Greinar II

Fréttir
Greinar II

Alls konar aðferðir eru notaðar við greinar. Stundum eru þær bara tilvitnanir, þar sem persónunar segja sjálfar alla söguna. Algengara er að nota bíóaðferðina, segja sögu eins og kvikmyndavél, sem súmmar fram og aftur, milli víðs og þröngs.

Við tölum um tón og stíl í greinum. Við þurfum mismunandi tóna, einn fyrir sögu um klassískan gítarista og annan fyrir poppaðan gítarista. Tónninn er valinn með því að velja staðreyndir, tilvitnanir, myndir, orða, lengd málsgreina, málsliða.

Enginn þreytist á að heyra um ást, fé og ofbeldi: “Hjá dr. Edward Gordon fólst ástin í að þurfa aldrei að segja, að sig skorti fé. Fyrir sex árum kvæntist hann sjúklingi upp á 8 milljón dollara. Hún hét Elizabeth Buffum og var alkóhólisti.”

Hugmyndir eru alls staðar á ferli. Smáauglýsing segir: “Sá sem keypti litla hvíta krukku með bláum blómum á bílskúrssölu minni, er beðinn um að hringja. Í krukkunni eru jarðneskar leifar ástkærs ættingja.”

Líttu á stúdentana á kaffistofunni. Um hvað eru þeir að tala. Eru þeir að rífast. Hlustaðu á. Móður eins líkar ekki við vinkonuna. Önnur segist ekki falla í kramið í skólanum, ég er ekki vinsæl, segir hún. Hugmyndir eru alls staðar á floti.

Ekki reyna að skrifa gamansama grein. Það er fáum gefið. Gamansemi er sú tegund greina, sem erfiðast er að skrifa. Ef þú gerir það, skaltu ekki rembast of mikið, áreynslan sést í gegn.

Jarðsprengjur á leið til góðrar greinar:
1) Ofskrifun. Rembst er við að ná ákveðnum áhrifum, oft á of litlum heimildum.
2) Ofhleðsla. Ein örsaga eða ein tilvitnun nægir til að lýsa hverju atriði.
3) Viðfangsefni. Vertu ekki að hugsa um, hvernig viðfangsefnið taki sögunni.
4) Bakgrunnur. Ekki týnast þar, notaðu aðalatriðin.
5) Hræðsla. Ef viðmælandi talar hressilega, notaðu orð hans.

Nokkrar tillögur sérfræðinga:
1) Góðar sögur koma úr góðum efnivið. Góður efniviður kemur úr góðri öflun heimilda. Það gildir um greinar ekki síður en um fréttir.
2) Fáðu ekki þá ást á tilvitnunum, að þú gleymir að endursegja sumt. Ekki nota tímaröð tilvitnana úr viðtali til að spara þér skipulag.
3) Vertu fyrst klár á því, sem þú ætlar að segja, og á tóninum í því.
4) Fáðu áhuga á efninu. Of mikil hlutlægni heldur lesandanum í fjarlægð, í stað þess að færa hann inn í efnið.
5) Mundu, að það er ekki í þínum verkahring að vera hneykslaður, það er hlutverk lesandans.
6) Vertu viss um, að þú sért með góðan og óvenjulegan fókus, sem vekur áhuga.
7) Ekki segja okkur, þegar þú getur sýnt okkur fólk gera hluti.
8) Forðastu fyrstu persónu. Þær eru ekki eins sniðugar og þú heldur.

Gimsteinar eru smásögur í greinum: ” “Guð tók kirtlana”, sagði strákurinn við mömmu sína á Poole spítalanum. “Þegar ég fór í stóra hvíta herbergið, voru þar tveir hvítklæddir kvenenglar. Svo komu tveir karlenglar inn. Og loks Guð.

“Af hverju veistu það”, sagði mamman. “Annar karlenglanna skoðaði upp í mig og sagði: “Guð minn góður, líttu á kirtlana”. Þá kíkti Guð líka og sagði: “Ég tek þá strax”.

Þótt mikil áhersla sé lögð á að hafa greinar stuttar, koma alltaf öðru hverju fyrir langar greinar í blöðum og heimildaþættir í sjónvarpi. Sum mál eru svo flókin, að þeim verða ekki gerð sómasamleg skil í hefðbundnum efnisþáttum.

Löng grein kostar mikla vinnu, mörg viðtöl, mikið skipulag. Löng grein gerir miklar kröfur til lesanda eða áhorfanda. Hann gefst upp, ef efni og framsetning eru ekki með ágætum.

McPhee fer yfir nótur sínar, finnur helstu þemun, setur þau á indexspjöld og festir spjöldin á töflu. Síðan raðar hann spjöldunum í þá röð, sem efni þeirra verður í greininni. Þetta er eins erfitt og að skrifa söguna, segir hann.

“Ég vil losna við vandamál uppbyggingarinnar fyrst, svo að ég komist í það, sem meira máli skiptir. Þegar uppbyggingin er komin, er aðeins eftir að segja söguna eins vel og hægt er.”

Fjögur skref:
1) Finndu þemun, skilgreindu þau í einni málsgrein eða tveimur.
2) Settu hvert þema á sérstakt indexkort og raðaðu kortunum í rétta röð.
3) Klipptu nóturnar í bunka af þemum og settu þær við sitt þemakort. Lestu þær aftur og raðaðu þeim upp í birtingarröð.
4) Leitaðu í kortunum að höfuðþemanu. Það fer í innganginn og er límið í greininni. Skrifaðu höfuðþemað á sérstakt kort.

Liður 3 kann að leiða í ljós, að það vanti gögn eða dæmi til að styðja sum af þemunum. Þá þarf aftur að safna efni. Hafðu höfuðþemað á hreinu og kastaðu burt því efni, sem ekkert kemur höfuðþemanu við.

Í þessum undirbúningi leita blaðamenn að tilvitnunum og dæmum, sem verða áberandi í hverju þema fyrir sig. Sumt má hafa í upphafi, þegar notaður er frestaður inngangur. Sumir nota litpenna til að merkja tilvitnanir til að finna þær.

Tímaritaformúla tekst á við þann vanda, að þar verða greinar oft langar og óskipulegar. Art Carey segir, að margir höfundar virðist setjast við skriftir án þess að hafa neina áætlun til að skrifa eftir, enga hugmynd um að raða efninu.

Formúla Art Carey er svona:
1) Upphafstexti býr til leiksvið, sem kynnir höfuðpersónu greinarinnar í litríkum aðstæðum, sem varpa ljósi á persónuleika hans eða á viðburðina, sem persónan lendir í.
2) Sölukafli kemur næstur. Hann setur fram forsendur sögunnar, segir frá helstu atriðum hennar og selur lesendum hana með því að freista þeirra með mest spennnandi tilvitnunum og með tilvísunum til þess, sem á eftir að koma.
3) Sölukaflinn segir lesendum líka, hvers vegna sagan sé svo mikilvæg, svo ný eða svo sérstök, að hann þurfi að lesa hana. Hann sannfærir lesandann um, að það sé í lagi að verja 10 mínútum af ævi þeirra í að lesa alla söguna.
4) Bakgrunnkafli er næstur og skýrir, hvers vegna aðalpersónan varð eins og hún er eða hvernig ákveðin staða kom upp eða hvernig ákveðin deila varð til.
5) Nokkrir kaflar lýsa kjötinu í sögunni í smáatriðum í réttri röð.
6) Í lokin er löðrungur, sem pakkar saman dramatík og slær lesandann, segir honum, hvað allur þessi texti hafi þýtt, og skilur hann jafnvel eftir með nýjar hugsanir í kollinum.

Önnur vandamál
1) Of mikið efni er í einu þema. Skiptu því í undirþemu, sem auðveldara er að ráða við. Hugleiddu að klippa eða minnka sum þemu.
2) Þema reynist vera of efnislítið. Blandaðu því inn í annað eða slepptu því.
3) Yfirfærslan úr einu þema í annað er of stirð. Raðaðu þemunum á annan hátt til að fá betra flæði.
4) Langur kafli hreyfist ekki, hindrar flæði greinarinnar. Brjóttu þennan kafla upp og settu efni hans inn á ýmsa staði.

Yfirferð: Debbie Cenziper les greinarnar 3svar:
1) Fyrst til að fá réttan ryþma eða rennsli.
2) Næst til að hugsa sér, hvernig heimildafólk bregðist við.
3) Síðast til að sannreyna staðreyndir.

Lýsing á vinnu Howard Weinberg sjónvarpsmann við rannsókn á lánastefnu banka. Hann aflaði mikils efnis og varð að lokum að taka einn fókus út úr og nota aðeins efni, sem kom honum við. Öllu öðru efni varð að fleygja.

Grundvallaratriði hverrar geinar má alltaf segja í einni málsgrein. David Belsaco segir: “Ef þú getur ekki komið fókus efnisins fyrir á nafnspjaldi, hefðurðu ekki skýra hugmynd um, hver hann er.”

Steve Lovelady segir: “Ég hef ekki enn séð grein, sem ekki má lýsa í 25 orðum eða styttri texta.” Þegar það er búið, er líka búið að setja upp kraftmikinn texta, sem nota má í greininni.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé