Innviðir 2000

Forsaga
Innviðir 2000

Draumatækni unga fólksins er ekki internetið eða veraldarvefurinn. Það er ekki DVD-spilarinn eða iPod heldur. Það er farsíminn, sem hefur fangað huga unga fólksins meira en nokkuð annað tæki nútímans.

Ritsími hófst 1844, sími 1876, kapall 1948, gervihnettir 1962. Þráðlaus farsími er nú kominn í hendur nærri allra Evrópubúa og er farinn að breyta siðum og menningu þjóðfélagsins. Samband fólks eykst á einn veg og minnkar á annan veg.

Í þriðja heiminum vantaði víða símalínur, svo að farsíminn er fyrsti sími margra. Í Evrópu eru margir þeir, sem áður höfðu línu, hættir því, af því að þeir telja símann sinn þurfa að vera hluta af sér, en ekki hluta af húsbúnaði íbúðar.

Þótt þráðlaus farsími hafi verið til síðan 1946, var flutningsgeta hans svo lítil, að hann náði ekki fram að ganga fyrr en löngu síðar. Skilaboðatæki komu til sögunnar á 7. áratugnum. 1978 var nútímatækni í farsímum orðin nægileg.

GSM varð staðall fyrir Evrópu og mestan hluta heimsins, en Bandaríkin notuðu tvo staðla í senn, sem tafði fyrir þróun farsíma. Nú er GSM farið að keppa við bandarísku staðlana innan Bandaríkjanna. Norðurlönd og Japan leiða þróunina.

GPRS er milli GSM og 3G. Það eru símar, sem eru sífellt í sambandi. Þá er hægt að tengja við fartölvur og hengja þær þráðlaust á internetið með Bluetooth-hugbúnaði. GPRS hentar líka vel SMS (short message service) skilaboðum.

GPRS hefur enn þann galla, að verð símtala hækkar oft gífurlega, þegar menn eru komnir út fyrir heimasvæðið og nota “roaming”, reiki, til að fá þjónustu annarra símafyrirtækja. Ýmis annar kostnaður hefur aukið grun í garð GPRS. ESB setti þak á gjaldtöku.

Nú geta menn haldið númeri sínu, þótt þeir flytjist milli svæða og símafélaga. Verð á símaþjónustu hefur haldist hátt, en er byrjað að lækka vegna samkeppni frá internetinu, sem smám saman nær yfir meira af heildarumsvifum símanotkunar. Skype er vinsælt.

Stafræna hefur stóraukið magn og gæði þráðlausra kerfa. Þriðja kynslóð síma, 3G og WiFi gera kleift samband milli síma og internets. Nýir gervihnettir og nýjar tíðnir á landi valda því, að þráðlaust samband er samkeppnishæft við breiðband.

Símaþjónusta býður margs konar þjónustu umfram það, sem þekktist í gamla daga, talhólf, númerabirtingu. Símtöl eru líka að færast á netið, þar sem þau kosta ekki nema brot af fyrri kostnaði, einkum langlínusamtök, sem verða næstum frí.

Nýja-Sjáland ráðgerir að hætta við hefðbundinn síma og vera algerlega með símann á internetinu árið 2010. Með því að sameina síma og internet næst mikill sparnaður í skiptistöðvum, sem veldur því, að netsími nálgast að vera ókeypis.

Motorola hóf gervihnattasíma 1998. Er lítið notaður, einkum af pólförum, njósnurum og stríðsfréttamönnum. Verðið hefur þó lækkað upp á síðkastið og símatækin komast nú fyrir í vasa. Gervihnattasímar hafa gildi á Íslandi, því að landið er strjálbýlt.

Kapall hófst sem loftnetsþjónusta fyrir dreifbýli 1948. Hún náði inn í úthverfin frá 1972 og hófst í stórborgum upp úr 1980. Ljósleiðarar komu til sögunnar 1977.

Kapalkerfi taka við skilaboðum frá gervihnöttum, míkróbylgjum, útvarpsbylgjum og staðbundnu sjónvarpsefni. Rásirnar eru sameinaðar og fluttar með coaxial kapli til heimahúsa. Afruglarar ná í rásirnar og spila þær í sjónvarpstækinu.

Afruglarar hafa líka það hlutverk að afrugla rásir, sem greiða þarf fyrir. Nú eru afruglarar þannig, að þeir eru forritaðir til að afrugla allt eða hluta eftir ákveðnum greiðslukerfum og geta jafnvel skipulagt greiðslu fyrir stakar myndir.

Upplýsingahraðbrautin er að verða að veruleika. Tölvan, síminn, skipuleggjarinn, tónlistarspilarinn, staðsetningartækið og myndavelin eru allt að verða eitt. Þetta fæst allt á viðráðanlegu verði, aðgengilegt fyrir alla. En dreifbýlið verður oft útundan.

Upplýsingahraðbrautin er viðkvæm fyrir truflunum, til dæmis vegna hryðjuverka eða náttúruhamfara. Hún skapar spennu milli þeirra, sem vilja hnýsast í hagi fólks af öryggisástæðum og þeirra, sem vilja vernda frið fólks heima hjá sér.

Dæmi um tvær skoðanir á mikilvægu máli. Með staðsetningartæki í síma, getur þú kallað á hjálp í 112 og í miðstöðinni sést þá staðsetning þín nákvæmlega. Það auðveldar hjálp. En gerir líka kleift að fylgjst með öllum þínum ferðum. T.d. til viðhaldsins.

Sjónvarp er fullt af ofbeldi. Talið er, að börn á forskólaaldri, sem horfi á sjónvarp tvær stundir á dag, sjái 10.000 ofbeldi á hverju ári. Aðeins einn dagskrárliður af hverjum tuttugu hefur innihald, sem er andstætt ofbeldi.

Þegar vísað er til rannsókna til stuðnings gagnrýni á fjölmiðla, gagnrýna fjölmiðlarnir rannsóknirnar, skamma foreldra, segja það ekki vera sitt hlutverk að bjarga heiminum, fela sig bak við tjáningarfrelsið.

Vídeóleikir draga mun meira en sjónvarp eða veruleiki úr tilfinningu barna fyrir ofbeldi. Tilraunir til að hamla gegn ofbeldi hafa einkum beint geiri sínum að þessum leikjum. Internetið hefur stóraukið aðgengi barna og unglinga að klámi.

Fólk forðast hugsanlega fjölmiðla, sem því finnst vera leiðinlegir eða ósvífnir, eða því kann að finnast það ekki skilja miðil til að njóta hans. Tilvist fjölmiðils er mikilvægur þáttur í ákvörðunum um, hvaða verkefni henti honum miðlinum best.

Fólk les texta fjölmiðla á virkan hátt. Sumir samþykkja þá merkingu, sem höfundurinn átti við. Aðrir nota eigin reynslu og hugmyndir til að finna eigin merkingu úr efninu. Aðrir hafna merkingu höfundarins eða eru henni andvígir.

Félagsleg virkni fjölmiðla felst í, hversu mikið skilaboð þeirra fara saman við samskipti manna. Fjölmiðlar með mikla félagslega virkni henta flóknum, félagslegum verkefnum. Fjölmiðlar með litla virkni, eins og tölvupóstur, henta betur rútínu.

Aðhald stjórnvalda stríðir gegn upplýsingafrelsi. Fulltrúar fjölmiðla efast um gildi rannsókna, sem sýna neikvæð áhrif fjölmiðla og þeir segja vanda þjóðfélagsins liggja dýpra en í fjölmiðlum. Fjölmiðlar hafa leikreglur, sem ógnað er af viðskiptaþrýstingi.

Skoðanakannanir á stórum hópum kanna samhengi notkunar á fjölmiðlum og áhrifum þeirra. Í þjóðfræðilegum athugunum er hegðun fólks skoðuð í leiðinni til að reyna að fá aukna innsýn. Niðurstöður þeirra verða þó varla alhæfðar út í aðra hópa.

Fókushópar hafa mikið verið notaðir til að fá fólk til að fjalla í sínum eigin orðum um fjölmiðla. Þeir fáu, sem taka þátt í þessum hópum, eru þó engan veginn neinir fulltrúar meðaltalsins í þjóðfélaginu. Auk þess er hópdýnamík í fókushópi.

Kenningar um áhrif fjölmiðla hafa verið að breytast. Áður töldu menn fjölmiðla hafa mikil og bein áhrif. Nú er talið, að áhrifin séu minni og í þrepum, þannig að fjölmiðlarnir hafi áhrif á álitsgjafa, sem síðan hafi áhrif á umhverfi sitt.

Kannanir sýna, að fólk getur lært hegðun af því að sjá hana í fjölmiðlum og að skilningur þess á umhverfinu breytist eftir myndum í fjölmiðlum. Kannað er, hvort myndir í fjölmiðlum geti virkjað skyldar hugsanir fólks.

Rannsóknir sýna, að jafnvel stutt áhorf á ofbeldi í sjónvarp getur vakið ofbeldi hjá áhorfendum, einkum hjá ungum börnum. Myndir af kynórum hafa neikvæðari áhrif á karla en konur. Fjöliðlar geta líka staðfest fordóma í kynferði og kynþáttum.

Félagslega jákvæð hegðun er t.d. samstarf og umburðarlyndi. Upplýsingaherferðir miða að slíkri hegðun. Sumar ná árangri og aðrar ekki. Þær takmarkast af öðrum viðhorfum fólks. Herferðir sem blanda skemmtun við jákvæða hegðun virka betur.

Þótt miklu fé sé varið til herferða í viðskiptum og pólitík, eru áhrif þeirra léttvæg, hreyfa við lágu hlutfalli notenda. Þeir verða fyrir mestum áhrifum, sem vita lítið og hafa lítinn áhuga á umræðuefninu.

Blaðalestur og aðild að pólitísku spjalli fer saman við aðild að pólitískum málefnum, en sjónvarpsnotkun gerir það ekki. Neikvæðar sjónvarpsauglýsingar hafa lítil áhrif. Pólitískar auglýsingar geta minnt á nöfn, en hafa annars lítil áhrif.

Pólitískar fréttir, skoðanakannanir, opinber framkoma frambjóðenda, kappræður þeirra, forustugreinar eru atriði, sem hafa áhrif á fylgið, einnig heimsóknir til fólks, en auglýsingar virðast hins vegar ekki hafa mikil áhrif.

Áhrif fólks hvert á annað og val í skynjun fólks dregur úr áhrifum auglýsinga á flesta markhópa. Samt getur lítið hlutfall árangurs falið í sér miklar upphæðir peninga í kaupsýslu eða úrslitaatkvæði í pólitík.

Upplýsingatækni virkar ekki jafnt fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Minnihlutar sitja eftir á breytingatímum. Stafræna gjáin víkkar. Þekkingargjáin leiðir til þess að aðgerðir til að efla aðgengi að fjölmiðlum leiða til víkkaðrar gjár.

Sagan sýnir, að ný samskiptatækni eykur suma þætti samskipta en truflar aðra. Netið gerir sérhvern að nágranna í heimsþorpinu. Dæmin sýna, að slík bönd myndast á netinu. Þau eru hins vegar tæp í samanburði við umgengni í venjulegu þorpi.

Segja má, að samskipti á netinu dragi úr tilfinningu fyrir félagslegri nálægð, sem við finnum fyrir, þegar við höfum samskipti við fólk augliti til auglitis. Samskipti á netinu eru líka mikið notuð af félagslega misþroska haturshópum.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose, Media Now
Understanding Media, Culture and Technology, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé