Greinar I

Fréttir
Greinar I

“Raunhæft konsept” er söluvaran í Hollywood. Þau verða hins vegar fæst að veruleika. Sama er að segja um hugmyndir blaðamanna um greinarefni. Þeir, sem bara eru vopnaðir konseptum, hafa engin raunveruleg söguefni.

Stundum er hugmyndin of þröng eða of víðtæk. Við því má bregðast með því að beita röksemdafærslu orsakar og afleiðingar, þar sem togast á atburðarás og gagnverkun. Án hjálpar rökhyggju lendir blaðamaðurinn í völundarhúsi og glundroða.

Spekúlasjónir koma aðeins að gagni, þegar lagt er af stað. Á endanum eru það svo atburðir, sem sagt er frá, ekki fyrirfram mótaðar hugmyndir, fordómar eða hleypidómar. Blaðamenn þurfa að vera sveigjanlegir í ljósi staðreynda.

Þegar ritstjórar eru spurðir, hver sé helsti galli handrita, segja þeir: Vont skipulag. Þetta vonda skipulag á vinnu blaðamannsins stafar af slakri hugsun, sérstaklega á fyrstu stigum málsins, þegar áætlanir skipta mestu máli.

Ritstjórar og aðrir efnisstjórar verða oft að umskrifa texta, af því að þemað var óljóst í handritinu, fókusinn var ekki skýr, frásögnin ruglingsleg. Þeir neyðast til að vinna það, sem blaðamaðurinn átti að gera.

Aðalþemað fer eftir því, hvort um er að ræða unga eða gamla sögu, nýja sögu eða sögu, sem áður hefur að einhverju leyti verið sögð. Í ungri sögu er aðalatvikið sjálft þemað, en í gamalli sögu felst þemað í áhrifum atviksins og gagnverkunum.

Tónn í frásögn getur verið rangur. Þegar sagt er frá Boston Strangler er ekki viðeigandi að láta aðalþemað vera, að verra en áður sé að stunda sölumennsku með því að hringja að dyrum. Þá er sorgaratburði breytt í kaupsýslufrétt.

Algengara er, að yfirleitt vanti tón. Lausn við því er að líta augum rithöfundar á viðfangsefnið, hafa augun opin fyrir gleðileik og sorgarleik, háði eða spennu, sem finnst í því efni, sem safnað hefur verið um málið.

Þegar búið er að girða af söguna og finna, hvað er innan girðingar, þarf blaðamaðurinn að gera sér grein fyrir að segja söguna á fullnægjandi hátt innan girðingarinnar. Þar koma við sögu: Umfang, staðsetning, fjölbreytni, nánd.

Lesendur elska hreyfingu. Blaðamaðurinn getur ekki búið til hreyfingu, ef hún finnst ekki. Ef hún er til, þarf hann að sjá hana og opinbera hana fyrir lesendum.

Góðir sögumenn verða að hafa kjark. Sumum blaðamönnum mistekst, af því að þeir telja sig vera lögmenn eða fræðimenn eða staðreyndamenn, misskilja hlutverk sitt. Öðrum blaðamönnum mistekst, af því að þeir eru lamaðir af ótta.

Skelfingin við greinaskrif er sjúkdómur, sem sífellt þarf að kveða niður. Menn eru ekki að semja boðorðin tíu eða stjórnarskrána. Þeir eru að segja sögu, kannski sögu af ketti, sem bjargaðist úr sökkvandi skipi. Það er nóg.

Mikilvægi langra greina hefur aukist í blaðamennsku. Þær munu ekki leysa öfugu píramídana af hólmi, en ryðja sér til rúms við hliðina. Blað með engum fréttum, aðeins greinum, mundi ekki lifa lengi. Greinar eru dessert, ekki aðalréttur.

Greinar eru oft léttari og skemmtilegri en fréttir. Þær gefa meira svigrúm í tungumáli. Þær eru ekki háðar birtingartíma. Um þær gilda sömu siðareglur um hlutlægni og sannleika og um fréttirnar. Þær fjalla um ýmis áhugamál fólks.

Láttu textann sýna, ekki segja frá. Færðu þig nær persónum og stöðum og dragðu persónur strax inn í söguna. Aflaðu heimilda víða og staðfestu heimildirnar. Segðu eina gamansögu eða dæmisögu, eina tilvitnun. Mundu eftir aukaatriðunum.

Greinar eru skrifaðar til að skemmta og fræða. Höfundur lætur gerðir og orð sögufólks bera söguna áfram. Langar greinar fræða lesendur um flókna hugmynd eða aðstæður. Raðir greina fjalla um mál, sem eru of flókin fyrir eina grein.

Greinar hafa alltaf verið umdeildar eins og hlutabréf í námum í Kanada. Richard Draper sagðist aðeins nota greinar í NewsLetter, þegar skortur var á fréttum. Greinar hafa samt lengi verið mikilvægur þáttur í blaðamennsku.

Þegar Pulitzer og Hearst börðust um upplag í New York um aldamótin 1900, voru greinar mikilvægt vopn. Sögur af glæpum, íþróttum, fínimönnum og vísindum, oft krydduð með æsilegum dauðsföllum, sumum ímynduðum, fylltu dálka dagblaðanna.

W.A. Swanberg skrifaði um blöð Hearst: “Þau voru skemmtun og æsingur í prentuðu formi, hliðstæð sprengjuárásum, lúðrasveitum, flugeldum, örvæntingarópum, fánaborgum, fallbyssudrunum, dansi óspjallaðra meyja, lífláti glæpamanna.”

Þetta var kallað gula pressan. “Hún er eins og öskrandi kona, sem hleypur niður götuna, skorin á háls.” Á þessum tíma voru sögurnar langar af dramatík lífsins í stórborg, en stuttar af staðreyndum. “Við setjum kött í öll sjóslys.”

Enn blakta greinar í fjölmiðlum, en þær eru öðru vísi núna. Ritstjórar hafa fyrir löngu uppgötvað, að það er ekki skylda að vera leiðinlegur, það varðar ekki við lög að vera skemmtilegur. Það eru mannlegu þættirnir, sem göfga blaðamennsku.

Í Froskunum leggur Aristófanes þessi orð í munn Evrípedesar: “Ég gerði leikhúsið lýðræðislegt. Ég setti líf hversdagsins upp á svið, sagði hvernig við lifum.” Þetta er ágæt lýsing á greinum í fjölmiðlum nú á tímum.

Fréttamaðurinn segir þér, að brúin hafi fallið og hversu margir bílar farið með. Greinahöfundurinn segir þér, hvernig var að vera á brúnni: “Þegar Joe Smith fór út á brúna, byrjaði hún að rugga og hann greip í handriðið.”

Greinar voru lengi að endurheimta virðingu sína í Bandaríkjunum. Það var ekki fyrr en 1979 að opnað var fyrir Pulitzer verðlaun fyrir greinaskrif í blöðum. Lisa Pollak hjá Baltimore Sun fékk þau fyrir sögu af andláti sonar boltadómara.

Greinar fjalla sumar um sorg, aðrar um gleði. Blaðamaður vill vita, hvernig börn fá pening fyrir Marsbar. Hann stendur við sjoppurnar og spyr börnin um það. Hann fattar, að börn eru í 9000 króna strigaskóm og skrifar grein um það.

Sumir blaðamenn segja, að auðveldara sé að skrifa greinar en fréttir. Þeir gera ekki nægar kröfur til sín. Greinar eru frjálsari en fréttir og kalla á meira frumkvæði blaðamannsins. Lesendur gera líka meiri kröfur til greina en frétta.

Leiðbeiningar:
1) Sýndu fólk gera hluti.
2) Láttu það tala.
3) Sláðu úr frekar en í.
4) Láttu söguna hreyfast.

Til að láta fólkið í sögunni hreyfa hana áfram, þarf blaðamaðurinn að hafa auga fyrir hreyfingunni og viðeigandi tilvitnunum. Hann þarf að finna upphaf að greininni og hafa nokkrar góðar tilvitnanir.

Lena H. Sun hjá Washington Post lýsir kínverskum leikskóla: “Það er frítími í Tongren leikskóla. Þriggja ára börn eru í boðhlaupi á vellinum og kennarinn kallar reiðilega í eina stúlkuna: “Þú hljópst ekki á strikalínunni.”

Elizabeth Leland hjá Charlotte Observer byrjaði fræga grein svona: “Gene Cheek var tólf ára, þegar dómarinn tók hann frá mömmu sinni. Það var á mánudegi, 18. nóvember 1963. Gene man, að hann var tendraður, þurfti ekki að fara í skólann.”

Frank Barrows hjá Charlotte Observer: “Þótt grein sé ekki skrifuð til að vera skorin að neðan eins og frétt, er samt ekki hægt að skrifa hana einhvern veginn. Ef hún á ekki að vera froða, þarf að undirbúa hana vel og skipuleggja.

Til dæmis viltu kannski ekki koma öllum æviþáttunum fyrir á sama stað, heldur setja þá inn hér og þar eftir efnum og ástæðum.” Þetta eru oft leiðinleg atriði, sem mundu klippa textann, ef þau væru öll á einum stað.

Annar galli hjá nýjum blaðamönnum er að byrja greinina of letilega eins og þér séu að þreifa sig áfram í leit að þemanu. Barrows segir: “Of oft lætur blaðamaður fólk ekki vita nógu snemma, um hvað hann er eiginlega að skrifa.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé