þótt tekjur dagblaða fari minnkandi.

Fjölmiðlunarstörfum fækkar ekki, þeim fjölgar. Nú eru góðir tímar fyrir þá, sem vilja stokka fréttir eða tjá sig um þær. Sérhæfð blöð og tímarit fyrir sérhópa draga að sér auglýsingar með því að birta vinsamlegt efni um atvinnugreinina, sem þau fjalla um.

En í staðinn fækkar þeim, sem vinna grunnvinnu frétta. Minni peningar eru til slíkra hluta. Elstu og reyndustu blaðamennirnir eru hvattir til að láta af störfum með starfslokasamningum og uppsögnum. Æviöryggi er horfið í blaðamennsku. Ferðafé er horfið.

Samt er ekki horfin þörfin fyrir að fá svör við spurningunum: Hvers vegna og hvað svo? Þeir sem eru hæfir að ná upplýsingum og skrifa þar á ofan vel, verða enn mikilvægari en áður og sogast að útgáfufyrirtækjum á ríkisgrundvelli. Ég les þá á Starbucks.

Dagblöðum gengur hins vegar illa að selja fólki gæði sín. Þau ögra ekki nýmiðlum, heldur taka vöru sína og reyna að laga hana að vettvangi samkeppnisaðilans. Dagblöðin hafa reynslu og þekkingu umfram aðra, en kunna ekki að selja þá staðreynd.

Nokkuð víst er, að blaðamenn munu skrifa af meiri þekkingu fyrir þrengri hópa, sem vilja borga fyrir fyrsta flokks upplýsingar. Þeir munu sogast til sérhæfðra fjölmiðla. En þar bíður margra leiðinleg vinna, sem er ekki heldur heppileg lýðræðinu.

Vefurinn er eins og fljótið Platte: Ein míla á breidd og einn þumlungur að dýpt.
Störfin hverfa á dagblöðum 19922002 fækkaði blaðamönum dagblaða í Bandaríkjunum um 8438 eða um 13%. Daglega berast fréttir af samdrætti í atvinnu.

Edward Wasserman:
Horft út yfir samþættingaræðið
Þegar tæknin er farin að valda miklum breytingum á fréttastofum, hvað mun þá gerast í blaðamennsku?

Prent og ljósvaki verða áfram til sem sérhæfð fjölmiðlun. En vefurinn hefur algera tækniyfirburði til margmiðlunar og samskipta. Hann verður hin venjulega fjölmiðlun fyrir fréttir og skoðanir.

Hefðbundnir fjölmiðlar þurfa að læra af Hollywood. Fyrst héldu kvikmyndaverin, að þeirra hlutverk væri að fylla bíóhús. Nú eru þau hins vegar orðinn helsti birgir skemmtunar fyrir heimahús. Það er að segja sjónvarp, kapall, vefur, DVD, podcast, farsímar.

Blaðamennska mun í auknum mæli færast út á jaðarinn, þegar fréttastofur gærdagsins breytast í markaðsreknar margmiðlunarupplýsingaveitur morgundagsins.

Samþætting felst núna einkum í að fella miðlun fyrir sjón og heyrn og símiðlun netsins að fréttastofnunum, sem áður snerust um prent. Samþætting hefur riðið yfir fréttastofur eins og fellibylur og er orðin að hinum nýja rétttrúnaði. Hún er líka mjög gölluð.

1. Samþætting hefur einkum verið svar við þörfum viðskipta, ekki blaðamennsku. Þetta virðist augljóst og lítilfjörlegt, en Wasserman telur það vera mikilvægt.

2. Samþætting er ekki hlutlaus gagnvart tegundum miðla. Hún tekur ákveðnar tegundir tækni fram yfir aðrar og ákveðnar tegundir upplýsinga fram yfir aðrar.

3. Samþætting virðist hvetja til stjórnunarhátta, sem rýra vinnuaðstöðu á fréttastofum og hvetja til blaðamennsku, sem er þunn og fljótfærnisleg. Ódýrir altmuligmenn víkja sérfræðingum til hliðar.

4. Ef öflugri samskiptatækni er fléttað saman, getur það eflt blaðamennsku, en þá aðeins, ef virðing fyrir henni leysir markmið markaðarins af hólmi sem höfuðmarkmið ferlisins.

Með aðild að vefnum eru gamlir prentmiðlar að reyna að auka notkun á gömlum upplýsingum úr safni. Það bætir blaðamennskuna ekki neitt. Aðeins er verið að reyna að verðleggja gamlar eignir.

Tæknin er ekki hlutlaus gagnvart miðlum. Þegar þú hefur startað 24 stunda fréttaþjónustu á vefnum, hefurðu tekið svanga ókind í fóstur. Þessa ókind þarf að mata. Sú orka fer ekki í að bæta fagið.

Heyrir þú blaðamenn berjast um tækifæri til að skila frá sér ýmsum útgáfum af fréttinni? Hungrar þá og þyrstir í að skrá hljóðbita og myndbita og búa til útvarpstexta, svo að þeir geti komið út straumi margmiðlunar og útvarpsfréttum? Nei.

Við höfum þegar reynsluna af nokkrum ritstjórnum, sem hafa verið samþættar. Vinnuaðstæður blaðamanna hafa versnað, orka er soguð úr smáatriðum fréttaöflunar inn í tæknilegar útfærslur samþættingar. Fljótfærni er orðin að guðspjalli starfseminnar.

Annars vegar kvarta fjölmiðlar yfir rýrnandi trausti. Hins vegar endurnýja þeir sig í mynstri hálfunninna frétta, sem eru sendar út með leifturhraða. Í trú á, að þær megi síðar laga og að birting síðari staðreynda muni laga tjón, sem fyrri útgáfur hafa valdið.

Að gefa fyrst út og ritstýra síðan er undarleg aðferð við að efla traust. Þar á ofan eru ritstjórnir undir þrýstingi um að hleypa inn meira af ókeypis efni notenda, að hætti YouTube. Þar fá fjölmiðlar myndir af Loch Ness skrímslinu og öðrum óstaðfestum fréttum.

Samþætting hefur sýnt fram á, að hægt er að breyta fréttastofu dagblaðs í 24/7 fréttamyllu, sem klæðir fréttir í skart mynda og hljóðs. Hvernig eflir þetta blaðamennsku? Heyrast þaggaðar raddir? Verður stíll á sögunum? Verður samræða samfélagsins viturri?

Samþætting er að því leyti svipuð fréttastofu á sjónvarpi, að mikill tími fer í annað en fréttaöflun. Hann fer í tæknilegar útfærslur, mannleg samskipti, aðlögun texta að ýmsu birtingarformi. Fólk hefur meira að gera, en minni tíma til að vanda fréttaöflunina.

Joe Zelnik:
Við getum lagað okkur að breyttum aðstæðum,
en eigum við að gera það?
Fólk getur lagast að breytingum, ef skipunin kemur frá þeim, sem skrifar undir launaávísunina.

Slagorðið er: Aðlögun eða dauði. Spurningin er: Ertu byrjaður að undirbúa vefblaðið? Menn eru þá að hugsa um léttan flatskjá, sem menn taki með sér á klósettið. Ég sé þetta ekki fyrir mér.

Við heyrum, að nemendur í blaðamennsku við háskóla eigi að kunna að segja sögur sínar með ýmissi tækni texta, hljóðs og myndar. Þeir fari á vettvang vopnaðir fartölvu, stafrænum upptökutækjum sjónvarps og útvarps og með vídeóipod.

Mér finnst samt kortin frá AAA vera betri en MapQuest í tölvu. Ég get notað GPS, sem segir mér að beygja til hægri, en leiðbeiningar konu minnar eru áreiðanlegri.

Getur ást á gömlum aðferðum og gildum staðist kröfuna um tækni og margmiðlun? Hefur þýðingu að harma horfna tíma og geta svo ekki boðið fólki framtíðarinnar upp á fjölmiðlun eða fámiðlun, sem það kærir sig um?

Sjá nánar: Nieman Report, Goodbye Gutenberg, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé