Internet og blogg 2007

Framtíð
Internet og blogg 2007

Ónafngreindur forstjóri: Árið 2002 jafngilti það kossi dauðans að hafa með internetið að gera. En árið 2006 er það orðið forgangsmál í fyrirtækjum að hafa með internetið að gera. Allir fjölmiðlar vilja núna koma sér fyrir á internetinu.

Meira en helmingur ríkisstjórna ritskoðar internetið. Þær hafa til þess tæki, t.d. Smart Filter. Mest er um, að þau taki út ákveðin svæði, t.d. YouTube, Skype og Google Maps, ýmist alltaf eða á viðkvæmum tímum. Það er þjóðsaga, að internetið sé frjálst.

Reporters Without Borders segja, að í Kína hafi 50 manns farið í fangelsi vegna skrifa í bloggi. Eritrea er verst í heimi, þar er öll blaðamennska bönnuð. Yahoo átti þátt í fangelsun og dómi tveggja bloggara í Kína.

Yahoo sætti harðri gagnrýni bandarískrar þingnefndar í árslok 2007 fyrir að hafa gefið upplýsingar til stjórnvalda í Kína, sem leiddu til handtöku bloggara. Tom Lantos nefndarformaður kallaði forstjóra Yahoo “moral pygmies”.

Ein rannsókn leiddi í ljós 200.000 dæmi um ritskoðun internetsins. Athyglisvert var, að Rússland og Venesúela ritskoðuðu ekki. Í hópi ritskoðara voru hins vegar SuðurKórea, Jórdanía, Marokkó og Singapúr. Bandaríski herinn ritskoðar internet hermanna.

Stjórnvöld í Egyptalandi, Túnis, Kína, Líbíu og víðar sækja að bloggurum, sem hafa fyllt skarð, sem hefðbundnir fjölmiðlar hafa skilið eftir. Í slíkum löndum leita menn sannleikans í bloggi, ekki í hefðbundnum fjölmiðlum. Kareem Amer í Egyptalandi.

Craig Murray, fyrrum sendiherra Bretlands í Uzbekistan, var tekinn út af bloggþjónustu í Bretlandi vegna óheflaðs orðbragðs. Murray fór með bloggsíðuna til Hollands, þar sem prentfrelsi er meira en í Bretlandi. Ásakanir Murray hafa aukist að frægð.

Bloggþjónustur í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu hafa lokað síðum og ritskoðað þær vegna lögfræðilegra hótana. Hannes Hólmsteinn var kærður í London vegna skrifa á ensku á bloggsvæði á Íslandi.

Internet Governance Forum (IGF) var komið fá fót til að jafna deilur milli yfirvalda í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum um yfirráð yfir internetinu. Þetta á að vera vettvangur fyrir samráð. ICANN verður þó áfram utan við valdsvið IGF næstu árin.

Árið 2004 var mikið talað um internetið í kosningabaráttu vegna framboðs Howard Dean. Það tókst ekki þá, en hvað um 2008? Með YouTube frá Google og líka með MySpace og Facebook hafa stjórnmálamenn fengið gríðarlegt færi á að nálgast almenning.

En ruglið ekki vinsældum á netinu saman við vinsældir í kjörklefanum. Frambjóðendurnir Barack Obama og Ron Paul hafa yfirburði á vefnum, en eru ekki eins háir í kosningaspám. Á vefnum er Obama tífalt sterkari en Clinton.

Hægri ofbeldismenn í Bretlandi hafa sett upp vefsvæðið Redwatch. Þar eru settar upp myndir af meintum andstæðingum og aðrar upplýsingar um þá. Notendur síðunnar eru hvattir til að beita þetta fólk ofbeldi. Síðan var enn uppi árið 2006.

Geðsjúklingar í bloggi taka engum sönsum. Augljósar staðreyndir skipta þá engu máli. Þeir tvinna saman formælingar og heimta sjálfir afsökunarbeiðni, þegar gert er grín að þeim. Þeir eru lokaðir fyrir öllu nema eigin herferð. Saman eru þeir hættulegir.

Washington Post hefur þurft að loka samræðubloggi vegna yfirgangs geðsjúklinga. Orðbragð þeirra var ekki í samræmi við reglur blaðsins. Þekktasta dæmið var bloggið um greiðslur Abramoff til stjórnmálamanna.

Vandinn við bloggið er fyrst og fremst nafnleysið. Fólk hagar sér betur, þegar nafn þess sést. En athuga þarf, að nöfn og netföng er hægt að falsa. Og Jón Jónsson er tæpast nafn. Sums staðar er fólk kurteist undir dulnefni, t.d. á eBay, þar sem peningar eru í húfi.

Nafnbirting er æskileg í bloggi. En sum nöfn eru svo algeng, að ekki er hægt að átta sig á, hvort þau eru ekta. Ennfremur þora sumir ekki að gefa upp nafn af gildri ástæðu, svo sem ótta við gagnaðgerðir vinnuveitanda.

Það er ekki ritskoðun að amast við nafnleysi á vefnum. Tillögur snúast ekki um að loka bloggi, heldur um að vefhýsar hossi ekki nafnlausu bloggi, heldur aðeins nafngreindu bloggi. Til dæmis sé allt blogg nafngreint, þegar það fær að fylgja fréttum.

Settar voru fram hugmyndir um siðareglur á vefnum árið 2006. Höfundarnir voru Tim O’Reilly og Jimmy Wales. Þær vöktu mikla reiði nafnlausra bloggara. Hugmyndirnar voru í sjö liðum. Fyrsta reglan er, að menn játist undir siðareglur og brottfall efnis.

Vont er það efni skilgreint, sem notað er til áreitis, eineltis og hótana, meiðyrða, stríðir gegn höfundarétti og persónurétti til einkalífs. Nafnlausir póstar fjarlægðir og að skylt sé að hafa netföng með öllum pósti. Bannað sé að rífast við tröllin. Vottunarstofa.

Fjölmiðlafræðingurinn Dan Gillmor telur slíkar reglur ekki nauðsynlegar. Aðalatriðið sé bara að vera kurteis. Hver á meta allar þessar sjö siðareglur spyr hann. Líklega er einfaldast að þrýsta á nafnbirtingu bloggara. Geðsjúklingarnir og tröllin vilja ekki sjást.

Hefðbundnir álitsgjafar kalla bloggara tröll, sem ekki sé hægt að tala við. Vissulega eru tröllin mörg, en fínt blogg er líka til. Það fjallar um margt, sem hefðbundnir álitsgjafar tala ekki um. Bloggarar hafa tekið við af hefðbundnum álitsgjöfum, sem hafa ekki fattað.

Liðinn er tími fámenns hóps leiðarahöfunda og álitsgjafa hefðbundinna fjölmiðla. Þeir stjórnuðu áður umræðunni í samfélaginu og vilja gera það áfram. Þeir harma að sjálfsögðu uppgang bloggara og óttast hann. Valdið hefur verið tekið af þeim.

Bloggið færir okkur lítið af fréttum, meira af skoðunum, oft illa grunduðum. Svigrúmið er vítt, margir taka þátt, en fæstir hafa nokkuð að segja. Bloggið segir: Þetta er skoðun mín, núna. Það er skrifað af fíflum fyrir fávita.

Bloggarinn var maður ársins í Time í árslok 2006. Þú og þið skrifið fréttir og skoðanir framhjá kerfinu. Gallinn er, að enginn veit, hver þessi þú ert eða þið eruð. Nafnleysið er almennt á netinu.

Unga fólkið býr á vefnum, hinir fullorðnu eru túristarnir þar. 55% unglinga hafa prófíl sinn á Facebook eða MySpace, 20% fullorðinna. 39% unglinga birta sköpunarverk sín þar, texta, myndir, músík, myndskeið, en aðeins 22% fullorðinna.

Unga fólkið er á vefnum, gamla fólkið fer í kjörklefann. Athugið þó, að ungt fólk hefur ekki heimasíma og mælist kannski lakar í könnunum. Vefurinn er góður í fjáröflun frambjóðenda og hjálpar þeim að nálgast fólk. En hann er takmarkaður í öðru.

Árið 2007 var árið, þegar við föttuðum, að internetið snýst ekki um innihald, heldur samskipti fólks. Þetta var ár Facebook. Þetta var fyrsta árið, þegar Google svitnaði. Vegna Facebook og félagslegrar miðlunar. Þetta var ár Twitter og iPhone og Radiohead.

Mikil notkun á YouTube, Skype og öðrum þungaflutningum á myndskeiðum eða hljóðskeiðum hefur vakið upp hugsun um, að internetið kunni að stíflast vegna of þungrar umferðar, sem er nánast ókeypis.

Flugfélög búast við vandamálum vegna internetnotkunar, því að mikil nálægð er milli fólks í flugi. Sumir tala í netsíma, aðrir skoða klám eða nota ofbeldisleiki. Hringitónar trufla líka fólk. Sum félög treysta á kurteisi, önnur hugleiða bann við netnotkun.

Hótel og flugvellir eru byrjuð að sinna hagsmunum fólks, sem þarf að vera í sambandi. Aðstaða til hleðslu, betri skrifborð. Menn vilja ekki skríða um eða raða húsgögnum til að finna tengil. Aðgangur að WiFi kostar þó oft og tíma tekur að fylla út eyðublað.

Radiohead setti fyrir jólin 2007 albúmið sitt á vefinn og bauð mönnum að borga fyrir það, sem þeir kysu, frá núlli upp í 100$. Þeir kalla þetta “virtual busking”. Á sama ári varð iTunes þriðja stærsta músíkverslun Bandaríkjanna.

Mörg vefsvæði bjóða einkunnagjöf notenda til að færa nothæft efni upp á vinsældalistum þeirra. Þetta getur auðveldað fólki að spara tíma í lestur bloggs eftir geðsjúklinga. Það finnur fyrr og ofar blogg, sem skiptir máli. T.d. Amazon, NewsTrust.

Microsoft bauð geymslu á netinu í árslok 2007, líkt og Google. Það takmarkast við 1000 skjöl og forritin í Office pakkanum. Áður var Microsoft með Hotmail á vefnum, en hefur dregist aftur úr öðrum. Google er komið með Gmail og Google Apps á vefnum.

Sumir bloggarar ná miklum vinsældum og draga að sér auglýsingar. Gott er setja inn á vefinn þrisvar á dag, snemma morguns, í hádeginu og að kvöldi. Gott er að gefa notendum kost á að gefa bloggi einkunn frá einum upp í fimm.

Gott er að gera notendum kleift að skrifa á vefinn, setja inn myndir o.s.frv. Úr því verður vefsamfélag.
BoingBoing hefur 1 millj. $ í auglýsingatekjur. ShoeMoney 150 þús. $. Yfirleitt er þetta sérhæft blogg, ekki blogg álitsgjafa.

Nýr hugbúnaður, Garlik, var settur á flot í árslok 2007 og mælir stöðu vefsíðna. Hann er blandaður, mælir vinsældir, áhrif, virkni og sérstöðu. Lélegir bloggarar fá 500 stig, frægðarfólk upp í 5000 stig og meira. Kylie Minogue var efst með 8379 stig.

Blaðamenn hafa lengi haft sérgreinar. Þær hafa flækt þá í vanheilagt bandalag við aðila á borð við lögreglu. Löggan skammtar efni í vilhalla blaðamenn. Leggja þarf slíkar sérgreinar niður. Þær opnuðu ekki Watergate, My Lai, sannleikann um Írak.

Sérgreinar blaðamanna fela í sér hagsmunaárekstur. Þær verða að hverfa. Blaðamenn þurfa sjálfstæði gagnvart þeim, sem reyna að skammta þeim fréttir. Lögreglufréttir er dæmi um hagsmunaárekstur. Slíkar sérgreinar eru sem betur fer að hverfa.

Fræðimenn og kennarar í blaðamennsku skrifa margir illa, á ritgerðamáli félagsvísindanna. Blaðamenn þurfa að kunna að fara bil beggja í hlutlægni og óhlutlægni. Þeir eru ekki “content providers”, heldur að skrifa sögur, sem eiga að skiljast.

Eftir fimm til tíu ár verður allur texti blaðamanna aðgengilegur á netinu, gamall jafnt sem nýr. Allir blaðamenn verða um leið beinir eða óbeinir bloggarar. Starf blaðamannsins heldur áfram, þótt pappír hverfi fyrir internetinu.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé