Greinar

Textastíll
Greinar

Hörð frétt marsérar hratt gegnum hvergerðihvað og horfir hvorki til hægri né vinstri, tínir upp nóg af smáatriðum til að gefa lesendum skýra mynd. Í greinum er fréttaeðlið hins vegar komið niður í annað sæti í forgangsröðinni.

Í stað fréttar eru komin: Mannlegur áhugi, hugarástand, andrúmsloft, tilfinningar, háð, gamansemi. Greinar reyna að færa lesendum gleði og skemmtun til viðbótar við frétt og stundum í staðinn fyrir frétt.

Greinar ná frá uppskriftadálki og Týnda hundi vikunnar til magnaðra fréttaskýringa, sem varpa ljósi á menn og atburði, gefa sjónarhorn, skýra og túlka málefni, skrásetja breytt viðhorf og segja fólki frá fólki.

Þar sem greinar eru ekki eins hlekkjaðar við líðandi stund og fréttirnar eru, hafa blaðamenn yfirleitt betri tíma til þeirra. Þann tíma þarf að nota á agaðan hátt. Sumir nota hann til að hlaða lýsingarorðum og öðrum aðskotaorðum í textann.

Ef þér finnst þrá eftir skrauti vera að koma yfir þig, skaltu leggjast fyrir og bíða eftir, að hún líði hjá. Sterk greinaskrif eru einföld, skýr, skipulögð og laus við erfiðismuni í stílbrögðum, sem dreifa athyglinni frá málsefninu.

Flestar fréttir fylgja föstu formi. Greinar fljóta hins vegar frekar frjálst í forminu. Blaðamaðurinn getur nálgast grein á ýmsan hátt. Það veitir færi á hæfileikum og ímyndunarafli, en felur líka í sér gildrur, einkum í innganginum.

Aldrei er neinn vafi á markmiði fréttar, inngangurinn segir hann. Í greinum er líklegra, að aðalatriðinu sé frestað. Þú þarft ekki að segja allt í tveimur fyrstu málsliðunum. En lesendur þurfa að fá að vita nóg til að nenna að lesa.

Ef þú felur aðalatriðið of langt að baki örsögu, lýsinga og andrúmslofti, pirrar þú lesendur frekar en að freista þeirra. Þeir hætta við að lesa áfram og öll vinna þín er fyrir gýg. Dæmi um upphaf greinar um heimili fyrir þroskahefta:

“Komdu inn, kvöldmaturinn verður til eftir mínútu. Gunna er að elda kvöldmat. Þú getur heyrt í henni í eldhúsinu að tala við Siggu, sem stjórnar. Þetta er rödd Gunnu, hún er að segja Dóru að passa, að engin eggjaskurn fari í skálina.” Geisp

Ferðasögur byrja oft á köflum úr ferðabæklingum: “Mjói vegurinn, sem þræðir til austurs undir Búlandshöfða frá Ólafsvík til Stykkishólms hefur verið kallaður mesta útsýnisleið landsins. Til norðurs velta hvítfextar öldur …”

Þessi saga er full af þvaðri um “útsýnisleið”, “hvítfextar öldur”, “stormskafna eyju”, “harðgerðar jurtir” og “sjaldgæfa fugla”, orð sem sjálfkrafa eru notuð í ferðabæklingum við slík tækifæri.

Einkenni greinar, sem þjáist af vatnsskorti, er oft, að hún byrjar á hinu almenna áður en hún fer í hið sértæka. Betra er að fara hina leiðina, byrja á sértæku og fara þaðan yfir í almennt. Breiður pensill er leiðigjarn í upphafi.

Byrjaðu á örsögu um einstakling eða fjölskyldu, sem segir frá einhverju, sem er áhugavert. Það grípur lesandann og fær hann til að halda áfram og lesa um það, sem er almenns eðlis. Það er fráhrindandi að byrja á fróðlegum vandamálum.

Gott upphaf: “Við byrjum á svipaðri lýsingu tveggja manna með tveggja alda millibili. Annar sagði: “Hann hefur reist ógrynni af skrifstofum og sent þangað fylkingar af embættismönnum til að hrella fólk og éta það út á gaddinn.”

Hinn sagði: “Ríkisstjórnin gerir mig brjálaðan. Eyðublöðin eru svo flókin, að ég þarf að kalla í endurskoðandann á 5.000 krónur á tímann og í lögfræðinginn á 11.000 krónur á tímann, bara til að fá þýðingu á innihaldinu.”

Í tveimur málsliðum er gefið í skyn, um hvað sagan snúist. Forvitnin er vakin og menn vilja vita, hverjir þessir tveir menn voru, hvernig þetta gerðist og hvers vegna. Frá því er sagt í 8.500 orðum, en einhvern veginn verður að fanga lesendur strax.

Fréttasagan byrjar á atburði, greinasagan byrjar á hugmynd. Hún er skoðuð og endurskoðuð. Við vitum ekki alveg, hvert hún leiðir okkur. Hún getur farið inn á óvæntar brautir. Þeir, sem leggja af stað með forskrift, verða oft að rífa hana.

Forskrift hindrar þig á tvennan hátt. Hún takmarkar öflun staðreynda við þau atriði og þær heimildir við það, sem ákveðið var í upphafi, og heldur þér frá betra sjónarhorni. Og þú missir af betri sögu og skekkir því veruleikann.

Hafðu áætlunina lausa í reipunum fyrst. Fyrst verður þú að kasta netinu víða. Þú veist þá ekki, hvaða fjársjóði er að finna. Þegar þú ert kominn með þema í huga, geturðu farið að þrengja efnisöflunina niður í það, sem þú þarft að nota.

Hugh Mulligan: “Mér finnst gagnlegt að skrifa niður tilfinningar, lýsingar og hugrenningar um það, sem ég sé eða heyri, einkum af því að ekki er víst að ég finni til þessa aftur, þegar ég sest við skriftir. Ég skrifa nótur endalaust …”

En gættu þín. Þú ert að skrifa um verkfræðing og kemst að raun um, að móðir verkfræðingsins hefur sálræna reynslu frá kastala í Skotlandi. Þú sleppir því. Þú segir hins vegar örsögu um einbeittan verkfræðing, sem vinnur allar nætur.

Val á örsögum er helvíti greinarhöfundarins. Yfir vofir skortur á plássi og tíma. En sköpunarmáttur er ekki afleiðing frelsis, heldur afleiðing baráttu frelsis og ögunar. Sannur listamaður getur málað jafnt á lítinn striga sem stóran.

Menn lenda oft í vandræðum, af því að þeir láta greinina spanna of vítt svið. Betra er að takmarka sig, þrengja sjónarhornið niður í það, sem er viðráðanlegt efni í eina grein á þeim tíma og í því plássi, sem er til umráða.

Tímaröð er einfaldasta grind greinar, oft áhrifamikil, einkum þegar fjallað er um viðamikið efni. Tímaröðin er þó oft tempruð, byrjað í miðjum atburði og síðan farið aftur í tímann, jafnvel fram í tímann líka, til dæmis gefið í skyn, hvað sé handan við hornið.

Grind greinar þarf ekki að vera flókin. Þú getur byggt á meira eða minna samtengdum sviðsetningum, með millifærslum eða án þeirra, þar sem hvert svið lýsir mikilvægum atburði. Minnisbók blaðamannsins er þægilegt afbrigði óformlegt.

Í minnisbókinni eru margslungin atriði, sem sýna ýmis sjónarhorn á aðstæðum eða atburði. Árangurinn fer eftir athyglisgáfu og góðum smáatriðum. Perlur greinarinnar eiga að vera hver annarri skyldar. Þú ert ekki að hreinsa háaloftið.

Ekki blanda sjálfum þér í greinina, nema um sé að ræða persónulega reynslu, til dæmis hættulegan sjúkdóm. “Ég” er ekki nauðsynlegur hluti greinar. Hæfir höfundar ná sama árangri með stíl, tón, háði, fyndni og myndsterku orðavali.

Mannlýsingar eru algengar tegundir greina, allt frá örfáum málsgreinum upp í 2000 orða úttektir. Fylltu þær ekki af hefðbundnum staðreyndum, þær eiga heima í minningarorðum. Legðu heldur áherslu á það sérstaka, sem greinir hann frá öðrum.

Þegar sagt er frá fólki í fréttum, er gott að einbeita sér að hæfileikum, sem leiddu til þess, að það er í fréttum. Reyndu að finna örsögur, beinar tilvitnanir og staðreyndir úr bakgrunni, sem geta varpað ljósi á það.

Erfiðar eru mannlýsingar í viðtölum við frægðarfólk. Það stafar af, að frægðarfólk er mjög sjálfhverft og meðvitað um fjölmiðla, alltaf að hugsa um ímynd sína. Það hefur stöðluð svör við öllu og vefst annars tunga um tönn.

Frægðarfólk er raunar lifandi klisjur. Leið framhjá því er að fá það til að tala um áhugamál, til dæmis leiktækni. Það er oft vanrækt í viðtölum. Með réttum hætti er hægt að fá frægðarfólk til að tala eins frjálslega og annað fólk.

Erfiðast er frægasta fólkið, sem hefur almannatengla, blaðafulltrúa og aðra hjálparmenn, sem ýta að þér marklausri froðu. Til að kynnast slíku frægðarfólki þarf oft að finna fólk, sem hefur kynnst því á lífsleiðinni.

Ef þú hefur auga fyrir kímni, háði og kannt að fara létt með það, ertu í góðum málum. Greinar eiga meðal annars að gleðja fólk, ekki bara að fræða það. Léttur stíll er oftast viðeigandi, millileið þungs stíls og brandarastíls.

Greinar blómstra í lit, tilbrigðum, visku, tilfinningum, samtölum og skapgerð. Greinahöfundar hafa eins og aðrir höfundar mörg bókmenntavopn í farteskinu til að hreyfa við tilfinningum lesenda. En því fylgir ábyrgð. Grein þarf að vera rétt.

Þegar þú segir í grein, að eitthvað hafi gerst, verður það að hafa gerst á þann hátt nákvæmlega. Þú getur fiktað við orð, en það er ekki til neitt sem heitir skáldaleyfi í greinum blaðamanna. Segðu það upphátt á hverjum morgni: “Ekkert skáldaleyfi er til”.

Nákvæmni og sanngirni eru ekki alltaf áþreifanleg. Gættu þín í vali á smáatriðum, sem geta gefið ranga mynd af umræðuefninu, vali á lýsingarorðum og jafnvel í vali á leiksviði. Hér er ekki talað um jafnvægi, heldur um sanngirni.

Greinahöfundar verða eins og aðrir blaðamenn að vita, að lífið er fjölbreytt, að tilgangur er oft vandfundinn, að siðferðilegt mat er utan verksviðsins, að einhliða mannlýsing er verri synd en aðrar slappar aðferðir.

Í AP-bókinni eftir Cappon eru nokkrar greinar, sem sýna góða greinahöfunda að verki.
Hal Boyle: Líf og dauði í fjósinu.
Jules Loh: Stóri Six Henderson.
Jerry Schywartz: Alhliða góður gaur.
Sjá heimildaskrá.

Greinar
Í stað fréttar eru komin: Mannlegur áhugi, hugarástand, andrúmsloft, tilfinningar, háð, gamansemi.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé