Gröftur II

Fréttir
Gröftur II

Þegar George W. Bush lét taka mynd af sér á flugvélamóðurskipi með borða í baksýn, þar sem stóð “Sigur unninn”, var hann að nota sér þörf sjónvarps fyrir myndefni. Þetta var “mesta leikhús í sögu Bandaríkjanna,” sagði E. Bumiller.

Elizabeth Bumiller hjá New York Times segir einnig: “Ríkisstjórn Bush er komin langt fram úr leikrænum tilþrifum á vegum Ronald Reagan. Hún notar tækni sjónvarps til að auglýsa forseta öflugar en nokkru sinni áður hefur verið gert.”

Menn voru ekki svona snjallir í gamla daga. Þegar reynt var að milda ímynd Nixon í samanburði við Kennedy, var hann sýndur í sjónvarpi í göngutúr á ströndinni og starði út á haf. En hann var í jakka og támjóum skóm á ströndinni.

Ein aðferð stjórnvalda við að stýra miðlum er að setja á loft blöðrur, þar sem nafnlausar “opinberar heimildir” viðra ákvarðanir fyrirfram. Viðbrögðin við fréttunum eru metin, áður en ákvörðun er tekin. Ábyrgðin lendir hjá miðlinum.

Flóknir atburðir eins og útgáfa fjárlagafrumvarps fara fram á fundum, þar sem nafnlausir embættismenn skýra málið “offtherecord” og eru svo áfram nafnlausir, þegar kemur í ljós, að skýringarnar passa ekki við staðreyndir eða eru óvinsælar.

Ráðamenn halda blaðamannafundi rétt fyrir lokun frétta, svo að erfitt sé fyrir blaðamenn að bera fullyrðingar fundarins undir stjórnarandstæðinga eða undir óháða sérfræðinga. Hljóðbitinn fyrir sjónvarp er settur fram á réttu andartaki.

Blaðamönnum er skipt í virðingarhópa. Gæludýr fá betri aðgang en aðrir blaðamenn, fá einkaviðtöl við mikilvægar persónur, af því að talið er, að þeir muni fara mýkri höndum um þær. Viðkomandi miðill freistast til að taka þátt í leiknum.

Ráðamenn stimpla oft gögn sem mikilvæg fyrir öryggi ríkisins, þótt þau varði öryggi ríkisins ekki neitt. Þetta er gert til að hindra, að viðkvæm mál komist í dagsljósið.

Ráðamenn leka oft upplýsingum í sína þágu, þegar þeir hafa áhyggjur af, að ákveðnar fréttir hafi tekið óþægilega stefnu. Með þessu reyna þeir að stýra umfjöllun fjölmiðla af fyrri braut yfir á nýja braut.

Bensman og Lilienfield segja, að gervimennska í þjóðmálum ríði húsum: “Af þessu leiðir, að fólk fer að vantreysta því, sem það sér, og felur sig í áhugaleysi, tortryggni, hlutleysi, vantrausti á fjölmiðlum og opinberum stofnunum.”

Umboðsmaður neytenda í Chicago sýndi fram á, að neytendur væru blekktir í fréttatilkynningum, sem fjölmiðlar tóku við og birtu. Með léttum útreikningi hefðu fjölmiðlarnir getað hafnað tilkynningunum, en þeir reiknuðu ekki.

Internetið jafngildir ekki uppsláttarritum sem heimild. Í vönduðum bókum eru allar upplýsingar sannreyndar, en á netinu getur ónákvæmni vaðið uppi. Því ber að taka með varúð öllum upplýsingum á netinu.

Þegar blaðamenn leita, eru þeir komnir á 2. stig blaðamennsku. Þegar þeir taka við tilkynningu á fundi, eru þeir á 1. stigi. Þegar þeir spyrja á fundinum, eru þeir á 2. stigi. Þegar fundarboðandi svarar þeim ekki, er aftur komið á 1. stig.

Blaðamaðurinn, sem segir, að innkaupastofnunin hafi keypt bílaflota, er á 1. stigi. Ef hann leitar í skjölum og kemst að því, að ekkert útboð fór fram, er hann kominn á 2. stig.

Þegar embættismaður í borg á samdráttartíma mælir með áætlun, sem hann segir munu auka atvinnu, spyr blaðamaður hann um smáatriðin. Svo sannreynir hann staðreyndir embættismannsins, kannar hvernig hliðstætt mál hafi farið í annarri borg.

Óteljandi fréttir hafa birst í fjölmiðlum um áætlanir, sem áttu að gera stóra hluti, en leiddu ekki til neins. Blaðamenn fjalla um áætlanir og annan góðan vilja stjórnmálamanna, en kanna ekki nógu vel, hvort þetta sé ígrundað eða ekki. Peningarnir til HÍ.

Með því að fara á 2. stig tekur blaðamaðurinn stýringuna af heimildinni. Hann grefur upp staðreyndir. Internetið og gagnabankar eru hjálpartæki nútímans í þeirri vinnu. Þegar dýpst er grafið, er vinnan kölluð rannsóknablaðamennska.

Rannsóknablaðamennska skilgreind: Þegar gröftur blaðamanna á stigi 2 leiðir í ljós rangindi eða brot eða siðleysi, þegar þessi gröftur skiptir máli fyrir notendur fjölmiðla og þegar reynt er að fela eða halda þessum atriðum leyndum.

Sydney Schanberg segir: “Rannsóknablaðamennska er skósólavinna. Þú ferð úr húsi, hringir dyrabjöllum, talar við fólk. Þú situr ekki á afturendanum á kontórnum. Þú ferð heim til fólks og lætur skella hurðinni í andlitið á þér.”

Ein heimild leiðir til annarrar. Þú nærð kannski tökum á málinu, er þú ert búinn að ná sjöundu heimild. Þú veist, að þú ert með allt, þegar allt, sem þú fréttir, eru atriði, sem þú ert búinn að heyra áður, og nýjar heimildir bætast ekki við.

Við getum kallað það rannsóknablaðamennsku, gagnabankablaðamennsku, holugröft, djúpfréttir og eigum við fréttir, sem taka langan tíma í vinnslu, eru gegn vilja hagsmunaaðila, forðast yfirborðsmennsku, fréttir Bob Woodward og Carl Bernstein.

Allar leiðbeiningar um meðferð venjulegra frétta gilda af tvöföldum þunga í djúpfréttum. Mistök í slíkum fréttum hafa alvarlegri afleiðingar en mistök í venjulegum fréttum. Þetta eru langar fréttir með langri skýringu í inngangi.

Gott er kljúfa þessar fréttir, taka úr þeim kafla og setja í sérstaka ramma. Gott er að nota gröf til að skýra þær. Gott er láta þær ná í hring og láta endann vísa til upphafsins. Grundvöllur þessara frétta eru rannsóknir, skipulag, nægur tími.

Því miður hafa þrengst tækifæri til rannsókna. Yfirmenn á ritstjórn kvarta um tímaskort. Og reynslan af viðbrögðum almennings er ekki nógu góð. Því meira sem New York Times og Washington Post upplýstu, því hraðar minnkaði álitið á þeim.

Í Bandaríkjunum er þó almennt stuðningur við rannsóknablaðamennsku, af því að þar er í almenningsálitinu vantrú á kerfum af öllu tagi. Á Norðurlöndum er lítið um rannsóknablaðamennsku, af því að almenningsálitið telur kerfin almennt vera góð.

Þótt rannsóknablaðamennska sé faglega séð hástig blaðamennsku, hlýtur tilvera hennar að vera háð fylgi hennar meðal almennings. Ef margt fólk hafnar aðferðum hennar og vill láta satt kyrrt liggja, verður hún óhjákvæmilega minna notuð.

Ef fólk kennir sögumanni um ótíðindin, telur fjölmiðla og blaðamenn skitna af því að fjalla um skítug mál, er fólk ekki á því þroskastigi, að rannsóknablaðamennska sé almennt framkvæmanleg á öllum fjölmiðlum. Hún verður sérgrein þeirra ósvífnu.

Í bandarísku stjórnarskránni er hvergi fjallað um rétt fólks til að fá að vera í friði fyrir fjölmiðlum, bara um rétt þess til að fá að vera í friði fyrir ríkisvaldinu. Þar er hins vegar talað skýrum orðum um óskorað prentfrelsi.

Upp á síðkastið hafa einstaklingar þar og raunar á Íslandi líka kosið að túlka þetta sem svo, að einnig sé átt við, að fólk eigi að fá að vera í friði fyrir fjölmiðlum. Dæmi um það er, þegar Dómstólaráð strikar út mannanöfn í birtum dómum á netinu.

Í Bandaríkjunum er ekki talið, að opinberar persónur hafi einkalíf, frægðarfólk, stjórnmálamenn, embættismenn. Deilt er um, hverjir falli undir þetta og hverjir ekki. Sumir segja, að tuttugu ára gamlar syndir eigi ekki að elta pólitíkusa.

Jeremy Boorda, aðmíráll í bandaríska hernum skaut sig til bana 16. maí 1996, þegar hann sá fram á, að Newsweek mundi birta frétt um, að hann bæri illa fengin heiðursmerki. Sumir sökuðu Newsweek, en flestir töldu Boorda ábyrgan eigin gerða.

Í Bandaríkjunum er talið eðlilegt, að fjölmiðlar kanni, hvort rétt sé staðið að málum hjá einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum. Hér á landi ríkir meiri efi um, hvort rétt sé að velta við steinum, ef það kostar vandræði og sárindi.

Blaðamenn, sem hafa reynst geta lýst raunveruleikanum undir yfirborðinu, eru hvattir til að stíga upp á 3. stig, segja notendum miðilsins, hvernig hlutirnir gerðust, hvers vegna og hvað muni gerast næst. Þeir túlka og skýra fréttina.

Þegar Seattle Times hafði upplýst lágt verð á sölu verndaðs skóglendis, lagði blaðið fram sjö tillögur um endurbætur í stjórnsýslu ríkisins, þar á meðal, að ríkið beitti alltaf útboðum í viðskiptum sínum við aðra aðila.

Almennt er 3. stigs blaðamennska orðin viðurkennd. Sum blöð og sumar stöðvar telja hana samt hættulega og ráða frá henni. Hættur eru á ferðinni á þessu sviði, en ekki meiri en í annarri blaðamennsku. Kostirnir eru meiri en hætturnar.

Almannatengill segir blaðamanni staðreynd 1,2 og 3. Blaðamaður spyr og fær staðreyndir 4,5 og 6. Ný þemu koma í ljós, 7,8 og 9. Blaðamaður grefur upp 10 og 11. Niðurstaðan varð frétt, sem felur í sér staðreyndir 3,5,7,10,11.

Nokkrar verklagsreglur:
1) Vertu viðbúinn nýjum fréttum með því að fylgjast með þróun mála í samfélaginu.
2) Saga er að baki allra atburða. Mundu, að afsögn Nixons hófst á litlu innbroti.
3) Berðu öll nöfn saman við símaskrána, þjóðskrána og bókasafn þitt.
4) Eltu peningana. Finndu hvaðan þeir komu, hvert þeir fara og hver stýrir þessu.
5) Efastu um valdamenn. Titlar og gráður gera fólk ekki fullkomið.
6) Gerðu ekki sjálfkrafa ráð fyrir neinu. Gleymdir eru þeir, sem töldu keisarann vera í fötum. Við munum eftir barninu, sem benti á, að hann var ekki í neinu.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé