Inngangur

Fréttir
Inngangur

Aðalheimild:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing, 10. útgáfa 2006

Þetta er öflugasta kennslubók fyrir háskólanám í blaðamennsku, sem til er, eftir reyndan blaðamann innanlands og utan og prófessor við Columbiaháskóla, Melvin Mencher. Hún er ítarlegri en flestar slíkar og hefur komið út í tíu útgáfum.

Bókin hefur nánast fullt gildi hér á landi. Flestar aðstæður eru svipaðar á Íslandi og í Bandaríkjunum, umhverfi blaðamennsku er svipað, kröfur um stíl í blaðamennsku eru svipaðar og siðferðiskröfur til blaðamanna eru svipaðar.

Tilgangur bókarinnar er
1) að kenna þér blaðamennsku af ýmsu tagi við ýmiss konar miðla,
2) að gefa þér bakgrunn þekkingar til að skrifa nákvæman og vel upplýstan texta,
3) að benda þér á gildi, sem stjórna blaðamennsku.

Hér verður kennt að
* afla frétta,
* fá þær staðfestar og
* skrifa þær.

Hér á landi þarf að leggja mikla áherzlu á miðliðinn, staðfestinguna. Oft er mikill misbrestur á, að honum sé fylgt.
Hér verður kennd fréttamennska við tímarit, dagblöð, útvarp, sjónvarp og nýja miðla.

Þessi bók er ekki sérstaklega fyrir prentmiðla. Hún lítur jafnt á alla fréttamiðla. Hún segir frá nýmiðlun. Hún lýsir stöðu frétta og fréttamennsku árið 2006.

Hvort sem blaðamaðurinn skrifar um körfuboltaleik, minningargrein eða um ávarp forsetans við þingsetningu, þá fylgir hann sömu meginreglum hugsunar og tækni, sem um langan aldur hafa stjórnað vinnu blaðamanna á miklu breytingaskeiði.

Blaðamenn leita að hinu nýja og mikilvæga, sem þeir telja að muni upplýsa lesendur þeirra, áhorfendur og hlustendur. Þeir finna þessum upplýsingum form í sögu, frétt eða grein, sem fullnægir kröfu notandans um að fá að vita.

“Þekking mun ráða yfir vanþekkingu. Fólk, sem vill stjórna sér sjálft, verður að vopnast þekkingu. Stjórnvöld, sem eru án upplýsts almennings og án aðferða við að fá upplýsingar, verða að farsa eða harmleik.” (James Madison)

Þróun fjölmiðlunar hefur verið þessi: Krítuð veggblöð. Færanlegt letur. Ritsími. Sími. Útvarp. Sjónvarp. Gervihnettir. Veraldarvefur. Vefsími. Tiltækar upplýsingar eru ótæmandi, sumt af þeim er gott og brúkanlegt, en mikið af því er ekkert nema rusl.

Upplýsingaöldin hefur bylt heiminum og blaðamennskunni. Milljónir manna sameinast á internetinu. Upplýsingar um hvaðeina eru aðgengilegar. Þótt blaðamennska breytist við þetta, munu grundvallarhæfni hennar og viðhorf ekki breytast.

Einhver verður að finna rétta efnið á veraldarvefnum, koma því í skiljanlegt form og túlka það, svo að það verði almenningi gagnlegt. Það gera blaðamenn, af því að þeir fjalla um allt. Á grundvelli kunnáttu í móðurmálinu og mannlegum samskiptum.

Blaðamenn þurfa líka að hafa dómgreind og skilning, geta skrifað einfaldan og skýran texta, geta haldið ró sinn undir þrýstingi, búa yfir góðu siðferði, á hvaða sviði fjölmiðlunar, sem þeir vinna. Þeir þurfa að ná réttum staðreyndum.

Internet er nýjasta skref miðlunar. Síðustu hálfa öld hefur orðið mikil hröðun í framleiðslu upplýsinga. Mikilvægir atburðir eru kunnir um allan heim nokkrum mínútum eftir að þeir gerast. Forfeður okkar höfðu fátæklegar upplýsingar.

Áður voru fréttaskrif einkum línuleg, fóru frá upphafspunkti eftir línu til lokapunktar. Nú er meira um mósaík. Notendur eru vanir veraldarvefnum, þar sem menn geta farið inn í alls konar tengda vefi og hliðarvefi, lesið fram og aftur.

Mikilvægt er, að fólk hætti ekki að fylgjast með fréttum, sem varða líf þess og framtíð. Með minnkandi fréttum af þjóðmálum og samfélagsmálum er stefnt í átt til þeirrar hættulegu stöðu, að borgararnir viti ekki nógu mikið um samfélagið.

Thomas Jefferson forseti sagði:
“Ef ég mætti velja um, hvort við hefðum ríkisstjórn án dagblaða eða dagblöð án ríkisstjórnar, mundi ég hiklaust velja síðari kostinn.”

Siðfræði blaðamennskunnar.

Nokkur dæmi um bandaríska blaðamenn.
Mary McGrory dálkahöfundur sagði: “Engin mikilmenni hringja í mig. Viltu vita hverjir? Tapararnir. Þeir hringja. Ef þú vilt losna við blýnámur. Ef þú vilt vernda börn gegn ofbeldi, heimskum lögum og dómurum, þá hefurðu símanúmer mitt.”

Clifford Levy (NYT) sagði, þegar hann fékk Pulitzer fyrir greinar um geðsjúka: “Þetta var hefðbundið dæmi um að gæta þeirra, sem ekki geta gætt sín sjálfir.” Flestir blaðamenn, sem skipta máli, hafa áhyggjur af misbeitingu valds, valdníðslu.

Blaðamaðurinn veit, að lýðræði er við góða heilsu, þegar fólk fær að vita um, hvað forstjórar stórfyrirtækja og ríkisvalds hafa fyrir stafni. Aðeins með nægum upplýsingum getur fólk veitt valdamönnum aðhald. Valdamenn vilja hins vegar vera í friði.

Jack Fuller við Chicago Tribune sagði: “Aðaltilgangur blaðamennsku er að segja sannleikann, svo að fólk hafi nægar upplýsingar til að vera fullvalda.” Walt Whitman sagði: “Ekki líður sá dagur, að harðstjórn geti ekki borist hingað.”

Sjálfstraust óheflaðra og ögrandi blaðamanna vekur reiði og andúð. Næturverðir almennings eru undir eftirliti og sæta árásum fyrir uppljóstranir sínar. Ef sannleikurinn er ekki fagur, líkar mörgum ekki við það, sem blaðamaðurinn segir. Fólk hafnar skrifunum.

Í þessari kennslubók er litið á blaðamennsku sem þjónustu við samfélagið, af því að hún uppfyllir þarfir fólks með því að láta það hafa upplýsingar, sem það þarf að hafa til að geta tekið ákvarðanir. Við erum arftakar Charles Dickens.

Charles Dickens (18121870) gaf út fréttablað. Hann heimsótti hæli fyrir munaðarleysingja, skrifaði um heimilislausar konur. Hann gekk um göturnar og lýsti því, sem hann sá. Hann var fyrsti þekkti rannsóknablaðamaðurinn.

Þegar Albert Camus tók við nóbelnum, sagði hann: “Hver sem vanmáttur okkar er, mun göfgi starfs okkar alltaf eiga sér rætur í tveimur boðorðum, sem erfitt er að fylgja: að neita að ljúga um það, sem við vitum, og veita andspyrnu gegn kúgun.

Góður blaðamaður sættir sig ekki við yfirborð fréttanna. Hin knýjandi skylda blaðamannsins er að grafa upp sannleikann. Ralph M. Blagden sagði, að ekki væru til neinar tegundir blaðamennsku, það sé aðeins til rannsóknablaðamennska.

Ben Bradlee, ritstjóri Washington Post, sagði um Blagden: “Ralph kenndi mér að vera ósáttur við svör og óþreytandi við spurningar. Hann kenndi mér að koma auga á fauta og veita þeim andspyrnu. Hann kenndi mér þolinmæði og sólarhringsvinnu.”

Undirstöðuregla frétta:
Hver (gerði, sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?
Hefðbundin blaðamennska gerir ráð fyrir, að fréttir svari öllum þessum spurningum. Sjónvarp svarar þó oft ekki öllum.

Allt byrjar með fréttamanninum. Ritstjórar geta verið góðir og staðið sig vel í tímahraki. En geta ekkert, nema fréttir komi í hús.

Dagur fréttamanns:
1. Hringja daglega í fasta heimildamenn sína til að afla sér hugmynda að fréttum.
2. Vera á morgunfundi með þrjú eigin mál og skrifblokk.
3. Vera með málin klár á fundinum: Fólk, fókus og fyrirsögn.
4. Hugsa í burðum. Mistök fara í undirstrik. Eða í eindálka.
5. Breyta fólki, fókusi og fyrirsögn eftir því sem efni vinnst.
6. Vera í samráði við fréttastjóra, efnisstjóra, vaktstjóra.
7. Velja myndapantanir áður en farið er að skrifa texta. Mjög algengt er að kunna þetta ekki.
8. Efni er skrifað út frá fyrirsögn og fókusi, ekki öfugt.
9. Vera búinn að afgreiða sín mál fyrir kvöldmat.
10. Nota segulbandstæki í öllum viðkvæmum samtölum. Þetta er sérstaklega mikilvægt á Íslandi.

Blaðamaður þarf að vera heilsteyptur (hinir fari í PR, spuna), forvitinn (hafi áhuga á öðru fólki og högum þess), nákvæmur (1,3 verði ekki að 13, kennarafélag verði ekki nemendafélag), vinnusamur (manískur), óháður, áreiðanlegur, rækilegur.

Siðareglur
Neðangreindur listi varð til úr margra ára vinnu bandarískra blaðamanna. Hugsar siðareglur upp á nýtt með tilliti til þarfar á auknu trausti.
1. Blaðamennska veitir fólki upplýsingar, sem gera það frjálst:
2. Skuldbinding hennar er fyrst og fremst við sannleikann.
3. Hollusta hennar er við borgarana.
4. Eðli hennar er leit að staðfestingum.
5. Hún er sjálfstæð gagnvart þeim, sem fjallað er um.
6. Hún er óháður vaktari valdsins.
7. Hún er torg gagnrýni og málamiðlana.
8. Hún reynir að gera það mikilvæga áhugavert og viðeigandi.
9. Hún er víðtæk og í réttum hlutföllum.
10. Hún má beita eigin samvisku.

Thomas Jefferson: “Ef ég mætti velja um, hvort við hefðum ríkisstjórn án dagblaða eða dagblöð án ríkisstjórnar, mundi ég hiklaust velja síðari kostinn.”

Sjá nánar:
Melvin Mencher, News Reporting and Writing, 10. útgáfa 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé