Google og keppinautarnir

Nýmiðlun
Google og keppinautarnir

Mörg sérhæfð smáfyrirtæki lifa á að finnast með Google. Kallað leitarvélahámörkun, SEO. Þegar það breytir leitinni, rísa og hníga fyrirtæki. Google-dansinn var það kallað. Aðgerðir fyrirtækisins gegn spam leiddu til vandræða óviðkomandi aðila.

Google gaf út leiðbeiningar fyrir vefstjóra um góða siði. Spammarar bjuggu til gervitengingar og víxlgervitengingar. Í hvert sinn, sem Google breytti, breyttu SEO fyrirtækin hjá sér og sínum. Reyndu að misnota Google. Þetta hefur gert notendum erfitt fyrir.

Stefna Google er að negla spammara og auglýsendur og að láta ritstjórnarefni koma fremst á listum. Ráð um eitthvað frekar en sala á einhverju. Seljendur neyddust til að kaupa AdWords og AdSense til að birtast í hægri kanti.

Í ljós kom, að pláss var fyrir báðar tegundir auglýsinga, byggðar á áformi og byggðar á innihaldi. Með því að sameina þetta breyttist kostnaðarhnútur í tekjuhnút. Í nútímanum hafa innkaupaferðir breyst í leit á vefnum.

Napster var fyrst og fremst leitarvél fyrir tónlist. Google News er leitarvél fyrir fréttir. Þær tætast frá útgefendum þeirra og lenda í flokkuðum fréttum hjá Google. Fréttir eru ekki lengur áfangastaður, heldur vara. Hvert verður viðskiptamynstur frétta?

Hvernig er blaðamönnum borgað, ef engin eru fréttablöðin? Hver framleiðir fréttir, ef auglýsingar í kringum þær tætast burt og inn koma auglýsingar frá Google? Getur Wall Street Journal notað áskrift á vefnum? Efni þaðan er auðvitað ekki á Google News.

Á vefnum eru fréttir ekki fyrirlestur, heldur samtal, flutt í bloggi, tölvupósti og í klippa-og- líma menningunni. Fólk vill fréttir í samtali, ekki í fyrirlestri. Fréttir eru ekki notaðar eftir slóðum, heldur eftir leit. Hvað gerir fréttaiðnaðurinn í þessu?

Battelle var áskrifandi að Wall Street Journal og Economist. Síðar að vefútgáfunum. En allt í einu áttaði hann sig á, að hann var hættur að nota þessi blöð. Þau voru ekki lengur þáttur í samtalinu. Þau duttu út af ratsjá hans. Voru ekki á Google News.

Í hagkerfi fréttanna er hættulegt fyrir fréttablöð eins og Economist og Wall Street Journal að loka sig af og heimta gjald. Þau eiga að opna sig og fá í staðinn tekjur af auglýsingum kringum efni, sem opnað er. Þá þrengist ekki hópur áskrifenda, heldur breikkar hann.

Höfundurinn er ekki að segja, að þessi blöð hætti að selja áskrift að vefútgáfu. Heldur að þau leyfi meðfram henni að leitarvélar finni heila grein og veiti notendum aðgang að þeirri grein. Þeir fá þar með ekki sjálfvirkan aðgang að öðru efni, nema þá í annarri leit.

Ritstjórar eiga ekki lengur að hafa áhyggjur af, hvort innihald efnis þeirra dregur fólk að vefslóðum fjölmiðilsins. Markmiðið er í staðinn að gera innihaldið svo verðmætt, að menn tengi við það. Leyfið því leit í öllu efni fjölmiðils, ekki bara í fréttayfirliti.

Fólk gerist áskrifendur að vefsvæðum, sem leyfa leit í botn. Þangað er stöðugt vísað til með krækjum eða viðhengjum. Fólk sér gagnið í slíkum svæðum, sem eru opin til leitar, og fær sér á endanum áskrift að þeim. Leit í botn stýrir þá áskriftum.

Ef þú matar samtalið, mun hópurinn leka í átt til þín, þar á meðal auglýsendur, er vilja vera með í samtalinu, sem hefst kringum fréttir. Fólk hugsar: Allir vísa á þetta svæði, sniðugt gæti verið að kaupa áskrift að því.

Gular síður hafa verið gullnáma, en munu fljótlega deyja. Craigslist býður flokkaðar smáauglýsingar á staðbundnum markaði í fimmtán flokkum. Og hvað kostar að setja auglýsingu á Craigslist. Ekki neitt. Framtíðin er Google Mobile Shop.

Viðskipti með leit gera auðveldara að finna seljendur við hæfi. Notendur munu t.d. geta útilokað seljendur, sem taldir eru nota vörur, framleiddar á grunni þrælahalds. Fólk mun finna farvegi fyrir hugsjónir sínar.

Leitarvélar drepa fasteignasölu. Fólk leitar að fasteignum á vefnum og nær beinu sambandi við seljendur. Fasteignasalar þurfa ekki lengur að vera í hverfi viðskiptanna, þeir geta verið í New York.

Google hefur lent í kviksyndi með því að hamla gegn leit að fyrirtækjum, sem heita samheitum, svo sem Flugvélar, þótt sumir eigi slík vörumerki. Með því að velja og hafna hefur Google lent í málaferlum. Allt eru þetta spurningar um traust.

Það eru semsagt komin dæmi um, að Google fiktar stundum við það, sem það sagðist aldrei mundu fikta við, niðurstöðurnar, sem það sýnir notendum. Þannig breytti það niðurstöðum í San Jose, af því að þar voru málaferli í gangi. Þetta raskar trausti fólks á Google.

Svindlarar búa til síður, sem hafa ekkert innihald, bara AdSense auglýsingar. Síðan láta þeir vélmenni hamast á síðunum til að skapa tekjustraum fyrir sig og Google. Auglýsandinn borgar brúsann. Þetta er vaxandi vandi í samskiptum leitar og auglýsenda.

Öll stóru fyrirtækin, Google, Yahoo og Microsoft eru að margfalda áhersluna á stríðið gegn svindlurum í auglýsingum á vefnum. Kapphlaup er í gangi milli leitar og svindls.

Vefurinn tengir símanúmer þitt við heimili þitt. Það hefur komið sumum á óvart. En það er löglegt. Heimili og sími eru ekki einkamál. Munurinn felst í, að fáir nenntu að gá að þessu, en nú duga nokkrir smellir á vefnum. Allir gúgla alla. Athugaðu nafn þitt.

Gmail byrjaði 2004 og leyfði heilt gígabæti á mann, var bylting. Google notaði AdWords og leyfði auglýsingar með tölvupósti. Þetta gera þeir, sem bjóða fría vistun. Google hefur netfang þitt, IPtölu þína, sem opnar fyrir misnotkun. Sumir vildu láta banna Gmail.

Tölvupóstur er ekki lengur líðandi stund, heldur eilífð. Google Desktop Search skráir allt innihald harða disksins hjá þér eins og allan vefinn. Allt er þetta geymt eins og hjá öðrum visturum.

Hvort þú ert sáttur, er spurning um traust. Hægt er með Patriot-lögunum að heimta allar þessar upplýsingar og það í leyni. Ekki þarf leitarheimild. Ekki þarf gildar ástæður, bara augljósan grun. Þú ættir að minnsta kosti að lesa Patriot lögin.

Mikil reiði er út af Patriot-lögunum, sem komu beint í kjölfar 9/11. New York ríki hefur sett lög, sem segja Patriot-lögin ólögleg og segist munu draga opinberar stofnanir til ábyrgðar.

Ríkisvaldið er ekki eini aðilinn, sem vill komast í gögnin þín. Einkageirinn er afkastameiri á þessu sviði. ChoicePoint er með rækilegar skrár um hundruð milljóna manna. Mörg slík fyrirtæki eru til.

Google hefur losaralegar reglur um friðhelgi, sem gefa því víðtækar heimildir. Ef Google ákveður sjálft, að það sjálft hafi hag af að gefa upplýsingar um þig, þá getur það gert það og mun gera það.

Lengi komst Google ekki inn í Kína vegna krafna stjórnvalda. Að lokum gafst Google upp og hefur nú útibú í Kína. Vefir þess eru ritskoðaðir þar í landi, eins og vefir annarra leitarfyrirtækja. En þau fyrirtæki höfðu ekki einkunnarorðin: Don’t Be Evil.

Google er konungsríki með 2 kóngum, Larry og Sergey. Eric er peð. Wall Street vill hins vegar, að einn maður ráði. Stærsti keppinauturinn 2006 er Yahoo. Microsoft kemur inn í myndina 2007. Auðveldara er að eiga viðskipti við Yahoo en Google.

Yahoo er fúsara að taka ritstjórnarlegar ákvarðanir, láta mannshöndina koma nærri. Google vill hins vegar vera tæknifyrirtæki. Báðar leiðir hafa sína kosti og galla. Google er hins vegar að verða ritstjórnarlegra en áður, samanber skönnun bóka.

Google er tregt við að leita tekna annars staðar en í AdWords. Ekki eru ljósar tekjur Google af skönnun bóka. Ekki heldur af News Google. Google hvílir meira á hugmyndafræðilegum grunni en önnur fyrirtæki, en hefur þó sums staðar gefið eftir.

Önnur viðhorf sækja fram. AOL hefur lýst svipuðum markmiðum og Yahoo. Amazon er að endurbæta A9.com, sína eigin leitarvél. Ekki er því nóg fyrir Google að vera best í leit. Nú er það líka að víkka út, t.d. með Fusion, eins konar vafra eða stýrikerfi.

Fusion hjá Google er notendaviðmót, sem gerir notendum kleift að sérhanna heimasíður sínar og sameina alla þjónustu Google á einni skjámynd. Þar á meðal má búast við að verði ritvinnsla, síðugerð, töflureiknir. Þú átt ekki að þurfa annað en Google.

Þar með er Google farið að keppa grimmt við Microsoft. Google býður sömu þjónustu ókeypis og Microsoft selur háu verði. Google kemur í staðinn fyrir Windows og Officepakkann. Forrit Google eru staðsett á vefnum, ekki í tölvunni þinni. Þú kaupir ekkert.

2005 leyfði Google auglýsendum meira frjálsræði í AdWords. Fyrirtækið vill verða stýrikerfi alls. Kannski þróast AdWords í átt til eBay. Microsoft hefur vísað veg. Allur heimurinn verður index hjá Google. Og vefurinn er að verða stýrikerfi, arftaki Windows.

Margir sérfræðingar spá, að í náinni framtíð munum við geyma allt, sem er stafrænt, tónlist, myndir, vinnuskjöl, vídeó, póst, á einu gríðarlegu formi á vefnum hjá Google. Þar með getur Google rutt úr vegi einkaleyfishöfum forrita, svo sem Windows, Office.

Með því að fá auglýsendur á sitt band með AdWords og notendur með Fusion og framhaldi þess, er Google komið með heimsyfirráð samskiptagrunns í viðskiptum. Öfugt við Microsoft býr veldi Google ekki í tölvubúnaði þínum, heldur i veraldarvefnum.

Google er að verða allt í einum ókeypis pakka. Það verður símstöð, kapalkerfi, stýrikerfi, allur hugbúnaður sem þú þarft, háskóli, allt markaðstorgið sem þú þarft. Það verður eBay, Amazon, Microsoft, Expedia, Yahoo, allt í einum ókeypis pakka.

Sjá nánar:
John Battelle, The Search, How Google and Its Rivals Rewrote the Rules of Business and Transformed Our Culture, 2005

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé